laugardagur, 18. ágúst 2012

Auknar fjárfestingar


Það var ekki af ástæðulausu að við gerð Stöðugleikasáttmála var horft til fjárfestinga þegar rætt var hvernig blása mætti nýju lífi í efnahagslífið. Ef takast ætti að koma íslensku hagkerfi úr þeim vanda sem það væri í, yrði að auka verðmætasköpun umtalsvert. Þá fyrst væri hægt að greiða niður skuldir og koma í veg fyrir enn frekari niðurskurð á velferðarsamfélaginu. Án aukinna fjárfestinga væri óframkvæmanlegt að viðhalda og þaðan af síður að auka framleiðslustig hagkerfisins.

Þeir sem hafa komið nálægt kjarasamningum undanfarin misseri af fullri alvöru eða fylgst með þeim, muna vel að í vinnu við stöðugleikasáttmála er talið raunhæft að ná fjárfestingum upp í um 280 – 380 milljarða króna á ári.

Hvað varðar framkvæmdir hefur verið rætt um að fá hingað fjárfesta til þess að byggja upp fyrirtæki, þar er hefur verið mest áberandi álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir. Í þessu sambandi hefur ekki verið talað um að það skorti fjárfestingar af hálfu ríkis, enda er það ekki ríkið sem stæði að þessum framkvæmdum, heldur er vandinn sá að stjórnmálamönnum takist (alþingis- og sveitarstjórnar) að leysa þá hnúta sem hafa hingað til staðið í veginum fyrir því að fyrirtækin geti lokið samningum sín á  milli og svo fjármögnunarsamningum í kjölfar þess.

Einnig var rætt í hinum þríhliðaviðræðum um verkefni sem væru í einkafjármögnun og fjárfestingar utan ríkisreiknings eins og byggingu Landspítalans, Samgöngumiðstöð, tvöföldun Hvalfjarðargangna, Vaðlaheiðargöng, Suðurlandsveg, tvöföldun Kjalarnesvegar og Sundabraut.

Það sem hefur tafið þessi mála eða jafnvel komið í veg fyrir það þau nái fram að ganga hefur verið gríðarlegt ósamkomulag milli stjórnmálamanna og venjubundnum vinnubrögðum um að koma í veg fyrir að mótaðilinn geti náð fram sínum markmiðum. Þar hefur þjóðhagslegum hagsmunum verið kastað til hliðar í ómerkulegu vopnaskaki þingmanna. Einnig hafa verið áberandi gríðarlegar mótsagnir í málatilbúnaði stjórnmálamanna. Margir þeirra hafa talað fyrir uppbyggingu fyrirtækja og jafnvel aukna sölu á orku innanlands og utan, en síðan hafa sömu aðilar talað gegn uppbyggingu orkuvera. Það hefur leitt til þess að þessar framkvæmdir hafa ekki komist af stað og áætlanir í mörgum tilvikum gerðar óraunhæfar.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

nú hefur þú og fleiri staðið í vegi fyrir meiri fjárfestingum. sjávraútvegurinn er eina atvinnugreinin í landinu sem getur raunverulega farið í meiri fjárfestingar, bæði til að byggja upp innan greinarinnar t.d. ný fiskvinnsluhús sem löngu er komin þörf fyrir. og svo til að fjárfesta í öðrum atvinnugreinum.

þetta hefur þú ásamt öðrum staðið í vegi fyrir með því að leggja ávalt til að ríkið taki allar tekjur greinarinn beint inn í skatt í stað þess að taka hann óbeint eftir að peningarnir hafa velt um samfélagið nokkrum sinnum með tilheyrandi gróða fyrir samfélagið allt og skattatekjum fyrir ríkið í gegnum vsk og tekjuskatta.

Guðmundur sagði...

Ég á ekki til aukatekið orð.

Þvílíkur spuni.

Hvaðan í veröldinni hefur nafnlaus #10:57 þetta dæmalausa bull?

Nafnlaus sagði...

Já hann er stórmerkilegur þessi nafnlausi hópur sem er að skrifa aths.

Nafnlaus 10:57 er augljóslega útgerðarmaður sem vill geta stungið hundruðum milljarða eignatilfærslu sem skapast við að gengisfella laun stafsmanna í eigin vasa, en skuldsett svo útgerðina upp fyrir rjáfur og krefjast þess að fá að halda þessu kerfi óbreyttu.

Spyrja má hvers vegna er staðan í fiskvinnslu og útgerð svona eins lýst er í þessari aths. Skuldir upp í rjáfur og mikil þörf á fjármagni til þess að endurnýja. Ekki hafa verið greiddir skattar af þessu hingað til. Hvert hafa þeir peningar runnið, jú þráð beint inn á bankareikninga í erlendum skattaskjólum
Kv Kristinn Þór

Lúðvík Júlíusson sagði...

nú er gjaldeyriskreppa í landinu og höft. Þar af leiðandi þá munu fjárfestingar ekki hafa nema mjög takmörkuð áhrif á hagvöxt og atvinnu í landinu.

Þess vegna er mikilvægast að afla gjaldeyris með því að efla útflutningsatvinnugreinar og þær atvinnugreinar sem spara gjaldeyri.

Verði farið í fjárfestingar án þess að gjaldeyristekjur aukist þá munu vextir einfaldlega hækka til að draga úr umsvifum annars staðar í hagkerfinu. Þú myndir fá þínar fjárfestingar en á sama tíma draga þróttinn úr atvinnulífinu annars staðar til að skapa rými fyrri þínum.

Nafnlaus sagði...

Ólöf Norðdal varaformaður XD er í viðtali á Rás 1. Þar heyrir maður að það er viðtekin venja hjá málsvörum XD að gera sífellt upp skoðanir hjá pólitískum andstæðingum, mistúlka málstað hann síðan og snúa útúr honum og halda svo fram einhverri augljósri tjöru og vera með órökstuddar dylgjur í garð fólks, eins og birtist einnig hér í aths.

Endalaust bull, hér á ég við málflutning XD í fiskveiðistjórnunarmálum, stjórnarskrármálinu, ESB málið. Það sem er svo einkennilegt að þetta er svo í fullkominni andstöðu felst við það sem hefur komið fram á landsfundum XD.

Kv Gunnar

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.