mánudagur, 12. apríl 2010

Skýrslan til fyrirmyndar

Skýrslan var mun ítarlegri og ákveðnari í efnistökum en ég átti von á. Hún styður margt af því sem fjallað hefur um hér á þessu bloggi og reyndar ekkert sem kemur mér á óvart. Einnig er Skýrslan í fullu samræmi við þær aðvaranir sem settar voru fram af verkalýðshreyfingunni m.a. gagnvart efnahags- og peningastefnu og ekki síður skattalækkunum.

Hér vísa ég til fjölmargra pistla sem eru hér á þessari síðu og voru settir inn veturinn 2007 – 2008.

Ég átti samtal við góða æskuvinkonu mína í gær. Hún færði í tal færslur mínar hér á Eyjunni og sagði m.a. þú ert svakalega rótækur Guðmundur og svo harður gagnvart ákveðnum mönnum.

Þessi góða kona er, eins reyndar allmargir í föðurfjölskyldu minni af gamalgrónum Sjálfstæðisættum. Margir úr þeirri ætt hafa haft orð á því sama við mig undanfarin misseri.

Ég svaraði frænku minni, að ég væri henni ekki sammála, allt sem ég hefði sagt um tiltekna menn væri sett fram með rökum. Það væri frekar að ég hefði verið of linmæltur. Sé litið til Skýrslunnar þá verð ég eiginlega að biðjast afsökunar á því að hafa ekki verið enn harðorðari en ég hef verið.

Nú verður fróðlegt hvort sömu aðilar og hafa splundrað allir umræðu hér á landi, haldi áfram og takist að skella fram nýjum Smjörklípum. Einnig verður fróðlegt hvort einhverjir fyrrv. stjórnarþingmenn og ráðherrar verði ekki við óskum almennings og taki pokann sinn.

Einnig verður forvitnilegt að sjá hvernig Reykvíkingar taki á borgarstjórnarmeirihlutanum sem sannarlega var á bólakafi í REI.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það verður verkefni næstu vikna að lesa yfir úrdátt úr skýrslunni. Mér finnst hins vegar á fyrstu metrunum að Rannsóknarnefndin hafi unnið afrek.
Ekki einingis virðist vinnan vönduð og til þess fallin að setja fram upplýsingagrunn sem vantaði um hrunið, heldur er það gert skýrt og tæpitungulaust og að því virðist að fagmennsku.
Þegar skýrslan var kynnt fannst mér að þetta væri „mitt fólk“ sem er að „vinna fyrir mig“, langt er síðan mér hefur fundist það.
Skömmin er hjá stjórnmálamönnunum og viðskipta-glönnunum.
Nú skiptir framhaldið öllu máli, siðferði verður ekki komið á með lögum á alþingi, það gæti t.d. byrjað hjá þingmönnum sem hætti að þjóna einstaka fyrirtækjum byggðalögum eða þröngum hagsmunum.

OD