mánudagur, 26. apríl 2010

Bullkenningar efnahagshelstefnunar

Ólafur Stephensen ritstjóri er í góðum leiðara í dag á sömu götum og ég hef verið í pistlum hvað varðar þrætubókarlistina sem stuðningsmenn efnahagshelstefnunnar höfðu tamið sér. Hann fjallar um hvernig heimatilbúin rök sem nýtt voru steinliggi núna eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út.

Hann nefnir kenninguna um að íslenska bankakerfið hafi ekki verið í neitt sérstaklega vondum málum haustið 2008, það hafi bara ekki staðist hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Ljóst er að þetta er út hött, stjórnvöld hefðu þurft að grípa í taumana strax árið 2006 en gerðu það ekki. Vandi bankanna var heimatilbúinn vandi.

Svo er það umsáturskenningin um að stjórnvöld í nágrannaríkjunum hafi ekki viljað koma Íslandi til bjargar þegar mest á reið og þannig átt sinn þátt í að keyra hagkerfið í kaf. Margoft hefur komið fram að þetta er ekki rétt. Nágrannaríkin voru reiðubúin að hjálpa, en settu það sem skilyrði að íslensk stjórnvöld gripu til aðgerða. Um þetta hef ég margoft fjallað í pistlum allt frá haustinu 2007. Íslensk stjórnvöld nutu lítils trausts á alþjóðlegum vettvangi. Þessi vandi var heimatilbúinn.

Svo er það dellan um gallana á regluverki EES sem áttu að valdið því að stjórnvöld gátu ekki getað stöðvað bankana af. Þetta skýtur rannsóknarnefndin skipulega í kaf; sýnir fram á að íslensk stjórnvöld höfðu svigrúm til að setja sérstakar reglur sem hefðu dregið úr svigrúmi og áhættu bankanna og tekið mið af sérstökum aðstæðum hér á landi, til dæmis varðandi hagsmunatengsl og þröngt eignarhald.

Rannsóknarskýrslan er góð , en það er svo spurning hvort almenningur mun láta stjórnmálamenn komast upp að sökkva henni í málþófi og þrætubókarlist, í stað þess að ræða um hrun bankakerfisins á grundvelli staðreynda.

Hrunið var ekki vegna andvaraleysis og skorts á aðgæslu. Það er ekki nægilegt að ofdrykkjumaður lofi bót og betrun og ætli að fara varlegar og drekka bara bjór á föstudags- og laugardagskvöldum. Sú efnahagsstefna sem hér var innleidd leiddi ekki til aðgerðaleysis. Hún var innleidd af fullum krafti og stjórnmálamenn voru virkir þátttakendur, eins og svo glögglega kemur fram í skýrslunni.

Efnahagshelstefnan hófst með kvótakerfinu, áframhaldið var einkavæðing fyrirtækja í eigu almennings og ofsafengin hægri stefna. Allt rökstutt með bullkenningum sem nú standa einar eftir og upplýsa okkur um hversu vanhæfir stjórnmálamenn hafi verið við völd hér undanfarna áratugi.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég mæli eindregið með eftirfarandi

http://www.youtube.com/watch?v=AoD8umlAOFs

og svo hinu magnaða vísindariti

Hannes Hólmsteinn Gissurarsson,
Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi,
Nýja bókafélagið (2001)

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Glimrandi pistill - takk.
Lárus

Nafnlaus sagði...

Hverju orði sannarra!

Nafnlaus sagði...

þannig að þú ert á þeirri skoðun að betra væri að vera með ríkisstyrktan úreldingarsjóð og alla sjóðina sem útgerðir og fiskvinnslur þurftu að sækja í til að halda sér á floti hér í den?

vertu ekki með þetta kjaftæði að kenna sjávarútveginum um. í hvert skipti sem ljósin fara að beinast að því hversu fullir bankarnir voru af þjófum að stjórnmálamenn sátu hjá því þeir þorðu ekki í bankamennina (sjá afleiðingar fjölmiðlafrumvarpsins þar sem voldugasti stjórnmálamaður landsins hroklaðist frá) þá komið þið ESB bloggararnir sem allir dáðu útrásardrengina og reynið að kenna sjávarútveginum um.

íslenski sjávarútvegurinn skuldar varla helmingin af því sem einn maður og pabbi hans skulda. 4 stór sjávarútvegsfyrirtæki í einni stærstu höfn landsins skulda ekki einu sinni jafn mikið og mamma þess sama manns. og hvort telur nú meira í hruninu? 600 milljarðar sem enn er verið að greiða af eða 1000 milljarðar sem þarf að afskrifa vegna þess að engin greiðir af þeim?

Guðmundur sagði...

eitt af því leiðinlegasta í þessum bloggbransa er þegar menn virðist vera ómögulegt að taka þátt í umræðu án þess að byrja ætíð að gera öðrum upp skoðanir og skjóta síðan út frá þeim heimatilbúna grunni