Hvers
vegna er framleiðni á Íslandi svona slök? Íslendingar skila lengstu vinnuviku
af þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ef borin er saman verðmætasköpun
á mann hér landi á hverja unna klst. þá eru afköst Íslendinga einungis tveir
þriðju af því sem Bandaríkjamenn ná og Danir eru einungis liðlega 10% á eftir Bandaríkjamönnum.
Í
síðasta hefti tímarits Máls og menningar er áhugaverð grein eftir Guðmund D.
Haraldsson þar sem hann lýsir könnun sinni á vinnutíma hér. Þar kemur fram að við erum að vinna að
jafnaði um 5-6 klst. lengri vinnuviku, en náum samt ekki að hafa svipaðan
kaupmátt.
Á
árunum 1950 til 1980, þegar vélvæðingin er hvað umfangsmest fækkaði árlegum
meðalvinnustundum á Íslandi úr um 2.400 klst. í um 1.900 klst. En á hinum
Norðurlöndunum eru sömu tölur um 1.900 klst. árið 1950 og eru komnar niður um
1.600 klst. árið 1980 og halda áfram að lækka niður í um 1.550 árið 2010. Árið
2010 er árlegur meðalvinnutími Íslendinga hins vegar um 1750 klst.
Í
þessu sambandi hefur oft verið bent á óstöðugan gjaldmiðil, sem valdi háum vöxtum
og verðlagi. Það er ástæða þess að það tekur íslenskar fjölskyldur lengri tíma
í að vinna fyrir samskonar lífskilyrðum og eru á hinum Norðurlandanna.
Á
Íslandi eru raunvextir allt að 5% hærri en í nágrannalöndum okkar, að meðtöldu
vaxtaálagi vegna óstöðugs gjaldmiðils. Þetta þýðir að á Íslandi greiðir
fjölskulda tilbaka á 40 árum sem svarar 2,77 íbúðum meðan sambærileg fjölskylda
á hinum Norðurlandanna borgar bara 1,4 íbúð tilbaka.
Þetta
eru afleiðingar mikillar verðbólga, óábyrgar og ómarkvissra fjárfestinga, auk óhóflegra
skuldasöfnunar í útlöndum án fullnægjandi eignamyndunar á móti. Þetta hefur skert
lífskjör okkar til langs tíma. Margir íslenskra stjórnmálamanna hafa ýtt til hliðar
þessum staðreyndum og frekar látið vinsælar skammtímalausnir ráða för með þessum
skelfilegu afleiðingum.
Göran Person fyrrv. forsætisráðherra Svía
kom hingað eftir Hrunið til þess að segja okkur frá því hvernig Svíar tókust á
við sitt Hrun upp úr 1990. Göran er bóndi og hann benti á að þrátt fyrir að
styrkir til bænda á Íslandi væru gríðarlega háir var hann undrandi á því hversu
slök kjör þeirra væru. Þarna blasir við staðnað kerfi sem skilar engum árangri
í að auka framleiðni.
Framleiðni vinnuafls er 20% minni á
Íslandi en í helstu nágrannalöndum, það segir okkur að það eru umtalsverð
tækifæri fyrir hendi til að knýja hagvöxt til framtíðar með því að auka arðsemi
í fjármagnsfrekum atvinnugreinum og bæta þar með launamönnum upp þann skaða sem
þeir hafa orðið fyrir með því að tryggja öran framleiðnivöxt og myndarlegar
lífskjarabætur.
Til þess að ná þessu markmiði þarf að auka
stöðugleika og fyrirsjáanleika í almennri stefnumörkun til að auka tiltrú
fjárfesta og atvinnurekenda. Hér eru takmarkaðar auðlindir, því þarf að
skipuleggja nýtingu þeirra til langs tíma og það var gert með vinnu við
Rammaáætlun. En þar brugðust stjórnmálamenn enn einu sinni og vildu láta
pólitík ráða för og ýttu til hliðar niðurstöðum rannsókna.
Ef
við ætlum að tryggja aukinn kaupmátt í komandi kjarasamningum verðum við að
endurskoða og skipuleggja upp á nýtt allar grunnstoðir efnahagslífsins.