sunnudagur, 28. júlí 2013

Framlenging vistarbandsins


Það er að renna upp fyrir þingmönnum nýrrar ríkisstjórnar að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir hafa haldið fram. Þeir voru í nánast hverjum einasta fréttatíma allt síðasta kjörtímabil þar sem þeir greindu frá alls konar töfralausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar og heimilanna.

Í skjóli þess náðu lýðskrumarar flugi og voru á fremstu bekkjum í öllum spjallþáttum og eru reyndar enn að á Bylgjunni.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar síðasta kjörtímabils tömdu sér einhver ógeðfelldustu vinnubrögð sem þekkst hafa á Alþingi, og drógu með því álit þingsins niður í eins stafs tölu. Í kosningabaráttunni lofuðu þeir umtalsverðri aukningu á útgjöldum ríkissjóðs, hækkun örorkubóta og lífeyrisgreiðslna, 250 milljarða niðurfellingu á skuldum heimilanna, skattalækkunum.

Það var talað þannig að það væri aldeilis til nóg af fjármunum til þessa, það væri einungis um að kenna fantaskap þáverandi ráðherra í garð þeim sem áttu í vandræðum að þeir deildu þessum fjármunum ekki út.

Nú er staðan sú að ef bent er á að fullyrðingar núverandi stjórnarþingmanna standist ekki neina skoðun, eru viðbrögðin þau að banna eigi fólki að tjá skoðanir sínar séu þær í einhverju andstæðar núverandi ríkisstjórn.

Samtímis er því haldið að okkur þeir séu talsmenn frjálslyndis og berjist gegn kommúnisma. En það eru þeir sem purrkunarlaust vilja taka upp Sovéskt vinnubrögð og eru ekkert að fara í felur með það.

Endurritum sögunnar var áberandi í tíð fyrri ríkisstjórna Framsóknar- og Sjálfstæðismanna og nú á að taka aftur upp þau vinnubrögð.

Ég hef bent á það hér í pistlum undanfarið, að það er búið að leggja línurnar í komandi kjarasamningum, það hefur hið opinbera gert í gegnum Kjararáð. Það er búið að leggja línurnar með skerðingarmörkin á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum og þá vitanlega atvinnuleysisbótum, þau loforð kosta um 9 milljarða. Ég þekki þessar tölur því ég var í nefnd sem vann að endurbótum á bótakerfinu. Nefndin skilaði inn sínum tillögum í vor.

Það er rétt sem formaður Öryrkjabandalagsins hefur sagt, það er fantaskapur vekja upp væntingar hjá fólki sem er í miklum vanda, ef ekki eigi að standa við þau loforð.

Við munum öll eftir þeim aðvörunum sem sendar voru til Íslands á árunum 2005 – 2008 og hvernig þáverandi ráðherrar með forseta landsins í broddi fylkingar virtu þær ekki viðlits og slógu um sig með yfirhlöðnum þjóðarrembingi.

Það sama er nú upp á teningnum. Núverandi ráðherrar segjast vita betur, og segja að þessar stofnanir verði að sanna sig fyrir Íslendingum. Minna má það nú ekki vera.

Öll vitum við hverjar afleiðingarnar urðu. Það er hægt að standa við loforðin miklu sem gefin voru í kosningabaráttunni, en allar líkur eru á að það muni kalla yfir okkur miklar gengisfellingar og óðaverbólgu.

Efnahagssérfræðingurinn Frosti Sigurjónsson segir að þeir sem hafa andstæðar skoðanir við hann eigi „að skilja skoðanir sínar eftir heima“. Forsætisráðherra kvartar undan loftárásum og fullyrðir að hann viti miklu betur en viðurkenndar erlendar stofnanir.

Þessir menn og skoðanabræður þeirra vilja einangrunarstefnu og ríghalda í krónuna, því hún hefur reynst valdastéttinni vel. Íslenska krónan er bein framlenging á Vistarbandinu, ófrelsisákvæði íslenskra launamanna og bindur þá í efnahagslegum þrælabúðum.

Þetta er afgreitt út af borðinu með því einu að þeir sem mæli gegn þessu séu eitthvert vinstra lið og ráðherrar halda glaðbeittir kenningum Jónasar frá Hriflu á lofti.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill eins og svo oft áður. En mér sýnist þú hafa misst af kjarnanum. Af hverju var svona mikilvægt fyrir B og D að komast að völdum? Jú það er vegna þess að það á eftir að skipta upp stórum mikilvægum eignum sem mikilvægar valdablokkir vilja eignast. T.d. Bönkunum. Hverjir áttu þá fyrir hrun? T.d. ættingjar fjármálaráðherra. Hvað þarf að gera til að þessir aðilar geti eignast þá aftur? Jú, það þarf að lækka gengið svo aflandspeningarnir þessa fólks dugi til að kaupa bankana. SDG og BB eru því einfaldlega að gera allt sem þeir geta til að lækka gengið enn frekar. Það er engin önnur skýring á því sem er að gerast.

Nafnlaus sagði...

glæsilegur (og réttur) pistill

Nafnlaus sagði...



"Íslenska krónan er bein framlenging á Vistarbandinu, ófrelsisákvæði íslenskra launamanna og bindur þá í efnahagslegum þrælabúðum."

Það hlýtur að vera krafa í komandi kjarasmningum að hér verði tekin upp alvöru alþjóðegur gjaldmiðill, sem geti fljótlega lækkað vaxtarkostnað heimila og fyrirtækja um helming, eins og er í öllum löndum í kringum okkur.

Það væri stærsta og varnlegasta kaupmáttaraukningin sem hægt er að fá - án launahækkana.