þriðjudagur, 27. september 2011

Má bjóða þér 30% launahækkun - til frambúðar?

„Burtu með verðtrygginguna, í stað þess bjóðum við upp á langtímalán með 6,45% vöxtum, sem verða svo endurskoðaðir á 5 ára fresti.“ Auglýsa bankarnir, en í smáa letrinu stendur að það sé betra að halda áfram að taka verðtryggð lán a.m.k. í sumum tilfellum.

Til þess að ákvarða hvort sé heppilegra óverðtryggt lán eða verðtryggt þarf að hafa skoðun á því hvað viðkomandi reiknar með að verðbólgan verði. Ef samtala vaxta og áætlaðrar verðbólgu er lægri en vextir óverðtryggðs láns er skynsamlegt að velja verðtryggt lán.

Nánast undantekningalaust er greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum töluvert þyngri en af verðtryggðum lánum á meðan við erum með jafnsveiflukenndan gjaldmiðil og krónan er og verður. Öllum hafa staðið til boða óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en nánast allir hafa valið verðtryggð lán vegna greiðslubyrðarinnar.

Eins og allir vita sem hafa eitthvað spáð í verðtryggingu umfram það að hrópa einhverjar innistæðulausar fullyrðingar krydduð með fúkyrðum um starfsmenn lífeyrissjóða og stéttarfélaga, þá er það þannig að ef verðbólga fer af stað þá ertu ekki að greiða allt sem þú ættir að greiða á fyrri hluta lánstímans. Hluti ógreidds vaxtakostnaðar er fluttur yfir á seinni hluta lánstímans. Þess vegna lækkar lánið ekki fyrr en á seinni hluta lánstímans.

Okurvextir og verðtrygging eða einshvers konar greiðsludreifing á vaxtakostnaði er óhjákvæmileg á meðan okkur er gert að búa við krónuna. Menn geta svo kallað verðtryggingu alls konar nýjum nöfnum, það er álíka lausn og hin ofurbarnalega tillaga Lilju Mósesdóttir að breyta um nafn á krónunni, þá væru efnahagsvandamál okkar úr sögunni!! Það er örgjaldmiðillinn og herkostnaður vegna hans sem æxlið, ekki verðtryggingin, hún er plástur á okurvaxtabyrðina sem af æxlið veldur.

Í nýjum lánatilboðum birtist herkostnaður launamanna vegna krónunnar grímulaus, það er verið að færa verðtryggingu yfir í annað form, þú greiðir kostnaðinn strax í stað þess að færa hann yfir á seinni hluta lánstímans.

Skatturinn á íslenskt heimili við að koma sér upp meðalstóru húsnæði og fjármagna með íslensku krónunni er um 30 milljónir króna umfram það sem gerist annarsstaðar á Norðurlöndunum. Mismun sem heimilin hefðu til annarra nota, sparnaðar, neyslu eða fjárfestinga og þannig væri efnahagslífið sterkara um leið og heimilin væru betur sett fjárhagslega. Það er fjárhagslega, mesta hagsmunamála heimila og fyrirtækja í landinu, að losna við krónuna og taka upp aðra mynt sem ekki þarf 3-5% vaxtaálag og verðtryggingu sér til viðhalds.

Árið 2005 gerðu Neytendasamtökin könnun á vöxtum á húsnæðislánum í tíu Evrópulöndum. Ef miðað er við að greiddir séu 2% raunvextir er endurgreiðsla 40 ára láns um 1,5 sinnum höfuðstólinn. Séu vextir 4% er endurgreiðslan tvöfaldur höfuðstóll að raunvirði og ef þeir eru 6% þá er endurgreiðslan 2,7 sinnum upprunalegt lán.

Þetta þýðir að endurgreiðsla á íslensku láni er næstum tvöfalt hærri en í samanburðarlöndunum og er þó ekki tekið það tilvik þar sem mestu munar. Lánakostnaður er því tvö til þrefalt meiri á Íslandi en í samanburðarlöndum.

Miðað við 20 milljón kr. lán þýðir 2% munur 400 þús. kr. mismun á ári, sem 4% þýðir að Íslendingar greiða 800 þús. kr. meira en erlendi húskaupandinn. Á mánuði er munurinn 33 – 66 þúsund krónur á mánuði sem samsvara 45 – 90 þúsund fyrir skatta.

Þetta samsvarar 15 – 30% launahækkun, ef miðað er við algeng laun.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
Hefurðu lesið kenningar mínar um að það sé vegna áhrifa frá lögum er varða lífeyriskerfið sem raunvextir á Íslandi séu hærri en í mörgum öðrum hagkerfum? Hefurðu hugleitt þann möguleika? Hvert er þitt álit?
Bestu kveðjur,
Ólafur Margeirsson (skrifar á Pressunni)

Nafnlaus sagði...

Krónan skýrir þetta mál ekki nema að hluta. Við greiðum í öllu miklu hærra verð hér en í öðrum löndum. Vextir skýra auðvitað eitthvað af miklu hærra verði hér en við erum bara á flestum sviðum algjörlega ósamkeppnisfær.

Guðmundur sagði...

Já ólafur ég hef gert og gef afskaplega lítið fyrir þþær. sorrý
kv GG

Nafnlaus sagði...

Flottur pistil – kjarni málsins, en þó ekki nema hluti málsins.

Taka má önnur afar raunhæf dæmi.

Skoðum málið.

Ef borinn er saman fjármagnskostnaður við að taka lán fyrir íbúð á Íslandi (4,2% vextir, verðtryggt og 4,15% verðbólga) og innan Evrulands (3,5% vextir, óverðtryggt ) sem kostaði 20 milljónir (100% lán), kemur í ljós að heildarendurgreiðsla við 20 milljón kr. lán til 40 ára er 34 milljónir innan Evrulands, en 82 milljónir á Íslandi.

Munurinn er 48 milljónir sem lántaki á Íslandi greiðir umfram einstakling innan Evrulands, sem jafngildir kostnaði 1,4 íbúðar í Evrulandi.

Fjármagnskostnaður innan Evrulands er 14 milljónir kr. en á Íslandi 62 milljónir eða 48 milljónum hærri, eða sem nemur tæplega 340%.

Innan Evrulands kostar lán og íbúð þvi einungis um 40% af því verði sem Íslendingar borga fyrir sambærilegt lán og íbúð. Miðað við heildarkostnað er meðalafborgun af slíku láni 171 þúsund kr. á mánuði á Íslandi, á meðan fólk innan Evrulands, borgar ekki nema 71 þúsund kr., munurinn 100 þúsund kr. á mánuði, eða 140%.

Aukakostnaður íbúðarkaupanda á Íslandi umfram einstaklinga innan Evrulands, vegna mikils fjármagnskostnaðar er því 1,2 milljónir á ári eftir skatta í 40 ár, er samtlas 48 milljónir króna.

Á hverju ári bætast við að meðaltali a.m.k. um 2100 nýjar íbúðir á Íslandi. Óþarfa og aukalegur kostnaður bara vegna þeirra íbúða á einu ári (næstu 40 ár), umfram það sem er innan Evrulanda, er því um 100 milljarðar kr.

Yfir 20 ára tímabil (næstu 40 ár) væri þessi kostnaður 20 faldur eða 2000 milljarðar kr., sem væri aukakostnaður næstu 20 ár, ef ekki verður tekin upp evra.

Í þessum tölum er einungis miðað við 4,15% verðbólgu á Íslandi og því er kostnaður á Íslandi varlega áætlaður, þar sem verðbólga hefur oftast verið mun hærri.

Allan þenna aukakostnað má rekja beint til - krónunnar, sem er örgjaldmiðill sem ekki er hægt að halda úti - nema með svimandi vöxtum, verðtryggingu og gjaldeyrishöftum.

Í þessum tölum er ekki tekið tillit til stökkbreytinga skulda vegna hruns krónunnar 2008, eða 1980 eða á öðrum tímun. Þann kostnað má einnig leggja við.

Er ekki kominn tími til að Ísland skilji þennan vanda - eða á að halda áfram með ónýtan gjaldmiðil - þar til allt kemst í þrot?

Nafnlaus sagði...

Tók íbúðalán hér í Noregi með 4% vöxtum, þar sem allir vextir dragast frá tekjuskattstofni hér þýðir það 37% lækkun á vöxtum, eða 1,6 %stig og verðbólgan var 1,4% á síðasta ári og raunvextir eru þá eiginlega 1%, enda er talað um að boliglan sé gratis nú.

Kveðja frá Noregi

Heiðar

Nafnlaus sagði...

hvernig væri nú að breyta reiknilíkönum vísitölu neysluverðs, það var þarna maður þarseinast í Silfrinu sem sýndi fram á það að hún er ofmetin og meiri peningar teknir af okkur almenningi til auðvaldsins.