laugardagur, 24. apríl 2010

Úrvalslið þrætubókarlistarinnar

Munið þið þau rök sem ráðherrar, þingmenn og starfsmenn þess þingflokks sem hér hefur ráðið ríkjum undanfarna viðhöfðu þegar Árni Mathiesen þáverandi ráðherra gekk fram hjá tillögum matsnefndar um hverjir væru hæfastir til þess að verða ráðnir héraðsdómarar? Sá málflutningur bar öll merki þeirrar ómerkilegu þrætubókarlistar sem sá þingflokkur hefur beitt í öllum sínum málflutning á undanförnum árum.

Þar má einnig minna á þrætur þeirra og útúrsnúninga í umræðum um breytingar á skattkerfinu, svo maður tali nú ekki um tryggingabótakerfinu. Eða aðdraganda Hrunsins, Icesave, já öll mál.

Hér er úrdráttur úr niðurstöðu Héraðsdóms : „Í hnotskurn er málið það að með skipan þess er fékk embættið er gengið þvert gegn vilja löggjafans, þ.e. að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdavaldsins.

Þetta var gert án þess að sá er fékk embættið hafi haft uppi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar. Þá tók það stefnda, Árna, mjög stuttan tíma, að undirbúa veitingu embættisins. Ekki aflaði hann frekari upplýsinga eða gagna. Í ljósi menntunar sinnar og starfsreynslu verður að telja að hann hafi ekki faglega þekkingu á störfum dómstólanna.

Við ákvörðun sína byggir hann á því að 4 ára starfsreynsla, sem aðstoðarmaður ráðherra, en lögfræðimenntun er ekki skilyrði fyrir því starfi, upphefji 35 ára starfsreynslu stefnanda sem öll tengist dómstólunum.

Þessi háttsemi stefnda, Árna, er órafjarri skyldum hans sem veitingarvaldshafa við skipun í dómaraembætti og eðlilegt að stefnandi höfði mál á hendur ráðherra persónulega. Er það mat dómsins að stefndi, Árni, eigi persónulega að standa straum af tildæmdum miskabótum. Hins vegar hefur stefndi, íslenska ríkið, byggt á því að það beri vinnuveitendaábyrgð á gerðum ráðherra. Dómurinn er bundinn af þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, og verður því stefndu gert að greiða stefnanda miskabætur óskipt

Árna Mathiesen og íslenska ríkið greiði stefnanda, Guðmundi Kristjánssyni, óskipt 3.500.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., samanber 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags og 1.000.000 kr. í málskostnað.“

4 ummæli:

Guðmundur sagði...

Það er ljóst að nokkrum líður ákaflega illa þessa dagana, þegar flett er ofan af ormagryfjunni. Ekki síst þegar fram kemur á hversu lágu plani að málflutningur þeirra hefur verið.

Ég ætla enn einu sinni að ítrekað Það sem stendur á forsíðu þessa bloggs, að þeir sem senda inn aths. haldi sig við umræðuefni viðkomandi pistils.

Persónulegar svívirðingar og rakalausar dylgjur um einstaklinga eru ekki birtar.

Og svo til viðbótar þá er ég ekki starfsmaður ASÍ, ég er eini starfsmaður rafiðnaðarsambandsins sem er kjörinn af félagsmönnum og einnig kjörinn af þeim til þess að sitja í miðstjórn ASÍ.

Í nýrri skoðanakönnun sem verður birt á næstunni ársfundi RSÍ kemur fram að einungis 15% félagsmanna er óánægður með starf sambandsins.

Nafnlaus sagði...

Það er allt á sömu bókina lært hjá gömlu forustu sjálfstæðisflokksins. Þegar DO var spurður af rannsóknarnefndinni hvort hann hefð verið að ráðskast með söluna á Landsbankanum og Búnaðarbankanum svarar hann úr í hött að honum sé kentum um flesta hluti hvort sem hann hafi komið nálægt þeim eða ekki.

Jóhannes Laxdal sagði...

Þetta er hið furðulegasta dómsmál. Og vekur upp spurningar um dómskerfið okkar. Allir sæmilega skynsamir menn sáu náttúrulega að um ólölega embættisfærslu var að ræða og það vakti furðu að aðrir hæfari umsækjendur létu þetta yfir sig ganga. Hvers vegna var stefnt tæpum 2 árum eftir að brotið var á stefnanda? Var það vegna "hræðslu" við valdakjarna Sjálfstæðismanna? Og ef þetta er ástæðan þarf þá ekki að skipta út öllum héraðs og hæstaréttardómurum landsins?
Ég tek það fram að þetta eru almennar vangaveltur enda nennti ég ekki að lesa dóminn

Nafnlaus sagði...

Þetta er einfaldlega rétt hjá þér!

Kveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson