mánudagur, 9. apríl 2012

Sjálfskaparvítið og píslarsýkin

Við búum í landi þar sem landbúnaður fær 14 milljarða í styrki, sjávarútvegur fær 2 milljarða á meðan iðnaðurinn fær einungis 1 milljarð og verslun og þjónusta ekkert. Ef takast á að byggja upp atvinnulíf hér á landi, fjölga störfum og draga úr atvinnuleysi er það einungis hægt með því að efla iðnað og þjónustu. Iðnaðar- og tæknifyrirtækin eru flest þegar búinn að hafna krónunni og segjast ekki geta byggt sig upp í því umhverfi.

Engar líkur eru á því að það verði fjölgun starfa í sjávarútvegi og landbúnaði. Sjávarútvegurinn hafnar því að greiða eðlilega auðlindarentu til samfélagsins og stendur í vegi fyrir því ásamt landbúnaði, að hér verði eðlilegt verð á dagvöru og hafnar því að tekinn verði upp alvöru mynt.

Launamenn hafa í vaxandi mæli hafnað þeirri fullyrðingu sem hefur verið haldið að almenning, að það séu kostir að hafa gjaldmiðil sem tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum.

Hér geta menn orðið ríkir á því að spila með krónuna gegn hagsmunum almennings. Hér varð kerfishrun sem var tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum með kerfisbundinni atlögu að krónunni í óeðlilegum viðskiptaháttum. Það virðist vera sem svo ef marka má fréttir undanfarinna daga, að útgerðin vilji viðhalda þessari stöðu.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst okkur í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar því að færa fjórðung tekna árlega frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda.

Íslenskir launþegar hafa semsagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Ef við notum þeirra eigin orð þá er verið að tryggja atvinnustig með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári fyrir landbúnað og sjávarútveg.

Við erum með mestu verðbólgu í Evrópu, vextir hér eru þeir hæstu sem þekkjast. Enginn vill eiga sparifé varðveitt í íslenskri krónu. Þar af leiðandi er ekki hægt að fá langtímalán í krónum, einungis í verðtryggðum krónum. Það vill engin fjármagna lánakerfið án þess að fá tilbaka sömu verðmæti og lánuð eru. Menn settu niður hælana árið 1980 þegar búið var að brenna upp alla lífeyrissjóði og sparifé landsmanna

Íslenskum launamönnum hafði tekist það sem af var þessari öld, að ná um 13% kaupmáttaraukningu fram að Hruni, en töpuðu henni nær allri við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum.

Danir féllu ekkert í kaupmætti um við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2.3% í kaupmætti eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum.

Finnland
hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld.

Noregur er með mestu kaupmáttaraukninguna af Norðurlöndunum eða 10,8% það sem af er þessari öld, þar af 4,5% frá árinu 2007.

Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum jókst að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi er rétt að halda því vel til haga að við erum í litlu hagkerfi sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess?

Píslarsýkin er kominn hér á landi á það hátt stig að sérhagsmunasamtökum tekst bara með prýðilegum árangri að fá menn til þess að berjast af fullum þrótti til þess að viðhalda því sjálfskaparvíti sem við höfum búið okkur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

“Mörgum hættir við því að aðhyllast trúarkenningar eða þjóðfélagskenningar annara hugsunarlítið, annaðhvort fyrir áróður eða vegna makræðis-eða hvorugtveggja. Slíkt verður oft utangarna, leiðir menn til einstrengingsháttar og oft til meira ofstækis en ef maður hefir velt viðfangsefninu fyrir sér sjálfur og valið og hafnað, eftir því sem vit og samvizka býður”

Sveinn Björnsson

Nafnlaus sagði...

Sláandi samanburður. Vonandi lesa þetta sem flestir
Sævar

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Frá 2007 til 2010 féll landsframleiðlsa á manna í evrum um 50% á Íslandi, sem er einsdæmi í fjármálahruninu. Ástæðu þessa hruns í verðmætasköpun má rekja beint til hruns krónunnar. Á sama tíma hækkuðu verðbólga og skuldir um nær sömu tölu. Fjöldi einstaklinga og fyrirtæja (m.a. í sjávarútvegi) urðu gjaldþrota vegna hruns krónunnar. Þetta var einhver stærsta eignaupptaka sem gerð hefur verið hjá nokkurri þjóð.

Þesu til viðbótar – er þess að geta að samkvæmt upplýsingum ASÍ er vaxtamunur á milli Íslands og evrulanda 4% að lágmarki. Samkvæmt ASÍ skulda einstaklingar um 2000 milljarða. Ríkið skuldar um 1500 milljarða og fyrirtæki um 3000 milljarða. Samanlagt er þetta því 6500 milljarðar. 4% kostnaður krónunar af þeirri fjárhæð er um 260 milljarðar!! – en sá kostnaður lendir að lokum á einstaklingum og heimilum, vegna hærri vaxta, skatta og vöruverðs.

4% auka og óþarfa vaxtakostnaður vegna krónunnar sem heimilin þurfa að bera er því 260 milljarðar á hverju ári. Þetta jafngildir um 3,5 milljón á hverja 4ra manna fjölskyldu á ári eða um 300 þúsund á mánuði, sem er meira en meðaltekjur meðalmannsins eftir skatta.

Þetta jafngildir því að önnur fyrirvinna heimilisins er eingöngu að vinna fyrir kostnaði krónunnar allt árið um kring og mun gera það allan þanntíma sem viðkomandi heimil skuldar t.d. húsnæðislán en þau eru oft um 30 ár.

Með öðrum orðum er önnur fyrirvanna heimilisns að vinna fyrir krónunni nær allan sinn starfsaldur. Ávinningurinn af ævistarfi annar fyrirvinnu heimilisins fer því í kostnað krónunnar – í stað þess að fara í vermætasköpun ávinning fyrir heimilið og fjölskylduna.

Þessi upphæð er líklega jafngildi 2ja íbúðarhúsa – sem heimili á Íslandi þurfa að fórna í ónýtan gjaldmiðil – þrældómur án endurgjalds – á meðan íbúar innan stórra gjaldmiðla eins og evrunnar – geta lagt þessa upphæð fyrir og nýtt ferðalög og nauðsynjar.

Þessi gríðarlegi vaxtakostnaður hefur þvi markvist grafið undan efnahagslegu sjálfstæði fjölskyldna og um leið þjóðarinnar. Þessi vaxtakostnaður krónunnar síðastliðin 3 ár er þvi orðinn 780 milljarðar og hækkar um 260 á hverju ári, þar til nýr gjaldmiðill verður tekinn upp þar sem ekki hægt að lækka vaxtakostnað krónunnar.

Hver vill búa í slíku landi – eða vill leggja síkar fáránlegr byrðar á sína fjölskyldu, afkomendur, vini eða þjóðina í heild??

Þeir sem vilja breytingar og nýjan gjaldmiðil þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf miklu markvissari upplýsingamiðlun á þessu sviði og þó fyrr hefði verið. Í raun hefur upplýsingamiðlun um skaða krónunnar verið afar fátækleg - nema hjá einstaka aðilum eins og Guðmundi og einstaka tilfellum hjá ASI.

Að öðrum kosti verður allt óbreytt - og vandinn mun einugis magnast, sem kann að enda með nýu hruni.

Nafnlaus sagði...

Grein Guðmundar hefst á þessum orðum,

,"Við búum í landi þar sem landbúnaður fær 14 milljarða í styrki, sjávarútvegur fær 2 milljarða á meðan iðnaðurinn fær einungis 1 milljarð og verslun og þjónusta ekkert."

Þú gleymir stærsta og um leið skaðlegasta styrknum Guðmundur, en það er árlegur styrkur stjórnvalda til krónunnar, sem nemur 60 milljörðum króna! og nær ekkert er talað um en er samt 330% hærri en styrkurinn til landbúnaðarins.

Hvernig er þessi styrkur reiknaður? Góð spurning.

Þessi styrkur er mismunur á vaxtakostnaði ríkisins hér á landi og innan evrulanda, sem er að lágmarki 4% skv. mati ASÍ, vegna skulda ríkisins sem nema 1500 milljörðum.

Ef Ísland væri innan evrunnar, væri árlegur vaxtakostnaður ríkisins 60 milljörðum lægri.

Hvernig má það vera að það er talið eðlilet að henda 60 milljörðum út um gluggan á hverju ári vegna miklu hærri vaxta hér á landi, þegar sú upphæð er nær tvöföldur rekstrarkostnaður Landsspítalans, en rekstur hans kostar árlega um 30 milljarða.

Á sama tíma er verið að skera niður á sjúkrahúsum og allstaðar, en það er ekkert mál að borga 60 milljarða til að halda upp ónýtum gjaldmiðli.

Er nema von að illa sé komið fyrir Íslandi.