sunnudagur, 25. september 2011

Fögur er hlíðin

"Fögur er hlíðin svo að mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, mun ég ríða heim og fara hvergi." Svo mælti Gunnar á Hlíðarenda, hann vissi hvaða örlög biðu hans en hann kaus frekar að líta tilbaka en horfa fram á veginn. Bróðir hans Kolskeggur Hámundarson horfði fram á veginn og fór utan, en sagði við það tækifæri að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Kolskeggur hélt síðan til núverandi ESB landa, með viðkomu í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg og þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi. Hann bjó í Miklagarði til dauðadags.

Einangrunarstefna og þjóðremba er einkenni málflutnings þeirra sem berjast gegn því að kannað verði til hlítar hvað íslendingum standi til boða gangi þeir í ESB. Þar birtist okkur forsjárhyggja og lokað samfélag sem beitir öllum brögðum til þess að verja hagsmuni valdastéttarinnar á kostnað launamanna. Drýldin sjálfumgleðin og þjóðremban einkennir málflutninginn. Aldrei horft fram á veginn, sífellt horft til fortíðar og sagan endurrituð svo hún nýtist málflutning þeirra.

Styrkjakerfi íslensks landbúnaðar snýst um mjólkurframleiðslu og lambakjöt. Bændasamtökin sjá um þá gagnagrunna sem ráða hvert styrkir fara og það er það sem verður að breyta göngum við í ESB. Reyndar verðum við að breyta til þess að fylgja eðlilegum reglum. Stærsti hluti verðmyndunar í lambakjöti fer fram í milliliðunum, bændur eru láglaunastétt. Verð á lambakjöti skiptist um það bil til helminga, við borgum helming í búðinni og hinn helminginn í gegnum skatta.

Þrátt fyrir að forsvarsmenn bændasamtakanna beiti fyrir sig þeirri fullyrðingu að þeir berjist fyrir því að vernda dreifbýlið og búsetu í landinu, fer mjólkurbúum fækkandi, nú er verið að leggja af mjólkurframleiðslu á Vestfjörðum. Bændabýlum fækkar sífellt, en þau sem eftir standa verða stærri og reyndar skuldugri.

Íslenskur landbúnaður stefnir í nákvæmlega sömu átt og íslenskur sjávarútvegurinn hefur farið, skuldsett upp fyrir rjáfrið. Íslendingar eiga enga dreifbýlisstefnu, en hún er til hjá ESB. Fjárfestar kaupa sífellt fleiri jarðir og bændabýlin eru að verða það stór að hinir raunverulegu eigendur eru bankarnir, engin hefur efni á því að byrja í búskap. Hér vantar samskonar lög og eru innan ESB að það land sem búið er brjóta undir landbúnað skuli nýtt áfram til landbúnaðar.

Alþingi samþykkti að hefja aðildarviðræður við ESB og 2/3 þjóðarinnar vill að þeim viðræðum verði lokið og niðurstaðan borin undir þjóðina. Þetta óttast embættismenn hjá samtökum bænda og samtökum afurðarsala, þeir fara hamförum gegn vilja þjóðarinnar og samþykktum Alþingis. Í þessu sambandi má rifja upp ummæli þeirra bræðra Hámundarsona.

Finnska leiðin eftir samninga við ESB beinir styrkjum til bænda, ekki kerfisins og milliliðanna eins gert er hér á landi, það var einmitt ástæðan fyrir því að Finnar gengu í ESB. Ef við færum þá leið myndi aðstoð við búsetu vaxa og beinir styrkir til bænda hækka umtalsvert. Það er nákvæmlega það sem embættismannakerfi framangreindra hagsmunasamtakanna berst gegn og óttast komi upp ef við göngum í ESB. En það blasir við jafnvel þó við göngum ekki í ESB, verðum við að taka upp samskonar kerfi og Finnar tóku upp.

Ég heimsótti sláturhús í síðustu viku. Þar unnu tæplega 100 manns, nánast allt erlent fólk. Þar voru þeir lambaskrokkar sem átti að senda út einungis grófsagaðir svo það sé hagkvæmara að flytja kjötið út. Öll vinna við kjötið fer síðan fram innan ESB og í mörgum tilfellum hjá fyrirtækjum sem eru í eigu íslendinga.

Sama á við um fiskinn, íslendingar eiga verksmiðjur sem fullvinna íslenska fiskinn. Í þessum verksmiðjum vinna þúsundir launamanna innan ESB. Íslendingarnir senda síðan einungis heim með þann hluta erlends gjaldeyris sem starfsemin gefur af sér sem dugar til þess að greiða kostnað hér heima, allt annað verður eftir úti. Þetta er afleiðing þess að við erum með krónuna sem kallar á vernd í skjóli gjaldeyrishafta.

Þetta myndi gjörbreytast ef við gengjum inn í ESB, þá gætum við flutt öll þessi störf heim og allur arður myndi skila sér inn í íslenskt samfélag, hér um að ræða nokkur þúsund störf, sem öll gætu verið góð undirstaða í öflugri byggða þróun. Hvers vegna velja íslendingar frekar að vera á bótum en vinna í landbúnaði og fiskvinnslu? Hvers vegna eru kjör bænda svona slök? Hvert fara allir þeir milljarðar sem renna í gegnum styrkjakerfi landbúnaðarins? Það eru sífellt færri sem vinna í þessum greinum og launin eru mjög slök.

Ef við skoðun starfsgeira rafiðnaðarmanna, þá hefur þróunin verið þannig að undanfarin 30 ár hefur engin fjölgun rafiðnaðarmanna verið í orkugeiranum, um 300 rafiðnaðarmenn starfað í þeim geira síðan 1980. Sama á við um í landbúnað og fiskvinnslu þar hafa einnig verið að störfum þennan tíma um 300 rafiðnaðarmenn og sama á við um byggingar- og verktakageirann þar hafa verið um 500 – 800 rafvirkjar og það er í þessum geira sem allt atvinnuleysi rafvirkja er.

Á sama tíma hefur rafiðnaðarmönnum fjölgað úr 2.000 í tæplega 6.000 öll fjölgunin hefur verið í tækni og þjónustustörfum. Í dag hefur rafiðnaðarmönnum í Íslandi fækkað um 1.000 frá Hruni. Íslensk tæknifyrirtæki er flest farinn að gera allt upp í Evrum og mörg hafa flutt stöðvar sínar erlendis. Þau hafa sagt að ef Ísland gengi í ESB gætu þeir flutt heim um 3.000 störf á stuttum tíma.

Tæknifyrirtækin sem hafa verið að bjóða upp á mest spennandi störfin ásamt því að þar hefur öll fjölgum starfa verið, eru að flytja sig til ESB. Þau eru alfarið háð góðum viðskiptatengslum við ESB svæðið, góðum lánamarkaði og ekki síður hlutabréfamarkaði.Við rafiðnaðarmönnum blasir stöðnun í starfsframa hér heima. Í nýlegum könnunum kom fram að 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína hér á landi. Ungt og velmenntað fólk menn vilja hafa möguleika til þess að viðhalda menntun og aðgang að tækifærum í vali á góðum störfum.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í fisk- og kjötvinnslum landsins eru nær eingöngu pólverjar og asíubúar við vinnu í dag... þetta kerfi er steindautt.

Óskar

Nafnlaus sagði...

Góð grein
takk Kristinn

Nafnlaus sagði...

Fantagóður - að venju
Ragnar

Nafnlaus sagði...

Guðmundur glöggur eins og oft áður
Eiríkur

Nafnlaus sagði...

Klappliðið hans Guðmundar mætt á svæðið til að klappa honum lof í lófa.

Eða er Guðmundur kannski búinn að eyða út öllum þeim sem ekki eru honum sammála, sem sýnir í raun mikinn veikleika hjá honum, því hann vill bara "réttar" skoðanir í athugasemdir á síðunni sinni.

Enn heldur hann síbyljunni áfram um það að það séu BARA kostir við ESB-aðild og BARA kostir við að hafa Evru sem gjaldmiðil en ENGINN kostnaður fyrir okkur.

Mjög einsleitur málflutningur þetta.

Guðmundur sagði...

Huglaus nafnleysingi sem hefur ekkert til málanna leggja annað en ómerkilegt skítkast. Þolir ekki að bent sé á nokkra augljósa punkta og getur ekki lagt neitt inn í umræðuna, enda augljóslega röklaus og baráttu sinni við að tryggja stöðu sína og valdaklíkunnar til þess að níðast á almenning

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér Guðmundur, þessi nafnlausi hefur ekkert fram að færa annað en ómerkilegt bull. Þessi pistill er mjög góður og tekur vel á því sem þú ert að fjalla um. Það er einmitt það sem fer í taugarnar á þessum nafnlausa, hann getur ekki sett fram nein mótrök.
Sjáum vonandi meira frá þér um þessi mál.
Björn

Nafnlaus sagði...

Hólmfríður Bjarnadóttir skrifar
Ég þekki mjög vel til á Norðurlandi vestra og þar er líka stundaður mikill landbúnaður. Ég er svo sannarlega sammála því sem þú skrifar Guðmundur og vil þakka fyrir allar þær góðu upplýsingar sem þú hefur miðlað hér á Eyjunni um kosti þess að ganga í ESB

Nafnlaus sagði...

Góður pistill.

Það er galið að binda styrki til landsbyggðarinnar við greinar sem sífellt leita leiða til að draga úr vinnuafli. Styrkir þurfa að renna til nýsköpunar, uppbyggingar innviða nýrra greina s.s. ferðaþjónustu, akuryrkju, lífrænnar framleiðslu, land- og náttúruverndar svo dæmi séu tekin.

Það er háðulegt að fylgjast með baráttu bændasamtakanna gegn því að þeir taki upp eðlilega starfshætti t.d. að þeir útdeili ekki sjálfir niðurgreiðslum til sín. Þetta hugarfar skaðar landbúnað og dreifbýli landsins meira en nokkuð annað.

Kv. Dofri Hermannsson.

Nafnlaus sagði...

"Einangrunarstefna og þjóðremba" eru orð sem ESB sinnar nota mikið í sínum málflutningi. Í sömu málsgrein og ofangreind orð höfundar eru, þá kemur fram yfirlæti og samsæriskenningar sem ESB sinnar grípa gjarnan til þegar leggja á sérstaka áherslu á málflutninginn.

Í mínum huga hefur ekkert komið fram í málflutningi ESB sinna sem breytir þeirri skoðun minni að við eigum að vernda sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétt í okkar málum.

ESB sinnar grípa iðulega til fullyrðinga sem erfitt er að kingja sem sannleika. Skal nú tekið eitt dæmi úr pistli höfundar.

Höfundur fullyrðir að ef við göngum í ESB þá getum við flutt öll störf í fiskvinnslu til Íslands sem unnin er í verksmiðjum í eigu Íslendinga innan ESB. Hefur höfundur hugleitt af hverju þessi vinnsla fer fram erlendis? Skildi það vera vegna þess að rekstrarkostnaður er lægri
erlendis? Höfundur virðist gefa sér það að kostnaður yrði sá sami hér á landi og erlendis ef við göngum í ESB. Það er firra og hefur margoft verið bent á í ræðu og riti að kostnaður verður alltaf hærri í litlu samfélagi eins og á Íslandi en í stærri samfélögum. ESB sinnar hafa aldrei bent á það af hverju kostnaður eða verðlag á Íslandi ætti að lækka með öðrum rökum en að benda stöðuna erlendis og afnám tolla og gjalda.
Við getum afnumið öll innflutningsgjöld án þess að ganga í ESB.

Með kveðju
Kristinn Daníelsson

Nafnlaus sagði...

Kristinn Daníelsson:

"Við getum afnumið öll innflutningsgjöld án þess að ganga í ESB."

en það hefur aldrei verið gert!!!!

kv,
heywood jablome