miðvikudagur, 28. september 2011

Nauðsynlegt að skipta um mynt

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris og stjórnarformaður Marels, sagði á fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins á dögunum að hann væri sannfærður um nauðsyn þess að Ísland verði hluti af stóru myntbandalagi. Þar sem 60 prósent af útflutningi Íslendinga fari til Evrópulanda væri þá ráðlegast að taka upp evru. Árni Oddur sagðist einnig þeirrar skoðunar að íslensk matvara væri að verða samkeppnishæf á alþjóðavísu. Því gætu falist tækifæri í því að ganga í ESB til að fá aðgang að þeim markaði.

Frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast. Seðlabankinn kynnti nýlega skýrslu þar sem kemur fram að Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Bankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða. Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi.

Sem dæmi má benda á það þarf 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Íslenska krónan hafði verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar hefur undanfarið verið liðlega 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 1981 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Með því að halda krónunni lágri er verið að skapa gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á þúsundir milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum. Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa gríðarlega.

Gengisfallið hjálpar einungis skuldlausum aðilum í útflutningi. Á meðan allir aðrir tapa og framkvæmd er stórkostleg eignatilfærsla. Sveigjanleiki krónunnar fælir fjármagn frá Íslandi. Íslenska krónan hækkar því fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja að staðaldri. Yfir tímabilið 1995 til 2007 var þetta krónuálag 5% á ári að meðaltali.

Margir kvarta sáran yfir okurvöxtum og vísitölutengingu lána á Íslandi. En sömu aðilar eru oft svarnir andstæðingar þess að krónunni sé kastað og annar gjaldmiðill tekinn upp í staðinn. Þessir aðilar vilja einir borða kökuna og eiga hana.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill,

Stórmerkilegt hvað þetta mál fær litla umfjöllun - miðað við mikilvægi - hvernig stendur á því?

Getur verið að hinir ýmsu aðilar sem eru sama sinnis - haldi sig alltaf til hlés - út í horni - á meðan No No og félagar í Heimsýn eru á fullri ferð - og hefur tekist að snúa öllu á hvolf - gera svart hvítt - og blátt rautt - og eftirsóknarvert að hafa krónu þrátt fyrir endalausar hörmungar - og stefna á nýtt hrun.

Þetta er verkefni fyrir sálfræðinga.

Fyrir aðra, er líklega best að undirbúa bröttför.