þriðjudagur, 6. september 2011

Sláandi munur á lánum

Fréttaflutningur af lánakjörum hefur verið áberandi allt frá Hruni af eðlilegum ástæðum. Lýðskrumarar hafa átt auðveldan aðgang að fjölmiðlum með yfirlýsingar um skyndireddingar. Þessu hefur réttilega verið lýst á þann veg að verið sé að ráðast að framleiðendum plástra um getuleysi þeirra að koma í veg fyrir afleiðingar stórslysa.

Íslenska stórslysið er slök efnahagstjórn og krónan, en ekki verðtryggingin. Örgjaldmiðill veldur miklum efnahagssveiflum, sem síðan valda háum vöxtum, það kallar á einhverskonar greiðsludreifingu komi verðbólguskot, svo fólk ráði við að greiða þau lán sem það tekur. Áður en þetta kerfi var tekið upp átt sér stað stórfelld eignaupptaka hjá sparifjáreigendum, ríkissjóður skattleggur reyndar þessa neikvæðu eignamyndun í gegnum fjármagnstekjuskatta. Þetta bitnar harðast á venjulegum launamönnum sem ekki eru í ríkistryggðum lífeyrissjóðum.

Við gerum kröfu til þess að fréttastofa RÚV vandi til verka. Í gær var t.d. gerður samanburður á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Bæði eru lánin uppá 20 milljónir króna annað verðtryggt, hefðbundið íbúðalán með 4,3% vöxtum en hitt óverðtryggt lán með 6,45% vöxtum. Vextirnir eru fastir til fimm ára en verða að þeim tíma loknum endurmetnir. Miðað var við 5% verðbólgu. Greiðslubyrði óverðtryggða lánsins er helmingi hærri, en greiðslubyrði hins lánsins þegar tekið er tillit til 5 ára endurreiknings vaxta. Að fimm árum liðnum hefur lántaki greitt tæpar sjö milljónir af óverðtryggða láninu en um sex milljónir af hinu. Hann hefur ekki greitt allt sem honum bar vegna verðbólgunnar og sá hluti er færður aftar á lánstímann. Ósköp einföld stærðfræði.

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar umfram verðbólguspár Seðlabanka. Við stöðugleika hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris.

Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja fasta vexti í stað breytilegra vaxta og strika svo út kostnað sem hlýst af verðbólgu umfram 2,5%. Hér er ákaflega einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem fóru upp fyrir 20% á tímabili, þá hefði vaxtagreiðsla þessa láns verið 4 millj. kr. það árið. Semsagt viðkomandi hefði þá þurft að greiða af láninu 4.5 millj. kr. það árið, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun 20% verðbólguárið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Þarna var fluttur hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans, eða með öðrum orðum lánið óx um 3 millj. kr.

Það liggur fyrir að meðan við höfum ekki stöðugan gjaldmiðil þá verður til greiðsluform sem er verðtrygging í einhverskonar formi. Ef hún verður afnumin mun engin setja fjármuni í langtímalán og afborganir af lánum verða óbærilegar vegna þeirra ofurvaxta sem íslenska krónan kallar á. Kannanir sýna að vextir af verðtryggðum lánum eru að jafnaði lægri en vextir af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggð lán eru þekkt víða, en það reynir sjaldan á verðtrygginguna vegna þess að það er í umhverfi stöðugs gjaldmiðils.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rétt skal vera rétt, þú fullyrðir hér að greiðslubyrðin hafi verið helmingi hærri í óverðtryggða láninu í dæminu sem rúv tók. Það stemmir engan veginn. Þvert á móti minnir mig að ótrúlega lítill munur hafi verið á greiðslubyrði miðað við stöðu á höfuðstól eftir 5 ár.

En auðvitað verður að taka fram að gert var ráð fyrir 6.45 % vöxtum í viðvarandi 5% verðbólgu. Sú kjör myndu auðvitað aldrei bjóðast til 40 ára, en að því gefnu er fráleitt að halda fram að helmings munur hafi verið á greiðslubyrði.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur,
Þú vísar til þess í grein þinni að verðtrygging sé til víða. Getur þú nefnt nokkur dæmi því til staðfestingar og einnig hvernig lán það eru (lán til fasteignakaupa einstaklinga eða önnur?).
Kveðja,
Birgir

Nafnlaus sagði...

Já það er alveg óskiljanlegt og grátlegt að horfa uppá hvað fólk á erfitt með að skilja verðtrygginguna. Þegar ekki einu sinni obinberar stofnanir skilja þessu einföldu prinsipp, og halda allskonar vitleysu að fólki, er fokið í flest skjól.

Það má líka benda á það að stærsti fjármagnseigandinn hér á landi eru lífeyrissjóðirnir, þ.e.a.s almenningur. Færsla frá fjármagnseigendum til lánþega er því millifærsla frá meðaljóninum, að langmestu leiti hófsamt og skynsamlegt fólk, til ófhófs eða óskynsamlegs fólks í 95% tilfella.
Þorbergur Leifsson

Guðmundur sagði...

Það hefur undantekningalítið komið fram í umræðu um verðtryggingu að hún tíðkast mörgum löndum, m.a. Danmörku, Bretlandseyjum Bandaríkjunum og víðar. En þar sem verðlag þar er stöðugra reynir aldrei (sjaldan) á hana.
kv GG

Nafnlaus sagði...

en hvernig væri að setja þak á verðtrygginguna???

þ.e. að reyna að dreifa "ábyrgðinni" þannig að lántaki og lánveitandi axli hana saman?

Vandamálið hér fyrir hrun var að lánastofnanir beinlíns öttu fólki út í lántökur; þótt lánastofnanir vissu hvert stefndi. Af hverju gerðu þær það? Af því að þær græddu á því, og voru tryggðar.

Ég hef tekið húsnæðislán í DK, og þar var þetta ósköp einfalt: Lántaki var gaumgæfilega skoðaður áður en lánið var veitt, því ef illa færi, gat lántaki skilað húsinu til baka án eftirmála. Þarna þurfti lánastofnunin að axla ábyrgð og vandaði því mun meira til verka en stofnanir hér á skerinu hafa nokkurn tímann gert.

kv,
Heywood Jablome

Nafnlaus sagði...

Ég er allveg sammála því sem þú ert að skrifa, þetta er tiltölulega einföld stærðfræði en klárlega lánsform sem þekkist hvergi annars staðar í vestrænum löndum, þ.e. að vextirnir séu það háir að þú verður stöðugt að bæta ofan á höfuðstól lánsins það sem þú ekki ræður við að greiða.
Þetta er allt gott og blessað EN þetta bara gengur alls ekki upp gagnvart almenningi í þessu landi án þess að LAUN FÓLKS séu þá verðtryggð líka. Þá helst þetta allt í hendur og allir ættu að geta verið ánægðir, ekki satt?

Nafnlaus sagði...

Kjörin á óverðtryggða láninu er algjörlega óraunhæf m.v. 5% verðbólgu. Þumalputtareglan er sú að óverðtryggðir vextir eru raunvextir + verðbólguálag.
Raunvextir á verðtryggða láninu eru því 4,3% en á óverðtryggða láninu eru þeir 1,45%. Ég veit ekki hver bjó til þennan samanburð en þarna er engan veginn verið að bera saman lán á sömu kjörum.
Miðað við þessar tölur, þ.e. verðtryggða vexti um 4,3% og verðbólguvæntingar í kringum 5% þá væru bankarnir að bjóða í kringum 10% vexti á óverðtryggð lán en ekki 6,45%.

Nafnlaus sagði...

Laun eru auðvitað verðtryggð í þeim skilningi að kjarasamningar snúast að verulegu leyti um einmitt þetta, að fá leiðréttingu vegna verðbólgu. Stundum er samið umfram það ef hagvöxtur leyfir. Guðmundur getur staðfest um hversu miklar launahækkanir hann hefur samið eingöngu vegna verðbólgunnar. Gallinn við verðtrygginguna er hins vegar sá að hún er illskiljanleg venjulegu, sæmilega menntuðu fólki. Þetta tengist lélegu fjármálalæsi þjóðarinnar.

Nafnlaus sagði...

Allir geta verið sammála um að verðtrygging er slæmur kostur. Hún dregur úr áhuga lánveitenda á að halda aftur af verðbólgu, hún veltir allri áhættu af lánastarfsemi á lánþega og hún er -- eins og öll verðtrygging -- verðbólguhvetjandi því að hækkaður lánakostnaður ýtir undir meiri verðbólgu. En í landi þar sem efnahagskerfið er jafn óstöðugt og það er á Íslandi eigum við bara þriggja kosta völ: 1. verðtryggingu þar sem lánveitandi fær lánsféð til baka og kostnaðinum af verðbólgunni er dreift á allan lánstímann; 2. lán með breytilegum vöxtum þar sem vaxtagreiðslur verða óbærilegar með jöfnu millibili; 3. Lán þar sem lánveitandinn fær ekki til baka nema hluta af þeim peningum sem hann lánar, sem þýðir að fljótlega verður engin lán að hafa (ríkisbankar tæmast og einkabankar nota féð einfaldlega í eitthvað annað). Fjórði kosturinn er auðvitað að ganga í ESB og taka upp evru með tíð og tíma.

Guðmundur sagði...

RSÍ varð 40 ára í nóv. síðastl. Frá stofnun hefur verið samið um vel ríflega 3.000% launahækkanir í kjarasamningum sambandsins. Á sama tíma hefur Danska Rafiðnaðarsambandið samið um 330% launahækkanir. Kaupmáttur hefur vaxið, en ekkert í samræmi við þessar hækkanir. Við féllum haustið um 3 ár aftur hvað varða kaupmátt, höfum náð hluta af því tilbaka og vorum með áætlanir um að það tækist á 4 árum. En þar sem ekki hefur verið samið um Icesave og fjárfesting í atvinnulífinu hefur þar af leiðandi verið minni en vonir stóðu til þá mun það líklega takast í fyrsta lagi á 10 árum.

Það að kaupmáttur hefur vaxið segir okkur að laun hafa hækkað meir en verðtrygging. Það er staðreynd þó svo margir haldi öðru fram.

Guðmundur sagði...

Að venju koma inn óbirtanlegar aths.

Að gefnu tilefni vísa ég til fjölmargra pistla þar sem ég formæli háum vöxtum og verðtryggingu og hvernig það leiðir til þess að ónýta gerða kjarasamninga.

Forsvarsmenn þeirrar efnahagsstefnu sem hefur verið fylgt hér á landi síðustu áratugi og leiddi okkur fram af bjargbrúninni sögðu margoft, Það er svo gott að hafa krónuna, þá getum við blóðsúthellingalaust leiðrétt of góða kjarasamninga.

Ég árétta enn einu sinni að það er einungis ein leið út úr þeim vítahring, það er að fá stöðugri gjaldmiðil og betri efnahagsstjórn.

Nafnlaus sagði...

Fantagóð greining hjá þér Guðmundur, að venju.

Umræðan um verðtryggingu er svo yfirfull af röngum fullyrðingum, að það hálfa væri nóg.

Sammála þér að ein leið er út úr þessu það er að fá stöðugri gjaldmiðil, þá væri verðtyrgging óþörf, eða eins og þú segir, það myndi aldrei reyna á hana.

En á meðan við búum við gjaldmiðil sem kallar yfir okkur okurvexti, losnum við ekki út úr þessu ástandi
kv Þorri

Nafnlaus sagði...

Reynslan hefur einfaldlega sýnt okkur að lítil og veik mynt eins og íslenska krónan þarf verulegan stuðning, eigi að vera unnt að lifa við hana. Fyrir setningu Ólafslaga um verðtryggingu var ástand peningalegs sparnaðar og lánastarfsemi skelfilegt hér á landi. Önnur hlið sama máls er brotlending flotgengisstefnunnar frá 2001, og engin sannfærandi lausn á sjálfstæðri peningastefnu með krónu er í sjónmáli. Þetta er einfaldlega herkostnaður við að halda krónunni.

Almenn og víðtæk verðtrygging fjárskuldbindinga, ekki síst almennings, hefur hinsvegar marka alvarlega galla sem nauðsynlegt er að skoða betur. Eins og réttilega hefur verið bent á er verðtryggt jafngreiðslulán einstaklings risastór og flókinn afleiðusamningur á skattaákvarðanir, sveiflur í heimsmarkaðsverð á innflutningsvörum, s.s. olíu, bensíns, hrávara og annarra vara, hún er afleiða á gengi krónunnar, ofl. sem hafa ekkert með forsendur lántaka að gera. Lánveitandi, sem á að hafa sérþekkingu afleiðuáhættunni, veltir henni hinsvegar yfir á lántakann sem hefur of litlar eða engar forsendur til að meta þessa afleiðu og áhættuna af henni. Hækkun vísitölutengdu lánanna í frá Hruni er gott dæmi um þetta óeðlilega samband, en dæmin ná langt aftur þótt sveiflurnar hafi verið minni.

Líklega kallar krónan á víðtæka verðtryggingu áfram ef takast á að lifa við hana, en það er nauðsynlegt að endurskoða forsendur og framkvæmd slíkra lána gagnvart einstaklningum.

J

Eyjólfur Kristjánsson sagði...

Verkalýðshreyfingin hefur varið verðtrygginguna vegna lífeyrissjóðanna, með að mörgu leiti góðum rökum. En þá spyr ég á móti, hvers vegna bjóða lífeyrissjóðirnir ekki almenningi húsnæðislán að upphæð sem dugir t.d. til að kaupa 2 herberja íbúð, á vöxtum sem eru eins nálægt ávöxtunar kröfum sjóðanna og hægt er, í stað þess að standa í allskonar áhættufjárfestingabulli? Eða í gegnum milliliði sem þurfa þá að maka sinn krók? Sparnaður venjulegs fólks á sér fyrst og fremst stað á tvennan hátt; með eignamyndun í fasteigninni sem það býr í, og með lífeyrissparnaði. Eins og lánakerfið með verðtryggðum jafngreiðslulánum hefur verið, hefur eignamyndunin verið mjög hæg, nema þegar húsnæðisverð hefur hækka umfram verðalag (bólan 2000-2008), þannig að það hefur fyrst og fremst verið sparnaður í lífeyrissjóðunum sem fólk hefur eignast. Mér myndi þá allaveganna líða betur með að borga íslensku okurraunvextina ef ég vissi að þeir rynnu óskiptir í eftirlaunasjóðinn minn, en væru ekki notaðir í misviturt brask stjórnarmann lífeyrissjóðanna.

Annars er ótrúlegt hve erfitt virðist að búa til vitlegt húsnæðislánakerfi hér á land, allaveganna með krónunni. En ég vildi gjarnan sjá frá verkalýshreyfingunni tillögur um hvernig búa má til húsnæðislánkerfi sem uppfyllir eftirfarandi markmið:

1. Sanngjörn, viðráðanleg og fyrirsjáanleg greiðslubyrgði fyrir lántakanda.
2. Eðlileg eignamyndum fyrir kaupanda, því hraðari því betra.
3. Trygg endurgreiðsla til lánveitanda með sanngjörnum vöxtum. (1-3% raunvextir)

Auðvitað eru miklu auðveldar að ná þessu með alvöru gjaldmiðli eins og efru, en eins og er lítur út fyrir að afturhaldsöflin ná að halda okkur utan EB og efru, þannig að það þurfa að finna einhverja lausn á þessu með krónunni. Óverðtryggð með breytilegum vöxtum eru ekki lausnin, eins og Guðmundur bendir réttilega á, þau eru alltof áhættusöm fyrir bæði lántakanda og lánveitanda.

Kveðja,

Eyjólfur Kristjánsson

Guðmundur sagði...

Það er nú bara barnaleg della að verkalýðshreyfingin hafi varið verðtryggingu vegna lífeyrissjóðanna.

Það er ein af þessu rakalausu klisjum sem eru svo algengar í íslenskri umræðu.

Ég get fullyrt að flestir, ef ekki allir, sem ég þekki í verkalýðshreyfingunni, þar á meðal ég sjálfur, erum á móti verðtryggingu og háum vöxtum.

Um það hef ég skrifað fjölmarga pistla.

Það er gjaldmiðillinn sem er vandinn (sárið). Það gefur slökum stjórnmálamönnum færi á að nýta hann til þess að lagfæra efnahagsleg mistök.

Það er það sem veldur því að við búum við sveiflur og það sem veldur því að við erum með háa vexti og verðtryggingu.

Það þýðir ekkert að öskra á verðtrygginguna eina út af fyrir sig.

Það verður að ráðast að rótum vandans, krónunni.

Um það fjallar þessi pistill og stórfurðulegt hvernig menn geta sífellt verið að snúa út úr og gera mér og öðrum innan verkaklýðshreyfingarinnar upp skoðanir.

Í byrjun þessa pistils stendur að þessi málflutningur sé sambærilegur og að ráðast endurtekið í það að skipta um plástur í stað þess að ráðast á sjúkdóminn.