fimmtudagur, 15. apríl 2010

Afneitun

Stjórnmálamenn ætla sér ekki að axla ábyrgð á gerðum frekar enn fyrri daginn. Svo ótrúlegt sem það er nú þá virðist það vera rétt sem margoft hefur verið bent á Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei fara niður fyrir 32% fylgi, sama á hverju gengur. Þetta kom mjög glögglega fram í skoðanakönnum þar sem 40% svarenda sögðust ekki vilja svara og 40% þeirra sem svöruðu sögðust myndu styðja Sjálfstæðisflokkinn, eða með öðrum orðum þessui umræddu 32%.

Þó svo helmingur þingliðs Sjálfstæðismanna sé bendlaður við allskonar ósóma í gríðarlegum styrkjum og lánum sem gufa upp, svo ekki sé talað um vafninga í braski með tryggingarsjóði auk þess að vera höfundar að kollsteypu íslensks efnahagslífs, þá víkja þeir sér undan allri ábyrgð halda því fram að það sé Bretum, Hollendingum og öðrum óvinum Íslands að kenna hvernig komið sé fyrir okkur.

Geir H. Haarde heldur sig við skýringar sem Valhöll útbjó á sínum tíma um að þetta hafi verið gölluðu regluverki Evrópusambandsins og bönkunum að kenna. Skýrslan segir: (5. bindi, bls. 38-39) ,,Ekki var tekið tillit við innleiðingu reglna, til sérstakra aðstæðna á Íslandi, t.d. hættu á nánum hagsmunatengslum og aukinnar áhættu og hagsmunaárekstra með samþjöppun eignarhalds."

„Í öllum atriðum voru reglur rýmkaðar og athafnafrelsi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana ESB um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES samningsins að auka starfsheimildir lánastofnana á þennan hátt“

,,Í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum voru starfsheimildir íslenskra lánastofnana og þar með fjármálafyrirtækja rýmkaðar verulega. Þetta var gert samhliða því að tilskipanir Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn voru innleiddar í íslenskan rétt en þær tilskipanir fólu almennt í sér lágmarkssamræmingu á tilteknum atriðum sem snertu stofnun og rekstur lánastofnana ásamt meginreglunni um gagnkvæma viðurkenningu. Tilskipanirnar bönnuðu hins vegar aðildarríkjunum ekki að viðhalda eða setja sér strangari reglur en þar var kveðið á um gagnvart lánastofnunum í viðkomandi heimaríki enda væru þá uppfyllt ákveðin meginsjónarmið sem reglur Evrópusambandsins og EES-samningsins gera kröfu um. Í úttekt sem unnin var fyrir rannsóknarnefndina um innleiðingu gerða samkvæmt EES-samningnum á sviði fjármálaþjónustu í íslenskan rétt, og birt er sem viðauki 6 með rafrænni útgáfu skýrslunnar, kemur fram að hér á landi var almennt ekki valin sú leið að nota það svigrúm sem leiðir af gerðunum, þ.m.t. tilskipunum, til setja strangari reglur um starfsheimildir fjármálafyrirtækja. Ljóst er af skýringum sem fram komu á Alþingi þegar framangreindar breytingar voru gerðar á lögum að þar réðu fyrst og fremst sjónarmið um að bæta samkeppnisstöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna á Evrópska efnahagssvæðinu og skapa þannig einsleitni og gagnkvæm starfsskilyrði fyrir fjármálafyrirtæki. EES-samningurinn opnaði erlendum fyrirtækjum leið til að bjóða upp á fjármálaþjónustu hér á landi og íslensku fyrirtækin gátu hafið starfsemi í aðildarríkjum samningsins, t.d. með stofnun útibúa."

Ennfremur segir: ,,Það var hluti af hinni pólitísku stefnumörkun stjórnvalda um það hvaða lagaumhverfi þau vildu búa innlendum lánastofnunum innan þess ramma sem reglur Evrópusambandsins og EES-samningsins settu."

Það hefur alltaf legið fyrir að íslensk stjórnvöld höfðu fullar heimildir til þess að hafa mun virkara eftirlit með fjármálastofnunum og þeim aðgerðum sem þau sjálf stóðu fyrir! Regluverk ESB var því ekki hindrun í þeim efnum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eftir því sem ég eldist verður mér sífellt ljósara hversu undarlegu samfélagi við búum í. Nú er það hins vegar komið þannig að ég og mín fjölskylda erum á leið úr landi..

Nafnlaus sagði...

„Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Styrmir Gunnarsson

Bjarki Guðlaugsson sagði...

ESB eða aðild okkar að EES hafði ekkert með hrunið að gera, það er bara þægileg afsökun sem sjálfstæðisgrýlurnar og frammsóknarlúðarnir vilja skella skuldinni á í áróðursskyni. Við þurfum meiri samvinnu við Evrópu og strangara regluverk til að binda enda á einkavinavæðinguna sem hefur einkennt Íslandi síðustu 50 árin. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að við þegnar þessa lands ættum að gera þá kröfu að innleitt verði svipað fyrirbæri og FDR ætlaði að innleiða í USA árið 1945 og nefnist The Second Bill of Rights með viðbótum um að einstaklingurinn sé varinn fyrir okri fjármálafyrirtækja þ.e. okurvöxtum, verðbótum og öðru svindli.

Nafnlaus sagði...

Eitt af því sem fór úrskeiðis var áhættustjórnun á öllum stigum - innan banka og fyrirtækja - afleiðingar verða tap eigenda og viðkskiptavina.

Áhættustjórnun fór einnig úrskeiðis innan seðalabanka og fjármálaeftirlits - afleiðing þess er miklu mun alvarlegri - þ.e. kerfisafleiðingar - skelfilegt fall krónunnar og fall og um leið kerfisbundin eignaupptaka hjá fjölda fyrirtækja og heimila vegna falls krónunnar, einhver sú mesta í hagsögunni,,,,,

Ef það var þekkt að einhverja slíkar hættur væru framundan - af hverju gaf seðlabankinn ekki út viðvörun, þegar fljótandi gegni var tekið upp 2001,,,,

Ekkert slíkt fall átti sér stað innan landa með stóra gjaldmiðla eins og evrunnar - s.s. innan Finnalnds of Írlands.

Mistök mismunandi aðila hafa mismunandi afleiðingar.

Villi sagði...

Það er rétt sem Bjarki segir og reyndar Steingrímur í Kastljósinu. EES regluverk hafði ekkert með þetta að gera. Það er enginn múr svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann. Þetta snýst um heiðarleika. Óheiðarlegt fólk finnur leið sama hvaða reglur eða girðingar þú setur upp. Nú vilja menn hengja Jóhönnu líka sennilega heiðarlegustu manneskjuna á Alþingi. Við höfum alltaf haft í bland Ráðherra sem eru valdir til þess vegna dugnaðar og ástríðu til ákveðinna málaflokka. Við gætum nefnt Vilhjálm frá Brekku, Jón Bjarnason,Björn Bjarnason ofl. Undanfarna áratugi höfum við svo verið með leiðtoga stjórnir. Það þýðir að menn sinna sínum málaflokki og treysta sínum leiðtoga til þess sem honum heyrir. Þegar Forsætisráðherra er hagfræðimenntaður hljóta hinir að treysta honum meir en ella. Nú dæmum við grimmt stjórnir (leiðtoga) aftur í tímann. Eigum við þá í leiðinni að svipta alla fagráðherra sem störfuðu í viðkomandi stjórnum orðspori þeirra? Verður það þá til þess að í framtíðinni verður td. Sjávarútvegsráðherra að ráða hagfræðing til að fylgjast með peningastefnunni, alþjóðasérfræðing til að fylgjast með utanríkismálunum osfrv.?
Ef við förum í hóp saman veljum við gjarnan leiðtoga, og þá veljum við einhvern sem við treystum. Svo fundum við reglulega og hann setur okkur inn í framgang mála og við sem treystum honum samþykkjum hans túlkun osfrv.Ef aftur hrunið hefði verið á hennar sviði td. Bankar og Félagsmálaráðuneytið hefðu byggt 100.000 félagsleg einbýlishús og sett okkur á hausinn þá hefði hún þurft að víkja.
Mér finnst hálf-aulalegt þegar liðsmenn Hreyfingarinnar koma með yfirlýsingu og dómsuppkvaðningu í anda franskrar eða amerískrar yfirlýsingar frá frelsisstríðatímum þeirra fyrir ca 200 árum. Verandi á Alþingi eiga þau að sýna þingmönnum þá virðingu að leyfa réttvísinni að hafa sinn gang. Populismi af lægstu sort. Hannað fyrir sögubækur.