sunnudagur, 11. september 2011

Forseti lýðveldisins

Ég hef sjaldan verið sammála Ólafi Ragnari og ekki verið stuðningsmaður hans, en mér fannst hann standa sig ágætlega til að byrja með og tók oftar en ekki afstöðu með honum þegar streymdu frá Valhöll einstaklega ómaklegar, ósmekklegar og hatursfullar aðdróttanir.

En Ólafur Ragnar missti flugið fullkomlega í hrifningu sinni af útrásarvíkingunum og þeim ræðum sem hann hélt í ferðum sínum um heimsbyggðina með þeim, þar hófst ferðalag hans með málsvörum frjálshyggjunnar, sem stendur enn yfir.

Ólafur Ragnar hefur alltaf verið tækifærissinni og fer hiklaust hring eftir hring í málflutningi sínum, það er reyndar einkenni margra íslenskra stjórnmálamanna. Hann er búinn að valda atvinnulífinu miklum skaða á undanförnum árum, þá sérstaklega hvað varðar Icesave-málið og við erum ekki búinn að súpa seiðið af þeim ákvörðunum sem forseti vor tók. Reyndar er ég þeirrar skoðunnar að Ólafur sé búinn að átta sig á þeim afleiðingum sem munu koma upp innan skamms og sé byrjaður að undirbúa vörn sína.

Eins og allir vita þá hafa allir stjórnmálaflokkarnir viðurkennt að Ísland beri ákveðnar skuldbindingar í því máli og samningarnir snérust ekki um það, heldur með hvaða kjörum það yrði gert, þá skiptir öllu sú vaxtaprósenta sem gildir við endurgreiðslu á því láni sem Hollendingar og Bretar tóku til þess að gera upp skuldbindingar við innlánseigendur á Icesave. Sú upphæð gæti allt að fimmfaldast frá þeim vaxtakjörum sem voru í síðasta samning sem Ólafur Ragnar setti fótinn fyrir og það er langt frá því að útséð með að það hafi verið sá happafengur sem hann vill halda fram þessa dagana.

Bara til þess að hafa það nú á hreinu, þá er ég ekki að sækjast eftir því að fá að borga þessar skuldir, en við verðum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir, getum ekki borið fyrir okkur innistæðulaust skrum.

Aðdróttanir Ólafs Ragnars og fylgismanna hans úr Valhöll gagnvart okkar helstu vinaþjóðum eru einstaklega ómaklegar og reynda einfaldlega ógeðfelldar. Öll vitum við að það voru Norðurlandaþjóðirnar ásamt Pólverjum ásamt AGS sem komu okkur til hjálpar með miklum lánum á einstaklega góðum kjörum.

Það er eftirtektarvert hvernig þeir menn sem stjórnuðu hér á landi síðustu tvo áratugi og mótuðu þá efnahagsstefnu sem leiddi okkur fram að bjargbrúninni mæra Ólaf. „Sammála hverju einasta orði sem Ólafur sagði“, segja ritstjórar MBL í greinum undanfarna daga.

Það segir okkur allt um hæfi þessara manna til þess að stjórna og móta efnahagsstefnuna og skýrir vel fyrir okkur hvers vegna Ísland fór mikið verr út úr kreppunni en aðrar þjóðir. Þá á ég vitanlega sérstaklega við íslenska launamenn og heimilin.

Í Stjórnlagaráði var mikið talað um málskotsrétt forsetans, hvort setja ætti skorður við hvaða málaflokkum hann mætti skjóta til þjóðarinnar og hvort hann ætti að bera á ábyrgð sínum á eigin orðum og gerðum t.d. með afsögn Niðurstaðan varð sú að gera það ekki.

Öll vitum við að Ólafur Ragnar veltir því vel fyrir sér hvað hann segir áður en hann fer í fjölmiðla. Nýjasta útspil Ólafs Ragnars er að mínu mati úthugsað. Hann er að grípa niðurstöðu Stjórnlagaráðs og ætlar sér að hafa frumkvæði í að túlka hana á þann veg að forsetinn verði í komandi framtíð afgerandi þátttakandi í stjórnmálum.

Jafnvel þó hann hætti í vor, þá hentar sú túlkun mikið betur í æviminningarnar.

Engin ummæli: