fimmtudagur, 5. júlí 2012

Mismunum í lífeyrisréttindum


Undanfarna daga hefur verið fjallað um stöðu opinberu lífeyrisjóðanna. Í því sambandi langar mig til þess að draga fram nokkur atriði sem hafa alloft verið í pistlum hér á þessari síðu undanfarinn misseri.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna þeir ríkisstarfsmenn sem fá að vera í opinberu sjóðunum með þingmönnum sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, þeir eru með allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Þar er í mörgum tilfellum um að ræða sem vinnur samskonar störf á sama stað t.d. sumstaðar í heilbrigðiskerfinu. Annar hópurinn er í ASÍ félagi á meðan hinn er í stéttarfélagi sem þingmenn hafa velvilja á.

Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum. Á almennum vinnumarkaði standa iðgjöld og ávöxtun þeirra undir lífeyrisréttindum en ríki og sveitarfélög ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna og ber að hækka iðgjald ef þau réttindi nást ekki með iðgjöldum og ávöxtun þeirra

Í sjóðum opinberra starfsmanna hefur safnast upp verulegur halli. Í nýlegu yfirliti kemur fram að skuldbindingar nokkurra af sveitarfélagalífeyrissjóðnum séu ríflega 80% umfram skuldbindingar og það vanti allt að 500 milljarða inn í opinberu sjóðina. Halli B-deildarinnar er 350 milljarðar og hefur vaxið hratt á liðnum árum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs sem þingmenn settu í lög að ættu að gilda um aðra lífeyrissjóði en þeirra eigin.

Iðgjöld launamanna og launagreiðenda til almennu lífeyrissjóða eru samtals 12% af heildarlaunum á almennum vinnumarkaði, en eru 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Framlag þingmanna í sinn sjóð er 4% eins og hjá öðrum launamönnum, mismun iðgjalds kemur frá vinnuveitanda þeirra, ríkissjóð.

Verði ekkert að gert mun þessi skuldbinding halda áfram að vaxa og að lokum lendir reikningurinn á skattgreiðendum í framtíðinni. Annað hvort verður að hækka skatta, eða skera niður í útgjöldum ríkissjóðs, svo ríkissjóður eigi fyrir þeim skuldbindingum sem þingmenn undanfarinna ára sett á ríkissjóð til þess að tryggja eigin lífeyrisréttindi og nokkurra annarra.

Þeir hafa hins vegar sett lög um almennu lífeyrissjóðina, sem kveða á um að þeir verði hins vegar að mæta neikvæðum mismun á eignum og skuldbindingum með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Mismunurinn sem í þessu felst endurspeglaðist vel í kjölfar fjármálahrunsins þegar lífeyrissjóðir almenns launafólks þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna á sama tíma og réttindi opinberra starfsmanna og þingmanna voru tryggð eru með skattfé og standa óhögguð.

1 ummæli:

Segorian sagði...

Hér er mikil átaks þörf. Hefur nokkur stjórnmálahreyfing, eða yfirleitt nokkur stjórnmálamaður, tekið undir það sjónarmið að þessu þurfi að breyta? Er hugsanlega þörf á að stofna flokk gagngert til að vinna að þessu máli?