fimmtudagur, 16. maí 2013

Valdið fært til fólksins?




Ég var að ljúka við lestur greinar Vilhjálms Árnasonar í nýútkomum Skírni. Vor 2013. Nú er það svo að Vilhjálmur hefur verið meðal þeirra fræðimanna sem ég hef metið mikils þar sem hann hefur haldið sig vel til hlés við þann hóp, sem augljóslega hefur látið hagsmuni valdastéttarinnar hafa áhrif á opinberar skoðanir sínar.

Ég er hjartanlega sammála inngangi Vilhjálms, þar sem hann segir m.a. „Ég færi rök fyrir því að þeir veikleikar íslensks samfélags sem dregnir voru fram í rannsókn á orsökum bankahrunsins haldist í hendur við vissa útgáfu af frjálslyndri sýn á lýðræði.

Megináherslan hvílir á því að kjörnir fulltrúar hafi umboð til þess að fara með valdið innan ramma laganna og taki síðan dómi kjósenda í almennum kosningum. Aðrir þættir frjálslynds lýðræðis, svo sem hófsöm temprun valdsins og jafnvægi valdþátta, hafa verið vanræktir.

Ég leitast einnig við að sýna fram á að lýðræðisþróun eftir hrun beri viss einkenni lýðveldislíkansins Til marks um þetta hef ég stóraukna áherslu á beint lýðræði og þátttöku almennings, svo sem þjóðfundum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hugmyndum stjórnlagaráðs um beinna lýðræði.

Jafnframt hafa mikilvægir þættir lýðveldishugmynda um lýðræði, svo sem forsendur upplýstrar umræðu og þroskavænlegrar þátttöku, verið hunsaðar. Loks held ég því fram að sækja megi til rökræðulýðsræðis viðmið um það hvernig treysta mætti íslenska lýðræðismenningu og tek nokkur dæmi um tilraunir í þá veru sem taka mið af gagnrýni Vinnuhóps um siðferði og rannsóknarnefndar Alþingis.“
Vilhjálmur segir síðar „Það er mikill ljóður á íslensku lýðræði hve forsendur vandaðra stjórnvaldsákvarðana og upplýstrar umræðu hafa verið vandræktar.“

Og um Icesave, „En með niðurstöðunni vék þjóðin sér undan þeirri ábyrgð að leysa málið með sanngjörnum samningum og ákvað að stefna því í óvissu. Niðurstaðan ól á sundrungu því að allstór hluti þjóðarinnar vildi sýna þann manndóm og þá skynsamlegu varfærni að ljúka málinu með samningum. Þótt niðurstaða dómstóla hafi síðan fallið með okkur, þá breytir það ekki því að samningar voru bæði skynsamlegri og siðferðilega betri kostur á þeim tíma sem hann stóð þjóðinni til boða.“
(Skírnir vor 2013 bls 12-50)

Á þessum grunni lagði ég bjartsýnn af stað inn í greinina. En verð síðan fyrir miklum vonbrigðum eftir því sem ég kemst lengra inn í greinina. Vilhjálmur hefur ekkert um þjóðaratkvæðagreiðsluna að segja annað en það, að hann hefði viljað hafa spurningarnar öðruvísi; hann varðar ekkert um úrslitin og það í ritgerð um lýðræði.

Hann talar um „fræðasamfélagið“ eins og það sé næstum allt á öndverðum meiði við okkur meðlimi Stjórnlagaráðs, sem er í fyllsta máta ósatt. Það voru 5 prófessorar í ráðinu!! Vilhjálmur talar um ráðstefnur Háskólans um málið eins og þær séu betri mælikvarði á fræðasamfélagið, en allir ráðsliðarnir auk allra ráðgjafana sem störfuðu með Stjórnlagaráði. Þar má af mörgum nefna Eirík Tómasson, sem var opinber ráðgjafi ráðsins síðustu vikuna,

Steininn tekur úr þegar Vilhjálmur lýsir Svani Kristjánssyni sem einhvers konar utangarðsmanni fyrir að hafa andmælt fyrirlesurum. Þetta gerir Vilhjálmur án tillits til þess, að Guðrún Pétursdóttir, Njörður Njarðvík, Þorkell Helgason (svo ég nefni bara þrjá háskólamenn) og margir aðrir, sem voru á staðnum, hafa lýst hneykslan sinni á málflutningi Gunnars Helga Kristinssonar o.fl. frummælenda á þessum fundum.

Af hverju minnist Vilhjálmur ekki á sjónarmið heimsfrægra sérfræðina um störf Stjórnlagaráðs, þeirra Jon Elster né Tom Ginsburg. Ég hef lent í fjölmörgum viðtölum við erlenda fjölmiðlamenn um þá baráttu sem íslensk alþýða hefur barist, baráttu sem hefur vakið heimsathygli. Tveir erlendir fjölmiðlamenn komu í morgun til mín, og tóku langt viðtal um hvað væri eiginlega að gerast á Íslandi.

Landsmenn urðu vitni af því í beinni útsendingu síðustu tvo vetur hvernig ofbeldis og klækjastjórnmálum var beitt á Íslandi þar sem talsmenn tiltekinna afla drápu frumvarpið vegna andstöðu við auðlindir í þjóðareigu, jafnt vægi atkvæða o.fl. ákvæði. Aldrei komu fram málefnaleg rök eða ábendingar. Það er saga, sem þarf að segja og hún verður sögð, þó síðar verði.

Það sem við erum að upplifa nú er að það er hafinn undirbúningur réttlætingar á því að henda málinu í heilu lagi í ruslafötuna. Sé litið til vinnubragðanna á Alþingi með málþófinu og ofbeldi gegn lýðræðinu, mun sú réttlæting fara fram með markvissum hætti næstu mánuðina.

Lesandi góður ég spái því að áður en langt um líður verður skipuð nefnd til þess að skoða málið. Hún mun svo starfa í 10 ár og taka þá jóðsótt og þá mun fæðast pínulítil mús og greinarmerkjasetning og orðlagi verður uppfært í samræmi þá málvenju sem verður þá uppi. Þannig er lýðræðið á Íslandi, ég stóð í þeirri trú við upphaf greinarinnar að Vilhjálmur vildi breytingar þar á, en lagði Skírni sorgmæddur frá mér að loknum lestri greinar hans í gærkvöldi.
 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sat einmitt námskeið hjá þeim stórágæta kennara Vilhjálm Á um rökræðulýðræði þar sem Jon Elster var fyrirferðamikill! Viðurkenning fyrir ferlið að fá lof frá Elster.

Finnst Vilhjálmur alltof neikvæður gagnvart þessu stjórnarskrárferli öllu. Hann er t.d. að vanmeta stórlega þá staðreynd að búið er að ræða, nánast í þrot, nokkur lykilákvæði,t.d. auðlindaákvæðið. Lýðræðisleg ígrundun er þar ekkert vandamál, kalla þurfti á lýðræðislega niðurstöðu, sem var gert.

Ofbeldið gegn lýðræðinu og valdmisnotkunin er aðalvandamálið, en á því er H.Í. hikandi að taka og hefur verið frá því ég man eftir mér.

kv,
Þorvaldur Logason