þriðjudagur, 6. september 2011

Heimsyfirráð eða dauði

Nú blasa við afleiðingar þess að ekki var tekið á þjóðlendumálum af festu og þjóðinni tryggður eignaréttur á afréttinum og náttúruverðmætum. Endurtekið erum við að súpa seiðið af sérhagsmunastefnu og forsjárhyggju valdastéttarinnar. Nú vill hún koma í veg fyrir að landsmenn fái að taka afstöðu til hugsanlegra samninga um betri kjör og stöðugri kaupmátt.

Þeir sem gefa sig út fyrir að vera í forsvari fyrir frelsi í viðskiptum og frjálsu samfélagi, standa alltaf fremstir í að viðhalda forsjárhyggju og lokuðu samfélagi til þess að verja hagsmuni valdstéttarinnar. Þetta hefur afhjúpast svo vel eftir Hrunið, hið sjálfskapaða Sovét þeirra sem hafa tekið upp sambúð á samyrkjubúinu Heimsýn.

Hegðum íslendinga samsamar sig við söguþráð þekktra hasarkvikmynda. Hinn vondi er einhver útlendingur sem vill beita íslensku þjóðina ofbeldi og ná með heimsyfirráðum. Minna má það nú ekki vera. Forsvarsmenn Íslands mæta svellkaldir í erlenda fjölmiðla og halda því fram að ESB muni riða til falls takist þeim ekki að ná undir sig auðlindum Íslands og bjarga þar með endurnýjanlegri orkuþörf og efnahagsvanda alls ESB svæðisins.

Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban einkennir málflutninginn, vonglaðir horfa menn til þess að Ísland verði aftur hernaðarlega mikilvægt og þá náum við fyrri lykilstöðu í nýju köldu stríði milli Kína og allra hinna. Þá getum við fengið allt það sem við viljum. Þegar allt norðurheimsskautssvæðið rennur undir landhelgi Íslands með takmarkalausum olíu- og gaslindum auk öflugra nýrra fiskimiða sem koma undan ísnum. Eru menn búnir að gleyma samningum um miðlínur milli landa?

Nú er allt þetta í hættu nú takist ekki að koma í veg fyrir að Kína nái að kaupa harðbýlt heiðarbýli upp á hálendi Íslands og reisa þar risavaxið heilsárshótel og golfvöll. Dregin er upp svört draugamynd af því hvernig kínverska fjárfestar hafa keypt upp land og náttúruauðlindir um allan heim.

Fyrir nokkrum árum var ég vegna starfs míns á norrænum vettvangi gestgjafi varaforseta Kínverska Alþýðusambandsins. Hún var þá talin vera 8. valdamesti maðurinn í Kína, var vel inni í íslenskum málum, spurði mikið út í hvernig stéttarfélög störfuðu hér á landi og stöðu heimilanna. Ég bauð henni heim svo hún gæti séð íslenskt heimili. Hún þáði boðið og við ókum heim í Grafarvoginn umkring lífvörðum. Við Helena búum í litlu timbureinbýlishúsi innst í botnlanga og erum þar af leiðandi með rúmgóða lóð með margskonar ræktunarmöguleikum.

Þegar við gengum kringum húsið spurði frúin, „Hversu margar fjölskyldur eiga þennan garð?“ Ég skyldi ekki spurninguna og bað um skýringu, þá benti hún á nokkrar 8 hæða háar blokkir sem eru í grenndinni og spurði, „Hvar eru garðar fólksins sem býr í þessum húsum?“

Ég útskýrði íslenska fyrirkomulagið og við ættum ein þennan garð. Þá sagði frúin, „Ef þið íslendingar væruð með sama fólksfjölda og við, þá byggju á Íslandi tæplega 100 milljónir manna.“ Ég var í París um helgina í fyrsta skipti, við fórum um borgina með góðum íslenskum leiðsögumanna, sem benti okkur á að París með sína 2,2 millj. íbúa væri á jafnstóru svæði og Reykjavík og nágrannabyggðir, eða um 12 km á annan veginn og 16 km á hinn.

Ummæli kínversku frúarinnar hafa ítrekað komið fram í huga minn á undanförnum árum. Kínverjar hugsa langt fram í tíman, mun lengra en við á Vesturlöndunum. Eitt skref er upphaf langs ferðalags. Þessi hugsunarháttur er fjarri okkur íslendingum. Kínverjar hafa nýtt hinn hratt vaxandi sparnað til þess að kaupa ríkisskuldabréf af Bandaríkjunum og Evrópu og hafa einnig keypt upp risavaxin ræktunarlönd í Afríku.

Hvert stefna Kínverjar? Erum við í þeirri stöðu að geta hafnað stórum fjárfestum og komið í veg fyrir yfirtökur og fjárfestingar í innviðum íslensks samfélags? Höfum við efni, sjálfstjórn og aga til þess að segja nei takk?

Þeir sem skipulögðu efnahagsstefnu sem leiddi okkur fram af bjargbrúninni með ofurskuldsetningu þjóðarinnar, vilja ávísa þeim kostnaði fram í tímann, með því að taka út mikinn hluta af þeim sparnaði sem er í lífeyrissjóðunum og nýta það strax í dag.

Afleiðingar af þessu ráðslagi er augljós, sem sumir hafna að horfast í augu við. Heimtufrekjan ræður för að venju. Börn okkar og barnabörn verða þá að halda uppi mun dýrara lífeyriskerfi, sem verður í raun gegnumstreymiskerfi. Hlutfall lífeyrisþega hefur þá tvöfaldast samanborið við skattgreiðendur og skatttekjumöguleikar ríkissjóðs verulega skertir.

Leiddu hugann að því lesandi góður hverjir það eru sem vilja fara þessa leið? Það eru þeir hinir sömu sem mótuðu efnahagstefnuna, sem leiddi yfir okkur Hrunið og berjast með öllum ráðum að stigin verði skref upp úr því hjólfari sem þeir hafa verið fastir í undanfarna áratugi.

Engin ummæli: