föstudagur, 16. september 2011

Ábyrgðarlaust fólk

Eins og flestum landsmönnum er kunnugt um þá varð hér efnahagslegt Hrun haustið 2008, mun alvarlegra en í nágrannalöndum okkar. Helstu orsakir þessa Hruns er að þáverandi stjórnmálamenn ásamt Fjármálaeftirliti og stjórn Seðlabanka, ásamt reyndar forseta landsins, sem langar svo til þess að vera virkur í þessu reyndar án nokkurrar ábyrgðar, höfðu í engu sinnt aðvörunum margra, þar á meðal aðilum vinnumarkaðs um að það stefndi í alvarlega erfiðleika ef ekkert yrði að gert.

Nágrannaþjóðir okkar höfnuðu algjörlega að koma að því að koma landinu til hjálpar nema að settur yrði yfirfrakki á íslenska stjórnmálamenn, þ.e.a.s. AGS. Síðan lánuðu Norðurlandaþjóðirnar ásamt Pólverjum og AGS þá fjármuni á mjög góðum kjörum sem þurfti til þess að koma Íslandi á lappirnar aftur.

Reyndar undir háværum, ómaklegum og ómerkilegum ásökunum íslenskra stjórnmálamanna og forseta landsins um að þar færu helstu óvinir landsins vegna þess að þau höfðu ekki viljað gera þetta nema með skilyrðum um að íslenskir stjórnmálamenn myndu taka upp á því að haga eins og fullorðið fólk og tæki störf sín alvarlega.

Nú er AGS farið og við landsmenn höfum verið að vona að Hrunið og eftirleikur þess hafi orðið til þess að íslenskir stjórnmálamenn og forseti landsins bættu ráð sitt. En undafarna daga hefur komið í ljós að þessir menn hafa ekkert lært og stefna landinu hraðbyri aftur í sama hjólfarið. Í nýlegum skoðanakönnunum kemur fram að helmingur þjóðarinnar vill þetta fólk í burtu.

Gríðarlega mörg áríðandi mál eru á dagskrá Alþingis en þá sýnir stjórnarandstaðan enn einu sinni fullkomið ábyrgðarleysi. Hér er t.d. dæmi um það: Á kvöldfundi í gærkvöldi hefur það meðal annars borið til tíðinda að Ásmundur Einar Daðason og Árni Johnsen hafa skipst á skoðunum um sauðnautarækt.

Árni hefur ennfremur sagt sögur af hlýðni hunda, Ásbjörn Óttarsson hefur rætt um öryggismál sjómanna og Vigdís Hauksdóttir hefur sagst ætla að tileinka sér íslenskt orðfæri.

Þetta fólk er á fullum launum hjá okkur landsmönnum og eru sannarlega ekki að sinna störfum sínum. Á meðan bíða heimilin eftir því að tekið verði á málum þeirra og vitinu komið fyrir bankana.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist meirihlutum og þér líða ágætlega með það að geta kennt stjórnarandstöðunni um að ekkert er gert í mikilvægum málum. Mér sýnist herbragðið vera það sama og undanfarin misseri að halda til streitu deilumálum til að fela getuleysi meirihlutans til að leysa brýn mál.

Birgir Finnsson sagði...

Ábyrgðarlaust fólk, segirðu?

Mörg mál brunnu inni á Alþingi í vor vegna ákefðar Jóhönnu Sigurðardóttur við að ræða kvótafrumvörpin út í hið óendanlega. Frumvarp sem að ekki einu sinni var sátt um innan stjórnarflokkanna eða ríkisstjórnarinnar!

Mörg þeirra mála, sem þannig var ýtt til hliðar af forsætisráðherra, varða hag heimila og fyrirtækja í landinu, en þegar þinghaldi lauk síðastliðið vor var þessum aðilum lofað því að mál þeirra yrðu "kláruð" á septemberþinginu.

Í stað þess að standa við þetta og ræða þau mál sem brenna á þjóðinni, þá frekjast Jóhanna áfram í óbilgirni sinni; nú með því að halda stjórnarráðsfrumvarpinu á dagskrá út í hið endanlega. ENN EITT "stjórnar"frumvarpið sem er svo ofboðslega umdeilt að það nýtur ekki einu sinni stuðnings allra ráðherra stjórnarinnar!

Nei, stjórnarráðið ætti alveg að geta beðið í nokkrar vikur, en hinsvegar gæti skipt sköpum fyrir marga að önnur mál komist til afgreiðslu. Hefði Jóhanna í raun einhvern minnsta áhuga á vandamálum þjóðarinnar þá myndi hún að sjálfsögðu setja þetta umdeilda frumvarp til hliðar, taka það til umræðu síðar í haust en þess í stað hleypa að málum sem brenna á þjóðinni; málum sem sátt er um í þinginu og gætu komið heimilunum og fyrirtækjunum í landinu til góða og komið einhverri endurreisn í gang.

Jóhanna tekur það hinsvegar ekki í mál. Forgangsmál hennar umfram allt annað er að auka völd sín á kostnað Alþingis. Heimilin geta beðið.

Ábyrgðarlaust fólk, segirðu?

Guðmundur sagði...

Já ábyrgðarlaust fólk segi ég, stjórnarandstaðan hefur sýnt fullkomið ábyrðgarleysi með málþófi.

Bendi í því sambandi á ræður nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna sjálfra, sem hefur ofboðið háttalag og hringlandahátt formanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Hvað er Bjarni búinn að fara marga hringi í ESB málum og Icesave málum? Svo talar hann um ofbeldi í þinginu hvað er það annað en ofbeldi sem stjórnarandstaðan beitir ítrekað og kemur í veg fyrir málefnalega umræðu.

Almenning ofbýður það kemur svo vel fram í skoðanakönnunum.