Hrunið svipti hulunni af hátterni nýfrjálshyggjunnar. Við
blasti sviðin jörð, hvar sem hún hafði farið. Nokkrum áköfustu boðberum
stefnunnar ofbauð og snéru við blaðinu og kröfðust þess að bönd yrðu sett á spilavítin
í Kauphöllunum. Allt var í rúst og það virtist óframkvæmanlegt að rétta af þjóðarskúturnar
nema með ofursköttum á landslýð. Fjárfestar hirtu arðinn en sendu tapið á
ríkissjóð. Nýfrjálshyggjan losaði sig við hina félagslega umgjörð, hún var sögð
hafa slævandi og deyfandi áhrif. Vaxandi hnattvæðing hefur tryggt hreyfanleika
auðs sem engar reglur ná yfir. Það er nýtt til skammtímafjárfestinga og
skammtímahagræðingu. Fyrirtækjum er gert að hagræða og aðlaga sig að kröfum
markaðarins, að öðrum kosti hafi þau glatað tiltrú fjárfesta.
Pólitískar ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar
alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Endalaus keppni á öllum sviðum.
Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir keppa í
lækkun skatta til þess að ná fyrirtækjunum til sín. Það getur ekki leitt til
annars en lakari skólum og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.
Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki
ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.
Þessi keppni mun leiða til þess að þau samfélög sem launamenn
byggðu upp á síðustu öld verður fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög
sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja
alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að
skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera
Nýfrjálshyggjan heldur launamönnum utan sviga við
efnahagslega formgerð og stefnir markvisst á að draga tennurnar úr
fjöldasamtökum með því að varpa rýrð á allar þeirra athafnir. Þetta á
sérstaklega við um vinnumarkaðinn. Þar ræður för hagræðingin og
markaðsetningin. Nýfrjálshyggjan þiggur áhrifamátt sinn frá pólitísku og
efnahagslegu valdi þeirra hagsmunaðila sem hún stendur vörð um. Með þeim má
telja miðjumenn sem hafa komið sér notalega fyrir í uppgjöf afskiptaleysisins,
til þeirra renna molar þegar hergóssinu er skipt á milli valdhafanna.
Allir fá greitt upp topp og það sem eftir stendur rennur
til starfsmanna og þeim hótað uppsögn sætti þeir sig ekki við sitt hlutskipti. Nýfrjálshyggjan
leggur upp úr að ala á óvissu meðal launamanna, hættunni á uppsögn. Í sumum tilfellum
hefur tekist að fjarlægja samtrygginguna sem samtök launamanna hafa komið upp.
Með því verða áhrif óvissunnar áhrifameiri. Rekstrarhagfræðilíkön
einstaklingshyggjunnar ganga út á tilvist hóps atvinnulausra. Samtrygging
hverfur og ráðningar verða tímabundnar og hlutfall ótryggra starfa vex.
Fréttir fjalla um líðandi stund og minnisleysi
fréttastofanna verður algjört. Engin samtenging, öll umræða fer fram í lokuðum
boxum. Verksmiðjum lofað í inngangi spjallþáttarins til þess að auka
fjárfestingu og minnka atvinnuleysi, í næsta boxi er rætt um að selja orkuna
erlendis því það fáist ekki nægilega gott verð hér heima og þá er skipt um box og
menn sammála um að ekki sé hægt að virkja neitt vegna náttúruverndar, og í lokaboxinu
fallast allir í faðma og tala um nauðsyn þess að endurreisa velferðarkerfið með
því að auka tekjur samfélagsins.
Fyrir nokkru fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem 67% samþykkti
fumvarp að nýrri stjórnarskrá. Rannsóknarskýrslan svipti hulunni af athöfnum valdastéttarinnar í íslensku samfélagi og sú von hafði vaknað með þjóðinni að
stjórnmálamenn ætluðu loks að fara að vilja þjóðarinnar. Ný stjórnskrá er von
almennings um að stemma stigu við ofurvaldi valdastéttarinnar. En öllum brögðum
er beitt til þess að koma í veg fyrir að hún nái fram að ganga.
Sársaukafullt er að vera gert að horfa upp háborð sýndarveruleikans í Háskólum
landsins þar sem einungis fá að taka til máls skoðanabræður valdastéttarinnar. Þar er hlutunum snúið á haus og Stjórnlagaráðsmönnum stillt upp sem talsmönnum
hins illa, þess er vandlega gætt að ráðsliðar komi ekki sjónarmiðum sínum á
framfæri. Fjölmiðlar valdhafanna apa allt upp sem fram er sett við háborðið,
jafnvel þó við blasi margt af því standist ekki neina skoðun. Stjórnmálamenn valdastéttarinnar
hrópa örvæntingafullir á hinu hæstvirtu Alþingi, þjóðin sé að gera valdarán og ætli
sér hrifsa til sín völdum og þjóðarauðnum frá sjálfskipaðri valdastéttinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli