föstudagur, 14. mars 2014

Ómöguleikastefnan


Röksemdafærslan um „ómöguleikann“ felur það í sér að ráðherrar eru að lýsa sig óhæfa til þess að fylgja eftir ákvörðunum Alþingis og þjóðar nema það sé í samræmi við þeirra eigin skoðanir og allir séu þeim sammála.

Þeir telja sig ekki geta verið faglegir í störfum sínum innan framkvæmdavaldsins nema það sé í samræmi við þeirra eigin skoðanir. Hvað þá með önnur mál? Hvernig ætla þessir ráðherra að framfylgja lögum ef þeir eru þeim ekki sammála? Hvað með samskipti við aðrar þjóðir.

Ég hef verið stjórnarmaður Evrópskra byggingarmanna í allmörg ár, þetta er 8 millj. manna samtök sem starfa í Luxemborg og Brussel. Helsta verkefni þeirra er að hafa áhrif á reglugerðarsetningu og ákvarðanatöku í Brussel.

Ég þekki því mjög vel hvernig unnið er á þessum vettvangi. Við Norðurlandamenn erum með öflugt samstarf og sammælumst alltaf um hvert við viljum stefna. Okkur hefur orðið vel ágengt í samstarfi við Þýskaland og Belgíu.

Ástæða er að halda því til haga að um 80% viðskipta Íslands er við þessar þjóðir. Ef þú sýnir í svona starfi samskonar framkomu og hroka eins fram hefur komið í yfirlýsingum íslenskra ráðherra í garð vinaþjóða okkar, svo maður tali nú ekki um samskonar viðhorf og er að baki ómöguleikanum, þá ert þú einfaldlega sniðgengin, settur á hliðarlínuna.

Þetta hefur birst okkur vel í ummælum ráðanda aðila niður í Evrópu gagnvart okkur í erlendum fjölmiðlum. Eftirtektarvert er að þau eru í æpandi mótsögn við þá „sigra“ sem forseti landsins og ráðherra hafa verið að lýsa hér heima.

Þessi staða er ekki tilkominn af illvilja Norðmanna og Færeyinga í okkar garð, þjóða sem hafa margendurtekið sýnt okkur einstakan velvilja. Þessi staða er í einu og öllu búinn til af framkomu og afstöðu fulltrúa Íslendinga.

Við höfum verið að horfa upp á þetta gerast undanfarin ár og það er ástæða þess að forseti vor og ráðherrar eru farnir að tala um Rússland og Kína.

Vinaþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu eru einfaldlega búin að fá nóg af fyrri yfirlýsingum og framkomu ráðherra okkar.

Ekki bætti úr skák þegar ráðherrar Íslendinga fóru að krefjast veiðiréttinda í Grænlenskri lögsögu fyrir íslensk veiðiskip sem nýbúið var að færa yfir í félög sem eru að töluverðu leiti í eigu Íslendinga

Fyrir utan það að samkomulagið bindur enda á deilur Dana og Noregs um aðgang að miðum í Norðursjó og bindur einnig enda á viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Færeyjum.

Sjónarmið íslenskra stjórnvalda voru talin léttvæg, svo ekki sé talað um þjóð sem margoft hefur verið með belgingslegar yfirlýsingar og sagt að hún ætli sér ekki að standa við gerða samninga, nema þegar henni henti og í samræmi við eigin skoðanir.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Eftir að hafa búið í Noregi í áratug, á meðan Smugudeilan var - og verandi mjög þjóðrækinn Íslendingur fannst mér svolítið flott að sjá "mína" þjóð standa svona upp í hárinu á Norðmönnum.

En svo leið á deiluna, óbilgirni og hroki Íslendinga fór að verða frekar óþægilegur.

Allskonar skætingur í garð Norðmanna sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum.

Eins og enginn á Íslandi væri tengdur við raunveruleikann, heldur aðeins sína prívat fantasíu um "nojarana".

Það er stundum talað um frændsemi þjóða, en engin þjóð sem ég veit til er jafn einlæg í því og Norðmenn gagnvart Íslendingum.

Það er því verulega ógeðslegt að sjá og heyra hvernig sumir Íslendingar tala um Norðmenn.

Nafnlaus sagði...

Furðulegt hvað Sjálfstæðisflokkurinn sem var alltaf í fararbroddi nútímavæðingar, frelsis og samkeppni, er nú orðinn holdgervingur afturhalds gamalla atvinnugreina og hagfræði, og hefur snúið baki við samvinnu vestrænna ríkja vegna vonar um Rússagull úr höndum ORG og að geta viðhldið einokun sérhagsmunahópa (LÍÚ).

Nafnlaus sagði...

Landráð eða föðurlandssvik eru skilgreind sem brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkins, út á við eða inn á við. Sá sem gerir sig sekan um landráð er landráðamaður eða föðurlandssvikari.
Í íslensku merkti orðið „landráð“ upphaflega að ráða yfir landi og í fornum ritum er talað um að menn hafi farið með landráð og er þá átt við að þeir hafi stýrt landi. Orðið er þó einnig notað í nútímamerkingu í Heimskringlu.
Misjafnt er eftir löndum hvort hugtakið landráð nær einungis yfir athafnir sem stefnt er að því að skaða föðurlandið og þá oftast öðru ríki til hagsbóta eða hvort það er einnig haft um aðgerðir sem ætlað er að kollvarpa stjórnvöldum eða þjóðhöfðingja.

Landráð

Í 91. grein íslenskra hegningarlaga segir svo:
Gæsalappir
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum. Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin. Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri. Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Gæsalappir