laugardagur, 15. desember 2012

Réttlæti Björns Vals


Nú er rúmt ár síðan ég hætti sem formaður Rafiðnaðarsambandsins og ætla mér ekki að blanda mér í ákvarðanir formannafundar ASÍ. En mér finnst alltaf einkennilegt þegar  ráðist er á þann sem er í því hlutverki að kynna niðurstöður og samþykktir formannafunda eða annarra funda. Það er svona álíka og Björn Valur og Steingrímur veittust að póstkonunni, sem ber til þeirra gluggaumslögin.

Ég þekki þetta vel, hafandi verið formaður öflugs landssambands í 18 ár. Stundum var maður í því hlutverki að tala fyrir samþykktum meirihlutans, þó þær væru í andstöðu við eigin tillögur og skoðanir. En þetta er hið félagslega umhverfi, meirihlutinn ræður. Það virðist reyndar vera svo að margir þingmenn skilji ekki það hugtak, enda ganga þingstörf í samræmi við það.

En það er vart hægt að sitja hjá þegar Björn Valur byrjar enn eina ferðina að tala eins og forysta ASÍ geti samið við þingmenn um einhverjar útgreiðslur úr lífeyrissjóðunum, eða veitt þingmönnum lán á neikvæðum vöxtum svo þeir geti efnt kosningaloforð sín.

Það eru í gildi ákaflega skýr lög sem kveða úr um hvað megi greiða úr lífeyrissjóðum. Maður skyldi nú ætla að maður sem situr á löggjafarsamkomu landsins ætti að þekkja þau lög. Sjá hér

Þingmaður ætti einnig að vita að Fjármálaeftirlitið hefur glögga yfirsýn yfir útgjöld lífeyrissjóðanna og fylgist ákaflega vel með því. Lífeyrisjóðunum ber að senda reglulega inn allar skýrslur þar um.

Það hefur margoft komið fram að FME hefur sagt að ef einhver lífeyrissjóður felli niður innheimtanleg lán eða veiti fjármunum til annars en lögbundinna greiðslna það er í lífeyrir, örorkubætur eða maka- og barnabætur þá verði stjórn þess lífeyrissjóðs dreginn til ábyrgðar á þeim gjörning. Einnig eru fyrirliggjandi samþykktir frá sjóðsfélögum að þeir muni gera slíkt hið sama.

Þvert á þetta hefur margoft komið fram að skilningur þingmanna í sínum ríkistryggðu sjóðum sé sá að þeir geti ráðstafað inneignum sjóðsfélaga, og það er mörgum áhyggjuefni. Hérna má sérstaklega benda á ítrekuð ummæli Ögmundar og Björns Vals.

Reiknisformúlan um afkomu lífeyrissjóðanna er ákaflega einföld og maður getur jafnvel ætlast til að þingmaður ráði við þá formúlu. Hún er svona : Ef innistæður í lífeyrissjóð minnka af einhverjum ástæðum, þá er minna til í sjóðnum til þess að greiða út lögbundnar bætur.
 
Ef ekki er til nægjanlega innistæða til þess að standa undir skuldbindingum segja landslög sett af þingmönnum á Alþingi að stjórn viðkomandi sjóðs sé skyldug til þess að skerða bæturnar. Ef stjórnin gerir það ekki þá er hún að ráðstafa sparifé unga fólksins til eldri kynslóða, sem er brot á stjórnarskrá, landslögum, reglugerðum og starfsreglum lífeyrissjóða. Þetta er nú ekki flóknara.

Í lífeyrissjóð Björns Vals og Ögmundar er það hins vegar þannig, að ef það vantar peninga í lífeyrissjóð þeirra, þá er sent á gamlársdag minnisblað til ríkissjóðs um hversu mikið vanti. Í dag er það um 500 milljarðar og skuld ríkissjóðs við lífeyrissjóð Björns Vals vex um 25 milljarða á ári.

Skuldin verður síðan löguð með því að hækka skatta á landsmenn. Það hefur margoft komið fram að það þurfi að hækka skatta á landsmenn innan 10 ára a.m.k. um 4% vegna skuldar ríkissjóðs við lífeyrissjóð þingmanna.

Eða með öðrum orðum að það skiptir Björn Val engu þó honum tækist að ná út sparifé launamanna og ráðstafa því í einhver gæluverkefni, hann fær sinn lífeyri óskertan, en verkafólk í almennum lífeyrissjóð fær hins vegar skertar bætur og að auki hækkaða skatta til þess að standa straum af óráðssíu Björns Vals úr sínum ríkistryggða sjóði.

Þetta er það réttlæti sem Björn Valur vill og kvartar sáran undan andstöðu forystu verkafólks með sínum venjubundna hætti. Það verður nú að segjast eins og það er, þó það sé stundum erfitt að viðurkenna það, en það eru einungis þingmenn hinna svokölluðu félagssinnuðu stjórnmálaflokka sem tala eins og Björn Valur og er mörgum umhugsunarefni þessa dagana.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins er líklega að Björn Valur er vaðhundur eins óheiðarlegasta stjórnmálamanns síðari tíma. Steingríms J.
Það getur verið erfitt að hljóma ekki eins og rugluda
lur í þeirri stöðu.
Dude