miðvikudagur, 16. maí 2012

Virkjanakostir

Ég er fastur pistlahöfundur í norsku blaði, þessi pistill birtist í þessari viku.

Lengi hafa staðið deilur á Íslandi meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Margskonar möguleikar eru á byggingu sjálfbærra orkuvera og mikil eftirspurn eftir hreinni orku. Um síðustu aldamót náðist samkomulag milli allra aðila um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för.

Svo var komið í hinu sjálfumglaða Íslenska efnahagsundri, sem reis til himna á árunum frá 2001 og hrundi til grunna í nótt eina í október 2008, að ef staðið hefði verið við öll kosningaloforðin, þá lá fyrir að virkja yrði öll vatnsföll og hin viðkvæmu hverasvæði á Íslandi.

Á hinum kantinum eru ofurnáttúrverndarsinnar sem ekkert vilja virkja. Þar á milli var fólk sem sá að ef við ættum að byggja upp og viðhalda því samfélagi sem við vildum búa okkur og börnum okkar var ekki hjá því komist að fara einhvern milliveg í þessum málum. Það var í þessu umhverfi sem aðilar urðu enn ákveðnari við vinnu við Rammaáætlun um virkjakanakosti. Þar var m.a. litið til þess hvernig Norðmenn hefðu leyst samskonar deilur fyrir nokkrum áratugum. Við gerð Rammaáætlunar voru fulltrúar stjórnmálamanna, Landsvirkjunar, bændur, ferðaþjónustan og útivistarfólk og sat ég í þeim stól við þessa vinnu.

Það er búið að leggja gríðarlega vinnu í að afla gagna og vinna úr þeim. Raða öllum virkjanakostum upp og gefa þeim einkannir. Fyrir liggur að tiltekin svæði eru svo dýrmæt í íslenskri náttúru að þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði voru sett í biðflokk, þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu. Síðan þau svæði sem talið er að hægt sé að virkja án þess að þess að glata þeim markmiðum sem sett voru. Vitanlega ekki allir sáttir, en niðurstaða liggur fyrir sem fylgir þeim leikreglum sem allir voru sáttir við í upphafi.

Almenningur ætlast til þess að nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur fyrir, sé farið að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. En nú stíga fram stjórnmálamenn og einstaklingar, sem telja sig vera sjálfkjörnir forsvarsmenn náttúruverndarsinna og vilja ýta til hliðar niðurstöðum Rammaáætlunar, og hverfa aftur til tækifærissinnaðrar ákvarðanatöku.

Því fer fjarri að það fólk tali fyrir munn allra þeirra sem telja sig vera náttúruverndarsinna. Mjög margir náttúruverndarsinnar eru ákaft fylgjandi Rammaáætlun, með henni sé verið að ná sátt og koma böndum yfir tækifærissinnana og víkja átakakappræðum til hliðar. Ef öðrum hvorum hópnum tekst að rjúfa þá sátt að þá er verið að henda fyrir borð þeirri sátt sem stefnt var að. Þeir sem vilja ekki fara eftir niðurstöðunum eru í raun komnir í hóp tækifærissinna og farnir að vinna gegn náttúruvernd á Íslandi.

Það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum á Íslandi ef takast á að ná atvinnulífinu út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir, ekki verður komist hjá því að auka fjárfestingar. Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir sakaðir að vera um borð í virkjanahraðlest og með stóriðjuglýju af þeim sem telja sig vera sjálfkjörna forsvarsmenn náttúruverndarmanna. Forsvarsmenn stéttarfélaganna eru einfaldlega að koma á framfæri samþykktum félagsmanna og að hvaða markmiðum stefnt sé að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar og vilja að henni sé framfylgt.

Íslensk umræða og stjórnmál einkennist af átökum, þar eru stóryrði ekki spöruð. Andstaða málefnalegrar umræðu er kappræða sem einkennist af hernaðarlist þar sem farið er í manninn í stað þess að gera tilraun til þess að greina vandann og upplýsa áheyrandann. Þar ríkir virðingarleysi fyrir sérfræðiþekkingu og tilhneiging til þess að mála hlutina einföldum litum.

Íslensk stjórnmál einkennast af fyrirgreiðslupólitík þar verið er að skipta efnislegum gæðum á milli ráðandi sérhagsmunahópa. Stjórnmálamenn eru því ekki í sannleiksleit, þeirra markmið er að vinna tilteknum hagsmunum brautargengi. Þetta hefur leitt til þess að í reynd eru tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi, stjórnarandstaða og þeir sem standa að ríkisstjórn. Endurtekið er kjósendum gert að horfa upp á stjórnmálamálaflokka staka U-beygju í stefnu ef þeir fara úr þeirri stöðu að vera í stjórnarandstöðu fyrir kosningar yfir í að komast í stjórn eftir kosningar.

Í átakastjórnmálunum er því haldið að okkur að Íslendingum stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Nú er svo komi að Alþingi íslendinga nýtur undir 10% trausts og einungis tæpur helmingur þjóðarinnar tekur afstöðu til stjórnmálaflokkanna. Það er að renna upp fyrir íslenskum almenning að hann þurfi ekki óvini erlendis frá nóg sé af þeim í okkar eigin röðum.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afar yfirveguð, raunsæ og rökstudd grein hjá Guðmundi.

Það væri bjart framundan á Íslandi, ef slík umræða væri stunduð á fleiri stöðum.

Nafnlaus sagði...

Persónulega finnst mér alltof margir virkjanakostir vera settir í verndarflokk.

Yfirleitt er um að ræða bestu og hagkvæmustu virkjanakostina sem settir eru í verndarflokk.

Í annan stað eru það mestmegnis gufuaflsvirkjanir sem settar eru nýtingarflokk.
Og það furðulega við þessa virkjanakosti er að þeir eru mestmegnis á ákveðnum og mjög afmörkuðum svæðum.

Þannig er því einungis um staðbundna orkuframleiðslu að ræða sem notuð verður staðbundið þannig að þessi orka nýtist ekki öllum landshlutum og þar með landsmönnum, eða "þjóðinni" eins og núverandi stjórnvöldum og stuðningsmönnum þeirra er svo títt að nefna nú um stundir.

Annað sem er athugavert við þennan nýtingarflokk er að gufuaflsorka er allt annað en umdeild, því lítið er vitað um langtímaáhrif gufuaflsvirkjana á umhverfið.

Þannig eru vísbendingar um að brennisteinsvetni frá gufuaflvirkjanir tæri klæðningar á húsum, lakk á bílum skemmi viðkvæm rafeindatæki og valdi jafnvel heilstutjóni og staðbundunum jarðskjálftum.

Þess vegna er ég lítið hrifinn af þessari svokallaðri "Rammaáætlun" því í raun snýst hún um vernd en ekki nýtingu.

Svo er það líka spurningin, hvað á að gera með hin "ómetanlegu" vatnasvæði sem á að vernda?

Enginn getur séð þau því þau eru svo afskekkt, nema þá fuglinn fljúgandi.
Eða eigum við að leyfa ferðamönnum og þá sérstaklega erlendum ferðamönnum að njóta þessara svæða og það ókeypis?

Nafnlaus sagði...

Lokasetningin segir allt!

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Algjörlega sammála þér!

Kv. Guðbjörn Guðbjörnsson

Nafnlaus sagði...

Þarfar pælingar hjá þér, Guðmundur.

Afstaða VG og annars öfgafólks í verndarmálum gagnvert erlendum fjárfestingum og fjárfestingum erlendra aðila í t.d. virkjunum og stóriðju, er ekkert annað en útlendingahatur hjá þessu fólki.