sunnudagur, 16. desember 2012

Rammaáætlun og tækifærissinnarnir í VG


Lengi hafa staðið deilur meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Flestir voru sammála um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för í þessu viðkvæma málaflokki.

Í nær öllum kosningabaráttum hafa stjórnmálamenn farið um og lofað mikilli atvinnuuppbyggingu í sínu kjördæmi, sjaldan kom fram í máli þeirra hversu mikla orku þyrfti þannig að hægt væri að framkvæma þau loforð sem þeir gefa. Það var í þessu umhverfi sem ákveðið er að hefja vinnu við Rammaáætlun.

Þar var m.a. litið til þess hvernig norðmenn hefðu leyst samskonar deilur. Við borðið settust ekki bara fulltrúar stjórnmálamanna og Landsvirkjunar, allir hagsmunaaðilar fengi sinn stól, þar á meðal útivistarfólk og var ég fulltrúi þeirra í fyrri umferð þessarar vinnu.

Nú er búið að afla upplýsinga sem segja okkur svart á hvítu að tiltekin svæði séu dýrmæt fyrir þróun íslenskrar náttúru eða sem vettvangur ferðaþjónustu, útivistar og lífsfyllingar fólks, þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði hafa verið sett í biðflokk þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu.

Á meðan þessi vinna hefur staðið yfir hefur komið fram að gufuaflsvirkjanir eru ekki eins umhverfisvænar og margir vildu halda fram. Ekki hefur tekist að leysa vandamál hvað varðar útblásturs- og affalsmengun frá gufuvirkjunum, auk þess að töluverkur vafi er um rekstaröryggi nokkurra svæða.

Það hefur aldrei verið hlutverk Rammaáætlunar að uppfylla loforð tækifærissinnaðra stjórnmálamanna, heldur er henni þvert á móti ætlað að skapa sátt um nýtingu til framtíðar. Tryggja eins vel og frekast verður kosið sjálfbæra þróun og gætt sé varúðar við að finna hagfellda nýtingu náttúrusvæða.

Nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur loks fyrir, ætlumst við til að farið sé að niðurstöðum hennar og skammtímahugsun og tækifærismennsku stjórnmálamanna vikið til hliðar. Sé litið til alls þess að er harla einkennilegt og reyndar mótsagnarkennt þegar einhver hópur stígur nú og vill rifta niðurstöðu Rammaáætlunar fram að segist tala fyrir munn náttúruverndarsinna og hefur í hótunum við launamenn og samtök þeirra.

Þessi hópur vill ekki sleppa fyrri möguleikum til brellubragða og því fer fjarri að þetta fólk tali fyrir munn allra náttúruverndarsinna, þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd og þar fara fremst nokkrir þingmenn og ráðherrar VG.

Það liggur fyrir að það þarf að virkja á Íslandi. Það eru ákveðin svæði sem eru betur til þess fallin en önnur. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að virkja öll þessi svæði nú þegar.

Það er mikið atvinnuleysi á Íslandi og það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum svo við náum að vinna okkur út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir. Ef það á að takast verður ekki komist hjá því að auka fjárfestingar hér á landi. Þetta er ekki einkaskoðun einhverra verkalýðsforkólfa sem eru um borð í virkjanahraðlest, svo ég vitni í dylgjur og upphrópanir VG manna sem telja sig vera sjálfkjörna málsvara allra náttúruverndarsinna og um leið almennings hér á landi.

Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir einfaldlega að benda á samþykktir félagsmanna og að hvaða markmiðum við höfum stefnt að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar.


Í Rammaáætlun er sátt um forsendur fyrir víðtækri friðun byggðri á raunsæjum forsendum og þar er tekið fram fyrir hendurnar á tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum sem gefa sig út fyrir að vera hinir einu og sönnu náttúruverndarsinnar. Þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd.

Guðmundur Gunnarsson formaður umhverfisnefndar ASÍ 


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rammaáætlun var sett í umsagnarferli og kom fjöldi athugasemda. Eftir skoðun voru einhverjir kostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk - þarf að skoða betur. "Það er ekki þar með sagt að það þurfi að virkja öll þessi svæði nú þegar" Nei, einmitt, það eru nú þegar tvær virkjanir með framkvæmdarleyfi og 16 aðrir virkjanakostir í nýtingarflokki í tillögunni eins og hún stendur núna. Það hlýtur að nægja í bili.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Hvaða hópur hefur í hótunum við launamenn og samtök þerra út af rammaáætlun og hvenær gerðist það?

Hvað er að því að 6 virkjanir fari úr nýtingarflokki í biðflokk í um eitt ár á meðan verið er að svara athugasemdum sem komu fram í lögformlegu umsagnarferli?

Kveðja,
Garðar Garðarsson