miðvikudagur, 27. mars 2013

Enn eitt "fixið"


Stjórnmálamönum hefur undanfarin ár verið tíðrætt um að til standi að lagfæra stökkbreytingu lána og það yrði gert með því að strika verðtryggingu út. Ráðherrar komu fram í fjölmiðlum veturinn 2010 og sögðust ætla að gera þetta með því taka þá fjármuni, sem til þessa þyrfti úr lífeyrissjóðunum.

Í kjölfar yfirlýsinga ráðherranna höfðu allmargir sjóðsfélagar samband við stjórnir sjóðanna og bentu á að það væru í gildi landslög og reyndar einnig stjórnarskrá, sem gerði þessa leið ófæra. Þingmenn gerðu ásamt nokkrum þekktum lýðskrumurum hróp að sjóðsfélögum og nefndu meðal annars „þrönga lagatúlkun!!“

Þessi leið hefði þýtt líklega allt að 3% skerðingu á bótum lífeyris- og örorkuþega í sumum almennu sjóðanna. Sjóðsfélagar opinberu sjóðanna myndu ekki verða fyrir skerðingum. Skuld ríkissjóðs við opinberu lífeyrissjóðina er í dag um 500 milljarðar og hækkar um tugi milljarða á ári og mun vaxa hraðar á komandi árum sakir þess að stóru barnasprengjuárgangarnir eru að nálgast á lífeyrisaldur.

Útgjöld Tryggingarstofnunar hækka ef lífeyrir frá lífeyrissjóðunum lækkar. Auknar skuldir ríkisjóðs vegna lífeyrisskuldbindinga og aukin útgjöld TR, kalla á enn frekari niðurskurð eða hækkun skatta. Hagdeild ASÍ telur að ekki verði komist hjá um 4-6% hækkun skatta og sú ákvörðun verði ekki dreginn lengur en í mesta lagi 4 ár. Ef lífeyriskerfið verður lagt í sömu rúst að það lá árið 1980, mun það kalla þar að auki á umtalsverða skattahækkun.

Flöt lækkun lána kemur þeim best sem mest hafa milli handanna, 80% af þeim fjármunum hafnar í vösum þeirra sem ekki þurfa á því að halda. Það sem nær til þeirra sem eru í vanda, það er að segja barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar, verður of lítið til þess að bjarga þeim frá vandanum.

Í dag bendir flest til þess að kjósendur vilji að stjórnmálamenn hleypi efnahagslífinu í enn eitt verðbólgubálið. Þeir lofa að gera „allskonar ýmislegt“ fyrir landsmenn komist þeir til valda. Þeir nefna ekki hver eigi að standa straum af kostnaðinum, en það blasir við að þeir ætla að taka enn eitt fixið, detta bara einu sinni í það aftur og lofa svo að þeir verði edrú eftir það.

Eins og staðan er í dag þá á að fjármagna kosningaloforðin með enn einni gengisfellingunni, bara eitt verðbólgubálið enn. Lækka á verðgildi launa og framkalla eignaupptöku hjá launamönnum. Þessi aðferð hefur undanfarna áratugi jafngilt því að fjórðungur launa hafi verið tekinn úr launaumslögunum áður en þau ná í vasa launamanna.

Afnám verðtryggingar leysir engan vanda. Hækkun verðtryggðra lána er sakir þess að viðkomandi er ekki að greiða nema hluta vaxtakostnaðar. Verðtrygging er í raun greiðsludreifingarkerfi á ofurvöxtum, sem er afleiðing mikillar verðbólgu, sem er afleiðing óagaðrar efnahagsstjórnunar. Ef greiðsludreifingin er afnuminn verður fólki einfaldlega gert að greiða ofurvextina með öðrum hætti.

Ef við byggjum við stöðugleika ESB og hefðum samsvarandi verðbólgu og er í nágrannalöndum okkar, þyrftum við ekki verðtryggingarkerfi, eða með öðrum orðum þó svo við hefðum það áfram þá myndi verðtryggingarkerfið aldrei fara í gang.

Vextir mótast af verðbólgu auk raunvaxtakröfu og áhættuálagi. Ef samið er um verðtryggingargreiðsluform þá er áhætta mun minni og vaxtakrafa og áhættuálag lægra.
 
Í þessu sambandi má benda á að vaxtakrafa verðtryggðra lána er ríflega helmingi lægri en á þeim óverðtryggðu lánum sem er verið að bjóða í dag. Það þýðir að þegar verðbólga er lág, er lántaki að greiða umtalsvert hærri vexti á óverðtryggðum lánum, en verðtryggðum. Þarna er að finna ástæðu þess að verðtryggð lán hafa reynst mun hagstæðari sé til langs tíma litið.

Umræða þeirra sem telja að afnám verðtryggingar sé einhver lausn jafngildir því að reikna með því að meinið hverfi við það plástur sé fjarlægður af sárinu.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er prýðileg grein hjá þér. Auðvitað er ekki hægt að taka verðtrygginguna út með einu pennastriki bara sisona þar sem hún er grundvöllur svo margra samninga. Þá væri verið að leiðrétta einn forsendubrest með því að búa til annan forsendubrest.

Það væri áhugavert að fá þína skoðun á þessari umfjöllun hérna:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/03/26/hafi-their-skomm-fyrir-og-thetta-skulum-vid-stoppa-af-og-thad-med-godu-eda-illu/

Áhugavert að sjá kommentin og sjá hve margir sjá Framsókn sem nokkurskonar bjargvætt sem gæti komið í veg fyrir að þetta gæti gengið eftir.

Jens Kristjánsson sagði...

Sæll Guðmundur,
"Flöt lækkun lána kemur þeim best sem mest hafa milli handanna, 80% af þeim fjármunum hafnar í vösum þeirra sem ekki þurfa á því að halda" - gætirðu fært einhver rök eða nánari útreikninga á þessu? Eða eru þetta bara upphrópanir og lýðskrum? Það er nefnilega líka hægt að vera með lýðskrum gagnvart lífeyrisþegum, núverandi og væntanlegum.
"Þessi leið hefði þýtt líklega allt að 3% skerðingu á bótum lífeyris- og örorkuþega í sumum almennu sjóðanna." Þú afsakar, en þegar maður horfir upp á greiðslubyrði lána hækka um 20-25% á 5 árum, og höfuðstól sömu lána hækka um 20-35%, þá spyr maður hvort byrðum hrunsins sé örugglega jafnskipt milli kynslóðanna!
með kveðju,
Jens

Guðmundur sagði...

Það hefur komið fram í öllum opinberum könnunum á því hvernig flatur niðurskurður komi niður og hefur margítrekað verið birt opinberlega.

Ég átta mig ekki á hvernig þú tengir saman niðurskurð á lífeyri og hækkun lána. Þetta eru tveir algjörlega óskyldir hlutir.

Í pistlinum er rifjuð upp sú staðreynd að það séu í gildi lög um hvernig megi ráðstafa fjármunum lífeyrissjóða.

Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað lýst því yfir að hún styðji heilshugar aðgerðir til þess að hjálpa þeim heimilum sem fóru verst út úr stökkbreytingu lána, en hún hefur jafnframt bent á að það verði ekki gert með því að brjóta lög og skerða lífeyri og örorkubætur í almennu lífeyrissjóðunum, það verði að gera með öðrum hætti.

Þetta hefur einnig margoft komið fram opinberlega.

Þetta hefur t.d. verið margendurtekið rakið í pistlum hér á þessari síðu.

Það er síðan ótrúlegt að þurfa ítrekað að leiðretta lýðskrumið og dellurnar sem viðhafðar eru um þennan málaflokk og er reyndar eina ástæðan fyrir því að ekki sé fyrir allöngu búið að gera eitthvað í málinu.

Nafnlaus sagði...

Verðtrygging býr til skekktar væntingar lánveitenda til endurheimtu og leiðir til vanmats á áhættu. Hún skrumskælir eðlilega virkni hagkerfisins með því að búa til eitthvað sem menn vænta að sé áhættulaus fjárfesting. Hún hvetur beinlínis til áhættuhegðunar, sérstaklega hjá fjárfestum og lánveitendum, fyrir utan jú að blekkja lántakandann til að telja sig hafa meiri kaupmátt en hann hefur í raun og veru.
KV.SS

Guðmundur sagði...

Það er rétt og hefur verið margoft bent á að annúitets greiðslufyrirkomuleg ásamt greiðsludreifingarkerfinu sem nefnt er "Verðtrygging" (sem er rangnefni) lækkar greiðslubyrði lántakanda það mikið að hann freistast til þess að offjárfesta.

Þetta kom ekki upp á yfirborðið fyrr en lánsheimildir voru hækkaðar upp í 100%.

Sérstök ástæða er að geta þess að lífeyrissjóðirnir fóru ekki upp fyrir 65% það gerðu hins vega aðrir lánveitendur.

Enda er sáralítill hluti af þessum lánum sem eru í vanda hjá lífeyrissjóðunum.

Hjá öllum lífeyrissjóðum eru reiknivélar vegna lána á heimasíðum, þannig að að allir sem tóku lán þar gátu auðveldlega gert sér grein fyrir hvað þeir voru að gera.

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Nú keppast allir við yfirboð fyrir heimilin í næstu kosningum.

Flestir vilja afnema verðtryggingu - svona eins og að halda áfram að gefa sjúklingi með alvarlegan sjúkdóm verkjalyf í stað þess að lækna sjúkdóminn.

Hinn mikli vandi heimilanna er allt of háir vextir hér á landi - helmingi hærri en innan evrunnar - - sem rekja má til krónunnar, þar sem hún er allt of smár gjaldmiðil, og sveiflast því mikið. Afleiðingin er verðbólga og háir vextir og mikill fjármagnskostnaður heimilanna sem m.a. kemur fram í verðtryggingu.

Í nýlegri skýrslu Viðskiptaráðs http://www.vi.is/files/2012.11.08-Skodun-gjaldmidilsmal_1961160095.pdf kemur fram að kostnaður af krónunni 2011 hafi verið 221 milljarður króna eða tæplega 3 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu.

Þessar upplýsingar koma heim og saman við upplýsigar ASÍ um kostnað krónunnar sem m.a. má sjá í Fréttablaðinu http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/111214.pdf bls 18.

Á sama tíma og rifist er um lausnir til að finna tugi milljarða til að mæta stökkbreyttum skuldum heimilannan - henda Íslendingar 221 milljarði út um gluggann til að halda uppi minnsta og hættulegasta gjaldmiðli veraldar. Þessa peninga mætti nýta til að hjálpa heimilunum ef tekinn væri upp evra hér á landi, þar sem vaxtakostnaður myndi minnka sem þessu nemur.

Kostnaður vegna þessa sama gjaldmiðils grefur á sama tíma mikið undar efnahagslegu sjálfstæði þúsunda fjölskyldna um allt land - og um leið sjálfstæði þessara fjölskyldna og þjóðarinnar um leið.

Krónan er því að grafa hratt og örugglega undan efnahaglsegu sjálfstæði þúsundan fjölskyldna og þjóðarinnar um leið auknum líkum á stigvaxndi eignaupptökum og líkum á nyju hruni.

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Nú keppast allir við yfirboð fyrir heimilin í næstu kosningum.

Flestir vilja afnema verðtryggingu - svona eins og að halda áfram að gefa sjúklingi með alvarlegan sjúkdóm verkjalyf í stað þess að lækna sjúkdóminn.

Hinn mikli vandi heimilanna er allt of háir vextir hér á landi - helmingi hærri en innan evrunnar - - sem rekja má til krónunnar, þar sem hún er allt of smár gjaldmiðil, og sveiflast því mikið. Afleiðingin er verðbólga og háir vextir og mikill fjármagnskostnaður heimilanna sem m.a. kemur fram í verðtryggingu.

Í nýlegri skýrslu Viðskiptaráðs http://www.vi.is/files/2012.11.08-Skodun-gjaldmidilsmal_1961160095.pdf kemur fram að kostnaður af krónunni 2011 hafi verið 221 milljarður króna eða tæplega 3 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu.

Þessar upplýsingar koma heim og saman við upplýsigar ASÍ um kostnað krónunnar sem m.a. má sjá í Fréttablaðinu http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/111214.pdf bls 18.

Á sama tíma og rifist er um lausnir til að finna tugi milljarða til að mæta stökkbreyttum skuldum heimilannan - henda Íslendingar 221 milljarði út um gluggann til að halda uppi minnsta og hættulegasta gjaldmiðli veraldar. Þessa peninga mætti nýta til að hjálpa heimilunum ef tekinn væri upp evra hér á landi, þar sem vaxtakostnaður myndi minnka sem þessu nemur.

Kostnaður vegna þessa sama gjaldmiðils grefur á sama tíma mikið undar efnahagslegu sjálfstæði þúsunda fjölskyldna um allt land - og um leið sjálfstæði þessara fjölskyldna og þjóðarinnar um leið.

Krónan er því að grafa hratt og örugglega undan efnahaglsegu sjálfstæði þúsundan fjölskyldna og þjóðarinnar um leið auknum líkum á stigvaxndi eignaupptökum og líkum á nyju hruni.