sunnudagur, 27. maí 2012

Hraðlest til lægstu kjara

Efnahagsundrið í Kína á sér margar alvarlegar skuggahliðar. Talið er að um 150 – 200 milljónir farandverkamanna hafa flust til kínverskra borga í leit að vinnu og fer sú tala hækkandi. Þessu fólki er mismunað á margan veg yfirvöld neita því um húsnæðisbætur og sjúkratryggingar og börnum þeirra meinaður aðgangur að skólakerfinu. Hópur þessa fólks hefur verið að störfum við Kárahnjúka og fara misjafnar sögur af stöðu þeirra.

Fulltrúar norrænu stéttarfélaganna hafa kynnt sér stöðu farandverkafólks í Kína og þar hefur komið í ljós að það er oft neytt til þess að vinna mikla yfirvinnu og neitað um frí, jafnvel þó um veikindi sé að ræða. Farið er með þetta fólk eins og skepnur og það er neytt til þess að vinna við ömurlegar og oft heilsuspillandi aðstæður.

Atvinnurekendur beita ýmsum aðferðum til þess að koma í veg fyrir segi upp störfum. Launagreiðslur er oft frestað og þannig á fólkið hættu á því að tapa allt að 2 -3 mánaðalaunum ef það gengur gegn vilja atvinnurekandans. Þá neyða atvinnurekendur verkafólk oft til þess að greiða tryggingu til þess að koma í veg fyrir að það leiti vinnu annarsstaðar.

Öfgakenndir hægri menn og Frjálshyggjumenn hafa m.a. í þingsölum ESB barist fyrir því að launakjör í búsetulandi launamanns ráði, fari þeir til starfa í landi þar sem kjör eru hærri. Gegn þessu hafa fulltrúar samtaka launamanna með Norðurlöndin í broddi fylkingar barist og bent á þetta jafngildi því að vinnumarkaður Evrópu taki hraðlest niður til þeirra kjara sem lægst eru á Efnahagssvæðinu. Þetta sé einmitt það sem málsvarar starfsmannaleiga og þjónustusamninga vilji, svo þeir geti hámarkað arð sinn á kostnað hinna bláfátæku launamanna, og nýta sér ástand þeirra svæða þar sem atvinnuleysið er mest og kjörin lökust.

Það stakk mann illþyrmilega þegar viðskiptanefnd með forseta vorn í broddi fylkingar fór og gerði fríverslunarsamning við Kína og lýsti því yfir að hann vildi flytja frá Íslandi störf til Kína.

Forseti vor hefur einnig marglýst því yfir að Norðurlöndin séu okkar helstu óvinir og hafi snúið baki við okkur í hruninu, en þar hafi Kína ásamt Rússlandi reynst okkur vel. Nú er að svo að það voru Norðurlöndin sem komu okkur til bjargar með stórum lánum á afar hagstæðum kjörum, þegar allir höfðu hafnað því að  lána Íslandi. Stóra lánið hans Davíðs frá Rússlandi kom aldrei.

Forsetinn hefur auk þess marglýst því yfir að krónan sé ómetanlegur hluti af hinu íslenska efnahagsundri. Hún gerði það að verkum að hér var hægt að keyra allt efnahagskerfið upp úr þakinu og framkvæma stórkostlega eignaupptöku hjá almenning og hann fór með útrásarvíkingum um heimsbyggðina og boðaði þetta fagnaðarerindi.

Forsetinn hefur verið ákaflega samkvæmur sjálfur sér hvað varðar viðhorf til launamanna. Hann ógilti á þeim tíma þegar hann var ráðherra löglega kjarasamninga og hefur undanfarið komið reglulega fram í erlendum fréttastofum og kynnt þar sína eigin efnahags- og utanríkisstefnu.

Hún gengur þvert á samþykkta stefnu samtaka launamanna, en fer ákaflega vel saman við sjónarmið þeirra sem berjast gegn því að íslenskir launamenn geti varið sig gegn óbeinni skattpíningu í gegnum reglulegar gengisfellingar krónunnar. Þar sem fram fer mikil eignaupptaka í með lækkaðra launa og fluttning þeirra fjármuna í vasa fárra. Enda kemur það fram í hverri skoðanakönnunni á fætur annarri hverjir það eru sem styðja og kosta endurkjör hans.

Sú hentistefna sem forstinn hefur tekið upp birtist okkur í því að valdahlutföll hafa raskast. Hann er kominn inn á hið pólitíska svið. Hér eftir verður Alþingi og löglega kjörinn ríkisstjórn að meta sína möguleika með tilliti til afstöðu forsetans hverju sinni, skiptir þar engu löglega kjörinn meirihluti og afstaða hans. Þetta hentar þeim stjórnmálaflokkum sem eru nú í stjórnarandstöðu vel, og um leið atkvæðaveiðaveiðum við endurkjör. En er það sú framtíð sem hentar öllum, spyrja launamenn þessa dagana?

þriðjudagur, 22. maí 2012

Aðför stjórnvalda gegn öldruðu fólki

Ég hef skrifað reglulega um starfsemi og stöðu lífeyrissjóðanna hér á þessari síðu. Mjög margir hafa haft samband og þakkað þessa pistla, og þar eru áberandi virkir sjóðsfélagar. Hér séu birtar skoðanir þeirra og viðhorf til þessara mála. Það er rétt, því pistlarnir eru byggðir á samþykktum sjóðsfélagafunda, starfsreglum og lögum um starfsemi lífeyrissjóða.

Ég hef aftur á móti fengið yfir mig margskonar gusur og mismunandi málefnalegar frá einstaklingum sem margir eiga það sameiginlegt að starfa sem verktakar, eða sem sjálfstæðir launamenn, (undirverktakar/ gerviverktakar). Þetta fólk er áberandi meðala álitsgjafa og spjallþáttastjórnenda.

Fólk sem vill greiða sem minnst til samfélagsins og samtryggingarkerfisins, en eru aftur á móti með háværar kröfur um að sparifé launamanna í lífeyrissjóðum sé tekið og nýtt til þess að greiða upp almennar skuldir. Þessu hafa sjóðsfélagar mótmælt og bent á að þeir vilji fara fyrir dómstóla og láta reyna á 1. mgr. 72 gr. Stjórnarskrárinnar um eignarrétt sinn á þessu sparifé. Álitsgjafar og spjallþáttastjórnendur virða þessarar skoðanir eigenda þessara fjármuna ekki viðlits og veitast að stjórnendum lífeyrissjóðanna og krefjast þess að þeir brjóti landslög og Stjórnskránna.

Sérstök ástæða er að minna þessa óbilgjörnu kröfuhafa og ásamt alþingismönnum og ráðherrum, á að sjóðsfélagar voru þolendur í Hruninu ekki gerendur. Þegar hlustað er á ræður alþingismanna og núverandi ráðherra, þá tala þeir ætíð um sjóðsfélaga í almenna lífeyrisjóðakerfinu með þeim hætti eins og þeir sitji við hlið útrásarvíkinga og bankstera. Hvaða rök eru fyrir .því að jafnsetja þessa aðila?

Staðreyndin er hins vegar sú að lífeyrissjóðirnir hafa reynst fjöregg íslensks efnahagslífs, þegar allt féll og engir aðrir voru aflögufærir. Það eru margir sjóðsfélagar sem spyrja hvers vegna í ósköpunum sé verið að semja við stjórnmálamenn um framkvæmdir.

Formaður fjárlaganefndar ásamt fjármálaráðherra vill skattleggja sjóðsfélaga í almennu lífeyrissjóðunum sérstaklega, en undanskilja sjóðsfélaga í opinberu sjóðunum. Þetta er sama og launamenn upplifðu fyrir stríð þegar alþingis- og embættismenn börðust gegn því af öllu afli að almenningur fengi samskonar lífeyrisréttindi og þeir höfðu búið sjálfum sér á kostnað skattgreiðenda.

Nú velta þessir aðilar því fyrir sér hvort ekki eigi að hverfa til neikvæðrar ávöxtun á því sparifé sem er í lífeyrissjóðunum. Í því sambandi má benda á að árlegt eignatap lífeyrisjóðanna fram til setningar svokallaðra Ólafslaga árið 1983 var meira en tapið sem varð árið 2008. Í því sambandi má einnig benda á að ef það yrði gert er núverandi kynslóða að eyða öllu sparifé í landinu og eru í raun að framvísa kostnaði vegna núverandi lifnaðarhátta til framtíðarinnar. Þ.e. barna að barnabarna okkar.

Í raun er það hið sama og stjórnvöld hafa verið og eru að gera í opinbera lífeyriskerfinu og TR. Það lífeyris- og bótakerfi er ekki sjálfbært og því er ekki gert að skerða ef ekki eru innistæður fyrir skuldbindingum. Í dag vantar um 500 milljarða upp á að lífeyrissjóðir hins opinbera eigi fyrir skuldbindingum, þessi skuld opinbera lífeyrissjóðakerfisins hefur hækkað um 136 milljarða frá 2007. Til þess að komast út úr þeirri stöðu þarf hið opinbera að greiða um 30 milljarða á ári í næstu 40 ár. Svo stór er sú skuldbinding sem stjórnmálamenn eru nú þegar búnir að senda inn í framtíðina og hún stækkar um nokkra tugi milljarða á hverju ári.

Í þessu sambandi er sérstök ástæða að benda á, að allir lýðfræðilegir útreikningar og spádómar ganga útfrá að :

Í dag eru um 5,6 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Árið 2030 verður það hlutfall orðið 3 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Árið 2050 verður það komið niður í 2,5 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Það blasir við þingmenn eru með upptöku í lífeyrissparnaði jafnframt yfirskuldsetningu í opinbera lífeyriskerfinu, að senda þennan reikninginn inn í framtíðina. Hafa menn gert sér grein fyrir því hversu mikið þurfi að hækka skatta á þessu fólki þegar að því kemur? (Ath. Börnum okkar og barnabörnum) Í þessu sambandi má benda t.d. á stöðu Grikklands í dag.

Það blasir við að við getum ekki treyst því að það sem við komum til með að fá frá TR verður ekki það sama og í dag, heldur hið gagnstæða. Og hverjir standa þá uppi með ríkistryggð réttindi og allt sitt á þurru. Jú þeir sem fá að vera í sama lífeyrissjóð og alþingsmenn og ráðherra og útvalinn hópur opinberra starfsmanna.

Þegar sjóðsfélagar benda á að þeir séu ósáttir við þann ójöfnuð sem þeim er gert að búa við um að skerða eigi í almenna lífeyriskerfinu, opinberu sjóðirnir búa aftur á móti við ríkisábyrg, þá er bent á að við fáum það bætt í gegnum TR. Það kerfi kallar á hverju ári fram meira óréttlæti yfir þá landsmenn sem starfa á almennum vinnumarkaði. TR hefur á undanförnum árum verið með stórsókn gegn hinu svokallaða millitekjufólki, er reyndar búið að flokka fólk sem er með tekjur á bilinu frá 250 – 350 þús. kr. í mán.laun í þann hóp sem sé aflögufær.

Stjórnmálamenn hafa með öðrum orðum hagræða kjaratengdum skerðingum bótakerfisins þannig að þeir sem hafa greitt til almenna lífeyriskerfisins greiða 100% jaðarskatt af fyrstu 70 þúsundum sem þeir fá frá sínum lífeyrissjóðum.

mánudagur, 21. maí 2012

Vodafone umhverfisböðull maímánaðar



Fyrir nokkur skrifaði ég pistil um óskemmtilegarathafnir jeppamanns á Úlfarsfelli. Í ljós kom að þarna var á ferðinni ungur og óreyndur maður sem hafði komið sjálfum sér í sjálfheldu upp á fellinu.


Undanfarið hefur maður séð stóra gröfu athafna sig í fellinu við að lagfæra aðalveginn upp fellið. Ég hélt að þarna væri á ferðinni tilraun til þess að beina þeirri umferð sem er þarna upp inn á einn veg og síðan ætti að loka og lagfæra aðrar skemmdir.

Ég fór þarna upp í dag, hef látið Úlfarsfellsferðir sitja á hakanum á meðan gott gönguskíðafæri er í Bláfjöllum. Þá blasti við að það eru heilmiklar framkvæmdir í gangi. Búið er að grafa heilmikið sár niður fallegustu hlíð fellsins, sem hingað til hefur fengið grið fyrir skemmdarverkum.

Hér er ekki á ferðinni ungur maður sem ekki áttaði sig á því hvaða vandræði hann væri að rata í.Hér er á ferðinni stórt fyrirtæki Vodafone sem vinnur þessi umhverfisspjöll á fyrirfram skipulagðan hátt. Td. hefði verið hægur vandi að hlífa hinni fallegu fjallshlíð með því að fræsa strenginn í veginn sem búið var að böðlast með alla leið upp. Vodafone er semsagt skipulagður umhverfisböðull.

 
Niðri við veginn voru stór gröfuferlíki sem á að nýta til þess að fræsa sveran streng upp á fellið þar Vodafone ætlar síðan að reisa heilmikið mastur.


Það er óskiljanlegt hvernig þetta fór í gegnum umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar. Úlfarsfellið er eitt af vinsælasta útvistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Þar fara um hundruð manna á hverjum degi allt árið.

sunnudagur, 20. maí 2012

Gönguskíðin enn í fullri notkun


Það er aldeilis frábært að geta skellt sér á gönguskíði á þessum tíma árs hér rétt við Reykjavík. Er búinn að ganga um 80 km. á skíðum í Bláfjöllum það sem af er þessum mánuði. Í dag var 10 stiga hiti, glampandi sól, og blankalogn. Enn er nægur snjór í Bláfjöllum og allt útlit fyrir að hægt verði að vera þar á gönguskíðunum fram í júní.

miðvikudagur, 16. maí 2012

Virkjanakostir

Ég er fastur pistlahöfundur í norsku blaði, þessi pistill birtist í þessari viku.

Lengi hafa staðið deilur á Íslandi meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Margskonar möguleikar eru á byggingu sjálfbærra orkuvera og mikil eftirspurn eftir hreinni orku. Um síðustu aldamót náðist samkomulag milli allra aðila um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för.

Svo var komið í hinu sjálfumglaða Íslenska efnahagsundri, sem reis til himna á árunum frá 2001 og hrundi til grunna í nótt eina í október 2008, að ef staðið hefði verið við öll kosningaloforðin, þá lá fyrir að virkja yrði öll vatnsföll og hin viðkvæmu hverasvæði á Íslandi.

Á hinum kantinum eru ofurnáttúrverndarsinnar sem ekkert vilja virkja. Þar á milli var fólk sem sá að ef við ættum að byggja upp og viðhalda því samfélagi sem við vildum búa okkur og börnum okkar var ekki hjá því komist að fara einhvern milliveg í þessum málum. Það var í þessu umhverfi sem aðilar urðu enn ákveðnari við vinnu við Rammaáætlun um virkjakanakosti. Þar var m.a. litið til þess hvernig Norðmenn hefðu leyst samskonar deilur fyrir nokkrum áratugum. Við gerð Rammaáætlunar voru fulltrúar stjórnmálamanna, Landsvirkjunar, bændur, ferðaþjónustan og útivistarfólk og sat ég í þeim stól við þessa vinnu.

Það er búið að leggja gríðarlega vinnu í að afla gagna og vinna úr þeim. Raða öllum virkjanakostum upp og gefa þeim einkannir. Fyrir liggur að tiltekin svæði eru svo dýrmæt í íslenskri náttúru að þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði voru sett í biðflokk, þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu. Síðan þau svæði sem talið er að hægt sé að virkja án þess að þess að glata þeim markmiðum sem sett voru. Vitanlega ekki allir sáttir, en niðurstaða liggur fyrir sem fylgir þeim leikreglum sem allir voru sáttir við í upphafi.

Almenningur ætlast til þess að nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur fyrir, sé farið að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. En nú stíga fram stjórnmálamenn og einstaklingar, sem telja sig vera sjálfkjörnir forsvarsmenn náttúruverndarsinna og vilja ýta til hliðar niðurstöðum Rammaáætlunar, og hverfa aftur til tækifærissinnaðrar ákvarðanatöku.

Því fer fjarri að það fólk tali fyrir munn allra þeirra sem telja sig vera náttúruverndarsinna. Mjög margir náttúruverndarsinnar eru ákaft fylgjandi Rammaáætlun, með henni sé verið að ná sátt og koma böndum yfir tækifærissinnana og víkja átakakappræðum til hliðar. Ef öðrum hvorum hópnum tekst að rjúfa þá sátt að þá er verið að henda fyrir borð þeirri sátt sem stefnt var að. Þeir sem vilja ekki fara eftir niðurstöðunum eru í raun komnir í hóp tækifærissinna og farnir að vinna gegn náttúruvernd á Íslandi.

Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum á Íslandi ef takast á að ná atvinnulífinu út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir, ekki verður komist hjá því að auka fjárfestingar. Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir sakaðir að vera um borð í virkjanahraðlest og með stóriðjuglýju af þeim sem telja sig vera sjálfkjörna forsvarsmenn náttúruverndarmanna. Forsvarsmenn stéttarfélaganna eru einfaldlega að koma á framfæri samþykktum félagsmanna og að hvaða markmiðum stefnt sé að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar og vilja að henni sé framfylgt.

Íslensk umræða og stjórnmál einkennist af átökum, þar eru stóryrði ekki spöruð. Andstaða málefnalegrar umræðu er kappræða sem einkennist af hernaðarlist þar sem farið er í manninn í stað þess að gera tilraun til þess að greina vandann og upplýsa áheyrandann. Þar ríkir virðingarleysi fyrir sérfræðiþekkingu og tilhneiging til þess að mála hlutina einföldum litum.

Íslensk stjórnmál einkennast af fyrirgreiðslupólitík þar verið er að skipta efnislegum gæðum á milli ráðandi sérhagsmunahópa. Stjórnmálamenn eru því ekki í sannleiksleit, þeirra markmið er að vinna tilteknum hagsmunum brautargengi. Þetta hefur leitt til þess að í reynd eru tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi, stjórnarandstaða og þeir sem standa að ríkisstjórn. Endurtekið er kjósendum gert að horfa upp á stjórnmálamálaflokka staka U-beygju í stefnu ef þeir fara úr þeirri stöðu að vera í stjórnarandstöðu fyrir kosningar yfir í að komast í stjórn eftir kosningar.

Í átakastjórnmálunum er því haldið að okkur að Íslendingum stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Nú er svo komi að Alþingi íslendinga nýtur undir 10% trausts og einungis tæpur helmingur þjóðarinnar tekur afstöðu til stjórnmálaflokkanna. Það er að renna upp fyrir íslenskum almenning að hann þurfi ekki óvini erlendis frá nóg sé af þeim í okkar eigin röðum.

föstudagur, 11. maí 2012

Lýðskrum á Alþingi

Ítrekað senda þingmenn þau skilaboð út í samfélagið að þeir vilji að teknir verði fjármunir úr lífeyrissjóðunum og þeir nýttir til þess að greiða niður skuldir almennings. Með því hafa þeir ítrekað vakið upp innistæðulausar væntingar hjá fólki sem er í vandræðum. Þetta eru ákaflega óvönduð vinnubrögð.

Ítrekað er búið að benda þingmönnum á að Alþingi Íslendinga setti lög á sínum tíma sem gera þetta óframkvæmanlegt, auk þess að í landinu er í gildi Stjórnarskrá sem gerir þessar áætlanir óframkvæmanlegar.

Sá munur er á lífeyrissjóðum og þeim sjóðum sem alþingismenn hafa til umráða, að þeir geta ekki samið við stjórnarmenn í lífeyrissjóðum um að ráðstafa fjármunum sjóðanna. Það fjármagn sem er í lífeyrissjóðunum er í eigu tiltekins hóps fólks sem eru sjóðsfélagar. Þetta er sparifé þeirra, og það verða þingmenn sem og aðrir að virða. Það er löglegt að semja um að lífeyrissjóðirinir láni ríkissjóð þessa 230 milljarða, en það er ólöglegt að taka þessa fjármuni úr sjóðunum og ráðstafa þeim án þess að semja um endurgreiðslu.   

Þetta virðast þingmenn ekki skilja, eða sem er líklegra að þeir eru ekki meiri menn en svo að þeim er um megn að axla ábyrgð á eigin loforðum og standa fyrir framan almenning og viðurkenna að þeir hafi í þessu máli farið fram með innistæðulaust lýðskrum.

Þingmönnum er vel kunnugt um að það liggja fyrir samþykktir frá sjóðsfélögum um að ef þessi leið verði farin verði stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna stefnt fyrir fjárdrátt.

Ef þingmenn vilja gera eitthvað í þessum dúr verða þeir að byrja á því að breyta landslögum og einnig Stjórnarskránni. Það eru til margskonar samþykktir úr verkalýðshreyfingunni um að taka verði á skuldavanda heimilanna og vilji til þess að gera það, en þessi leið er einfaldlega ekki fær.


Þetta er búið að margskoða og það er því ákaflega ómaklegt af hálfu þingmanna að ræða þetta með með þeim hætti að málið snúist um að ná samningum við einhverja einstaklinga á skrifstofu ASÍ. Það er ekki á þeirra valdi. Það ættu þingmenn sem fara með löggjafarvaldið að vita umfram aðra.

Þessi nálgun þingmanna styður þá fullyrðingu að atgervisflótti hafi verið frá Alþingi. Það birtist okkur m.a. með þeim hætti að traust almennings á stjórnmálamönnum og Alþingi mælist í eins stafs tölu.

þriðjudagur, 1. maí 2012

1. maí ræða Selfoss 2012

Félagar  - til hamingju með daginn.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér hingað og gefa mér færi á að koma á framfæri því sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið. Ég hóf afskipti af kjarasamningum sem trúnaðarmaður á stórum vinnustað á árunum upp úr 1975. Á þeim tíma var samið reglulega um launahækkanir sem námu nokkrum tuga prósenta á hverju ári og stjórnmálamenn felldu svo krónuna nokkru síðar um svipaða tölu. Okkur miðaði þar af leiðandi lítið við að bæta kaupmáttinn. Á árunum frá 1945 til 1985 lækkaði kaupmáttur að meðaltali um 0,4% árlega hér á landi, á meðan hann óx t.d. í Danmörku um 1,6% að jafnaði.

Okkur tókst að rífa okkur út úr þessu með þjóðarsáttarsamningum og kaupmáttur óx frá 1990 um 2,4 á ári að jafnaði. Þá var fastgengisstefna en fyrirkomulagi gengismála er breytt án nokkurrar umræðu vorið 2001 og tekið upp fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði. Í kjölfar þessa fór að bera á miklum lausatökum í ríkisfjármálunum og vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna jókst umtalsvert. Krónan var felld þrívegis; 2000-2001 um fjórðung, 2006 um fimmtung og svo 2008 um helming og hún hefur haldið áfram að falla.

Þegar ég tók við formennsku í Félagi íslenskra rafvirkja árið 1987 hitti ég kollega mína frá hinum Norðurlöndunum. Þar var meðal annars fjallað um nýgerða kjarasamninga, þeir félagarnir töluðu um þokkalegan árangur sinn í kjarasamningum, þeirra félög hefðu samið um 3% hækkun á ári. Ég sagði við þá hróðugur að við hefðum verið að ná samningum með 30% launahækkun næsta árið. Viðbrögð þeirra komu mér á óvart. Í stað þess að upplifa öfund yfir velgegni okkar þá horfðu þeir á mig vorkunnaraugum og sögðu; 30% launahækkun á ári Guðmundur, það hlýtur að vera eitthvað mikið að hjá ykkur. Eftir þetta hef ég lært mikið, farið í háskóla og numið margt um efnahagsmál og stjórnun, auk þess að vinna með færustu hagfræðingum landsins.

Rafiðnaðarsamband Ísland var stofnað árið 1970. Í tilefni 40 ára afmælis fyrir skömmu tókum við saman yfirlit yfir kjarasamninga sambandsins frá stofnun. Þar kom fram að sambandið hefði samið um launahækkanir upp á 3.600% á þessum 40 árum. Á sama tíma hafði danska rafiðnaðarsambandið samið um launahækkanir upp á 330%. Þrátt fyrir það að við hefðum samið um 3.300% meiri launahækkanir hefur kaupmáttur vaxið meir í Danmörku á þessum tíma. Þar skipta vextir, langmestu máli.

Sú hagstjórn sem hefur verið ástunduð hér á landi frá lýðveldisstofnun hefur birst okkur í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar að fjórðungur árlegra tekna sé færður frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda og hins opinbera. Íslenskir launþegar hafa sem sagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf og rekstur hins opinbera. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Þeir tala um að verið sé að tryggja atvinnustigið, það er gert með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári til þess að lagfæra rekstrarafkomu fyrirtækjanna og hins opinbera. Ásamt því að greiða niður óraunsæ kosningaloforð.

Þetta kalla stjórnmálamenn að tryggja gott atvinnuástand, en hið rétta er að það er verið að skattleggja launamenn aukalega með þessu fyrirkomulagi. Gengisfelling er eignaupptaka hjá einum hópi. Þeir fjármunir gufa ekki upp, þeir lenda í vösum annarra. Að fella gengið er það sem hefur réttilega verið kallað, að láta almenning borga skuldir óreiðumanna, það er þeirra sem eru í stjórnmálum og þeim sem standa illa að fyrirtækjarekstri. Einn helsti hugmyndafræðingur þeirrar stjórnmálastefnu sem hér var fylgt lýsti þessu ástandi á þann veg, að krónan væri svo mikil blessun, með henni væri blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna.

Hér á landi er verðbólga mest í Evrópu. Vextir hér eru þeir hæstu sem þekkjast. Enginn vill eiga sparifé varðveitt í íslenskum krónum. Þar af leiðandi er ekki hægt að fá langtímalán í krónum, einungis í hinum gjaldmiðlinum okkar verðtryggðum krónum. Það vill engin fjármagna lánakerfið án þess að fá tilbaka sömu verðmæti og lánuð eru. Landsmenn settu niður hælana árið 1980 þegar búið var að brenna upp alla lífeyrissjóði og allt sparifé okkar. Fólk var hætt að leggja fyrir og vildi hætta að greiða í lífeyrissjóði. Þá settist Ólafur Jóhannesson niður og bjó til greiðsludreifingarkerfi á vaxtatoppunum sem myndast þegar verðbólgan fer upp fyrir 4%. Þá er greiðslu á vöxtum umfram það frestað, hann skýrði þetta greiðsludreifingarkerfi okurvaxta Verðtrygging, sem er rangnefni.

Fyrir þann tíma voru greiddir breytilegir vextir. Ég greiddi t.d. á tímabili nokkurra tuga prósent vexti af lánum sem ég tók vegna kaupa á minni fyrstu íbúð. Ef menn ætla að fella niður þetta greiðsludreifingarfyrirkomulag Óla Jó þá koma einfaldlega breytilegir vextir tilbaka og mun fleiri heimili hefðu við Hrunið hefðu farið í greiðsluþrot. Hefur fólk velt fyrir sér hversu háar vaxtagreiðslurnar hefðu verið?

Í þessu sambandi er rétt að minna á að Guðmundur Jaki þáverandi helsti forsvarsmaður verkalýðshreyfingarinnar hafnaði því alfarið að binda laun við verðlagsvísitöluna á þessum tíma. Jakinn sagði að það myndi múlbinda alla launabaráttu á landinu við það ástand sem þá var ríkjandi. Það væri óskakerfi fyrirtækja og kæmi í veg fyrir að launamenn næðu fram kaupmáttaraukningu um alla framtíð. Guðmundur Jaki hafði rétt fyrir sér, laun hafa síðan þá hækkað að meðaltali rúmlega 30% umfram verðlagsvísitöluna.

Frá árinu 2000 til haustsins 2008 varð 13% kaupmáttaraukning hér á landi, en hún tapaðist nær öll við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum. Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig um 2% eftir 2008 og tæp 7% það sem af er þessari öld og halda auk þess sínum eignum. Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt kaupmáttinn um 3% eftir efnahagshrunið og 8% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Finnland hefur bætt við sig 6% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt kaupmáttinn um 12% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum hefur aukist frá 2007 að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi verðum við að muna að við erum í litlu hagkerfi, sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi, en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess, spyr fólk sem er að velta fyrir sér stöðunni?

Hvernig ætla menn að losa um gjaldeyrishöftin? Það verður ekki gert með þeim gjaldeyrisvarasjóði sem við eigum. Við fengum reyndar stóran hluta af honum að láni hjá hinum Norðurlandanna. Sá sjóður dugar ekki til þess að fara í einhliða upptöku gjaldmiðils, en það kostar um 100 milljarða að kaupa upp allar krónur og skuldbindingar. Við þurfum jafnframt að greiða upp þessa 1.000 milljarða sem erlendir aðilar eiga hér í krónum og bíða óþolinmóðir eftir að komast með úr landi.

Í þessu ástandi fá Sprotafyrirtækin og grasrótin í atvinnulífinu ekki fjármagn. Hlutabréfamarkaðurinn er dauður og fyrirtækin við grasrótina svelta vegna gjaldeyrishaftanna. Gjaldeyrir kemur ekki inn í landið nema í gegnum fjárfestingar fyrirtækja sem eru ekki háð gjaldeyrishöftum. Það þýðir einfaldlega að við getum ekki komið atvinnulífinu í gang nema að semja við erlend stórfyrirtæki um byggingu stóriðju og fá þannig fjármagn inn í landið. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við þessa bláköldu staðreynd.

Einstaklingum á vinnumarkaði fjölgar um 4.500 á ári. Fækkum er aftur á móti liðlega 2.000, fólk sem fer á lífeyrisbætur eða út af vinnumarkaði af einhverjum öðrum ástæðum. Við þurfum því að fjölga atvinnutækifærum um 2000 á ári ef við ætlum að halda óbreyttu ástandi. Við erum með um 13.000 atvinnulausa hér á landi í dag og ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður í viðunandi ástand þurfum við að búa til um 15.000 störf á næsta ár. Til þess að þarf að auka fjárfestingar í atvinnulífinu um 200 milljarða króna á ári. Hvernig ætla menn að gera það, ef ekki finnast aðilar sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi?

Píslarsýkin í samfélaginu er komin á það hátt stig hér á landi að sérhagsmunasamtökum tekst bara með prýðilegum árangri að fá menn til þess að berjast af fullum krafti við að viðhalda því sjálfskaparvíti sem við höfum búið okkur, og segjast vera að vinna sigra. Launamenn hafa í vaxandi mæli hafnað þeirri fullyrðingu sem hefur verið haldið að okkur, að það sé kostur að hafa gjaldmiðil sem tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum.

Hér geta menn orðið ríkir á því að spila með krónuna gegn hagsmunum almennings. Hér varð kerfishrun sem var tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum með kerfisbundinni atlögu að krónunni í óeðlilegum viðskiptaháttum. Sérhagsmunahóparnir berjast um á hæl og hnakka við halda þessum hagsmunum. Það er skiljanlegt að því leiti að sumir hafa orðið ofboðslega ríkir á því að geta framkvæmt þessu eignaupptöku hjá okkur hinum í gegnum reglubundnar gengisfellingar.

Maður vaknar til nýs dags við fréttir um hvernig þingmenn beita klækjabrögðum á Alþingi. Menn stinga af um bakdyrnar á þinghúsinu til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur. Þingstörf mótast af ómerkilegum bellibrögðum og innihaldslausum upphrópunum.Þar skiptir engu hvort það sem fram er lagt sé til bóta eða ekki. Allt er lagt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir að hinn hópurinn nái sínu fram, um það snúast öll störf stjórnmálamanna á Alþingi og í stærstu sveitarfélögunum.

Í opinberri umræðu er það orðið daglegt brauð að borið er á fólk að það sé landráðamenn, fasistar, nasistar eða  kommúnistar. Því er blákalt haldið fram að pólitískir andstæðingar ætli sér að koma upp samskonar útrýmingarbúðum og sovétið eða nasistar voru með. Lýðskrumið ræður öllu í opinberri umræðu þar sem öllu fögru er lofað blandað saman við hræðsluáróður um meinta illsku, þar sem staðið sé vegi fyrir framförum og stöðugleika. Þetta orðbragð er síðan flutt inn á heimili landsmanna í byrjun hvers einasta fréttatíma sjónvarpsins. Það minnir mann á hvernig fasistahreyfingar millistríðsáranna beittu lýðskrumi, hræðsluáróðri og óvinavæðingu í tilraunum sínum til að komast til valda.

Því er haldið að okkur að Íslendingum stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Sá hópur sem beitir öllum brögðum til þess að koma í veg fyrir breytingar, lítur svo á að landið og ríkið sé þeirra eign. Hinn almenni launamaður sé þræll sem þeir eigi og geti beitt bellibrögðum til þess að koma í veg fyrir að hann fái notið þeirrar verðmætasköpunar sem hann skilar með vinnu sinni. Við þurfum ekki óvini erlendis frá við eigum nóg af þeim í okkar eigin röðum.

Þetta er það Ísland sem okkur er búið af sérhagsmunagæslusveitinni sem beitir öllum fanta- og klækjabrögðum sem þekkjast til þess að verja sína stöðu. Tugþúsundir heimila liggja í valnum. Hvaða tillögur liggja nú fyrir frá þessum hóp? Jú að gera sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum upptækt og nýta það til þess að halda áfram á sömu braut. Núverandi kynslóð beri enga ábyrgð og ætlar að hrifsa til sín þann rétt að geta lifað praktuglega í vellystingum, en senda reikninginn til barna okkar og barnabarna.

Þegar ég kom út á vinnumarkaðinn árið 1970 hóf ég greiðslu í lífeyrissjóð eins og lög gerðu ráð fyrir. Árið 1982 hafði ég greitt 10% af mínum launum í lífeyrissjóð eða sem samsvarar einum árslaunum. En inneign mín nam þá sem svarar verðgildi tveggja lambalæra. Stjórnvöld voru semsagt búin að brenna allt sparifé í landinu á verðbólgubálinu. Nú eru komnar fram tillögur um að fara sömu leið.

Íslendingum er gert að greiða um 18% hærri afborganir af húsnæðislánum en nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum gera. Það er vegna ofurvaxta sem skapast vegna óstöðuleikans og gengisfellinganna. Hvernig förum við að því að greiða þessu ofurvexti, jú við notum greiðsludreifingu á vöxtunum eins og ég hefur áður fjallað um og greiðum upp okkar lán á 40 árum á meðan það tekur félaga okkar á hinum Norðurlöndunum 20 ár að eignast sín hús. Við borgum tvisvar og hálfum sinnum okkar hús á meðan nágrannar okkar borga fyrir eitt hús.

Til þess að leiðrétta þetta vilja þessir vörslumenn sérhagsmuna rústa lífeyriskerfinu og sólunda því í lán með neikvæðum vöxtum og viðhalda óbreyttri efnahagsstjórn. Hvers vegna? Jú þeir hafa nefnilega komið sér upp ríkistryggðu lífeyriskerfi. Það búa tvær þjóðir í þessu landi, önnur hefur búið sér það ástand að ávöxtun sparifjár skiptir það engu. Það á að fara aftur í sama ástand og var fyrir stofnun almenna lífeyriskerfisins 1970.

Í þessari umræðu  búa menn sér til forsendur og spinna upp hugarfar annarra í því skyni að gera þá fyrirfram tortryggilega. Þetta er í rökfræðinni kallað rök gegn manni en ekki málefni og er skólabókardæmi um rökþrot. Fara í manninn ekki boltann, eins og sagt er í fótboltanum. Með því er máli drepið á dreif og orðræðan verður merkingarlaus. Pólitísk umræðu einkennist af sífellt meira merkingarleysi. Hún hefur smám saman einangrast frá öllum veruleika og því lífi sem lifað er í landinu. Það veldur því að það er atgervisflótti úr stjórnmálum og atgervisflótti frá landinu, ungt fólk vill ekki búa í svona samfélagi. Því það veit hvert stefnt er, ráðandi öfl eru að reyna að koma því í gegn að senda reikninginn fram tímann.

Ef rústa á lífeyriskerfinu, þarf að hækka skatta hér í landi umtalsvert. Lífeyriskerfið greiðir í dag árlega tæplega 100 milljarða í lífeyri, örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, á meðan Tryggingarstofnun greiðir úr 50 milljarða. Hlutdeild lífeyriskerfisins á eftir að vaxa mjög hratt á næstu árum þar sem mjög stórir árgangar eru að komast á lífeyrisaldur, á sama tíma minnkar hlutdeild Tryggingarstofnunar. Skattgreiðendum fækkar umtalsvert sem hlutfall af bótaþegum.

Ef við hverfum frá uppsöfnunarkerfinu, og tökum upp gegnumstreymiskerfi eins og var hér áður, þá þarf árið 2020 að greiða iðgjald sem er tvöfalt hærra en núverandi iðgjald. Það er vegna þess að helmingur útgreiðslna lífeyriskerfisins eru fjármunir sem eru tilkomnir vegna ávöxtunar á sparifé þeirra sem hafa greitt inn í kerfið. Engin þjóð ræður við það, nema þá að skera niður allt velferðarkerfið. Við stöndum í dag frammi fyrir ísköldum veruleikanum og komumst sannarlega ekki hjá honum með lýðskrumsyfirlýsingum og skyndireddingum. Sá tími er liðinn.

Áfram Ísland og til hamingju með daginn