þriðjudagur, 6. apríl 2010

Nýr þjóðfélagssáttmáli

Það sem hefur einkennt íslensk stjórnmál frá stjórnmálum nágrannaríkja er ráðherraræði tengt valdahópum, sem nýta stöðuna sína til þess að tryggja sér hagsmuni umfram aðra. Sé litið til þess hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi í samanburði við nágrannaríki okkar má rekja það til gallaðrar stjórnskipunar reistri á hraðsoðinni og óendurskoðaðri stjórnarskrá, grundvallaðri á dönsku konungsríki.

Í Hruninu kom í ljós að ýmsar ríkistofnarnir höfðu ekki gætt öryggis landsins, Margt hafði farið úrskeiðis á vettvangi stjórnmála þar sem ráðherraræði var við völd samofið valdahópum. Þingmenn hafa vikið sér undan því að halda stjórnlagaþing. Enn er ekki hafin vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar til þess að eignast öruggt og gott ríki. Við erum með ríkisbákn sem hæfir miklu stærri þjóð. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Við höfum ekki unnið með sama hætti að endurskoðun stjórnskipunnar og stjórnarskrárinnar og nágrannaríki okkar hafa gert.

Í skjóli þess hafa valdahópar náð tökum á samfélaginu. Þetta hefur kallað á skipulagða endursögn á sögunni sem er þá hluti af sátt við samfélagið. Þar má minna á endurritun sögu síðustu aldar hjá málpípum stjórnvalda þar sem þeim voru eignaðar allar framfarir, barátta almennings hefði hvergi komið þar nærri. Þessir þættir voru sýndir í sjónvarpi allra landsmanna á besta tíma og þáverandi menntamálaráðherra keypti þá fyrir alla grunnskóla landsins.

Ríkinu er stjórnað af valdahópum sem eru sífellt að skipta sér af okkur, en um leið að draga til hagsmuni frá einstaklingunum. Valdahópum sem sífellt eru að maka krókinn á kostnað almennings. Hér má t.d. benda þær hugmyndir sem stjórnmálamenn gera sér um vald sitt til þess að ráðskast með sparifé launamanna sem er í lífeyrissjóðunum, til þess að tryggja stöðu ofvaxins stjórnkerfis og koma sér undan því að takast á við þann vanda. Þetta mun leiða til þess að lífeyrisskerfið mun skaðast umtalsvert og fólk mun hætta að leggja peninga í þetta sparnaðarform sakir þess að ekki er hægt að treysta þingmönnum fyrir því að falla í þessa freistingu.

Ríkið á tryggja grundvallaröryggi allra landsmanna, en hefur ekki gert það því stórir hópar eru mjög ósáttir. Stjórnvöld þurfa að snúa við blaðinu og hafa frumkvæði að því að stuðla að sátt við okkur sjálf og tryggja að við getum verið sjálfstæð þjóð. Við höfum lagt alltof mikið upp úr veraldargæðum, það sé grunnurinn að öllu. Það er margt í félagslegum veruleika okkar sem hefur mikið meira gildi. Þjóðfélagssáttmálinn á að vera ofinn úr hugmyndum sem tengjast reglum og siðum sem taka mið af einstaklingum, fjölskyldum og félagslegum veruleika.

5 ummæli:

Gunnlaugur sagði...

Sæll Guðmundur.

Það er rétt sem þú segir um ráðherraræði og ofvaxið ríkisbákn.

Varðandi stjórnarskrána þá langar mig að koma minni skoðun á framfæri. Ég get á engan hátt sætt mig við það að stjórnmálamenn sjái um endurskoðun hennar, enda er hún einskonar starfslýsing þeirra við okkur almenning, enn ekki fáum við að skrifa okkar starfslýsingu, nema þá að við séum með eigin rekstur.

Þú segir svo "Ríkinu er stjórnað af valdahópum sem eru sífellt að skipta sér af okkur, en um leið að draga til hagsmuni frá einstaklingunum", sem er rétt. Hvernig er þessu svo farið í lífeyrissjóðunum? Gætir þú bent mér á hvar ég get fundið/séð ársskýrslur og reikninga Rafiðnaðarsambandsins og lífeyrissjóðsins sem félagsmenn þess greiða í?

Svo verður engin sátt í þjóðfélaginu fyrr en það hefur verið komið til móts við almenning, hvað varðar skuldir þeirra sem hafa vaxið um tugi ef ekki hundruði prósenta vegna verðbólgu og lágs gengis krónunnar. Fjármagnseigendur fengu allt sitt bætt með tryggingu á öllum innistæðum í bönkunum, óháð upphæð, með neyðarlögunum, enn almenningur greiðir fyrir það með hækkaðri skattbyrgði, skerðingu á þjónustu í velferðakerfinu, skólakerfinu og á fleiri stöðum. En við erum bara rétt farinn að finna fyrir niðurskurðinum og öllum þeim félagslegu vandamálunum sem munu fylgja honum.

Svo má ég til með að segja að mér finnst verkalýðsfélögin alveg hafa brugðist skyldu sinni gagnvart sínum umbjóðendum. Það er alveg kristaltært að þessi títt ræddi stöðuleikasáttmáli er ekkert nema yfirpot til að tryggja óbreytt ástand hjá ASÍ, SA og ríkinu. Enn á meðan blæðir almenningur.

Mbk. Gunnlaugur

Guðmundur sagði...

Árskýrslur er á heimasíðum, allavega hjá okkur og lífeyrissjóðnum.

Stöðugleikasáttmálinn fékk ítarlega umfjöllum hjá okkur rafiðnaðarmönnum og var talinn geta orðið að góðri undirstöðu fyrir uppgangi. Um þetta hefur verið fjallað mörgum sinnum og mjög ítarlega m.a. hér á þessari síðu.

Einkennilegt að aldrei sé hægt að fjalla um mál án þess að það séu verið að henda upp einhverjum smjörklípum um hvort eitthvað sé ekki í lagi hjá verkalýðsfélögum.

Ertu í verkalýðsfélagi? Ef svo þá þekkir þú vel hvernig farið er yfir ársreikninga og allt sem þeim kemur, við höfum allavea ekki orðið varir neinar aths. í þessa veru sem þú ert að gefa þér.

Gunnlaugur sagði...

Sæll Guðmundur.

Já, ég er í verkalýðsfélagi. Reyndar er ég í Rafiðnaðarsambandinu.

Ég er ekki að reyna að vera með neinar smjörklípur með því að spyrja út í reikninga lífeyrissjóðsins, þetta eru jú mínir peningar. Ekki satt? Þó svo ég hafi spurt hvar ég gæti nálgast þessa reikninga var ég ekki að gefa í skyn að einhver spilling sé í gangi hjá sjóðnum.

Það hefur því miður verið þannig rætt um eignir sjóðanna í fjölmiðlum, að maður satt best að segja veit ekki hverju maður á að trúa. Stundum er því haldið fram að sjóðirnir séu hálf tómir, svo koma tilkynningar að eignirnar hafi hækkað og séu að nálgast 1.700 miljarða eða eitthvað því um líkt. Á eftir allt sem á undan er gengið, finnst þér skrítið að maður sé með efasemdir?

Svo kalla ég það ekki mikinn stöðuleika að þurfa að sæta 10% launalækkun á meðan allar nauðsynjar hækka sem enginn væri morgundagurinn. Á meðan er ASÍ stöðugt með einhverjar innantómar yfirlýsingar um allt og ekkert, enn því miður hlustar enginn, enda er Gylfi álitinn máttlaus leiðtogi og handberi ríkisstjórnarinnar.

Mbk. Gunnlaugur

Guðmundur sagði...

Sæll Gunnlaugur
Var út á landi seinni partinn í gær fram að miðnætti vegna framkvæmda sambandsins og var ekki í aðstöðu til þess að fylgjast með aths. fyrr en nú.

En eins og áður hefur komið fram nokkrum sinnum þá setti ég hömlur á birtingu aths. hér vegna þess að ég var ósáttur við að nafnlausir menn settu hér inn í löngum röðum svívirðingar og órökstuddar fullyrðingar um allt og alla, oft eitthvað sem kom viðkomandi pistli ekkert við.

Svo sem í lagi ef menn eru skjóta á mig vegna einhvers sem ég er að setja fram í viðkomandi pistli og ég hef birt það hiklaust, en ég er ekki sáttur við ef verið að nýta þennan stað, sem ég ritstýri og ber ábyrgð á, til þess að skafa mannorðið af öðru fólki.

Átta mig ekki á hvað álit þitt á Gylfa hafi með efni pistilsins að gera.

Félagsmenn fá á ársfundum lífeyrissjóðs okkar allar upplýsingar. Á hverjum einasta félgsfundi er fjallað um mál lífeyrissjóðsins og stjórnarmenn auk framkv.stj. þar og spurðir spjörunum úr. Ársskýrslur á heimasíðum okkar auk fundargerða miðstjórnar og búið að vera um árabil. Miðstjórn með reglulega fundi þar sem ég verð að gera grein fyrir öllum rekstri og fá samþykkt fyrir rekstraráætlunum, sem einnig eru bornar upp á trúnaðarráðstefnum okkar.

Þess vegna undrast ég spurningar þína um RSÍ og Stafi.

Annars allt í góðu
GG

Gunnlaugur sagði...

Sæll Guðmundur.

Ég er ekki að skjóta á þig. Enda ert þú ekki verkalýðsfélagið.

Mér þætti vænt um að þú svara þessum tveimur spurningum sem ég beindi til þín í síðasta pósti mínum.

1) Ég er ekki að reyna að vera með neinar smjörklípur með því að spyrja út í reikninga lífeyrissjóðsins, þetta eru jú mínir peningar. Ekki satt?

2) Það hefur því miður verið þannig rætt um eignir sjóðanna í fjölmiðlum, að maður satt best að segja veit ekki hverju maður á að trúa. Stundum er því haldið fram að sjóðirnir séu hálf tómir, svo koma tilkynningar að eignirnar hafi hækkað og séu að nálgast 1.700 miljarða eða eitthvað því um líkt. Á eftir allt sem á undan er gengið, finnst þér skrítið að maður sé með efasemdir?

Hvað álit mitt á Gylfa varðar eins og þú segir, þá er hann talsmaður stórs hluta launþega landsins, þar á meðal mín, og sem slíkur hefur hann brugðist. En RSÍ er aðili að ASÍ, því minist ég á hann, þó svo að hann tengist pistlinum ekki beint.

Svo átta ég mig ekki á því hvað lífeyrissjóðirnir ætla með að aðstoða við að koma á auknum álögum á almenning með fjármögnun vega hér og þar um landið. Því ætti ég að sætta mig við það, sem greiðandi í lífeyrissjóðinn, að þeir peningar sem ég legg í hann séu svo aftur notaðir til að hafa af mér enn meiri pening?

Mbk. Gunnlaugur