fimmtudagur, 15. september 2011

Hamfarir heimilanna

Í gærkvöldi sýndi Sjónvarpið merkilega heimildarmynd um hina svokölluðu Hamfarakenningu. Hvernig frjálshyggjan og böðlar hennar hafa undanfarna áratugi sópað upp eignum almenning og flutt þær til valdastéttarinnar og um leið hiklaust myrt og fangelsað hundruð þúsunda. Allt sem fjallað var um í myndinni þekkjum við íslendingar vel, því miður alltof vel.

Þetta hefur verið gert reglulega hér á landi í gegnum gengisfellingar krónunnar. Afleiðingar Hrunsins blasa við í valnum liggja um 20 þús. íslensk heimili vegna stökkbreyttra skulda og fjöldi fólks er í skuldafangelsi. Fámennur hópur manna sogaði til sína gríðarlegt fjármagn og kom því undan til skattaparadísa.

Fólk sem á sparifé sitt í lífeyrissjóðum hefur ekki farið varhluta af þessari eignaupptöku því þessum aðilum tókst að soga upp umtalsverða hluta að sparifé landsmanna. Þetta hefur ætíð verið meginhluti þeirrar eignaupptöku sem framkvæmd er reglulega á Íslandi með óskatæki valdastéttarinnar Krónunni.

Þar höfum við séð framarlega t.d. forsvarsmenn stjórnmálaflokka sem eru sterkefnaðir eftir Hrunið en berjast svo harkalega gegn því að tekið verði á vandanum og vilja viðhalda stöðu sinni til þess að vera í stöðu þeirra sem geta hirt til sín arð vegna næstu gengissveiflu , sem verður samkvæmt venju eftir um það bil 7 ár.

Nú eru bankarnir farnir að skila tuga milljarða hagnaði ásamt útgerðunum. Hingað eru mættir erlendir spámenn sem segja að það sé aðdáunarvert hversu vel íslendingum hefur gengið að ná sér upp.

Þar er einungis horft á afkomu fjármálafyrirtækja og arðsemisgreiðslur. Ekki er fjallað um þau heimili sem liggja bjargarlaus í valnum. Manni verður flökurt að hlusta á fréttir af þessu tagi, eins og t.d. í fréttum RÚV í gær þar sem þetta var birt athugasemdalaust.

Ef við lítum til nágrannalanda okkar,þá varð þar efnahagsleg niðursveifla. En almennir launamenn urðu ekki fyrir kaupmáttarhrapi, allstaðar hefur verið kaupmáttaraukning, reyndar minni en oft á en m,enn liggja plús megin.

Í þessum löndum hélt almenningur eignum sínum, og varð ekki fyrir stökkbreytingum skulda.

Í þessum löndum eru vextir umtalsvert lægri en hér, og þeir ruku ekki upp í tugi prósenta. Í mörgum þessara landa eru verðtryggingar á langtíma lánum en verðbólgan reis ekki það hátt að hún færi í gang eins og hún gerði kyrfilega hér vegna Hruns krónunnar. Nú er reyndar farið að tala um að bjóða lán án verðtryggingar, en takið eftir að þau lán eru með allt að 3x hærri vöxtum er þekkist í nágrannalöndum okkar.

Krafan hlýtur að vera að tekið verði á þessum málum af alvöru, framkvæmdar verði skuldaleiðréttingar og breytingar á peningastefnunni til framtíðar. Ekki einungis þannig verði tekið verði sparifé þeirra landsmanna sem hafa lagt til hliðar sparnað sinn í lífeyrissjóði og það nýtt til þess að greiða þann kostnað og bankarnir og útflutningsfyrirtækin njóti ein hagnaðar af lágri krónu.

4 ummæli:

Ásta Hafberg sagði...

Þú ættir að lesa bókina Guðmundur. Ég skal meira að segja lána þér hana. Bókin fjallar einmitt um hvernig AGS hafi stjórnað mikið af því sem gerðist og hafi farið inn í þessi lönd og haldið áfram að implementa þessum "sjokk" aðferðum. Hún fjallar einnig um fyrirtæki sem fylgja í kjölfar AGS og kaupa "ríkisfyrirtæki" á slikk með allskonar dúbíus samninga. Gaman að segja frá því þá hefur Magma Energy tengingu við eitt af þessum fyrirtækjum sem fylgja AGS um heiminn.
Ég skal með glöðu geði lána þér bókina.
Kv.
Ásta Hafberg

Sigurbjörn Sveinsson sagði...

Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.

Svo var það snemma í vor, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.

Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.

Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð.

Skrifað 9.1.2009 og ekkert hefur breyst.

Nafnlaus sagði...

Soldið fyndið að það gerir enginn athugasemd við pistlana þína:) Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir því?

Guðmundur sagði...

Elski hjartans nafnlaus 18:07
Það gera margir aths. og ég fæ einnig fjölda bréfa. En eins og kemur fram á forsíðunni fara ekki allar aths. í gegn og þegar ég tók upp það kerfi, varð það til þess að delluaths. frá huglausum nafnleysingjum snarfækkaði, sem betur fer. En lestur pistlanna hefur freakar hækkað en en hitt.
Ég hef reyndar verið frekar latur við pistlagerð í sumar eins og sést á síðunni.