föstudagur, 21. desember 2012

Ómerkilegasta grein mánaðarins


Í gær birtist grein í Fréttablaðinu eftir Bjarna Jónsson, stjórnarformann fyrirtækis sem nefnist Nordic Store sem margir eru hrifnir af. Áberandi er að þar er sá hópur sem alltaf fagnar ef veist er að starfsemi samtaka launamanna og vitanlega er Silfur Egill þar fremstur í flokki að venju.

Í greininni er í besta falli um að ræða misskilning að ræða eða kannski þekkingarskort eða eru það stjórnmálaskoðanir sem blinda eins og svo oft þegar kemur að réttarstöðu launamanna.

Það er ekki hægt að skilja Bjarna öðruvísi en svo að hann vilji leggja niður það öryggisnet sem byggt hefur verið hér á landi og fara amerísku leiðina.

Þeir sem þekkja til í þessum málum vita að íslenskt verkafólk gerði kröfur um að hér á landi væri svipað bótakerfi og þekktist í hinum Norðurlandanna, ástandið væri ekki eins og Bjarni mælir með velferðarkerfið verði lagt niður og þeir sem hafi vinnu njóti þess, hinir liggi í göturennunni.

Þau framlög sem Bjarni talar um eru ekki framlag fyrirtækja, þetta er hluti launa. Sama gildir um veikindadaga, orlofsdaga og lögbundna frídaga, það er hluti launa sem vinnuveitandi leggur til hliðar og greiðir síðar út. Þetta er afleiðing þess að íslensk stjórnvöld höfnuðu því að fara sömu leið og gert var í hinum Norðurlandanna það er að gera þetta í gegnum skattakerfið og Tryggingarstofnun. Íslenskt verkafólk lamdi þetta í gegn með verkföllum í gegnum kjarasamninga. Það veldur því að beinir skattar hér eru lægri en á hinum Norðurlandanna og um leið laun.

Það er gert ráð fyrir þessu öllu í rekstrarkostnaði og kemur m.a. glögglega fram í mismun á útseldri vinnu og því sem starfsmaður fær í sitt launaumslag. Þessar stærðir eru allar vel þekktar og oft nýttar í gerð kjarasamninga þegar verið er að ræða heildarlaunakostnað fyrirtækja.

Það eru allmargir sem hafa kosið að fara þessa leið sem Bjarni leggur til á undanförnum árum og hafa gerst verktakar/undirverktakar, gerviverktakar eða hvað menn nú vilja kalla það og fá þá til sín frá vinnuveitanda launatengd gjöld og standa síðan sjálfir skil á þeim og standa sjálfir undir greiðslum til sín á frídögum og í veikindum. Sumir hverjir hafa þá kosið að standa utan stéttarfélaga og reyndar hafa sumir einnig kosið kosið að skerða að auki það sem þeir greiða til samfélagsins.

Þetta ber svo að því virðist Bjarni saman við laun þeirra sem hafa kosið að vera í samtryggingarkerfinu. En samtryggingakerfi eru eins og önnur tryggingarkerfi, ef þú greiðir ekki iðgjald þá ertu einfaldlega ekki með réttindi. Þú tryggir ekki eftir á. Ekki er hægt að gera kröfur til þess að njóta þeirra sjóða sem aðrir eru að greiða í en viðkomandi gerir ekki.

Enginn hefur staðið í vegi fyrir þessu fyrirkomulagi, utan þess að skattrannsóknastjóri hefur stundum eitthvað verið að vesenast. En nú standa margir þessara einstaklinga við dyr stéttarfélaganna og vilja komast í skjól samtryggingarsjóðanna, auk þess að gera kröfur um greiðslur frá og eins tryggingarkerfi sjúkrasjóðanna, örorkubótakerfi lífeyrissjóðanna og atvinnuleysistryggingakerfinu.

Einnig eru þarna allir þeir sem standa fremstir í flokki og krefjast þess að teknir sé fjármunir úr lífeyrissjóðunum og greiddar niður skuldir annarra.  

Ég skil ekki hvaðan Bjarni fær þá niðurstöðu að starfsmenn stóru fyrirtækjanna séu lægst launaðir á íslenskum vinnumarkaði. Ef laun í rafiðnaðargeiranum eru skoðuð þá er þessu allavega öfugt varið. Það eru rafiðnaðarmenn í litlu fyrirtækjunum á almennum markaði sem eru með lægstu launin.

Bjarni hallmælir  verkalýðsfélögunum og heldur því að því virðist fram fram að þau semji við sjálf sig um kaup og kjör og haldi þeim niðri til þess að ná til sín völdum. Þetta er einhver ógeðfelldasta ásökun sem maður hefur lengi heyrt. En maður kannast svo sem við þá sem fagna ávalt svona málflutning. Þeir eru flestir ekki félagsmenn stéttarfélaga, þeir eru sjálfstæðir gerviverktakar sem vilja koma sér hjá því að greiða til samfélagsins.

Ég hef verið í stjórn stéttarfélags um alllangt skeið, eftir að ég hætti þar var sótt að mér að gefa kost á mér í stjórn lífeyrissjóðs fyrir rúmu ári og var kosinn þar í kosningu milli þriggja aðila á tveim stórum fundum sjóðsfélaga. Ég hef ekki upplifað þetta sem Bjarni lýsir.

Ég hef á öllum þessu ferli einu sinni verið kosin í stjórn fyrirtækis, það var SR ég gerði þar athugasemdir við launakjör fólks sem var að reisa nýja verksmiðju í Helguvík, það varð allt vitlaust að ég væri að nýta aðstöðu mína til þess að skipta mér af hlutum sem ég læti að láta vera, meir að segja splæst á mig stóryrtum leiðurum í Mogganum og heilu Reykjavíkurbréfi þar ausið var yfir mig fúkyrðum.

Það er fínt ef menn vilja fjalla um þessi mál en grein eins og grein Bjarna er ekki innlegg í þá umræðu þar eru allt of margar rangfærslur til þess að hægt sé að taka mark á henni.

sunnudagur, 16. desember 2012

Rammaáætlun og tækifærissinnarnir í VG


Lengi hafa staðið deilur meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Flestir voru sammála um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för í þessu viðkvæma málaflokki.

Í nær öllum kosningabaráttum hafa stjórnmálamenn farið um og lofað mikilli atvinnuuppbyggingu í sínu kjördæmi, sjaldan kom fram í máli þeirra hversu mikla orku þyrfti þannig að hægt væri að framkvæma þau loforð sem þeir gefa. Það var í þessu umhverfi sem ákveðið er að hefja vinnu við Rammaáætlun.

Þar var m.a. litið til þess hvernig norðmenn hefðu leyst samskonar deilur. Við borðið settust ekki bara fulltrúar stjórnmálamanna og Landsvirkjunar, allir hagsmunaaðilar fengi sinn stól, þar á meðal útivistarfólk og var ég fulltrúi þeirra í fyrri umferð þessarar vinnu.

Nú er búið að afla upplýsinga sem segja okkur svart á hvítu að tiltekin svæði séu dýrmæt fyrir þróun íslenskrar náttúru eða sem vettvangur ferðaþjónustu, útivistar og lífsfyllingar fólks, þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði hafa verið sett í biðflokk þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu.

Á meðan þessi vinna hefur staðið yfir hefur komið fram að gufuaflsvirkjanir eru ekki eins umhverfisvænar og margir vildu halda fram. Ekki hefur tekist að leysa vandamál hvað varðar útblásturs- og affalsmengun frá gufuvirkjunum, auk þess að töluverkur vafi er um rekstaröryggi nokkurra svæða.

Það hefur aldrei verið hlutverk Rammaáætlunar að uppfylla loforð tækifærissinnaðra stjórnmálamanna, heldur er henni þvert á móti ætlað að skapa sátt um nýtingu til framtíðar. Tryggja eins vel og frekast verður kosið sjálfbæra þróun og gætt sé varúðar við að finna hagfellda nýtingu náttúrusvæða.

Nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur loks fyrir, ætlumst við til að farið sé að niðurstöðum hennar og skammtímahugsun og tækifærismennsku stjórnmálamanna vikið til hliðar. Sé litið til alls þess að er harla einkennilegt og reyndar mótsagnarkennt þegar einhver hópur stígur nú og vill rifta niðurstöðu Rammaáætlunar fram að segist tala fyrir munn náttúruverndarsinna og hefur í hótunum við launamenn og samtök þeirra.

Þessi hópur vill ekki sleppa fyrri möguleikum til brellubragða og því fer fjarri að þetta fólk tali fyrir munn allra náttúruverndarsinna, þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd og þar fara fremst nokkrir þingmenn og ráðherrar VG.

Það liggur fyrir að það þarf að virkja á Íslandi. Það eru ákveðin svæði sem eru betur til þess fallin en önnur. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að virkja öll þessi svæði nú þegar.

Það er mikið atvinnuleysi á Íslandi og það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum svo við náum að vinna okkur út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir. Ef það á að takast verður ekki komist hjá því að auka fjárfestingar hér á landi. Þetta er ekki einkaskoðun einhverra verkalýðsforkólfa sem eru um borð í virkjanahraðlest, svo ég vitni í dylgjur og upphrópanir VG manna sem telja sig vera sjálfkjörna málsvara allra náttúruverndarsinna og um leið almennings hér á landi.

Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir einfaldlega að benda á samþykktir félagsmanna og að hvaða markmiðum við höfum stefnt að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar.


Í Rammaáætlun er sátt um forsendur fyrir víðtækri friðun byggðri á raunsæjum forsendum og þar er tekið fram fyrir hendurnar á tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum sem gefa sig út fyrir að vera hinir einu og sönnu náttúruverndarsinnar. Þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd.

Guðmundur Gunnarsson formaður umhverfisnefndar ASÍ 


laugardagur, 15. desember 2012

Réttlæti Björns Vals


Nú er rúmt ár síðan ég hætti sem formaður Rafiðnaðarsambandsins og ætla mér ekki að blanda mér í ákvarðanir formannafundar ASÍ. En mér finnst alltaf einkennilegt þegar  ráðist er á þann sem er í því hlutverki að kynna niðurstöður og samþykktir formannafunda eða annarra funda. Það er svona álíka og Björn Valur og Steingrímur veittust að póstkonunni, sem ber til þeirra gluggaumslögin.

Ég þekki þetta vel, hafandi verið formaður öflugs landssambands í 18 ár. Stundum var maður í því hlutverki að tala fyrir samþykktum meirihlutans, þó þær væru í andstöðu við eigin tillögur og skoðanir. En þetta er hið félagslega umhverfi, meirihlutinn ræður. Það virðist reyndar vera svo að margir þingmenn skilji ekki það hugtak, enda ganga þingstörf í samræmi við það.

En það er vart hægt að sitja hjá þegar Björn Valur byrjar enn eina ferðina að tala eins og forysta ASÍ geti samið við þingmenn um einhverjar útgreiðslur úr lífeyrissjóðunum, eða veitt þingmönnum lán á neikvæðum vöxtum svo þeir geti efnt kosningaloforð sín.

Það eru í gildi ákaflega skýr lög sem kveða úr um hvað megi greiða úr lífeyrissjóðum. Maður skyldi nú ætla að maður sem situr á löggjafarsamkomu landsins ætti að þekkja þau lög. Sjá hér

Þingmaður ætti einnig að vita að Fjármálaeftirlitið hefur glögga yfirsýn yfir útgjöld lífeyrissjóðanna og fylgist ákaflega vel með því. Lífeyrisjóðunum ber að senda reglulega inn allar skýrslur þar um.

Það hefur margoft komið fram að FME hefur sagt að ef einhver lífeyrissjóður felli niður innheimtanleg lán eða veiti fjármunum til annars en lögbundinna greiðslna það er í lífeyrir, örorkubætur eða maka- og barnabætur þá verði stjórn þess lífeyrissjóðs dreginn til ábyrgðar á þeim gjörning. Einnig eru fyrirliggjandi samþykktir frá sjóðsfélögum að þeir muni gera slíkt hið sama.

Þvert á þetta hefur margoft komið fram að skilningur þingmanna í sínum ríkistryggðu sjóðum sé sá að þeir geti ráðstafað inneignum sjóðsfélaga, og það er mörgum áhyggjuefni. Hérna má sérstaklega benda á ítrekuð ummæli Ögmundar og Björns Vals.

Reiknisformúlan um afkomu lífeyrissjóðanna er ákaflega einföld og maður getur jafnvel ætlast til að þingmaður ráði við þá formúlu. Hún er svona : Ef innistæður í lífeyrissjóð minnka af einhverjum ástæðum, þá er minna til í sjóðnum til þess að greiða út lögbundnar bætur.
 
Ef ekki er til nægjanlega innistæða til þess að standa undir skuldbindingum segja landslög sett af þingmönnum á Alþingi að stjórn viðkomandi sjóðs sé skyldug til þess að skerða bæturnar. Ef stjórnin gerir það ekki þá er hún að ráðstafa sparifé unga fólksins til eldri kynslóða, sem er brot á stjórnarskrá, landslögum, reglugerðum og starfsreglum lífeyrissjóða. Þetta er nú ekki flóknara.

Í lífeyrissjóð Björns Vals og Ögmundar er það hins vegar þannig, að ef það vantar peninga í lífeyrissjóð þeirra, þá er sent á gamlársdag minnisblað til ríkissjóðs um hversu mikið vanti. Í dag er það um 500 milljarðar og skuld ríkissjóðs við lífeyrissjóð Björns Vals vex um 25 milljarða á ári.

Skuldin verður síðan löguð með því að hækka skatta á landsmenn. Það hefur margoft komið fram að það þurfi að hækka skatta á landsmenn innan 10 ára a.m.k. um 4% vegna skuldar ríkissjóðs við lífeyrissjóð þingmanna.

Eða með öðrum orðum að það skiptir Björn Val engu þó honum tækist að ná út sparifé launamanna og ráðstafa því í einhver gæluverkefni, hann fær sinn lífeyri óskertan, en verkafólk í almennum lífeyrissjóð fær hins vegar skertar bætur og að auki hækkaða skatta til þess að standa straum af óráðssíu Björns Vals úr sínum ríkistryggða sjóði.

Þetta er það réttlæti sem Björn Valur vill og kvartar sáran undan andstöðu forystu verkafólks með sínum venjubundna hætti. Það verður nú að segjast eins og það er, þó það sé stundum erfitt að viðurkenna það, en það eru einungis þingmenn hinna svokölluðu félagssinnuðu stjórnmálaflokka sem tala eins og Björn Valur og er mörgum umhugsunarefni þessa dagana.

föstudagur, 14. desember 2012

Hið fullkomna samfélag háskólaprófessora


Hafandi hlustað á umfjöllun háskólaprófessora og þingmanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga um tillögur „fræga fólksins í svonefndu Stjórnlagaráði“, renna um huga minn myndir dregnar af Voltaire.

Hér vísa ég í ummæli dr Altúngu, þeim finnist þeir hafi búið til hið fullkomna samfélag. Því sé engin ástæða til að breyta eða bæta samfélagið og vinna gegn öllum breytingum.

„Við búum í besta heimi allra mögulegra heima", sagði dr. Altúnga, lærifaðir Birtíngs í sögu Voltaire. „Allt sem gerist stuðlar á endanum að hinu góða enda er heimur okkar bestur allra mögulegra heima.“

Þrátt fyrir nánast óþrjótandi hrinu hörmunga (Hrunsins) rígheldur dr. Altúnga (íhaldið) í hugmyndir sínar, um að allt sé eins og best verði á kosið. „Vinnum án þess að brjóta heilann, það eitt gerir lífið bærilegt.“

Og Birtíngur kemst að niðurstöðu: „Maður verður að rækta garðinn sinn.“

fimmtudagur, 13. desember 2012

Háskólaprófessor tekur viðtal við sjálfan sig í LÍU blaðinu


Öflugri verkalýðshreyfingu hefur verið þakkað hið örugga og friðvænlega ástand sem ríkt hefur á Norðurlöndum. Okkur hefur tekist að skapa sérstöðu í heiminum.  Með stöðugri baráttu tókst að halda stjórnvöldum á réttri braut alla síðustu öld.  Foreldrum okkar tókst að brjótast upp úr örbirgð og skapa fjölskyldum sínum tryggt og friðsamt umhverfi.  Á sama tíma hefur staðið yfir barátta verkafólks í þrælakistum í fátækari hlutum heimsins. Þar stritar blásnautt fólk og börn allt upp í 18 – 20 tíma á sólarhring við ömurlegar aðstæður í niðurníddum verksmiðjuhjöllum fyrir nokkra aura á tímann.  Þessir staðir eru afgirtir því vitneskjan um þrælahaldið verður almennari og andstaðan hefur verið vaxandi.

Kostnaðurinn við girðingar og gæslumenn með alvæpni er smáræði miðað við afraksturinn af því að framleiða tískuvöru fyrir efnaða Vesturlandabúa og þetta breiðist út til allra átta, líka til okkar í norðrinu. Þrælakistur hafa fundist í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum.  Og við finnum þær hér á Norðurlöndum. Ungar konur og drengir eru þrælar klám- og eiturlyfjahringja.
 
Stofnuð eru fyrirtæki sem leigja út verkafólk til hverskonar verka á 100 dollara á mánuði. Lengd vinnutíma skiptir engu máli. Neðanjarðarhagkerfið blómstrar í skjóli kennitöluflakksins og gjöld til samfélagsins skila sér ekki. Samfara því gera þau eðlilegan rekstur innlendra fyrirtækja erfiðan eða jafnvel vonlausan. Sumar ríkisstjórnir hafa vaknað upp við vondan draum, í skjóli aðgerðarleysis þeirra hefur dafnað illgresi í bakgarðinum. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa valdið því að langtímaatvinnuleysi hefur margfaldast hér á landi, það sem af er þessari öld. Á meðan íslenskrar fjölskyldur berjast í bökkum, þá eru fluttir inn þúsundir blásnauðra erlendra verkamanna.

Fyrir skömmu var sett upp þrælakista uppi við Kárahnjúka með 1000 erlendum þrælum. Þar settu íslensk stjórnvöld upp girðingar til að halda vinnuaflinu á sínum stað og aðskilja það frá íslensku þjóðfélagi. Þar giltu sérstök lög um vinnutíma, ökuréttindi, starfsréttindi, öryggismál, aðbúnað verkafólks, kaup og kjör. Þessi lög eru samin og sett af ítölskum auðhring og þeim er framfylgt í skjóli aðgerðarleysis og endurtekinna undanþágna íslenskra stjórnvalda.
 
Talsmenn frjálshyggjunnar kætast og tala opinberlega um að nú séu góðir tímar. Hægt er að flytja inn ódýrt vinnuafl og hámarka arðinn með því að notfæra sér neyð bláfátæks fólks frá svæðum þar sem örbirgð ríkir. Með því sé hægt að halda aftur af ósanngjörnum launakröfum frekra og ofalinna launamanna, sem undir stjórn verkalýðsforkólfa hafa takmarkað hugsanlegan arð fjármagnsins.

Stefna öfgakenndrar frjálshyggju hefur tekið heimsbyggðina kverkataki. Samfélög eru að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju þar sem frelsi einstaklingsins er tryggt til að velja það sem honum sýnist, án tillits til samfélagsins og afleiðinganna. Allar áherslur miða að forréttindum og hagsmunum þess sem á fjármagnið.  Grafið er undan skipan samfélagsins og þetta leiðir af sér óöld.  Alið er á mýtum til þess að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Áhrifaríkustu leiðirnar eru að höfða til trúarbragða og þjóðernishyggju. Alið er á ótta og engu máli skiptir í hugum frjálshyggjumanna hvort mýturnar fela i sér eitthvert sannleikskorn. Þær gegna einungis því hlutverki að stjórn samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.

Búnar eru til einfaldar mýtur svo boðskapurinn komist til  skila. Dæmi um áhrifamikla mýtu er að bandaríska þjóðin sé stórkostleg. Þjóð sem hafi mikilvægu hlutverki að gegna, berjist gegn hinu illa í heiminum og breiði út hið góða, sem er lýðræði og bandarísk gildi. Þetta er lagt að jöfnu við boðun kristinnar trúar og hiklaust er gefið í skyn að þeir séu sérstakir boðberar Jesú Krists.
 
Svo mýtan virki þarf að búa til óvinaríki. Óvinavæðingin tengist á engan hátt hættunni sem til staðar er, heldur eingöngu metnaði viðkomandi stjórnmálamann til að viðhalda völdum. Boðuð er róttæk útþenslustefna bandarískra gilda, hernaðarhyggju sem leiðrétta á hið illa í heiminum, með þessu er skapaður samhugur heima fyrir. Settar eru upp sjónvarpsstöðvar sem senda linnulaust út boðskap um hinn afbakaða bandarísk rétttrúnað yfir heimsbyggðina.

Hermann Göring orðaði svipaða hugsun á áhrifaríkan hátt : Fólk vill ekki stríð ... En þegar allt kemur til alls eru  það leiðtogar ríkja sem eru stefnumarkandi og það er alltaf auðvelt að fá almenning á sitt band. Engu skiptir hvort um lýðræðisfyrirkomulag sé að ræða. fasisma, þingræði eða kommúnistastjórn... Það eina sem þarf að gera er að segja almenningi að von sé á árás og gera lítið úr friðarsinnum fyrir skort á þjóðernishyggju og fyrir að leggja þjóðina í mikla hættu það virkar eins í öllum löndum.

Helsti forsvarsmaður frjálshyggjunnar á Íslandi sagði á sínum tíma aðspurður hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. „Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum.  Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla.  Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf.“ Gróðafíkn er orðin að æðsta takmarki og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að mati á kaupgetu. Gleypigangurinn ræður ríkjum, hann er boðorðið, fyrirheitið og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar.

Tilteknir háskólaprófessorar fara hamförum þessa dagana, þeir óttast að íslenskum almenning takist að brjóta af sér fjötra hins íslenska gjaldmiðils, sem er handstýrt að útflutningsfyrirtækjum og valdastéttina. Grunn þessarar baráttu er að finna í nýrri stjórnarskrá. Í dag birtist viðtal við einn háskólaprófessor í þeim fjölmiðil sem gengur lengst í að verja hagsmuni  þeirra sem hafa náð undirtökum á íslensku samfélagi. Ummæli hans endurspegla þann hugarheim sem lýst er hér framar í þessum pistli.

mánudagur, 10. desember 2012

Háborð sýndarveruleikans í háskólum landsins


Hrunið svipti hulunni af hátterni nýfrjálshyggjunnar. Við blasti sviðin jörð, hvar sem hún hafði farið. Nokkrum áköfustu boðberum stefnunnar ofbauð og snéru við blaðinu og kröfðust þess að bönd yrðu sett á spilavítin í Kauphöllunum. Allt var í rúst og það virtist óframkvæmanlegt að rétta af þjóðarskúturnar nema með ofursköttum á landslýð. Fjárfestar hirtu arðinn en sendu tapið á ríkissjóð. Nýfrjálshyggjan losaði sig við hina félagslega umgjörð, hún var sögð hafa slævandi og deyfandi áhrif. Vaxandi hnattvæðing hefur tryggt hreyfanleika auðs sem engar reglur ná yfir. Það er nýtt til skammtímafjárfestinga og skammtímahagræðingu. Fyrirtækjum er gert að hagræða og aðlaga sig að kröfum markaðarins, að öðrum kosti hafi þau glatað tiltrú fjárfesta.

Pólitískar ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Endalaus keppni á öllum sviðum. Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir keppa í lækkun skatta til þess að ná fyrirtækjunum til sín. Það getur ekki leitt til annars en lakari skólum og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.

Þessi keppni mun leiða til þess að þau samfélög sem launamenn byggðu upp á síðustu öld verður fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera

Nýfrjálshyggjan heldur launamönnum utan sviga við efnahagslega formgerð og stefnir markvisst á að draga tennurnar úr fjöldasamtökum með því að varpa rýrð á allar þeirra athafnir. Þetta á sérstaklega við um vinnumarkaðinn. Þar ræður för hagræðingin og markaðsetningin. Nýfrjálshyggjan þiggur áhrifamátt sinn frá pólitísku og efnahagslegu valdi þeirra hagsmunaðila sem hún stendur vörð um. Með þeim má telja miðjumenn sem hafa komið sér notalega fyrir í uppgjöf afskiptaleysisins, til þeirra renna molar þegar hergóssinu er skipt á milli valdhafanna.

Allir fá greitt upp topp og það sem eftir stendur rennur til starfsmanna og þeim hótað uppsögn sætti þeir sig ekki við sitt hlutskipti. Nýfrjálshyggjan leggur upp úr að ala á óvissu meðal launamanna, hættunni á uppsögn. Í sumum tilfellum hefur tekist að fjarlægja samtrygginguna sem samtök launamanna hafa komið upp. Með því verða áhrif óvissunnar áhrifameiri. Rekstrarhagfræðilíkön einstaklingshyggjunnar ganga út á tilvist hóps atvinnulausra. Samtrygging hverfur og ráðningar verða tímabundnar og hlutfall ótryggra starfa vex.

Fréttir fjalla um líðandi stund og minnisleysi fréttastofanna verður algjört. Engin samtenging, öll umræða fer fram í lokuðum boxum. Verksmiðjum lofað í inngangi spjallþáttarins til þess að auka fjárfestingu og minnka atvinnuleysi, í næsta boxi er rætt um að selja orkuna erlendis því það fáist ekki nægilega gott verð hér heima og þá er skipt um box og menn sammála um að ekki sé hægt að virkja neitt vegna náttúruverndar, og í lokaboxinu fallast allir í faðma og tala um nauðsyn þess að endurreisa velferðarkerfið með því að auka tekjur samfélagsins.

Fyrir nokkru fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem 67% samþykkti fumvarp að nýrri stjórnarskrá. Rannsóknarskýrslan svipti hulunni af athöfnum valdastéttarinnar í íslensku samfélagi og sú von hafði vaknað með þjóðinni að stjórnmálamenn ætluðu loks að fara að vilja þjóðarinnar. Ný stjórnskrá er von almennings um að stemma stigu við ofurvaldi valdastéttarinnar. En öllum brögðum er beitt til þess að koma í veg fyrir að hún nái fram að ganga.

Sársaukafullt er að vera gert að horfa upp háborð sýndarveruleikans í Háskólum landsins þar sem einungis fá að taka til máls skoðanabræður valdastéttarinnar. Þar er hlutunum snúið á haus og Stjórnlagaráðsmönnum stillt upp sem talsmönnum hins illa, þess er vandlega gætt að ráðsliðar komi ekki sjónarmiðum sínum á framfæri. Fjölmiðlar valdhafanna apa allt upp sem fram er sett við háborðið, jafnvel þó við blasi margt af því standist ekki neina skoðun. Stjórnmálamenn valdastéttarinnar hrópa örvæntingafullir á hinu hæstvirtu Alþingi, þjóðin sé að gera valdarán og ætli sér hrifsa til sín völdum og þjóðarauðnum frá sjálfskipaðri valdastéttinni.

sunnudagur, 2. desember 2012

Elvíra Mendes og Heiner Flassbeck


Í kjölfar viðtals Egils við hina snjöllu Elvira Mendez Pinedo, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands í Silfrinu áðan, langar mig til þess endurbirta pistil sem ég skrifaði 11. desember 2009.

Síðasta hrun er afstaðið, spilapeningarnir eru á borðinu og fjárhættuspilararnir eru enn í spilavítinu, en þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Þeir ætla engu að breyta og vilja fá áfram sína bónusa og premíur. Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo þessir menn hafi orðið uppvísir að því, að allt sem þeir greindu og allar spár þeirra, reyndust vera rangar.

Það eru 100 menn sem eru í leiðandi stöðum helstu greiningarhúsanna og starfa þar án nokkurra laga og reglna. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár. Allt er til reiðu til þess að hefja fjárhættuspilið aftur og stefna í næsta hrun. Miðað við óbreytta stöðu er það óhjákvæmilegt.

Þannig hófst erindi Heiner Flassbeck framkv.stj. deildar alþjóðavæðingar og þróunar stefnumörkunar Sameinuðu þjóðanna á alþjóðaþingi byggingarmanna í Lille í Frakklandi. Hér á eftir eru nokkur þeirra fjölmörgu atriða sem hann kom að. Hann nálgaðist heimskrísuna á annan hátt en ég hef heyrt áður og var sannarlega mjög áhugaverður fyrirlesari.

Stjórnmálamenn halda því fram að ástæða hrunsins hafi verið áhættusækni í fjárfestingum. Allir sem voru í spilavítinu spiluðu eins höguðu sér heimskulega. Allir voru þátttakendur í fjárhættuspilinu. Það er háttalag þessara spilara sem er vandamálið. Það er keppni í öllu og markaðurinn ræður og hann leiðréttir sig. Hefur hann gert það? Nei.

Við erum að drukkna í olíu, en samt fer olíuverð hækkandi. Þar sem þessi hækkun hefur gengið í mörg ár er verð á olíu orðið langt fyrir ofan eðlileg mörk. Það eru spádómar greiningardeildanna sem stjórna hegðun allra og raun ákvarða verð á olíu. Allir í spilavítinu bíða eftir ábendingum greiningardeildanna og hlaupa svo til eftir þeirra spádómum og fjárfesta. Allir veðja á sömu forsendum og verðið getur í raun ekki annað en hækkað.

Á markaðurinn að ráða nauðsynlegum aðgerðum í umhverfismálum? Það eru ekki ríkisstjórnir eða fólk í spilavítinu (greiningardeildunum) sem ver hagsmuni umhverfis og almennings. Fjárfestar eiga gríðarlega mikið af olíu og hafa fjárfest ofboðslega í olíuhreinsunarstöðvum.

Hvernig bregst markaðurinn við ef menn eiga mikið undir því að þróun og notkun rafmagnsbíla verði hröð? Allar líkur benda til þess að þeir felli olíuverð það mikið að öll þróun rafmagnsbíla stöðvast eða verður mjög hæg. Markaðurinn ræður og fjárfestar geta í einu vettvangi ómerkt allar ákvarðanir Umhverfisþingsins í Kaupmannahöfn.

Pólitískar ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Næsta hrun blasir við ef ekkert verður að gert. Við verðum að leita að rótum vandans og lagfæra hann. Það er endalaus keppni á öllum sviðum. Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skólum og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.

Þessi keppni getur ekki leit til annars en að þau samfélög sem byggðum upp á síðustu öld munu hrynja. Þeim er fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Sú þjóð sem er í vanda skapaði ekki vandamálið, það var hið frjálsa alþjóðlega og óheilbrigða fjármálaumhverfi. Ef ekki er tekið á kerfinu getur það ekki annað en leitt okkur í annað Hrun með sömu alvarlegu afleiðingunum og almenningur sem situr í súpunni með enn lakari lífskjör.

Það eru engin lög sem taka á þeim vanda sem við er að eiga. Ef ekki verða settar skýrari reglur til þess að taka á grunnvandanum, þá mun sama heimska og leiddi Ísland í gjaldþrot endurtaka sig. Það eru sömu forsendur sem eru að leiða Grikkland í þrot.

Þegar þjóð er kominn í þrot og rúinn trausti er henni gert að leita til AGS, sem í raun skapar sömu aðstæður aftur án þess að taka á vandanum. Þjóðfélög eru sett inn í sama farið. Það er einungis einn alþjóðlegur aðili sem getur tekið á vandanum og þvingað fram þær leiðréttingar sem verður að setja. Það er alþjóðaverkalýðshreyfingin. Hún verður að beita sér í því stoppa fjárhættuspilið í spilavítinu og þvinga stjórnvöld til þess að taka upp annarskonar samskipti og koma böndum á spilavítin.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Það eru fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi. Samspil þessara aðila velur þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga eru að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex.

Þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna nálgast okkur sífellt meir, meir að segja í löndum í miðri Evrópu eins og t.d. Bretlandi eru fyrirtæki sem byggja upp svarta lista og selja til atvinnurekanda. Á þessa lista eru menn skráðir sem vilja vera í verkalýðsfélögum, hafa gefið sig út fyrir að krefjast hærri laun eða gert athugasemdir við öryggisbúnað.

Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af veðmálakeppni sem fer fram eftir flautu greiningardeildanna. Skipuleggja verður baráttu almennings gegn þeim.

Ég fór og ræddi við Heiner Flassbeck eftir erindið og spurði hvort hann væri ekki til í að koma og heimsækja okkur. Hann tók vel í það og hann kom, en sárafáir mættu á erindi hans í fundarsal Háskóla Íslands. Ég hafði einnig samband við Egil og hann gaf sér ekki tíma til þess að kynna sér málið eða taka viðtal við Flassbeck.