föstudagur, 21. desember 2012

Ómerkilegasta grein mánaðarins


Í gær birtist grein í Fréttablaðinu eftir Bjarna Jónsson, stjórnarformann fyrirtækis sem nefnist Nordic Store sem margir eru hrifnir af. Áberandi er að þar er sá hópur sem alltaf fagnar ef veist er að starfsemi samtaka launamanna og vitanlega er Silfur Egill þar fremstur í flokki að venju.

Í greininni er í besta falli um að ræða misskilning að ræða eða kannski þekkingarskort eða eru það stjórnmálaskoðanir sem blinda eins og svo oft þegar kemur að réttarstöðu launamanna.

Það er ekki hægt að skilja Bjarna öðruvísi en svo að hann vilji leggja niður það öryggisnet sem byggt hefur verið hér á landi og fara amerísku leiðina.

Þeir sem þekkja til í þessum málum vita að íslenskt verkafólk gerði kröfur um að hér á landi væri svipað bótakerfi og þekktist í hinum Norðurlandanna, ástandið væri ekki eins og Bjarni mælir með velferðarkerfið verði lagt niður og þeir sem hafi vinnu njóti þess, hinir liggi í göturennunni.

Þau framlög sem Bjarni talar um eru ekki framlag fyrirtækja, þetta er hluti launa. Sama gildir um veikindadaga, orlofsdaga og lögbundna frídaga, það er hluti launa sem vinnuveitandi leggur til hliðar og greiðir síðar út. Þetta er afleiðing þess að íslensk stjórnvöld höfnuðu því að fara sömu leið og gert var í hinum Norðurlandanna það er að gera þetta í gegnum skattakerfið og Tryggingarstofnun. Íslenskt verkafólk lamdi þetta í gegn með verkföllum í gegnum kjarasamninga. Það veldur því að beinir skattar hér eru lægri en á hinum Norðurlandanna og um leið laun.

Það er gert ráð fyrir þessu öllu í rekstrarkostnaði og kemur m.a. glögglega fram í mismun á útseldri vinnu og því sem starfsmaður fær í sitt launaumslag. Þessar stærðir eru allar vel þekktar og oft nýttar í gerð kjarasamninga þegar verið er að ræða heildarlaunakostnað fyrirtækja.

Það eru allmargir sem hafa kosið að fara þessa leið sem Bjarni leggur til á undanförnum árum og hafa gerst verktakar/undirverktakar, gerviverktakar eða hvað menn nú vilja kalla það og fá þá til sín frá vinnuveitanda launatengd gjöld og standa síðan sjálfir skil á þeim og standa sjálfir undir greiðslum til sín á frídögum og í veikindum. Sumir hverjir hafa þá kosið að standa utan stéttarfélaga og reyndar hafa sumir einnig kosið kosið að skerða að auki það sem þeir greiða til samfélagsins.

Þetta ber svo að því virðist Bjarni saman við laun þeirra sem hafa kosið að vera í samtryggingarkerfinu. En samtryggingakerfi eru eins og önnur tryggingarkerfi, ef þú greiðir ekki iðgjald þá ertu einfaldlega ekki með réttindi. Þú tryggir ekki eftir á. Ekki er hægt að gera kröfur til þess að njóta þeirra sjóða sem aðrir eru að greiða í en viðkomandi gerir ekki.

Enginn hefur staðið í vegi fyrir þessu fyrirkomulagi, utan þess að skattrannsóknastjóri hefur stundum eitthvað verið að vesenast. En nú standa margir þessara einstaklinga við dyr stéttarfélaganna og vilja komast í skjól samtryggingarsjóðanna, auk þess að gera kröfur um greiðslur frá og eins tryggingarkerfi sjúkrasjóðanna, örorkubótakerfi lífeyrissjóðanna og atvinnuleysistryggingakerfinu.

Einnig eru þarna allir þeir sem standa fremstir í flokki og krefjast þess að teknir sé fjármunir úr lífeyrissjóðunum og greiddar niður skuldir annarra.  

Ég skil ekki hvaðan Bjarni fær þá niðurstöðu að starfsmenn stóru fyrirtækjanna séu lægst launaðir á íslenskum vinnumarkaði. Ef laun í rafiðnaðargeiranum eru skoðuð þá er þessu allavega öfugt varið. Það eru rafiðnaðarmenn í litlu fyrirtækjunum á almennum markaði sem eru með lægstu launin.

Bjarni hallmælir  verkalýðsfélögunum og heldur því að því virðist fram fram að þau semji við sjálf sig um kaup og kjör og haldi þeim niðri til þess að ná til sín völdum. Þetta er einhver ógeðfelldasta ásökun sem maður hefur lengi heyrt. En maður kannast svo sem við þá sem fagna ávalt svona málflutning. Þeir eru flestir ekki félagsmenn stéttarfélaga, þeir eru sjálfstæðir gerviverktakar sem vilja koma sér hjá því að greiða til samfélagsins.

Ég hef verið í stjórn stéttarfélags um alllangt skeið, eftir að ég hætti þar var sótt að mér að gefa kost á mér í stjórn lífeyrissjóðs fyrir rúmu ári og var kosinn þar í kosningu milli þriggja aðila á tveim stórum fundum sjóðsfélaga. Ég hef ekki upplifað þetta sem Bjarni lýsir.

Ég hef á öllum þessu ferli einu sinni verið kosin í stjórn fyrirtækis, það var SR ég gerði þar athugasemdir við launakjör fólks sem var að reisa nýja verksmiðju í Helguvík, það varð allt vitlaust að ég væri að nýta aðstöðu mína til þess að skipta mér af hlutum sem ég læti að láta vera, meir að segja splæst á mig stóryrtum leiðurum í Mogganum og heilu Reykjavíkurbréfi þar ausið var yfir mig fúkyrðum.

Það er fínt ef menn vilja fjalla um þessi mál en grein eins og grein Bjarna er ekki innlegg í þá umræðu þar eru allt of margar rangfærslur til þess að hægt sé að taka mark á henni.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur Gunnarsson er með athyglisverðustu pistlarhöfundum okkar. Og ekki sakar að hann kemur úr hópi iðnaðarmanna, eins og faðir minn heitinn. Samt eru ummæli um hans skoðanir nær engar. Því veldur, að mínu mati, hallærislegt ummælakerfi. Það ætti ekki að vera stórt mál að breyta því.
Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Hversvegna segirðu það að skattar séu lægri t.d. í Noregi enn á Íslandi. Nú starfa ég í Noregi og get fullyrt að þetta á ekki við um tekjuskatt af 1 m króna

Guðmundur sagði...

Ég segi það ekki :

Þau framlög sem Bjarni talar um eru ekki framlag fyrirtækja, þetta er hluti launa. Sama gildir um veikindadaga, orlofsdaga og lögbundna frídaga, það er hluti launa sem vinnuveitandi leggur til hliðar og greiðir síðar út. Þetta er afleiðing þess að íslensk stjórnvöld höfnuðu því að fara sömu leið og gert var í hinum Norðurlandanna það er að gera þetta í gegnum skattakerfið og Tryggingarstofnun. Íslenskt verkafólk lamdi þetta í gegn með verkföllum í gegnum kjarasamninga. Það veldur því að beinir skattar hér eru lægri en á hinum Norðurlandanna og um leið laun.