mánudagur, 6. ágúst 2012

Bakhlið hins íslenska efnahagsundurs

Ég er fastur  pistlahöfundur í norsku dagblaði hér er ágústgreinin:

Þegar erlendir menn eru að skoða Ísland í dag og „hið íslenska efnahagsundur“ virðast þeir ekki gera sér grein fyrir ákveðnum séríslenskum einkennum. Þar ber vitanlega hæst liðónýtur gjaldmiðill, sem er varinn með gjaldeyrishöftum og útflutningsfyrirtækjum bjargað með því að færa rekstrarvandann yfir á launamenn í gegnum reglubundnar gengisfellingar krónunnar og þá um lækkun launa. Þetta veldur því að verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Við upphaf 21 aldarinnar voru gerðar umfangsmiklar breytingar í peningaumhverfi Íslands. Gengisskráning er gefin frjáls, Seðlabankinn er gerður sjálfstæður, tekin er upp verðstýrð peningastefna, og bankarnir eru einkavæddir. Opnað er á frjáls flæði fjármagns og afleiðingarnar koma strax fram í gífurlegri aukningu peningamagns í umferð. Þessi hömlulausa prentun krónuseðla var afleiðing á fjármálastarfsemi bankanna og vaxta- og peningastefnu Seðlabankans. Afleiðingar innstreymis erlends lánsfjár, aflandskróna og hlutabréfafúsks. Þarna er að finna snjóhengjuna margumræddu.

Ef gjaldeyrishöftum á Íslandi verður aflétt án þess að gripið verði til sérstakra varnarráðstafana, mun að öllum líkindum skella á önnur risavaxinn efnahagslega kreppa í formi mikillar gengisfellingu krónunnar, sem myndi valda miklum verðbólguskell og ofurvöxtum sem myndi kaffæra til viðbótar fjölda heimila og fyrirtækja. Sá árangur sem nú er kallaður hið íslenska efnahagsundur er framhlið leiktjalda handstýrðs gjaldmiðils.

Aflandskrónur, erlendar krónueignir kröfuhafa bankanna og krónueignir margra landsmanna sem myndu vilja skipta í erlendan gjaldeyri, eru svo stór vandi að hann er vart skiljanlegur venjulegu fólki. Það sem verra er, vandinn fer vaxandi. Það er einungis ein raunsæ leið úr þessu og hún er að ná samningum við Seðlabanka ESB um upptöku Evru og fá aðstoð til þess að komast í gegnum hina ógnvænlegu snjóhengju.

Sé t.d. þau húsnæðislán skoðuð sem íslenskum fjölskyldum standa til boða  borin saman við húsnæðiskaup danskrar fjölskyldu, þá greiðir íslenska fjölskyldan þegar upp er staðið tvöfalt meira fyrir sitt hús, en sú danska. Vöruverð á Íslandi er hærra. Ísland náði botni í kreppunni árið 2010, þá var kaupmáttarstigið svipað og verið hafði árin 2001-2. Við höfum í dag endurheimt um helming af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007. En það segir ekki allt um lífskjaraskerðinguna, kjörin versnuðu meir vegna skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrði heimilanna.

Lífskjaraskerðingin kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem íslenska valdastéttin dásamar og vill alls ekki vera án. Lífskjörin á árunum 2001 til 2007 voru að umtalsverðu leyti byggð á froðu, með flæði ódýrs lánsfjár inn í landið og spilagaldra fjárglæframanna, sem kom fram í aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila, of hátt skráðu gengi og misheppnaðri peningastjórnun Seðlabankans.

Við Hrunið afhjúpaðist siðferðisleg og hugmyndafræðileg kreppa, þar opinberaðist þjóðinni stétt manna, sem töldu sig óbundna að þurfa að greiða til samfélagsins. Þeir tæmdu bankana innan frá, keyptu upp fyrirtæki seldu öll verðmæti úr þeim og komu þessu góssi undan í erlendum skattaskjólum. Í dag er enn við lýði stór atvinnugrein sem beitir öllum ráðum til þess að koma sér hjá því að þurfa að skila samfélaginu samgjörnum arði af nýtingu þeirra á þjóðarauðlindinni sem er í hafinu umhverfis Ísland. Þessi hópur berst með öllum ráðum gegn því að Stjórnarkrá landsins verði breytt og eignaréttur þjóðarinnar tryggður, þeir hafa úr miklum sjóðum að spila til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og styðja „rétta“ aðila í kosningum.

80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar. Launamönnum eru með því gert að greiða aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu. Um 20 þús. íslensk heimili misstu allt sitt, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að þar væri á ferð efnahagskreppa. Þessi staða er enn til staðar, íslensk heimili eru ennþá í meiri vanda en heimilin á hinum Norðurlandanna.

Á þessu ári hafa verið ört vaxandi útflutningstekjur af miklum makrílveiðum, sem gæti verið tímabundinn arður þar sem ekki hafa náðst samningar við aðrar þjóðir um hvernig skipta eigi þessum veiðum. Auk þess skiptir miklu aukning er í ferðaþjónustu vegna lágs gengis krónunnar. Ef ekki tekst að takast á við efnahagsvandan umheimsins þá er allar líkur á að útflutningstekjur Íslendinga minnki umtalsvert. Í ferðaþjónustu hafa skapast ný störf, en það eru ekki hálaunastörf og mikið um aðflutt fólk sem fer í þau störf.

En þetta eru skammtímalausnir, það blasir við íslendingum að þurfa að leysa úr gjaldmiðilsmálum sínum til framtíðar. Krónan hefur reynst vel við að auka útflutningstekjur með því að gengisfella hana, en vert er að halda því vel til haga að krónan var mikill gerandi í því að hér varð fullkomið kerfishrun haustið 2008, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar. Stígandi lukka er best, stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, hann hagnast á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein/og greining......er einhvers staðar að finna link á norsku þýðinguna?

Harpa Björnsdóttir

Nafnlaus sagði...

80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar.
Langar að bæta við góða og rétt frásagða grein að mjög margir hafa þurft að sætta sig við 20-30% beina launalækkun í margskonar formi, td. lengri vinnutíma.
Takk fyrir góða grein.

Haraldur

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins þar sem Guðmundur segir,,,,

"Þessi hömlulausa prentun krónuseðla var afleiðing á fjármálastarfsemi bankanna og vaxta- og peningastefnu Seðlabankans. Afleiðingar innstreymis erlends lánsfjár, aflandskróna og hlutabréfafúsks. Þarna er að finna snjóhengjuna margumræddu.

Ef gjaldeyrishöftum á Íslandi verður aflétt án þess að gripið verði til sérstakra varnarráðstafana, mun að öllum líkindum skella á önnur risavaxinn efnahagslega kreppa í formi mikillar gengisfellingu krónunnar, sem myndi valda miklum verðbólguskell og ofurvöxtum sem myndi kaffæra til viðbótar fjölda heimila og fyrirtækja. Sá árangur sem nú er kallaður hið íslenska efnahagsundur er framhlið leiktjalda handstýrðs gjaldmiðils.

Aflandskrónur, erlendar krónueignir kröfuhafa bankanna og krónueignir margra landsmanna sem myndu vilja skipta í erlendan gjaldeyri, eru svo stór vandi að hann er vart skiljanlegur venjulegu fólki. Það sem verra er, vandinn fer vaxandi. Það er einungis ein raunsæ leið úr þessu og hún er að ná samningum við Seðlabanka ESB um upptöku Evru og fá aðstoð til þess að komast í gegnum hina ógnvænlegu snjóhengju."

Friðrik Jónsson, hefur einnig sett þennan vanda í myndrænt form, sem er betur skiljanlegt og um leið ógnvænlegt,,,

http://blog.pressan.is/fridrik/

Guðmundur sagði...

http://klassekampen.no/

Þetta verður í blaðinu sem fer í prentun í þessari viku og birtist á föstudaginn

Nafnlaus sagði...

Guðmundur takk fyrir marga frábæra pistla einmitt um gjaldmiðilsmálin og hversu mikil áhrif það hefur a kjör launamanna. Verst að þú skildir fara úr formannsstólnum í fyrra.

Þetta blasir svo vel við, þess vegna er illskiljanlegt hvers vegna sum verkalýðsfélög taka ekki virkan þátt í því að berjast fyrir þessu mesta hagsmunamáli launamanna að ganga í ESB