þriðjudagur, 20. september 2011

ESB og kjarabaráttan

Stærsta kjaramál íslenskra launamanna er að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ef við ætlum að búa áfram við krónuna verður að taka upp mun strangari efnahagsstjórn en ef við tækjum upp Evru. Krónan kallar á mjög digra og dýra gjaldeyrisvarasjóði, sem veldur því að vaxtastigið þarf að vera um 3,5% hærra en það er t.d. í Danmörku.

T.d. má benda á auglýsingar bankanna þessa dagana burtu með verðtrygginguna, í stað þess bjóðum við upp á langtímalán með 6,45% vöxtum. Hér er verið að færa það sem við borguðum með verðtryggingu yfir í annað form, þú greiðir kostnaðinn strax í stað þess að færa hann yfir á seinni hluta lánstímans.

Í löndum sem búa við stöðugan gjaldmiðil eins og t.d. á hinum norðurlöndunum eru langtímavextir frá 2 – 3%. Ef fjölskylda kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur fjölskylda hús í t.d. í Danmörku, er staðan sú eftir 30 ár að íslenska fjölskyldan hefur greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við stöðu dönsku fjölskyldunnar. Þá er eftir að taka inn í dæmið mismun á verðbólgu, sem ætla má að muni um tvö til þrefalt meiri á Íslandi, sem verður gert upp á 5 ára fresti eins bankarnir bjóða í dag .

Menn strika ekki út háa verðbólgu, sveiflur í efnahagslífi, okurvexti, verðtryggingu, hátt vöruverð, slakan kaupmátt og segjast ætla að taka upp laun eins og þau gerast best í nágrannalöndum okkar, henda verðtryggingu og lækka vexti. Það hefst ekki nema með stórbættri efnahagsstjórn landsins. Ef við ætlum að halda áfram í krónuna kallar á það á mun harkalegri efnahagsstjórn en ef við gengjum í ESB.

Bændasamtökin hafna því að neytendur njóti hins frjálsa markaðar, þeir segja að tollvernd skapi nauðsynlegar rekstrarforsendur fyrir innlendan landbúnað. Bændur mega síðan flytja út niðurgreitt lambakjöt, heimsmarkaðsverð hafi hækkað og kalli á hækkun á heimamarkaði. Þetta er rétt í krónum talið, en hér sleppa stjórnmálamenn viljandi einu smáatriði, íslensk króna féll um helming haustið 2008 og íslenskir launamenn eru helmingi lengur að vinna fyrir helgarlærinu. Íslenskur rafvirki er t.d. 2 klst að vinna fyrir lærinu hér heima, fari hann hins vegar til Danmerkur er hann eina klst. að vinna fyrir íslenska lærinu í danskri búð.

Í dag gera öll stóru fyrirtækin hér á landi upp sinn efnahagsreikning upp í Evrum eða dollurum. Millistóru og litlu fyrirtækjunum er hins vegar gert að nota íslenska krónu, sem leiðir til þess að þau ásamt íslenskum launamönnum standa straum af kostnaðinum við krónuna, ekki stóru fyrirtækin. Þessi staða gerir það að verkum að samkeppnistaða minni fyrirtækjanna er mun lakari og þau geta ekki fjárfest í nýjum tækjum. Þetta leiðir til þess að vöruverð er hér allt að 30% hærra en er í löndunum innan ESB og kaupmáttur okkar hækkar ekki í samræmi við umsamdar krónutöluhækkanir.

Eftir sitja störf sem eru láglaunastörf og krefjast minni menntunar. Fækkun starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur numið um 15%. Þetta segir okkur að mánaðarlaunasumman á íslenskum vinnumarkaði er um 6 MIA lægri en hún gæti verið, sem þýðir um 2,5 MIA lægri tekjur fyrir ríkissjóð á mánuði og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs væru um 2 MIA lægri sem þýðir að Fjármálaráðherra hefði undanfarin 3 ár haft a.m.k. 5,5 MIA meir úr að spila við hver mánaðarmót.

Ísland fær verstu einkunn í áhættumati fyrir erlenda fjárfesta, vegna hættu á pólitískum afskiptum, verkföllum, óeirðum og jafnvel greiðsluþroti íslenska ríkisins. Gjaldmiðillinn og flökt hans skapar einnig mikla áhætta fyrir fjárfesta. Áhættusamara er að fjárfesta á Íslandi en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu. Erlendir fjárfestar óttast öðru fremur geðþóttaákvarðanir stjórnvalda og ófyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi. Bein erlend fjárfesting er lítil á Íslandi í samanburði við önnur lönd og nær eingöngu bundin við áliðnað.

Við verðum að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað til þess að vel menntað fólk sækist eftir störfum á svæðinu. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstöðu með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi. Það er vaxandi samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Það er einfalt að flytja sig milli landa, sérstaklega á því efnahagssvæði sem við búum á. Stjórnmálamenn komast upp með að setja gjaldeyrismúra, en þeim tekst ekki að múra fólk inni, það brýtur af sér fjötrana.

Ísland er á flestum sviðum búið fyrir löngu að uppfylla öll lágmarksskilyrði fyrir inngöngu í ESB og á sumum sviðum stöndum við framar en mörg ESB ríki. ESB markaðurinn er okkar mikilvægasti viðskiptavinur, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Það er búið að vera frjálst flæði vinnuafls innan ESB og EES svæðisins í nokkra áratugi, sama hvort okkur líkar það betur eða verr.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig langar til að þakka þér fyrir góða pistla á Eyjunni á umliðnum misserum. Þessi er virkilega góður og rökfastur.
Það er með ólíkindum hvernig staðið er gegn uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi bæði til lengri og skemmri tíma, þannig að allt er í frosti. Báknið verður aldrei stærra en atvinnulífið stendur undir.
Kv Ragnar

Nafnlaus sagði...

Margt til í þessu en ég held að það sé mikill misskilningur hjá þér að með inngöngu í ESB verði harkan í efnahagsstjórnnni eitthvað minni eða að við getum slakað á í þeim efnum. Þvert á móti er nú flest sem bendir til þess að ESB muni beita aðildarríkin meira aðhaldi í efnahagsstjórninni en nokkru sinni fyrr og fjárlagagerð ríkjanna mun á endanum verða sameiginleg. Ef ESB (evran )á að virka verður að breyta því í sambandsríki. Kannski viljum við vera með í því, hver veit.

kv
Gunnar Jóhannsson

Nafnlaus sagði...

Góður pistill,

"Stærsta kjaramál íslenskra launamanna er að finna varanlega lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga."

Kjarni málsins.

Furðu vekur hvers vegna þetta er ekki mál málanna - í hinni almennu umræðu. Svo virðist sem tekist hafi að kæfa þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar.

Kostnaðurinn af krónunni er sennilega stórlega vanmetinn - og hann verður miklu meiri - í framtíð - ef Íslendinga missa af aðild að evru og ESB. Það tækifæri kemur ekki afur næstu 20 árin.

Hvers vegna hefur tjón krónunar ekki verið metið - tjón af jarðskjálftum er metið og fólk fær greitt frá Viðlagasjóði - en þegar tjón krónunnar - gerir þúsundir eignalausa - er ekkert metið.

Svo á að afnema gjaldeyrishöft - og setja krónun á flot - svo krónan geti tekið enn meir dýfur - með skelfilegum kostnaði.

Bara sú stefna að afnema gjaldeyrishöft í áföngum - kallar á gengissig - markaðurinn býr sig undir gengisfall - sem eykur verðbólgu - og kallar á hækkun vaxta, - sú þróun er komin á fulla ferð.

Hafa aðilar gert sér grein fyrir því - að afnám gjaldeyrishafta - er verið að setja krónuna aftur á flot - eða með öðrum orðum - verið er að endurtaka peningastefnuna sem endaði með hruni krónunnar og allt að því þjóðargjaldþroti 2008!!!

Afnám gjaldeyrishafta - stangast á við stefnu um aðild að ESB og upptöku evru eða erm2 - sem væri möguleg við aðild - eftir c.a. 2-3ár. Þá er hægt að afnema höftin - með öryggi og án gengiskollsteypu.

Hvaða tilgangi þjónar það að gera tilraunir með afnám hafta - rétt fyrir upptöku evru/erm2 - þegar hægt er að afnema höftin þá með miklu meira öryggi? Slík tilraun á eftir að kosta þjóðina miklar fórnir sem þegar eru byrjaðar.

Tilraun með fljótandi krónu endaði með hruni 2008 og harmleik þjóðarinnar - og næstum því þjóðargjaldþroti. Á að endurtaka stefnumörkun í þá átt eins og ekkert sé - eru launþegasamtökin samþykk því? Eða má ekki ræða það?

Í því sambandi má minna á að þúsundir misstu aleiguna 2008 - vegna hruns krónunnar. Er ekkert mál að endurtaka slíka áhættu?

Hvar er áhættu- og valkostagreiningin sem þjóðin stendur andspænis - í þessu ferli afnámi gjalseyrishafta? Eða var sú valkosta- og áhættugreining ekki gerð? Ef ekki hvers vegna ekki? Sáu og samþykktu aðilar launþega þessa áhættugreinungu? Var áhættuminnsta og kostnaðarminnsta leiðin valin?

Hversu miklu ódýrara hefði verið að bíða með afnám hafta þar til - við tengingu krónunnar við erm2 strax við aðild. Eiga ekki landsmenn og launamenn rétt á að vita það - þar sem þeir verða þolendurnir í þessari tilraun - með mikilli vaxtabyrði.

Þessu verða launþegasamtökun að svara - með opinni almennri - og faglegri umræðu - með þátttöku innlendra sem erl. aðila. Það dugar ekki að varpa ábyrðinni á aðra - það er hluti af ábyrgri áhættustjórnun launþegasamtakanna.

Það var áhættustjórnun sem - á öllum sviðum sem er ein megin orsök hrunsins 2008. Á nú að fara að endurtaka þann leik? Vitað er hverjar afleiðingarnar verða ef það verður endurtkeið.

Hver er afstaða launþegasamtaka á þessu sviði. Hafa þau enga skoðun - þó að gríðarlegum og óþarfa kostnaði vegna hækkun vaxta, vegna afnáms hafta - sé velt á launþega?

Nafnlaus sagði...

Tek undir með RAGNARI og færi Guðmundi þakkir fyrir skrif hans.

Það er með ólíkindum hvernig komið er fram við fólk í þessu landi.

OG enn ótrúlegra hvað fólk í þessu landi lætur yfir sig ganga.

Vilji til breytinga er enginn.

Stjórnmálastéttin á Íslandi er stærsti vandi þjóðarinnar.

Nafnlaus sagði...

geðþóttaákvarðanir stjórnvalda ? Hvað með geðþóttaákvarðanir almennings eða forseta? Hér er komið fordæmi fyrir því að það eigi að vera hægt að kjósa erlendar skuldir ríkisins (icesave) burtu. Erlendir fjárfestar sjá land þar sem þeir fá kannski ekki pening sinn tilbaka.

Guðmundur sagði...

Það bregst ekki þegar ég birti pistla þar sem ég bendi á nokkrar staðreyndir um krónuna, að hingað koma aths. fullar af órökstuddum dylgjum um verkalýðshreyfinguna og menn sem þar starfa.
Endurtek enn einu sinni ef menn héldu sig nú við efnið og færðu fram einhver rök fyrir sínu máli ásamt því það vera að vera með persónulegt skítkast þá væru þessar aths. birtar.
Þakka enn einu sinni öllum þeim sem heimsækja þessa síðu