föstudagur, 10. maí 2013

Kosningaloforð Framsóknar


Í nýlegum fréttum kemur fram að gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur ekki verið minni í þrjú ár. Verðmæti forðans fór undir 500 milljarða króna í apríl og var kominn niður í rétt tæplega 480 milljarða kr. um síðustu mánaðarmót. Forðinn hefur ekki verið minni síðan í maí árið 2010.
 
Í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans er skýrt á öfgalausan og yfirvegaðan hátt hvílík firra málflutningur Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninga var. Hann var reistur á því að kröfuhafar þrotabúa gömlu bankanna þyrftu á nauðasamningum að halda við Ísland. Einkennileg nálgun því þrotabúin skulda einfaldlega ekki neitt og þurfa ekki nauðasamninga.
 
Seðlabankinn hefur bent á að við séum í þeirri stöðu að viðskiptaafgangur næstu ára dugi ekki fyrir samningsbundnum skuldbindingum innlendra aðila, hvað þá að skipta aflandskrónum eða eignum þrotabúa föllnu bankanna fyrir gjaldeyri.
 
 
Jafnvel þótt þrotabú föllnu bankanna afhentu Seðlabankanum allar krónueignir án endurgjalds, væri greiðslustaða þjóðarbúsins neikvæð til ársins 2019. Árangurslaust hafa aðilar vinnumarkaðsins bent á að auka þurfi fjárfestingar í atvinnulífinu til þess að auka verðmætasköpun í landinu og auka útflutningstekjur, má þar t.d. benda á Stöðugleikasáttamálann.
 
Það er engin innstæða fyrir eignum þrotabúanna, íslenskar krónur eru skuld þjóðarbúsins en ekki eign. Ef Seðlabankanum tækist að losa um höftin með því að minnka peningamagn í umferð með niðurfærslu eigna þrotabúanna, en nýti það síðan til að greiða niður skuldir annarra aðila, þá eykst peningamagn í umferð vitanlega aftur um sömu upphæð og skuld ríkissjóðs vex aftur.

Niðurfærsla lána heimilanna um 300 milljarða mun hafa þau áhrif að hrein eign heimilanna mun batna sem þeirri upphæð nemur. Það hefur áhirf neyslu heimilanna, allavega sé litið til hins umtalaða fjármálalæsi íslendinga. allar líkur eru á að þau taki lán fyrir nýjum innfluttum vörum og greiðslujafnarvandinn ykist enn meir.

     
Við höfum ekki efni á að losa fjármagnshöftin nema gera annað af tvennu: Gamla gengisfellingaleiðin með tilheyrandi verðbólgu, lífskjararýrnun, gjaldþrotum fyrirtækja og sveitarfélaga. Eða að ganga til samninga um minnkum peningamagns í umferð. Ef leið Framsóknar er farinn mun gengi krónunnar lækka mun meira við afnám haftanna, sem mun svo leiða til mikillar lífskjaraskerðingar, mun meiri og víðtækari en endurgreiðsla á 20% af skuldum heimilanna.
 
Ástæðan fyrir því að það þarf að semja um niðurfærslu krafna er að hér eru gjaldeyrishöft, ástæðan fyrir því að það eru höft er að það er alltof mikið peningamagn í umferð, ástæðan fyrir því að það er alltof mikið peningamagn í umferð er að það var gefið út alltof mikið af skuldaviðurkenningum í formi prentunar á verðlausum pappír sem er merktur sem krónur sem ríkissjóður segist ætla að ábyrgjast.
 
Næsta haust hefjast viðræður um endurnýjun allra kjarasamninga í landinu. Eins og margoft hefur komið fram, er þolinmæði launamanna gagnvart krónunni löngu þrotin. Kaupmáttur er reglulega skertur með gengisfellingum og verðbólgan skekur skuldastöðu heimilanna.
 
Háværasta krafa launamanna er að þennan vítahring verði rjúfa. Taka verði frá stjórnmálamönnum þann möguleika að leiðrétta reglulega hagstjórnarmistök með gengisfellingu og verðbólguskoti. En það er einmitt það sem er undirliggjandi í tillögum Framsóknarflokksins.
 
Helsti fjármálasérfræðingur Framsóknar sagði í spjallþáttum í kosningabaráttunni að þetta sé ekki vandamál, það séu nægir peningar til í lífeyrissjóðunum. Það jafngildir því að senda skuldasúpuna til næstu kynslóðar, enn ein skyndiredding hins íslenska stjórnmálamanns.
 
Oft er sagt að verðbólga sé einungis alvarlegt vandamál vegna þess að hvorki stjórnmálamenn taki vandamálið alvarlega, heldur kjósa ætíð að ýta því á undan sér í stað þess að taka á sig óþægindin því það kosti atkvæði. Það endurspeglast vel í nýliðinni kosningabaráttu. Það hefur komið fram að launamenn eru tilbúnir að ræða raunverulega leið úr þessum gríðarlega, en það verður þá að vera alvöru lausn til frambúðar.
 
Losun gjaldeyrishafta verður ekki sársaukalaus en það er óhjákvæmilegt að taka strax á þeim vanda, annars mun Ísland falla enn neðar og kjör fólks verða enn lakari. Stefna Framsóknarflokksins miðast að því að senda reikninginn til barna okkar og læsa Ísland inni í höftum til langframa í skiptum fyrir vinsæla skammtímalausn.

Og svo er það spurninginn, Hvað var átt við þegar sagt var í kosningabaráttunni "Afnemum verðtrygginguna"? Engar skýringar hafa komið hvað þetta þýði. Margar nefndir m.a. með þingmönnum xB hafa reynt en alltaf gefist upp þegar búið var að greina hvað þetta þýddi.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað spáirðu stórri gengisfellingu í haust eftir samninga?
25%, 35% eða jafnvel 50%?

ÞÚB

Guðmundur sagði...

Hagfræðingar, m.a. einn þeirra fyrrum framámaður innan Framsóknar, segja að ef leið Framsóknar verði farinn óbreytt, verðu verðbólga hér í lok árs 214 nálægt 35% og efnahagsástand svipað og það var 1980.

Nafnlaus sagði...

Þrotabúin skulda kröfurnar frá kröfuhöfunum, alveg sama hvað Óðinn í Viðskiptablaðinu segir.

Kröfuhafar fá ekki krónu/evru/pund fyrr en stjórnvöld leyfa. Nú ef kröfuhafar vilja ekki semja þá skulum við sjá hversu snöggir þeir verða að borðinu þegar tilvonandi þrotabússkatur fer í gagnið - skattur sem mun skila ríkinu hátt í 100 milljörðum á ári af eignum þrotabúanna.

Nafnlaus sagði...

Það æpir á mann þögnin hvað varðar lausn stærstu kosningamálanna, afnám verðtryggingar og 20% niðurfelling allra fasteignaskulda strax í haust, sem urðu til þess að atkvæðin fóru til xB. Við treystum þeim til þess að standa við loforð sín.

Guðmundur sagði...

Það er nú allmargir fleiri en "Óðinn" sem skilja ekki málflutning Framsóknar og hvernig flokkurinn ætli að fara að því að standa við loforðin. Þar á ég ekki bara við það sem ég er fjalla um í þessum pistli, það á ekki síður við um afnám verðtryggingar. Við hvað er átt? Hvað á að koma í staðinn?
Ég spái því að ekkert komi út úr þessum loforðum xB, nema þá kannski loðnar yfirlýsingar.

Nafnlaus sagði...

Þrotabú föllnu bankanna eiga hátt 3000 milljarða, aðallega í erlendum eignum.

Féð verður sótt þaðan með beinni skattlagningu, samningum eða óhagstæðu skiptigengi.

Guðmundur sagði...

Það er reyndar aðalspurningin hvað ætla menn að gera við þessa peninga, það er að segja ef þeir nást?
Hvernig ætla menn að ná stjórn á hagkerfinu, án þess að grípa til gengisfellinga. Um það snýst þessi pistill og um það ræða samningamenn stéttarfélaganna þessa dagana.

Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir mikla verðbólgu á næsta ári?, hvernig ætla menn að tryggja vaxandi kaupmátt?

Hvernig ætla menn að ná niður vöxtum, og vaxtamun sem er hér um 3% hærri en annarsstaðar?

Verðtrygging (eða einhver önnur greiðsludreifing á ofurvöxtum) hverfur ekki nema að verðbólgan sé innan við 3.5%.

Ekkert af þessu var skýrt út fyrir okkur í kosningabaráttunni. einungis upphrópanir
"Afnemum verðtrygginguna"

"Afnemum skuldafjallið"

Ekkert af þessu var skýrt út.

Nafnlaus sagði...

Er það ekki bara eðli málsins samkvæmt að ef krónan styrkist þá minnkar gjaldeyrisforðinn í krónum talið.