laugardagur, 30. mars 2013

TöfralausnirAfnám verðtryggingar er það mál sem ber einna hæst í undirbúningi stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar. Það eru reyndar margir búnir að tala hátt og mikið um verðtryggingu, hana þurfi að afnema.

Einhverra hluta vegna hafa stjórnmálamenn alltaf hætt að tala um að þeir ætli að afnema verðtrygginguna, þegar þeir hafa skoðað málið vandlega. Af hverju hefur það ekki þegar verið gert? Allir stjórnmálaflokkarnir sem tóku þátt í síðustu kosningum mættu í kosningabaráttuna með ályktanir flokksþinga um afnám verðtryggingar.

Margir virðast halda að í afnámi verðtryggingar sé fólgin kjarabót, þar á meðal eru t.d. nokkrir verkalýðsforingjar, sem hafa farið mikinn í þessum efnum og borið mjög þungar sakir á aðra félaga sína í verkalýðshreyfingunni. Afnám verðtryggingar tekur mjög langan tíma, það er ekki hægt að láta hana gilda afturvirkt. Í dag er sú staða að nánast öll ný íbúðalán sem bankar veita eru óverðtryggð. Lækkuðu reikningarnir eitthvað?

Útlán Íbúðarlánasjóðs hafa hrunið síðustu mánuði og uppgreiðslur lána Íbúðarlánasjóðs nema hærri upphæð en út er lánað. Ef þær fjölmörgu skýrslur sem hafa verið gefnar út um langtímalán eru skoðaðar, kemur alltaf fram sú niðurstaða að verðtryggð lán séu hagstæðari, vegna þess að vextir á óverðtryggðum lánum séu svo mikið hærri.

Það er ekki hægt að afnema verðtryggingu, eða lækka vexti nema að skipta út krónunni. Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs, langstærsta veitenda verðtryggðra lána er einungis 0,27 prósent og vextir verðtryggra lána eru um helmingi lægri en óverðtryggðra, það gerir gæfumuninn þegar til langs tíma er litið.

Verðbólguhringrásin byggir a tveimur forsendum: Í fyrsta lagi að lífeyrisréttindi eru verðtryggð og lífeyrissjóðirnir hafi því náttúrulega eftirspurn eftir verðtryggðum eignum. Í öðru lagi að útgáfur Íbúðalánasjóðs njóti ríkisábyrgðar en án hennar eru skuldabréf sjóðsins aðeins með veð í fasteignum og geta ekki haft svo þungt vægi i eignasöfnun lífeyrissjóða eins og nú er, samkvæmt eðlilegum viðmiðum í eignastýringu.

Fyrir heimili landsins virkar hringrásin þannig að þau borga verðtryggða vexti til lífeyrissjóðanna af húsnæðislánum sínum yfir vinnuævina sem þau fá síðan til baka með verðtryggðum eftirlaunum.

Spurningin um það hvort banna eigi verðtryggingu snýst því um hvort það eigi að loka þessari„verðbólguhringrás“ eða breyta henni með einhverjum hætti. Það er þó ekki hægt að breyta einum hlekki í ferlinu án þess að hafa áhrif á alla hina. Ef verðtrygging er lögð af í lánaviðskiptum liggur jafnframt fyrir að mjög erfitt verður fyrir lífeyrissjóðina að lofa verðtryggðum lífeyrisréttindum.


Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins hefur dregið fram gamalt loforð um 20% flata skuldaafskriftir og segir réttilega að það kosti um 240 milljarða króna, það samsvarar liðlega 40% af áætluðum tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Hann er ekki einn um þetta, vinsælir álitsgjafar í spjallþáttum hafa einnig slegið um sig með þessum loforðum.

T.d. var einn þeirra Ólafur Arnarson í Silfri Egils nýlega, en hann gat ekki með nokkrum hætti útskýrt hvernig ætti að framkvæma þetta, en staglaðist endurtekið á innihaldslausum upphrópunum og skrumi, sem besti blaðamaður þessa lands um efnahagsmál „Þórður Snær Júlíusson“ leiðrétti jafnharðan. Það var pínlegt að horfa upp á Ólaf Arnarson í þeim þætti.

Lausn „snillinganna“ snýst um að láta kröfuhafa föllnu bankanna standa straum af þessum kostnaði. Hugmyndir sem jafngilda þjóðnýtingu erlendra eigna kröfuhafa. Allar niðurfærslur á krónueignum kröfuhafa fara í að vinna á snjóhengjunni, það er ekki hægt að nota sömu fjármuni tvisvar. Eignarrétturinn er friðhelgur og það sem þessir menn boða er brot á alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða.

Þessir hinir sömu snillingar halda því ákaft fram að þeir hafi unnið mikinn sigur í Icesave málinu. Dráttur á lausn Icesave deilunnar leiddi til þess að Ísland hefur að óþörfu búið við slaka viðskiptastöðu í nokkurn tíma, það hefur margoft komið fram hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins. Icesave hefur valdið okkur gríðarlegum skaða þrátt fyrir að dómsmálið hafi unnist.

Seðlabanki Íslands á í Icesave uppgjörinu ógreiddar kröfur vegna hinna svokölluðu ástarbréfa að upphæð um 127 milljarð króna. Auk þess hefur ríkissjóður þurft að leggja nýja Landsbankanum til 122 milljarða króna í eigið fé og þar til viðbótar þarf nýi Landsbankinn að greiða 300 milljarðar króna í þrotabú hins gamla fram til ársins 2018.

Það á að greiðast í erlendum gjaldeyri sem ekki er til. Þarna situr hnífurinn blýfastur í blekkingarkú ofursnillinga spjallþáttanna og kosningabrellnanna.

Þetta lokar okkur innan gjaldeyrishaftamúranna, sem eykur á verðbólguvandann og skerðir verulega möguleika okkar til þess efnahagsbata og þeirra kjarabóta sem við leitum að með logandi ljósi í endurnýjun kjarasamninga næsta haust.

Icesave-deilan var skrímsli sem tætti í sundur þjóðina, þjóð sem sannarlega hefði þurft að standa saman og takast á við efnahagsvandann í stað þess að gera tilraun að kjósa hann í burtu ýta honum þar með á undan sér. Þeir sem benda á þessar staðreyndir eru umsviflaust kallaðir ljótum nöfnum eins og þjóðníðingar eða eitthvað þaðan af verra.

Kosningavíxlar eins og þeir sem hér hafa verið taldir upp kalla yfir okkur enn verri stöðu en við erum þegar í, það eru ekki til einföld töfrabrögð eins og halda því fram að afnám verðtryggingar sé auðveld og leiði til umsvifalausra kjarabóta, skuldaniðurfelling kosti ekkert og Icesave reikningurinn hafi verið sendur eitthvað annað.

Sumir þessara reikninga liggja nú þegar í gluggaumslagi á skrifborði fjármálaráðherra. Ef farnar verða framangreindar leiðir eru allar líkur á að fleiri reikningar verða settir í gluggaumslög næsta haust og allir þessir reikningar verða áframsendir til íslenskra heimila á næstu árum í formi hærri skatta og lægri launa.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill! Það var mjög athyglisvert að sjá yfirburða þekkingu Þórðar Snæs á fjármálum þjóðarinnar.

Hrekkjalómur

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Vandi heimilanna, fyrirtkjækjanna og þjóðarinnar er krónan – sem vegna smæðar framkallar sveiflur og verðbólgu og milku hærri vexti en eru innan evrunnar.

Sjá í Fréttablaðinu http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/111214.pdf bls 18 Ólafur Darri.

Sjá skýrslu Viðskiptaráðs http://www.vi.is/files/2012.11.08-Skodun-gjaldmidilsmal_1961160095.pdf

Ef Ísland tæki upp evruna myndu vextir lækka um 4% af öllum skuldum.

Ríkið skuldar 1500 milljarða, einstaklingar skulda 1500 milljarða og fyrirtækin skulda 1700 milljarða skv ASÍ. Þetta eru samtals 4700 milljarðar og 4% af því eru 190 milljarðar eða tæpir 200 milljarðar á ári.

Ef tekin væri upp evra gæti sparnaður ríkisins þ.e. 4% af 1500 = 60 milljarðar á ári farið í að koma til móts við skuldsett heimili, t.d. tímabundið í 2 – 3 ár – í stað þess að fara í að borga himinháa vexti vegna ónýts gjaldmiðils – meira gang í því.

Ef tekin væri upp evra myndu heimilin borga 4% lægri vexti af sínum lánum á ári þ.e. 1500 milljarðar x 4% = 60 milljarðar ár ári = sem greiðslubyrði heimilanna myndi lækka til allrar framtíðar á hverju ári vegna lægri vaxta af lánum.

Með upptöku evru myndu skuldsett heimil landsins fá ávinning af framlagi ríkisins 60 milljarða og einstaklinga að upphæð 120 milljarðar á ári – til allarar framtíðar.

Sparnaður ríkisins (60 milljarðar) gæti fyrstu 2 – 3 árin farið í að koma til móts við skuldsett heimilin. Eftir þann tíma yrði sá sparnaður ávinningur allra heimila, sem gæti komið kæmi fram í lægri sköttum og meiri framlögum til sjúkráhúsa, skóla, menntunar, lögreglu o.fl.

Fyrirtækin myndu einnig borga 4% minni vexti af 1700 milljörðum þ.e. 1700 x 4% = 70 milljarðar, sem myndi einnig koma heimlum til góða, með aukinni fjárfstingu atvinnulífsins, hærri láunum eða lægra verðlagi.

Í heildin væri ávinnugur af evrunni um 200 milljarðar á ári í lægri fjármagnskostnað – sem er um 2,5 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu á hverju ári, - en það er kostnaður krónunnar í dag.

Þetta er varanleg og traust lausn – og stærsta mál kosningann – og mesti ávinningur fyrir skuldsett heimili á Íslandi – sem byggt er á raunhæfum traustum og einföldum aðgerðum.

Íslands gæti fengið aðild að ERM II (eins og Danmörk) á sama ári og aðild að ESB væri samþykkt eða hugsanlega eftir 2 – 3 ár hugsanlega 2016!!!

Þetta er lausn sem er í hendi landsmanna sjálfra.

Ef þessari lausn er hafnað – þá er augljóst hvert framhaldið verður – versnandi staða heimilanna – háir vextir, kollsteypur, gjaldeyrishöft og versnandi lífskjör.

Þegar – valin er leið – er ágætt að hafa í huga hverskonar aðstæður – við viljum að unga fólkið og heimili í vanda – geti búið við í framtíðinni.

Þessu verður hver að svara fyrir sig.

Nafnlaus sagði...


Hvernig væri að hafa skoðanakönnum um það hvort almenningur vilji borga 2,5 milljónir á hverja 4ra manna fjölskyldu til að halda uppi krónunni - eins og bent hefur verið á.

Hvaða fjölskylda í salnum vill borga 2,5 milljónir á ári fyrir gjaldmiðil - sem gerir ekkert annað en að búa til meiri vandræði???

Hvað sjá menn margar hendur á lofti,,, ég sé enga,,,, en þú,,,

Þetta ætti að vera næsta skoðanankönnun,,Nafnlaus sagði...

Skuldir, sérstaklega í innanlandsgjaldmiðli, eru ávallt "skilgreiningaratriði"... eða "matter of definition".

Seðlabanki Íslands gæti gengisfellt krónuna um 10000% á morgun og látið þessa snjóhengju endanlega gufa upp.

Á sama tíma gæti Alþingi sett lög um að allt skuli hækka í verði sem nemur gengisfellingunni, laun og hvað eina.

Allar skuldir gufa upp.

Eða, Ísland gæti farið þá leið sem Kýpur fór (með blessun ESB... og skítt með alla alþjóðasamninga) að skattleggja allar eigur og innistæður um 90%.


Það sem höfundur áttar sig ekki á er einmitt þetta, alþingið hefur lagavaldið, og lagavaldið er líkt og töfrasproti.

Að festa sig í einhverri reikningsæfingu er tilgangslaust. Þegar í vanda er komið er það ávallt á forræði fullvalda ríkja að skilgreina sig út úr vandamálum.

Nafnlaus sagði...

En versla banka fyrir okkar sparnað, samkvæmt fréttum. Er það ekki eins og fleygja peningunum okkar.

Benedikt.

Nafnlaus sagði...

http://www.visir.is/afram-hopurinn--segjum-ja-vid-icesave/article/2011110329406

Nafnlaus sagði...

Guðmundur það er ljótt að segja sannleikann.

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Umræðan undanfarið minnir mig á lagið: "ljúðu að mér, ekki segja allt sem þú meinar, ekki segja sannleikann því lýgin er sætari en hann".

Eins og fólk velji að hlusta fyrst og fremst á þá sem segja það sem það vill trúa.

Sammála skrifum Guðmundar.

Með 4% lægri vexti: væntanlega munu vextirnir endurspegla áhættuna af því að lána peningana. Með evru er ekki gjaldeyrisáhætta sem vissulega lækkar vexti. Hins vegar þurfum við þegar öllu er á botninn hvolft að hafa hér öflugt efnahagslíf með sem minnsta áhættu eða sveiflur. Þá höfum við eftirsóknarverð veð fyrir lánum og fáum lága vexti.

Nafnlaus sagði...

Vandinn er sá að við lifum í markaðssamfélagi. Okkar markaðssamfélag er síðan hluti af hinu alþjóðlega markaðssamfélagi.
Verðmæti fer upp og niður. Það að vera með fljótandi krónu eins og við gerðum þýddi að krónan var komin á markað rétt eins og hlutabréf og annað slíkt, en einnig fasteignir. Allt sem er á fjármálamarkaðnum getur farið upp og niður, sérstaklega það sem ekki er mjög stórt. Það gerðist með krónuna okkar, þ.e. hún rýrnaði verulega að verðmæti. Það sem síðan er deilt um s.s. skuldir heimilanna er afleiðing af þessu. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvað er sanngjarnt, en at the end of the day þá varð hér gríðarlegt tap á vermætum, þ.e. krónan féll gríðarlega.

Það tap verður ekki veifað í burtu með töfrasprota jafnvel þó að lýðsskrumarar meðal stjórnmálamann haldi því fram.

Það að kaupa markaðsverðmæti hvort sem það eru hlutabréf, gjaldmiðill eða húsnæði felur í sér áhættu. Það getur enginn töfrað í burtu tap af slíkri fjárfestingu.

Nafnlaus sagði...

Það er hreint út sagt skelfilegt að horfa upp á Icesave-blekkingar Indefence hópsins sem stjórnar Framsókn í dag.
Takk fyrir fantagóða pistla eins og áður. Gott að sjá að þú sért farinn að blogga af sama krafti og áður, og eins og þú sagðir á fundi um daginn nú getir þú loks farið að tala af krafti þegar þú ert hættur sem starfsmaður RSÍ

Nafnlaus sagði...

Staðan er þó sú að ef erlendir kröfu hafir vilja fá greitt út í erlendum myntum þá verða þeir að semja. Það er ekki endilega verið að tala um eignaupptöku heldur lausn sem þjónar hagsmunum beggja aðila. Það er ekki til gjaldeyrir til að greiða þeim út sem og að þrotabú skal gert upp í íslensk um krónum. Þetta er kallað samningsstaða. Því er raunhæft að eitthvað geti komið til ríkisins.

Nafnlaus sagði...

Hvernig færðu það út að verðtryggð lán séu ódýrari en óverðtryggð? Það er mjög einfalt að fara inná lána reiknvél á heimasíðum bankana og bera saman lánin. Ef þú reiknar bara með 2,5% verðbólgu sem eru verðbólgumarkmið seðlabankans(sem hefur reyndar sjaldan eða aldrei náðst) þá er verðtryggða lánið dýrara.Svo ef verðgólgan er meira en 2,5 % þá er verðtryggða lánið ennþá dýrara.

Nafnlaus sagði...

Grunnvextir á Íslandi eru að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum, það er afleiðing mikillar og viðvarandi verðbólgu sem sveiflur krónunnar valda. Óverðtryggðir vextir eru um 3% hærri en verðtryggðir vextir. Sveiflukennd króna veldur gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið vegna hins mikla vaxtamunar.
Ef við hefðum verðbólgu á svipuðu stigi og hún er í nágrannalöndum okkar, væru vextir á langtímalánum milli 2 og 3% og verðtryggingarálög væru óvirk. Hér er á ferðinni mesta hagsmunamál íslenskra launamanna.

Nafnlaus sagði...

Til að átta sig betur á því hvaða áhrif verðbólguskot hefur má skoða dæmi um tvö 24 millj.kr. lán til 40 ára, annað verðtryggt og hitt óverðtryggt. Verðbólga er 2,5% allan lánstímann nema hvað að það kemur verðbólguskot með 12% verðbólgu í tvö ár og 5,5% í næstu tvö ár þar á eftir.

Óverðtryggð lán bera talsvert meiri greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum á fyrri hluta lánstímans á meðan verðtryggð lán er ,,léttara‘‘ til að byrja með en þyngra á seinni hlutanum. Hvort þetta er kostur eða ókostur ræðst væntanlega af tekjum viðkomandi fjölskyldu. Hér er miðað við lán af meðalíbúð fyrir fjölskyldu á meðaltekjum.

En hvaða áhrif hefur verðbólguskotið á greiðslubyrði þessara ólíku húsnæðislána? Greiðslubyrði óverðtryggða lánsins hækkar mjög mikið á meðan verðbólguskotið er að ganga yfir meðan greiðsludreifingarþáttur verðtryggða lánsins dregur úr hækkun greiðslubyrðarinnar.

Af óverðtryggða láninu hækkar greiðslubyrðin um samtals 6 millj.kr. á þeim fjórum árum sem verðbólguskotið gengur yfir en fellur síðan aftur í sama farið en greiðslubyrðin af verðtryggða láninu hækkar um 50 þúsund krónur þessi fjögur ár, því hækkun vaxtanna leggst að mestu á höfuðstólin og dreifist því á restina af lánstímanum.

Ef gengið er út frá því að fjölskyldan geti greitt hækkunina á óverðtryggðu vöxtunum er hinn mikli munur á milli þessara tveggja lánaforma fólginn í því að eftirstöðvar verðtryggða lánsins verða á hverju tíma hærri en óverðtryggða lánsins, þ.e. eignamyndunin í óverðtryggðakerfinu er hraðari.

Hins vegar er hætt við því að fjölskyldur með meðaltekjur þurfi að taka ný lán til þess að borga hækkun óverðtryggðu vaxtanna. Kjör slíkra lána eru yfirleitt mun verri en þau kjör sem eru á húsnæðisláninu og að auki bætist 250 þús.kr. lántökukostnaður við.

Nafnlaus sagði...

http://www.visir.is/afnam-verdtryggingar---og-hvad-svo-/article/2013130309046

Nafnlaus sagði...

http://skemman.is/stream/get/1946/10430/25983/1/Anna_%C3%93sk_L%C3%BA%C3%B0v%C3%ADksd%C3%B3ttir.pdf