sunnudagur, 19. maí 2013

Ríkisrekinn landbúnaður



Verulegar framfarir hafa orðið í landbúnaði á síðustu árum. Framboð menntunar í greininni hefur aukist og ýmiss konar hagræðing og nýsköpun átt sér stað. Miklir möguleikar eru fyrir áframhaldandi þróun landbúnaðar og matvælaiðnaðar í landinu, t.d.með markaðsstarfi á grundvelli ímyndar um hreinleika og hollustu. Ísland getur auðveldlega orðið vel kynnt sem grænt land og framleiddi grænar vörur. En gegn því er barist af mikilli hörku af bændum.

Til að losa sem best um þessa sköpunarkrafta þarf að endurskoða núverandi styrkjakerfi í landbúnaði. Stefna ber að umbreytingu úr tollvernd, framleiðslutengdum styrkjum og opinberri verðlagningu yfir í beinar óframleiðslutengdar greiðslur

Landbúnaðurinn fær árlega styrkveitingar sem eru um 13 milljarðar í beinum greiðslum og þessi upphæð fer upp í upp 20 milljarða, ef tollavernd er talinn með. Þetta eru gríðarlegar upphæðir og það eru heimlin í landinu sem Alþingi ákveður að eigi að greiða þetta og eðli málsins samkvæmt eru það barnafjölskyldur sem borga mest.

Umhverfi sauðfjárræktar er þannig að bóndinn fær greiðslur í þessum hlutföllum u.þ.b.: 1000 kr beingreiðsla frá ríkinu, 1000 kr fyrir sölu á kjötinu og athugaðu vel lesandi góður 1000-2000 kr fyrir vinnu utan bús, þannig er búskapurinn niðurgreiddur. Er þetta vitrænt framleiðsluumhverfi? Væri ekki réttara að kalla þetta ríkisrekið hobbý.

Í þessu sambandi mætti benda á að fjármunum ríkisins, t.d. á vinsælum ferðamannaslóðum væri mun betur varið. Í framangreindu dæmi er ekki tekið fyrir skattalegt hagræði af því að vera með búrekstur, en því fylgja margskonar hlunnindi, skattahagræði o.s.frv.

Mikilvægi sauðfjárræktar sem dreifbýlismál er afar mismunandi, hún mikilvæg á sumum svæðum, en alls ekki á öðrum svæðum. Hversu raunhæft er þessi stefna til frambúðar?

En framlenging skyldbindingar heimilanna á þessu kerfi í 10 ár fer reglulega í gegnum Alþingi án teljandi umræðna. Hvernig má það vera að hægt sé að skuldbinda okkur um 100 milljarða án umræðu í Alþingi og án þess að bera það undir heimili landsins. Þetta er ekki borið undir neina hagmuna aðila í landinu, þar er reyndar ein undantekning það eru samtök bænda.

Hinn ríkisrekni hagsmunaaðili Bændasamtök Íslands er feykilega sterkur enda fær hver bóndi sem hlýtur núverandi styrki gríðarlegar upphæðir og vill ekki breytingar. Öllum umræðum um að breikka umræðuna er mætt af gríðarlegri hörku.

Gefið er út blað á kostnað skattborgaranna, sem dreift er um land allt þar sem birtur er linnulaus áróður fyrir þessu kerfi og barist gegn öllum breytingum, þar sem styaðreyndum er haldið til hlés eða snúið á haus.

Það á að skylda þessi samtök að birta reglulega upplýsingar um allar þessar greiðslur, þannig að heimilum landsins sér ljóst hvað Alþingi er að gera með þessum samþykktum. Þetta eru skattpeningar og að auki fer fram skattpíning á heimilum landsins í gegnum tollavernd.

Ef við skoðum hvernig styrkir skiptast á landsvæði. Beingreiðslur, t.d. 10 milljónir á bú (t.d. sauðfjárbú) og verður oft um 200 milljónir í einu sveitarfélagi, jafngildir 2000 milljónir á sveitafélagið á 10 árum. En staða sveitafélagsins breytist ekkert. En hún myndi gera það ef fjármagnið færi í uppbyggingu á nýjum tækifærum, sem ekki þyrfti að fjármagna á hverju ári frá grunni eins og gert er með þessu kerfi.

Ef við skoðum t.d. Snæfellsnes þá hverfist hagkerfið þar æ meira um ferðaþjónustu og skildar greinar. En gríðarlegir fjármunir fara til sauðfjárframleiðslu á svæðinu, en þarna eru nokkur söfn í skötulíki o.fl. sem ekki njóta neinna styrkja. Þjóðgarður í fjársvelti. Sundlaugar og ferðamannaaðstaða víða að grotna niður.

Er sjálfgert að fari t.d. 1000 milljónir á 10 árum í viðhaldi á sauðfjárbúunum við þessar aðstæður en lítið í annað? Sauðfjárbú sem þó berjast í bökkum og flestir vinna utan heimilis, t.d. í ferðaþjónustu til að halda búinu gangandi.

Allar tilraunir til að reifa þessi mál í stjórnmálaflokkum og stjórnsýslu er einhverskonar tabú. Þeir sem tjá sig um þessi mál eru hrópaðir niður sem öfgamenn.

Hver eru raunveruleg áhrif landbúnaðarstyrkja á matarverð eða matvælaöryggi í landinu? Er það ekki skondið eða allavega einkennilegt og segir reyndar mikið um þessa umræðu að matvælaöryggi er ákaft haldið fram í þessu samhengi, þegar Íslensk þjóð veiðir eina milljón tonna af fiski á ári.

Umgjörð landbúnaðarins þarfnast skoðunar við, en gegn því berjast gríðarlega sterk ríkisrekin hagsmunasamtök með öflugu málgagni sem fylgir „rétttrúnaðarstefnu“ í veigamiklum málaflokkum.

1 ummæli: