laugardagur, 10. september 2011

Helmingur er búinn að fá nóg

Daglega birtast stjórnmálmenn í fréttum fjölmiðla þar sem þeir standa í ræðustóli, innihald ræðunnar er útúrsnúningakeppni, á meðan hrópar þingheimur barnalegar yfirlýsingar utan úr sal. Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur eru virkir þátttakendur í þessari kappræðu. Athugasemdalaust birta þeir innistæðulausar fullyrðingar skrumara og sumir spjallþáttastjórnendur bæta um betur í skruminu.

Þeir sem gera tilraun til þess að halda uppi málefnalegri umræðu, sem eru reyndar vissulega margir, fá ekki aðgang að fréttum og ef þeim er boðið í spjallþætti þurfa þeir að standa í orðaskaki við spjallþáttastjórnandann. Hér á ég sérstaklega við við morgun- og eftirmiðdagsþætti útvarpsstöðvanna.

Áberandi er sú hefð hér á landi að ræða ekki um málefnið. Ef einhver setur fram skoðun eða gerir aths. við framsetningu þeirra sem verja sérhagsmunina, þá er viðkomandi umsvifalaust dreginn í einhvern dilk og það er talið nægjanlegt innlegg í umræðuna, ekki er minnst á viðkomandi málefni. Þú ert svona, við vitum hvaðan þú kemur. Þú ert að verja hagsmuni. Allt snýst um að gera viðkomandi ótrúverðugan.

Valdastéttin beitir öllum brögðum til þess að halda samfélaginu föstu sama hjólfarinu og verja eigin stöðu svo þeir geti staðið að reglulegum eignatilfærslum frá launamönnum til hinna fáu. Forsjárhyggjan er áberandi, almenningur hefur ekki gott af því að fá að velja. Við skulum sjá um það fyrir þjóðina.

Það kemur ekki á óvart að innan við helmingur aðspurðra í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö treystir ekki núverandi stjórnmálaflokkum og helmingur vill að forsetinn fari. Þeim fækkar sífellt sem vilja taka afstöðu til stjórnmálaflokkanna. 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína hér á landi. Vel menntað fólk flyst af landi brott og fólk sem er að ljúka námi erlendis kemur ekki heim.

Það ástand sem hefur ríkt eftir Hrun er kjörland fyrir skrum og yfirboð. Það dugar ekki lengi því hið rétta kemur alltaf upp á yfirborðið og sífellt fleiri sjá í gegnum skrumið og vill ekki vera þátttakandi í því.

Í svona ástandi þarf að taka óvinsælar ákvarðanir og það þarf staðfestu umfram annað. Það veit hinn almenni borgari og hann sættir sig ekki við upplausnina á Alþingi. Það eru einungis þeir sem umgangast sinn stjórnmálflokk eins og trúarbrögð og kjósa hann sama á hverju gengur sem taka afstöðu í skoðanakönnuninni og þeir eru vel innan við helmingur kjósenda.

1 ummæli:

Haraldur sagði...

Innilega sammála síðasta ræðumanni.
Gæti ekki orðað það betur.
Væri sjálfur farin ef ég gæti fengið fjölskilduna með mér.