föstudagur, 2. apríl 2010

Fallega pissar Brúnka

Ég hef oft velt fyrir mér málflutning fyrrverandi stjórnarliða hér í pistlum. Hvernig þeim virðist vera um megn að horfast í augu við afleiðingar þeirrar efnahags- og peningastefnu sem þeir fylgdu. Þessi hópur bjó sér umhverfi með því má að taka skýrslu erlends aðila um spillingu og nýta sér hana til stuðnings við fullyrðingar á borð við að hér þekktist engin spilling. Þó svo hinir erlendu skýrsluhöfundar bentu ítrekað á að skýrslan væri marklaus hvað varðar spillingu á Íslandi.

Einnig má líta til skýrslu ríkisskipaðrar nefndar á vegum forsætisráðuneytis í marz 2008 sem fékk það verkefni að skilgreina þjóðareinkenni Íslendinga og koma með tillögur um hvernig mætti nota þau einkenni til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar.

Skýrsluhöfundar notuðu þar kunnugleg stef eins hinn séríslenska kraft, sem búi í þjóðinni og leggi grunn að kröftugu viðskiptalífi. Hinn náttúrulega kraft sem greini þjóðina frá öðrum þjóðum og hafi skilað okkur í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins. Ísland sé best í heimi, land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkist.

Þeir fjalla um hin náttúrulega kraft sem einkenni það ferskasta í menningu og einstakan hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallist á við hrynjanda rímna og Íslendingasafna. Mikilvægasti menningararfur sé hin íslenska tunga lifi í máli þjóðarinnar og Bjartur í Sumarhúsum búi í hverjum manni á Íslandi.

Já minna má það nú ekki vera, þessi þjóðarrembingur og einangrunarstefna hefur einkennt allan málflutning fyrrveranda stjórnarliða. Nákvæmlega það sem einkennir allar athafnir Bjarts, en stjórnmálamenn virðast ekki átta sig á því þegar þeir vísa til karlsins, en eru án þess að átta sig á því að lýsa eigin stefnu.

Ímyndarskýrslan endurspeglar þá ímynd sem þáverandi leiðtogar landsins vildu að íslenskir kjósendur og erlendar þjóðir aðrir hefðum um Ísland. Ritskoðuð útgáfa um glansmynd. En það er ekki langur vegur milli oflofs og háðs. Grunnhygginnar sjálfumgleði byggðri á efnishyggju.

Í þessu sambandi má rifja upp nokkur dæmi um séríslenskar athafnir eins og t.d. þegar Íslendingar drápu síðasta geirfuglaparið 1844. Atferli sem íslendingar vilja ekki láta bendla sig við, stuttu leiðina að skjótum gróða, eins og t.d. austfirðingar sem átu útsæðið. Þessi atburður gróf því um sig í samvisku þjóðarinnar. Þar til fréttist af uppboð á erlendum uppstoppuðum geirfugli.

Söfnun hófst meðal íslendinga og andvirði góðrar 3ja herbergja íbúðar safnaðist og viti menn fuglinn var sleginn íslendingum á uppboðinu á nákvæmlega sömu upphæð, og samviska þjóðarinnar fékk fullnægingu. Sömu lýsingar eiga við þegar fjallað er um sparifé almennings í nágrannlöndum, og skattfé sem var flutt hingað því yfirskyni íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar, en réttlættist skyndilega í ræðum og fjölmiðlum þegar 9 menn voru sendir til Haiti.

Að líkja sjálfum sér og öðrum íslendingum við Bjart í Sumarhúsum eins allmargir stjórnmálamenn gera, er í raun niðurlæging. Halldór skrifaði Sjálfstætt fólk ekki til þess að lofsyngja frelsisneistann og manngæsku Bjarts í Sumarhúsum. Þvert á móti er bókin hörð árás á þrjósku hans og þvermóðsku.

Bjartur tróð sjálfsvirðingu allra sem næst honum stóðu í svaðið, ekki einungis manna heldur einnig skepna. Eftirminnilegasta lestraratvik mitt er þegar Halldór er lýsa meðferð hans á konum sínum og kúnni og fer með kálfinn til byggða. Sú lýsing vakti hjá mér fullkomna fyrirlitningu á þessari mannskepnu. Manns sem hugsaði aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín.

Það er góð samlíking sem Illugi bendir á í fantagóðum pistli sínum um Bjart í Sumarhúsum. Illugi bendir réttilega á ef við vildum líkja Bjarti við eitthvað í samtíma okkar væru það útrásarvíkingunum og hinum pólitísku klappstýrum þeirra. Útrásavíkingarnir vildi vera sjálfstæðir. Þeir notuðu sama siðgæði og Bjartur og fullkomið samræmi er á milli húss Bjarts og fokheldum 600 ferm. sumarhúsum víkinganna í Borgarfirði og Fljótshlíð.

Útrás Bjarts með húsbyggingunni misráðnu, þá fór allt út um þúfur. Hann kenndi heimsstyrjöldinni um, rétt eins og útrásarvíkingar nútímans ásamt fyrrv. stjórnarliðum kenna heimskreppunni um sínar ófarir og geyma skýrsluna góðu á náttborðinu.

Miklir menn vorum við Hrólfur minn ...... og fallega pissar Brúnka.”

Ég vísa á frábæra grein Auðar A. Ólafsdóttir; Ímynd Íslands, saga, menningararfurinn og hin ýmsu sjálf Íslnedingsins í Sögu tímariti Sögufélagsins 2008, sem frekara ítarefni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott innlegg
Lárus

Nafnlaus sagði...

Með því betra hjá þér - takk