þriðjudagur, 3. apríl 2012

Staða lífeyrismála

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Þessa dagana er rætt um framtíð lífeyriskerfisins. Við stofnun almennu lífeyrissjóðanna upp úr 1965 var réttindakerfið reist á þeirri forsendu að lífeyrisþegar ættu tryggan lífeyri sem næmi um 72% af meðalárstekjum, tengdum við verðlagsvísitölu. Um 25% ellilífeyris kæmi frá ríkinu, iðgjald í lífeyrissjóð var miðað við að sjóðirnir tryggðu 57% af dagvinnutekjum launafólks.

Stjórnmálamenn hafa á síðustu áratugum sótt auknar tekjur í ríkissjóð með því að auka tekjutengingar í bótakerfinu og þar með minnka hlut Tryggingarstofnunar í bótakerfinu. Þetta er komið svo langt að að þátttaka TR í lífeyri einstaklings með 75þús.kr. greiðslur úr lífeyrissjóði skerðist um sömu upphæð.

Inngrip stjórnmálamanna í kerfið hefur haft ákaflega letjandi áhrif á þátttöku fólks í lífeyriskerfinu og framkallar vaxandi þátttöku í neðanjarðarhagkerfinu og undanskotum í kostnaðarþátttöku til velferðarkerfisins. Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir ef frítekjumarkið væri t.d. hækkað upp í 20 þús. kr. myndi upptaka ríkisins á lífeyrisgreiðslum frá lífeyrissjóðum minnka um 3 milljarða.

Nokkrir halda því fram að lækka eigi ávöxtunarviðmiðið úr 3,5%, ekki síst stjórnmálamenn sem vilja sækja fé til lífeyrissjóðanna á neikvæðum vöxtum til þess að standa við kosningaloforðin. Þetta myndi ekki breyta miklu hjá þeim sem eru þegar á lífeyri eða eru að nálgast þann aldur, en hefði aftur á móti gríðarleg áhrif hjá ungu fólki. T.d. myndi væntanlegur lífeyrir fólks sem er í dag innan við 35 ára skerðast um 25% ef farið væri með ávöxtunarviðmiðið niður um 0,5% eða í 3%.

Ástæða er að benda sérstaklega á að á Íslandi er ávöxtunarkrafan lág sé litið annarra landa með uppsöfnunarlífeyriskerfi, t.d. er ávöxtunarkrafa í Bandaríkjunum 4,35%. Í þessu sambandi væri mikið eðlilegra og heilbrigðara að lífeyrissjóðirnir byðu sínum sjóðsfélögum sérstök lán á vildarkjörum til þess að kaupa sína fyrstu íbúð.

Fram hafa komið hugmyndir að fella niður uppsöfnunarkerfi og taka upp gegnumstreymiskerfi. Ef tryggja á samsvarandi lífeyri, örorkubætur, makalífeyri og barnabætur og uppsöfnunarlífeyriskerfið er að greiða í dag, þarf iðgjald í gegnumstreymiskerfi að vera 36%. Ef sú leið væri farinn má reikna með að núverandi iðgjald væri óbreytt, en það myndi kalla á að framlag ríkissjóðs inn í kerfið þyrfti að vera vel ríflega það sem kemur inn með núverandi iðgjaldi. Þetta er ekki flókið því liðlega helmingur sem lífeyrisþegi fær útgreitt eru vextir og vaxtavextir af sparnaði hans í uppsöfnunarsjóð.

Nokkrir, þar á meðal ráðherrar, ræða um að sameina á alla lífeyrissjóðina í einn. Ef þetta verður gert er ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort ætlunin sé að skerða réttindi hjá einhverjum hópum, eða jafna réttindi allra við það besta. Eðli málsins samkvæmt er ekki framkvæmanlegt að jafna réttindin nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Tryggingarfræðilega séð eru hópar á á vinnumarkaði ákaflega mismunandi. Þar er að finna ástæðu þess að sumir sjóðir geta verið með mun dýrari réttindakerfi en aðrir. Ef t.d. lífeyrissjóðirnir á almenna markaðnum yrðu t.d. sameinaðir án þess að iðgjaldi væri hækkað, myndi það valda allt að 20% skerðingu á réttindum í sumum lífeyrissjóðanna, þá sérstaklega iðnaðarmannasjóðunum.

Með öðrum orðum það væri þá verið að flytja umtalsverðar eignir frá einum hóp til annarra, ásamt umtalsverðan flutning á fjármunum milli kynslóða. í þessu sambandi er ástæða að benda á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að til þess að standa undir óbreyttu kerfi opinberu sjóðanna, þurfi að hækka iðgjald upp í 19% eigi þeir að vera sjálfbærir. Það þýðir að ef jafna öll lífeyrisréttindi án þess að staða nokkurs hóps væri skert þyrfti að hækka iðgjöld umtalsvert, eða allt að 7%.

En eitt þarf að taka reglulega fram, bæði fyrir stjórnmálamenn og svo aðra. Lífeyrissjóðirinir eru eign sjóðsfélaga. Í hverjum lífeyrissjóð er sparifé tiltekins hóps einstaklinga. Sumir virðast telja að þessir fjármunir séu almennaeign sem hægt sé að ráðstafa að vild.

Engin ummæli: