föstudagur, 28. febrúar 2014

Ráðherrar komnir upp að vegg


Ákafi Framsóknarmanna við að leggja fram tillögu um slit á viðræðum hefur vakið marga til umhugsunar. Hvers vegna lá þeim svona á? Hvers vegna ákveða þeir að setja samfélagið á annan endann í miðjum kjaraviðræðum sem eru gríðarlega mikilvægar þar sem tekist er á um að koma böndum á efnahagsvandann.

Ræður hér för örvæntingarfull tilraun til þess að beina sjónum almennings og fjölmiðla frá skelfilegum uppákomum Sigmundar Davíðs? Fyrst hjá Gísla Martein og síðar ræðu hans á Viðskiptaþingi þar sem hann sendi atvinnulífinu „fokkjú“ merki og gaf í skyn að hann ætlaði að reka Seðlabankastjóra fyrir að hafa reiknað út hvaða afleiðingar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar myndu hafa.

Í skýrslu Seðlabanka kom fram að ríkisstjórnin mun irústa þeim árangri sem efnahagslega atvinnulífið er að ná með yfirstandandi kjaraviðræðum. Reyndar var ekki hægt að skilja yfirlýsingar Sigmundur Davíðs í áramótaræðunni öðru vísi en svo að hann gæfi ekki neitt fyrir þau markmið og nú er hann rukkaður um efndir á þeim orðum í viðræðum við opinbera starfsmenn þar sem allt virðist stefna í harkaleg verkföll.

Skýrsla Hagfræðistofnunar var ríkisstjórninni einnig óhagstæð og ráðherrar urðu að tefla fram helstu útúrsnúningamönnum sínum í fréttaþáttum til þess sýna fram á að skýrslan boðaði slit á samningaviðræðum eins og fyrirhugað var þegar skýrlsan var pöntuð.

Allt þetta hefur snúist í höndum ráðherranna og þeir eru daglega staðnir að því að sýna þjóðinni forherta forsjárhyggju. Það berast best í því hvernig ráðherrarnir hafa snúa lýðræðinu á hvolf.

Samkvæmt skoðanakönnunum liggur fyrir að 82% þjóðarinnar vill fá að sjá niðurstöðu samninga og taka þá afstöðu. Vitanlega er ætlast til að þingmenn og ekki síst ráðherrar verndi þjóðarhag og leiti eftir eins hagstæðum samningum og kostur er. En þessu vilja ráðherrarnir ekki una og segjast vera óhæfir til þessara viðræðna.

Ef svo er þá segir lýðræðið að þeir eigi einfaldlega að segja af sér og kjósendur finna síðan mannskap til þess að vinna að þeim niðurstöðum sem þjóðin vill, og síðan ákveða hvort hún samþykka eða hafni.

Athafnir ráðherranna  einkennast af því að hafa safnað í kringum sig hópi sem hafa sömu skoðanir og þeir, í þannig umhverfi verður allt svo einfalt og auðvelt. Á síðasta kjörtímabili kom nær daglega fram á Alþingi harla einkennileg sýn stjórnarandstöðuþingmanna, nú ráðherra, á íslenskt samfélag. Þar voru á lofti töfralausnir á öllum vandamálum og leiddir fram snillingar sem reyndar gátu aldrei skýrt nákvæmlega hvað þeir áttu við. 

Nú þegar þeir eru komnir í valdastólanna þá reka þeir sig á hvern veggin á fætur öðrum, eins og kemur m.a. fram í framangreindum ummælum ráðherra í spjallþáttum og ræðum á þingum og ráðstefnum.

Fullyrt er að ESB-aðild sé einhliða framsal sjálfstæðis, og það sé að öllu leyti eðlis-óskylt aðild að Norðurlandaráði, Evrópuráði, EFTA, EES eða Nato. Sagt er að allir aðildarsinnar telji aðild lífsnauðsyn fyrir Íslendinga, en alls ekki frjálst val sjálfstæðrar þjóðar um hentuga framtíðarkosti.

Þá er óhikað fullyrt að allir aðildarsinnar á Íslandi séu ákafir stuðningsmenn hugmynda um aukna sameiningu innan ESB. Þetta er allt langt frá raunveruleikanum en virðist skila árangri í áróðrinum.

Fullyrt er síðan að aðildarsinnar hafi snúist gegn íslensku fullveldi og íslensku sjálfstæði, enda sé hér ekki um frjálst fjölþjóðasamstarf fullvalda ríkja að ræða. Samkvæmt þessu er sagt að vilji til frjálsrar viðskiptasamvinnu með áherslu á opið samfélag og samkeppnishæfni jaðri við föðurlandssvik.

Í fjölmiðlum er sagt að í ESB sé ekki aðgreint ríkisvald aðildarlanda, heldur allt í einu sameinuðu bákni. Ekki er minnt á að Brüssel-báknið er u.þ.b. 2% af vlf. ESB í heild eða minna. Þvert á móti eru öll ríkisumsvif allra aðildarlanda tekin saman í eitt.

Hagsmunagæslu einstakra aðildarlanda er lýst einfaldlega sem fingri á sameiginlegum valdsarmi undir ráðstjórn ESB, jafnvel þótt þessi hagsmunagæsla sé stundum andstæð vilja stofnana ESB.

Forræði aðildarlanda í eigin málum og yfir stofnunum ESB er ekki lýst sem sterkri stöðu þjóðríkjanna, heldur heitir þetta ,,lýðræðisvandi ESB". Þar sem tryggt er að embættismenn ESB fá ekki völd ríkis, fá ekki óskorað ríkisumboð, þá er það kallað ,,lýðræðishalli".

Öll stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin reka umsvifamikil viðskipti innan ESB svæðisins og eiga þar stór útgerðarfyrirtæki og þekkja því vel það umhverfi. Þau vilja hins vegar ekki missa valdið hér heima, þar sem þau geta náð fram hagstæðum geðþóttaákvörðunum og svo ekki sé talað um „hagstæðum“ gengisfellingum. Þeir geti rekið sýn fyrirtæki bæði íslenskt og "Evrópsk" í Evrum en greitt laun í krónum.

Nú er svo komið að ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að horfast í augu við þá staðreynd að við búum í lýðræðisríki og hún verður að víkja til hliðar hagsmunum fárra. Ráðherrar eiga ekki að komast upp með að velja á milli hvenær þeir fara að vilja þjóðarinnar og hvenær ekki. 

3 ummæli:

spritti sagði...

Þetta er náttúrulega bilun

Nafnlaus sagði...

heyr heyr!!

Það er ótrúlegt að horfa uppá þingmenn, kjörna fulltrúa landsins, gefa fokkjú merki framan í þjóðina eftir að hafa komist til valda á röngum forsendum!

Unknown sagði...

Er mögulegt að viðræðuslitin séu skilyrði lánveitenda td. Kínverja?
Mín skoðun er að ráðamenn hafi samið um risa galdmiðlaskiftasamnig og að skilyrðin hafi verið:1. Bakdyramegin inn í norðurslóðaráðið. 2. Aðgangur að Drekasvæðinu. 3. Slit á ESB viðræðum. Eða hvað lá á að slíta viðræðum?