fimmtudagur, 13. desember 2012

Háskólaprófessor tekur viðtal við sjálfan sig í LÍU blaðinu


Öflugri verkalýðshreyfingu hefur verið þakkað hið örugga og friðvænlega ástand sem ríkt hefur á Norðurlöndum. Okkur hefur tekist að skapa sérstöðu í heiminum.  Með stöðugri baráttu tókst að halda stjórnvöldum á réttri braut alla síðustu öld.  Foreldrum okkar tókst að brjótast upp úr örbirgð og skapa fjölskyldum sínum tryggt og friðsamt umhverfi.  Á sama tíma hefur staðið yfir barátta verkafólks í þrælakistum í fátækari hlutum heimsins. Þar stritar blásnautt fólk og börn allt upp í 18 – 20 tíma á sólarhring við ömurlegar aðstæður í niðurníddum verksmiðjuhjöllum fyrir nokkra aura á tímann.  Þessir staðir eru afgirtir því vitneskjan um þrælahaldið verður almennari og andstaðan hefur verið vaxandi.

Kostnaðurinn við girðingar og gæslumenn með alvæpni er smáræði miðað við afraksturinn af því að framleiða tískuvöru fyrir efnaða Vesturlandabúa og þetta breiðist út til allra átta, líka til okkar í norðrinu. Þrælakistur hafa fundist í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum.  Og við finnum þær hér á Norðurlöndum. Ungar konur og drengir eru þrælar klám- og eiturlyfjahringja.
 
Stofnuð eru fyrirtæki sem leigja út verkafólk til hverskonar verka á 100 dollara á mánuði. Lengd vinnutíma skiptir engu máli. Neðanjarðarhagkerfið blómstrar í skjóli kennitöluflakksins og gjöld til samfélagsins skila sér ekki. Samfara því gera þau eðlilegan rekstur innlendra fyrirtækja erfiðan eða jafnvel vonlausan. Sumar ríkisstjórnir hafa vaknað upp við vondan draum, í skjóli aðgerðarleysis þeirra hefur dafnað illgresi í bakgarðinum. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa valdið því að langtímaatvinnuleysi hefur margfaldast hér á landi, það sem af er þessari öld. Á meðan íslenskrar fjölskyldur berjast í bökkum, þá eru fluttir inn þúsundir blásnauðra erlendra verkamanna.

Fyrir skömmu var sett upp þrælakista uppi við Kárahnjúka með 1000 erlendum þrælum. Þar settu íslensk stjórnvöld upp girðingar til að halda vinnuaflinu á sínum stað og aðskilja það frá íslensku þjóðfélagi. Þar giltu sérstök lög um vinnutíma, ökuréttindi, starfsréttindi, öryggismál, aðbúnað verkafólks, kaup og kjör. Þessi lög eru samin og sett af ítölskum auðhring og þeim er framfylgt í skjóli aðgerðarleysis og endurtekinna undanþágna íslenskra stjórnvalda.
 
Talsmenn frjálshyggjunnar kætast og tala opinberlega um að nú séu góðir tímar. Hægt er að flytja inn ódýrt vinnuafl og hámarka arðinn með því að notfæra sér neyð bláfátæks fólks frá svæðum þar sem örbirgð ríkir. Með því sé hægt að halda aftur af ósanngjörnum launakröfum frekra og ofalinna launamanna, sem undir stjórn verkalýðsforkólfa hafa takmarkað hugsanlegan arð fjármagnsins.

Stefna öfgakenndrar frjálshyggju hefur tekið heimsbyggðina kverkataki. Samfélög eru að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju þar sem frelsi einstaklingsins er tryggt til að velja það sem honum sýnist, án tillits til samfélagsins og afleiðinganna. Allar áherslur miða að forréttindum og hagsmunum þess sem á fjármagnið.  Grafið er undan skipan samfélagsins og þetta leiðir af sér óöld.  Alið er á mýtum til þess að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Áhrifaríkustu leiðirnar eru að höfða til trúarbragða og þjóðernishyggju. Alið er á ótta og engu máli skiptir í hugum frjálshyggjumanna hvort mýturnar fela i sér eitthvert sannleikskorn. Þær gegna einungis því hlutverki að stjórn samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.

Búnar eru til einfaldar mýtur svo boðskapurinn komist til  skila. Dæmi um áhrifamikla mýtu er að bandaríska þjóðin sé stórkostleg. Þjóð sem hafi mikilvægu hlutverki að gegna, berjist gegn hinu illa í heiminum og breiði út hið góða, sem er lýðræði og bandarísk gildi. Þetta er lagt að jöfnu við boðun kristinnar trúar og hiklaust er gefið í skyn að þeir séu sérstakir boðberar Jesú Krists.
 
Svo mýtan virki þarf að búa til óvinaríki. Óvinavæðingin tengist á engan hátt hættunni sem til staðar er, heldur eingöngu metnaði viðkomandi stjórnmálamann til að viðhalda völdum. Boðuð er róttæk útþenslustefna bandarískra gilda, hernaðarhyggju sem leiðrétta á hið illa í heiminum, með þessu er skapaður samhugur heima fyrir. Settar eru upp sjónvarpsstöðvar sem senda linnulaust út boðskap um hinn afbakaða bandarísk rétttrúnað yfir heimsbyggðina.

Hermann Göring orðaði svipaða hugsun á áhrifaríkan hátt : Fólk vill ekki stríð ... En þegar allt kemur til alls eru  það leiðtogar ríkja sem eru stefnumarkandi og það er alltaf auðvelt að fá almenning á sitt band. Engu skiptir hvort um lýðræðisfyrirkomulag sé að ræða. fasisma, þingræði eða kommúnistastjórn... Það eina sem þarf að gera er að segja almenningi að von sé á árás og gera lítið úr friðarsinnum fyrir skort á þjóðernishyggju og fyrir að leggja þjóðina í mikla hættu það virkar eins í öllum löndum.

Helsti forsvarsmaður frjálshyggjunnar á Íslandi sagði á sínum tíma aðspurður hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. „Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum.  Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla.  Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf.“ Gróðafíkn er orðin að æðsta takmarki og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að mati á kaupgetu. Gleypigangurinn ræður ríkjum, hann er boðorðið, fyrirheitið og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar.

Tilteknir háskólaprófessorar fara hamförum þessa dagana, þeir óttast að íslenskum almenning takist að brjóta af sér fjötra hins íslenska gjaldmiðils, sem er handstýrt að útflutningsfyrirtækjum og valdastéttina. Grunn þessarar baráttu er að finna í nýrri stjórnarskrá. Í dag birtist viðtal við einn háskólaprófessor í þeim fjölmiðil sem gengur lengst í að verja hagsmuni  þeirra sem hafa náð undirtökum á íslensku samfélagi. Ummæli hans endurspegla þann hugarheim sem lýst er hér framar í þessum pistli.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Margur reiknar orðið með því að Íhaldið komast til valda á ný og gera sig nú þarfa þeim spillingaröflum.
Kannski fá þeir bitling fyrir vikið.
Hallærislegt. Maður fyllist orðið stolti yfir því að hafa aldrei verið nemandi við þessa stofnun sem kallast Háskóli Íslands. Pólitískar kjána-skoðanir prófessóra við HÍ eru stofnununni til háborinnar skammar.
Haukur Kristinsson