þriðjudagur, 1. maí 2012

1. maí ræða Selfoss 2012

Félagar  - til hamingju með daginn.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér hingað og gefa mér færi á að koma á framfæri því sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið. Ég hóf afskipti af kjarasamningum sem trúnaðarmaður á stórum vinnustað á árunum upp úr 1975. Á þeim tíma var samið reglulega um launahækkanir sem námu nokkrum tuga prósenta á hverju ári og stjórnmálamenn felldu svo krónuna nokkru síðar um svipaða tölu. Okkur miðaði þar af leiðandi lítið við að bæta kaupmáttinn. Á árunum frá 1945 til 1985 lækkaði kaupmáttur að meðaltali um 0,4% árlega hér á landi, á meðan hann óx t.d. í Danmörku um 1,6% að jafnaði.

Okkur tókst að rífa okkur út úr þessu með þjóðarsáttarsamningum og kaupmáttur óx frá 1990 um 2,4 á ári að jafnaði. Þá var fastgengisstefna en fyrirkomulagi gengismála er breytt án nokkurrar umræðu vorið 2001 og tekið upp fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði. Í kjölfar þessa fór að bera á miklum lausatökum í ríkisfjármálunum og vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna jókst umtalsvert. Krónan var felld þrívegis; 2000-2001 um fjórðung, 2006 um fimmtung og svo 2008 um helming og hún hefur haldið áfram að falla.

Þegar ég tók við formennsku í Félagi íslenskra rafvirkja árið 1987 hitti ég kollega mína frá hinum Norðurlöndunum. Þar var meðal annars fjallað um nýgerða kjarasamninga, þeir félagarnir töluðu um þokkalegan árangur sinn í kjarasamningum, þeirra félög hefðu samið um 3% hækkun á ári. Ég sagði við þá hróðugur að við hefðum verið að ná samningum með 30% launahækkun næsta árið. Viðbrögð þeirra komu mér á óvart. Í stað þess að upplifa öfund yfir velgegni okkar þá horfðu þeir á mig vorkunnaraugum og sögðu; 30% launahækkun á ári Guðmundur, það hlýtur að vera eitthvað mikið að hjá ykkur. Eftir þetta hef ég lært mikið, farið í háskóla og numið margt um efnahagsmál og stjórnun, auk þess að vinna með færustu hagfræðingum landsins.

Rafiðnaðarsamband Ísland var stofnað árið 1970. Í tilefni 40 ára afmælis fyrir skömmu tókum við saman yfirlit yfir kjarasamninga sambandsins frá stofnun. Þar kom fram að sambandið hefði samið um launahækkanir upp á 3.600% á þessum 40 árum. Á sama tíma hafði danska rafiðnaðarsambandið samið um launahækkanir upp á 330%. Þrátt fyrir það að við hefðum samið um 3.300% meiri launahækkanir hefur kaupmáttur vaxið meir í Danmörku á þessum tíma. Þar skipta vextir, langmestu máli.

Sú hagstjórn sem hefur verið ástunduð hér á landi frá lýðveldisstofnun hefur birst okkur í 25% meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar að fjórðungur árlegra tekna sé færður frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda og hins opinbera. Íslenskir launþegar hafa sem sagt eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf og rekstur hins opinbera. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað stjórnmálamanna, sem finnst eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu. Þeir tala um að verið sé að tryggja atvinnustigið, það er gert með launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári til þess að lagfæra rekstrarafkomu fyrirtækjanna og hins opinbera. Ásamt því að greiða niður óraunsæ kosningaloforð.

Þetta kalla stjórnmálamenn að tryggja gott atvinnuástand, en hið rétta er að það er verið að skattleggja launamenn aukalega með þessu fyrirkomulagi. Gengisfelling er eignaupptaka hjá einum hópi. Þeir fjármunir gufa ekki upp, þeir lenda í vösum annarra. Að fella gengið er það sem hefur réttilega verið kallað, að láta almenning borga skuldir óreiðumanna, það er þeirra sem eru í stjórnmálum og þeim sem standa illa að fyrirtækjarekstri. Einn helsti hugmyndafræðingur þeirrar stjórnmálastefnu sem hér var fylgt lýsti þessu ástandi á þann veg, að krónan væri svo mikil blessun, með henni væri blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna.

Hér á landi er verðbólga mest í Evrópu. Vextir hér eru þeir hæstu sem þekkjast. Enginn vill eiga sparifé varðveitt í íslenskum krónum. Þar af leiðandi er ekki hægt að fá langtímalán í krónum, einungis í hinum gjaldmiðlinum okkar verðtryggðum krónum. Það vill engin fjármagna lánakerfið án þess að fá tilbaka sömu verðmæti og lánuð eru. Landsmenn settu niður hælana árið 1980 þegar búið var að brenna upp alla lífeyrissjóði og allt sparifé okkar. Fólk var hætt að leggja fyrir og vildi hætta að greiða í lífeyrissjóði. Þá settist Ólafur Jóhannesson niður og bjó til greiðsludreifingarkerfi á vaxtatoppunum sem myndast þegar verðbólgan fer upp fyrir 4%. Þá er greiðslu á vöxtum umfram það frestað, hann skýrði þetta greiðsludreifingarkerfi okurvaxta Verðtrygging, sem er rangnefni.

Fyrir þann tíma voru greiddir breytilegir vextir. Ég greiddi t.d. á tímabili nokkurra tuga prósent vexti af lánum sem ég tók vegna kaupa á minni fyrstu íbúð. Ef menn ætla að fella niður þetta greiðsludreifingarfyrirkomulag Óla Jó þá koma einfaldlega breytilegir vextir tilbaka og mun fleiri heimili hefðu við Hrunið hefðu farið í greiðsluþrot. Hefur fólk velt fyrir sér hversu háar vaxtagreiðslurnar hefðu verið?

Í þessu sambandi er rétt að minna á að Guðmundur Jaki þáverandi helsti forsvarsmaður verkalýðshreyfingarinnar hafnaði því alfarið að binda laun við verðlagsvísitöluna á þessum tíma. Jakinn sagði að það myndi múlbinda alla launabaráttu á landinu við það ástand sem þá var ríkjandi. Það væri óskakerfi fyrirtækja og kæmi í veg fyrir að launamenn næðu fram kaupmáttaraukningu um alla framtíð. Guðmundur Jaki hafði rétt fyrir sér, laun hafa síðan þá hækkað að meðaltali rúmlega 30% umfram verðlagsvísitöluna.

Frá árinu 2000 til haustsins 2008 varð 13% kaupmáttaraukning hér á landi, en hún tapaðist nær öll við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum. Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið, en hafa bætt við sig um 2% eftir 2008 og tæp 7% það sem af er þessari öld og halda auk þess sínum eignum. Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt kaupmáttinn um 3% eftir efnahagshrunið og 8% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Finnland hefur bætt við sig 6% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt kaupmáttinn um 12% það sem af er þessari öld, og halda sínum eignum. Landsframleiðsla á mann á hinum Norðurlöndunum hefur aukist frá 2007 að meðaltali um 55% á meðan hún minnkaði um 4% á Íslandi. Í þessu sambandi verðum við að muna að við erum í litlu hagkerfi, sem er mjög háð innflutningi á nauðsynjavörum.

Við eru fámenn þjóð sem býr í stóru landi, en gerum kröfu um sambærilegt velferðarkerfi og er á hinum Norðurlandanna. Hvernig ætlar Ísland að ná sambærilegri stöðu og hin Norðurlöndin og hversu langan tíma ætla menn að taka sér til þess, spyr fólk sem er að velta fyrir sér stöðunni?

Hvernig ætla menn að losa um gjaldeyrishöftin? Það verður ekki gert með þeim gjaldeyrisvarasjóði sem við eigum. Við fengum reyndar stóran hluta af honum að láni hjá hinum Norðurlandanna. Sá sjóður dugar ekki til þess að fara í einhliða upptöku gjaldmiðils, en það kostar um 100 milljarða að kaupa upp allar krónur og skuldbindingar. Við þurfum jafnframt að greiða upp þessa 1.000 milljarða sem erlendir aðilar eiga hér í krónum og bíða óþolinmóðir eftir að komast með úr landi.

Í þessu ástandi fá Sprotafyrirtækin og grasrótin í atvinnulífinu ekki fjármagn. Hlutabréfamarkaðurinn er dauður og fyrirtækin við grasrótina svelta vegna gjaldeyrishaftanna. Gjaldeyrir kemur ekki inn í landið nema í gegnum fjárfestingar fyrirtækja sem eru ekki háð gjaldeyrishöftum. Það þýðir einfaldlega að við getum ekki komið atvinnulífinu í gang nema að semja við erlend stórfyrirtæki um byggingu stóriðju og fá þannig fjármagn inn í landið. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við þessa bláköldu staðreynd.

Einstaklingum á vinnumarkaði fjölgar um 4.500 á ári. Fækkum er aftur á móti liðlega 2.000, fólk sem fer á lífeyrisbætur eða út af vinnumarkaði af einhverjum öðrum ástæðum. Við þurfum því að fjölga atvinnutækifærum um 2000 á ári ef við ætlum að halda óbreyttu ástandi. Við erum með um 13.000 atvinnulausa hér á landi í dag og ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður í viðunandi ástand þurfum við að búa til um 15.000 störf á næsta ár. Til þess að þarf að auka fjárfestingar í atvinnulífinu um 200 milljarða króna á ári. Hvernig ætla menn að gera það, ef ekki finnast aðilar sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi?

Píslarsýkin í samfélaginu er komin á það hátt stig hér á landi að sérhagsmunasamtökum tekst bara með prýðilegum árangri að fá menn til þess að berjast af fullum krafti við að viðhalda því sjálfskaparvíti sem við höfum búið okkur, og segjast vera að vinna sigra. Launamenn hafa í vaxandi mæli hafnað þeirri fullyrðingu sem hefur verið haldið að okkur, að það sé kostur að hafa gjaldmiðil sem tryggi óvenju lágan launakostnað sem hlutfall af tekjum hjá útflutningsfyrirtækjum.

Hér geta menn orðið ríkir á því að spila með krónuna gegn hagsmunum almennings. Hér varð kerfishrun sem var tilkomið vegna þess að það var búið rústa gjaldeyrismarkaðnum með kerfisbundinni atlögu að krónunni í óeðlilegum viðskiptaháttum. Sérhagsmunahóparnir berjast um á hæl og hnakka við halda þessum hagsmunum. Það er skiljanlegt að því leiti að sumir hafa orðið ofboðslega ríkir á því að geta framkvæmt þessu eignaupptöku hjá okkur hinum í gegnum reglubundnar gengisfellingar.

Maður vaknar til nýs dags við fréttir um hvernig þingmenn beita klækjabrögðum á Alþingi. Menn stinga af um bakdyrnar á þinghúsinu til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur. Þingstörf mótast af ómerkilegum bellibrögðum og innihaldslausum upphrópunum.Þar skiptir engu hvort það sem fram er lagt sé til bóta eða ekki. Allt er lagt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir að hinn hópurinn nái sínu fram, um það snúast öll störf stjórnmálamanna á Alþingi og í stærstu sveitarfélögunum.

Í opinberri umræðu er það orðið daglegt brauð að borið er á fólk að það sé landráðamenn, fasistar, nasistar eða  kommúnistar. Því er blákalt haldið fram að pólitískir andstæðingar ætli sér að koma upp samskonar útrýmingarbúðum og sovétið eða nasistar voru með. Lýðskrumið ræður öllu í opinberri umræðu þar sem öllu fögru er lofað blandað saman við hræðsluáróður um meinta illsku, þar sem staðið sé vegi fyrir framförum og stöðugleika. Þetta orðbragð er síðan flutt inn á heimili landsmanna í byrjun hvers einasta fréttatíma sjónvarpsins. Það minnir mann á hvernig fasistahreyfingar millistríðsáranna beittu lýðskrumi, hræðsluáróðri og óvinavæðingu í tilraunum sínum til að komast til valda.

Því er haldið að okkur að Íslendingum stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Sá hópur sem beitir öllum brögðum til þess að koma í veg fyrir breytingar, lítur svo á að landið og ríkið sé þeirra eign. Hinn almenni launamaður sé þræll sem þeir eigi og geti beitt bellibrögðum til þess að koma í veg fyrir að hann fái notið þeirrar verðmætasköpunar sem hann skilar með vinnu sinni. Við þurfum ekki óvini erlendis frá við eigum nóg af þeim í okkar eigin röðum.

Þetta er það Ísland sem okkur er búið af sérhagsmunagæslusveitinni sem beitir öllum fanta- og klækjabrögðum sem þekkjast til þess að verja sína stöðu. Tugþúsundir heimila liggja í valnum. Hvaða tillögur liggja nú fyrir frá þessum hóp? Jú að gera sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum upptækt og nýta það til þess að halda áfram á sömu braut. Núverandi kynslóð beri enga ábyrgð og ætlar að hrifsa til sín þann rétt að geta lifað praktuglega í vellystingum, en senda reikninginn til barna okkar og barnabarna.

Þegar ég kom út á vinnumarkaðinn árið 1970 hóf ég greiðslu í lífeyrissjóð eins og lög gerðu ráð fyrir. Árið 1982 hafði ég greitt 10% af mínum launum í lífeyrissjóð eða sem samsvarar einum árslaunum. En inneign mín nam þá sem svarar verðgildi tveggja lambalæra. Stjórnvöld voru semsagt búin að brenna allt sparifé í landinu á verðbólgubálinu. Nú eru komnar fram tillögur um að fara sömu leið.

Íslendingum er gert að greiða um 18% hærri afborganir af húsnæðislánum en nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum gera. Það er vegna ofurvaxta sem skapast vegna óstöðuleikans og gengisfellinganna. Hvernig förum við að því að greiða þessu ofurvexti, jú við notum greiðsludreifingu á vöxtunum eins og ég hefur áður fjallað um og greiðum upp okkar lán á 40 árum á meðan það tekur félaga okkar á hinum Norðurlöndunum 20 ár að eignast sín hús. Við borgum tvisvar og hálfum sinnum okkar hús á meðan nágrannar okkar borga fyrir eitt hús.

Til þess að leiðrétta þetta vilja þessir vörslumenn sérhagsmuna rústa lífeyriskerfinu og sólunda því í lán með neikvæðum vöxtum og viðhalda óbreyttri efnahagsstjórn. Hvers vegna? Jú þeir hafa nefnilega komið sér upp ríkistryggðu lífeyriskerfi. Það búa tvær þjóðir í þessu landi, önnur hefur búið sér það ástand að ávöxtun sparifjár skiptir það engu. Það á að fara aftur í sama ástand og var fyrir stofnun almenna lífeyriskerfisins 1970.

Í þessari umræðu  búa menn sér til forsendur og spinna upp hugarfar annarra í því skyni að gera þá fyrirfram tortryggilega. Þetta er í rökfræðinni kallað rök gegn manni en ekki málefni og er skólabókardæmi um rökþrot. Fara í manninn ekki boltann, eins og sagt er í fótboltanum. Með því er máli drepið á dreif og orðræðan verður merkingarlaus. Pólitísk umræðu einkennist af sífellt meira merkingarleysi. Hún hefur smám saman einangrast frá öllum veruleika og því lífi sem lifað er í landinu. Það veldur því að það er atgervisflótti úr stjórnmálum og atgervisflótti frá landinu, ungt fólk vill ekki búa í svona samfélagi. Því það veit hvert stefnt er, ráðandi öfl eru að reyna að koma því í gegn að senda reikninginn fram tímann.

Ef rústa á lífeyriskerfinu, þarf að hækka skatta hér í landi umtalsvert. Lífeyriskerfið greiðir í dag árlega tæplega 100 milljarða í lífeyri, örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, á meðan Tryggingarstofnun greiðir úr 50 milljarða. Hlutdeild lífeyriskerfisins á eftir að vaxa mjög hratt á næstu árum þar sem mjög stórir árgangar eru að komast á lífeyrisaldur, á sama tíma minnkar hlutdeild Tryggingarstofnunar. Skattgreiðendum fækkar umtalsvert sem hlutfall af bótaþegum.

Ef við hverfum frá uppsöfnunarkerfinu, og tökum upp gegnumstreymiskerfi eins og var hér áður, þá þarf árið 2020 að greiða iðgjald sem er tvöfalt hærra en núverandi iðgjald. Það er vegna þess að helmingur útgreiðslna lífeyriskerfisins eru fjármunir sem eru tilkomnir vegna ávöxtunar á sparifé þeirra sem hafa greitt inn í kerfið. Engin þjóð ræður við það, nema þá að skera niður allt velferðarkerfið. Við stöndum í dag frammi fyrir ísköldum veruleikanum og komumst sannarlega ekki hjá honum með lýðskrumsyfirlýsingum og skyndireddingum. Sá tími er liðinn.

Áfram Ísland og til hamingju með daginn

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afar góð samantekt, byggð á raunsæi og rökhugsun.

Þessa samantekt á raunveruleikanum og sögunni þarf að færa í stefnmörkun til framtíðar.

Verðmætasköpun, kaupmáttaraukning og lausn á vanda heimilanna - verður einungis byggða á alvöru stórum gjaldmiðli.

Það er eina leiðin frá þeim hörmungum sem Guðmundur taldi upp - en rótina að þessum hörmungum má rekja til allt of lítils, sveiflukennds og stórhættulegs gjaldmiðils - sem er eins og árabátur á úthafi – með heila þjóð innanborðs.

Eina leiðin í upptöku alvöru gjaldmiðils - er með aðild að ESB - enda Ísland þegar áhrifalaus aukaaðili að ESB, þar sem við tökum upp 70% af öllum lögum þess - sem reynst hefur vel í 15 ár. Enginn hefur kvartað undan því að vera 70% aukaaðili að ESB í 15 ár. Það segir mikið um raunverulegt álir Íslands á samstarfi innan ESB /EES.

Allar aðrar leiðir við upptöku gjaldmiils eru gríðarlega hættulegar.

Upptaka alvöru gjaldmiðils - evru - er eins og að byggja hús á bjargi - þar sem undirstaðan haggast ekki - þó að komi stormur og rigning - skuldir stökkbreytast því ekki.

Með því að hafa krónuna áfram - er eins og að byggja hús á sandi. Í minnstu rigningum og stormi - grefur undan húsinu - og skuldir stökkbreytast - og efnahagur heimilanna hrynur - aftur og aftur - endalaust - og fólk situr eftir eignalsut - í einskonar þrældómi krónunnar. Er það sjálfstæði - að gera einstaklinga eignarlausa – með reglubundnum hætti?

Byggjum framtíðna heldur á bjargi - nýjum, stórum og öruggum gjaldmiðii - fyrir nútíð og framtíð. Lærum af reynslunni - loksins. Það er tími til kominn - annars stefnir í nýtt hrun.

Þegar búið er að tryggja öruggar undirstöðu með - stórum og öruggum gjaldmiðli - geta stjórnmálamenn og aðrir farið að ræða - raunverulega stefnumörkun til framtíðar - þar sem allar áætlanir verða byggðar á traustum grunni og hrynja ekki til grunna í næstu rigningu - eins og alltaf gerist - þegar byggt er á krónu (sandi) - með óðaverðbólgu og stökkbreyttum skuldum.

Fyrir utna stórkostlegan skaða krónunnar s.s. vegna stökkbreyttra skulda og hárra vaxta - kemur krónan í veg fyrir að hægt sé að nýta auðlindir Íslands - þar sem t.d. ekki er hægt að fjármagna framkvæmdir - þar sem ekki fást erl. lán vegna krónunnar, eða lán til nýsköpunar eru á svimandi vöxtum.

Krónan er því stórkostlega skaðleg fyrir, fjárfestingar, framkvæmdir, atvinnu og dregur stórlega niður hagvöxt og lífskjör og möguleika á Íslandi.

Afleiðing er að framtíðn flýr land í stórum stíl – ungt fólk og annað er búið að fá nóg.

Megi framtíð Íslands byggjast á traustum grunni og stórum gjaldmiðli.

Með því að taka upp trausta undirstöðu hagkefisins - stóran gjaldmiðil - bætist ný auðlind við aðrar auðlindir Íslands - auðlind trausts, öryggis og trúverðuglika.

Ef hægt er að byggja á slíkum traustum undirstöðum - fyrir atvinnulíf, heimili og hagkerfi þjóðarinnnar - eru gríðarleg tækifæri framunda á Íslandi á öllum sviðum - sem er grunnur að stórbættum kaupmætti og lífskjörum.

Til að svo megi verða þarf hugrekki og samstöðu.

Pétur sagði...

Góð samantekt, ein athugasemd um að
landsframleiðsla á mann á hinum norðurlöndunum hækkað um 55% frá 2007!!!.

Ég er nokkuð viss um að þetta sé of há tala.