sunnudagur, 23. mars 2014

Brottfall og ómenntaður vinnumarkaður

Þessi grein var birt í Kjarnanum þann 13 mars síðastliðinn. Greinin var til eftir ákaflega fróðlegan fyrirlestur Þorvalda Gylfsaona prófessors í háskólanum fyrir skömmu um stöðu Ísland og hvernig sú þróun hefði verið. Þorvaldur kom m.a. inn  á hið mikla brottfall nema hér á landi. Nokkrir af áheyrendum Þorvaldar ræddu brottfallið og stöðuna á vinnumarkaðnum eftir fyrirlesturinn. Þar greindi ég frá nokkrum af þeim viðhorfum sem hefði komið fram meðal okkar sem hafi starfað innan verkalýðshreyfingarinnar að starfsmenntun í atvinnulífinu og var kvattur til þess að taka þau saman og birta.   GG.

Erum við best?
Í alþjóðlegum skýrslum kemur fram að menntastig fólks á íslenskum vinnumarkaði sé mun lakara en í þeim löndum, sem við viljum helst bera okkur saman við. Dálkarnir í skýrslunum um brottfall úr skóla særa þjóðarstoltið. Við erum alin upp í trú um hafa verið leiðandi þjóð í menningarlegu tilliti eins og sjá megi á skinnhandritunum og glæsilegum afrekum sem bókmenntaþjóð.

Kennslubækur síðustu aldar sem margar hverjar voru ritaðar af Jónasi í Hriflu innrættu okkur það sjónarmið að við værum eiginlega best, en fengum ekki að vera það sakir þess að Danir og aðrir útlendingar voru svo vondir við okkur. Reyndar er þetta sjónarmið áberandi í umræðum núverandi stjórnmálamanna.

Hagstofa Íslands skilgreinir brottfall þannig að skrái nemendur í framhaldsskólum sig ekki í skóla ári síðar og hafi ekki útskrifast í millitíðinni, þá teljast þeir til brottfallsnemenda og þannig fæst sú niðurstaða að allt að 43% einstaklinga í 1975 árganginum á Íslandi hafi ekki lokið framhaldsskóla við 24 ára aldur.

Það setur okkur í þá stöðu að vera meðal hinna minnst menntuðu innan OECD landanna og við erum helmingi lakari en þau Norðurlönd sem eru næst okkur í mælingunum. Þetta hlutfall skánar nokkuð ef eldri aldursflokkar eru skoðaðir, greinilegt er að Íslendingar eru seinni til náms en aðrar þjóðir.

Í OECD könnun árið 2012 kemur fram að 67% af aldurshópnum 25-64 ára hafi lokið framhaldskólaprófi hér á landi. Meðal OECD landanna er talið að 80% hlutfall sé ásættanlegt. Ef hlutfallið er skoðað hjá 25-34 ára aldurshópnum er það 72% hjá okkur, sem er 10% lægra en meðaltalið er hjá OECD. Öll hin Norðurlöndin liggja vel yfir 80% hlutfallinu, jafnvel sum yfir 90%. Við erum hins vegar á svipuðu róli og suður Evrópuþjóðirnar.

Stóran hluta starfsævi minnar starfaði ég við uppbyggingu menntakerfis atvinnulífsins og var í nánu samstarfi við kollega mína á hinum Norðurlöndunum. Út frá þeirri reynslu sé ég örfá haldreipi sem við gætum klifrað upp og lagfært stöðu okkar, alla vega til þess að sefa aðeins hið særða þjóðarstolt.

Í þessu sambandi er áhugavert að skoða samsetningu starfsfólks í rafiðnaðargeiranum, starfsgeira sem hefur rekið umfangsmesta starfsmenntakerfi í íslensku atvinnulífi allt frá árinu 1975 og að jafnaði hefur liðlega fjórðungur starfandi rafiðnaðarmanna sótt árlega eitt eða fleiri fagtengd eftirmenntunarnámskeið.

Í rafiðnaðargeiranum hafa flest vel launuð störf orðið til (ég tel viljandi ekki fjármálakerfið með) og ekki síður þau mest spennandi í hugum unga fólksins. Það endurspeglast í því að rafiðnaðargeirinn hefur haft um helming allra iðnnema í landinu síðasta áratug.

Ófaglærðir og faglærðir
Skipta má þeim sem starfa innan rafiðnaðargeirans í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru þeir sem lokið hafa skilgreindri námsbraut með lokaprófi, þeir teljast faglærðir. Hinir eru að störfum innan starfsgeirans, en teljast í skýrslum fólk sem féll úr námi, ófaglært fólk á vinnumarkaði.

Skilgreindar rafiðnaðargreinar eru rafvirkjun, rafeindavirkjun, rafvélavirkjun, rafveituvirkjun og símsmíði, en aðrir starfsmenn innan geirans er nefnt tæknifólk í rafiðnaði, við notum ekki orðið ófaglærður.

Með tæknifólki í rafiðnaði er átt við fólk sem hefur sérhæft sig innan rafiðnaðargeirans en hefur ekki lokið námsbraut sem endar með skilgreindu lokaprófi og er þar afleiðandi skráð sem á lista hinna brottföllnu, og endar sem ómenntað fólk í samanburðarskýrslum, jafnvel þó þeir séu hámenntaðir á sínu sérsviði. Hér er m.a. um að ræða hina margskiptu tölvutækni með öllum sínum sérsviðum, forritun, stýrikerfum, samskiptakerfum, öryggiskerfum, kerfisumsjón, hljóð- og myndstjórn.

Þegar leið á síðustu öld náði tölvutæknin og netbólan sínu striki sínu og það varð mikill skortur á sérhæfðu starfsfólki. Fyrirtækin spurðu viðkomandi ekki hvor hann hefði skilgreint lokapróf, spurningin var „Ræður þú við þetta verkefni?“

Mörg spennandi störf hafa verið í boði og þetta varð til þess að margir rafiðnaðarnemar hurfu því á þessum árum burt af skilgreindum rafiðnaðarbrautum í framhaldsskólunum út á vinnumarkaðinn, og starfsmenntakerfi rafiðnaðarmanna margfaldaðist. Allt þetta fólk er í skýrslunum í dálkinum yfir brottfall.

Rafiðnaðarmenn bjuggu til sína eigin menntabraut sem féll að því starfi sem þeir voru í, „Pick and mix education“ er þetta nefnt á ráðstefnum um starfsmenntun í atvinnulífinu. Einnig er það mjög algengt að ungt fólk fari erlendis áður en það lýkur námi í löggiltri iðngrein og lendir í sömu stöðu, það er skráð sem brottfall í skýrslunum.

Réttur til náms
Hið hefðbundna skólakerfi verður alltaf um það bil 6 – 8 árum á eftir tækniþróuninni, það er að segja það er lágmarkstími sem líður frá tækninýjung kemur fram þar til útskrifast nemi með þessa nýju þekkingu.

Þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar stjórnvalda um að jafna stöðu verknáms og bóknáms fær verk- og tæknimenntun ákaflega lítið fjármagn hér á landi miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Verkmenntakennarar hafa minni möguleika til þess að endurnýja tækniþekkingu sína.

Hér á landi er þessi viðbragðstími verkmenntaskólanna mun lengri en á hinum Norðurlöndunum vegna þess að framlag til verkmenntunar hér á landi er mun minna. Starfsmenntun í atvinnulífinu er margfalt fljótari að bregðast við, eins og sést t.d. á starfsemi Rafiðnaðarskólans.

Á hinum Norðurlöndunum er rétturinn til þess að ljúka framhaldskólanámi á kostnað skattborgaranna talin varanleg eign einstaklingsins, andstætt því sem hér er. Ef við hér á landi hverfum af einhverjum ástæðum úr framhaldsskólanámi, en viljum síðan ljúka því seinna á ævinni verðum við að greiða svimandi há námsgjöld, en á hinum Norðurlöndunum áttu rétt á því að ljúka náminu og færð fjárhagsstyrki til þess.

ASÍ hefur ítrekað en árangurslaust reynt að fá íslensk stjórnvöld til þess að jafna þessa stöðu, hér er augljóslega ein ástæða þess hvers vegna við liggjum svona neðarlega í könnunum OECD. Annað atriði sem stuðlaði ekki síður að þessari breytingu var fjölbrautarkerfið.

Nánast öllum er beint inn á bóknámsbrautir. Í því sambandi verður ekki hjá því komist að líta til þess viðhorfs sem ætíð hefur ríkt gagnvart verknámi, það sé mun lakari kostur en bóknám. Námsráðgjafar og foreldrar beina unglingum frekar í bóknámsáfanga en verknámsáfanga.

Afnám aga bekkjarkerfisins varð til þess að námstíminn lengdist og margir voru komnir um og yfir tvítugt þegar þeir áttuðu sig á því að þeir ætluðu ekki í háskóla og fóru út á vinnumarkaðinn. Stofnuðu heimili og hófu þá skilgreint iðnnám í kvöldskólum.

Meðalaldur þeirra sem lauk sveinsprófi fór í kjölfar þessara breytinga að hækka undir lok síðustu aldar. Á nokkrum árum fór hann frá liðlega tvítugu upp í um þrítugt, þar af leiðandi er stór hluti þessa fólks í dálknum yfir brottfall.

Sé litið á skiptingu þeirra félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins sem störfuðu í rafiðnaðargreinum, þá tvöfaldast hann á hverjum áratug frá stofnun sambandsins árið 1970. Fer úr 450 manns við stofnun upp í um 6.000 árið 2008.

Fjölgun í stéttarfélögum rafiðnaðarmanna með sveinspróf stóð undir allri fjölgun félagsmanna RSÍ fram undir árið 1995, en eftir það verður fjölgunin hjá sveinum aðildarfélögum tiltölulega lítil með tilliti til fjölgunar tæknifólksins, þeirra sem ekki höfðu verið brautskráðir í skilgreindri námsbraut.

Í Félagi tæknifólks í rafiðnaði tífaldast hins vegar fjöldi félagsmanna eftir árið 1995 til 2008. Ástæða er halda því auk þess til haga í þessu sambandi, að nánast allir með sveinspróf í rafiðnaðargreinum eru félagsmenn í RSÍ, á meðan mikill fjöldi tæknimanna er í öðrum stéttarfélögum eins og t.d. VR, þannig að fjölgun tæknifólks er gríðarleg á þessum árum.

Raunlaun og staða ófaglærðra
Setji menn hins vegar upp gleraugu kjarasamningsmannsins, þá er fólk með óskilgreinda menntun ákaflega lítið varið fyrir gríðarlegum sveiflum í launum, á meðan hægt er að halda kjörum löggiltra starfsgreina með sveinspróf mun hærri.

Fyrirtækin komust ekki upp með að ráða ófaglært fólk í störfin og greiða því einungis lágmarkslaun kjarasamninganna. Í nágrannalöndum okkar eru umsaminn taxtakerfi mun nær raunlaunum og flestir á launum samkvæmt þeim.

Þetta er ein af afleiðingum gríðarlegra sveiflna hér á landi þar sem samningar um lágmarkslaun eru yfirleitt orðnir úreltir innan ársfjórðungs vegna þess að útflutningsfyrirtækin hafa ætíð haft þau tök, að fá stjórnvöld til þess að „leiðrétta blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna“ svo vitnað sé í orð Hannesar Hólmsteins helsta hugmyndafræðings þeirra sem hafa verið við völd á Íslandi.

Launakerfunum hér á landi var ákaflega miðstýrt á tímum verðtryggingar á árunum 1977-1983. Verðtrygging launakerfanna batt þáverandi launakerfi í fjötra, allir taxtar hækkuðu jafnt eftir tilskildum reiknifornmúlum.

Félagsmenn stéttarfélaganna voru ákaflega ósáttir við ekki væri hægt að hækka laun umfram verðbólgu og þá sérstaklega lægstu taxta. Sú farsæla ákvörðun var tekin að rjúfa þessi, frá að þessum tíma hafa meðallaun hækkað um þriðjung umfram verðlagsvísitölu og lægstu laun mun meira.

Það skapast ásýnd nýs kerfis sem varð til á uppgangsárunum eftir árið 1986 og raunlaun sprengdu sig frá öllum kjarasamningum. Grunnlaun urðu reiknitala sem sveiflaðist í takt við efnahagsástandið hverju sinni. Raunlaun náðu hæstu hæðum á árunum 1986 og 1987, enda mikið í gangi hér landi. Bygging flugstöðvar, Kringlunnar og Blönduvirkjunar.

Allt það hrundi niður árið 1989 og raunlaunin með, en þau fara síðan fara hækkandi eftir árið 1993. Hér á landi varð reyndar bankahrun 1990 eins og hinum Norðurlöndum en það tókst að fela það hrun í hinni handstýrðu krónu og efnahagur stórs hluta íslenskra heimila var í rústum á þessum árum. Atburðirnir 2008 eru ekki eina hrunið sem hefur orðið hér á landi, eins og margir virðast halda.

Skráð atvinnuleysi hér á landi var 1,7% af áætluðu vinnuafli árið 1989. Það er sannarlega ekki há tala, alla vega ef hún er skoðuð með tilliti til annarra Evrópulanda. Hún verður hins vegar mjög há í augum íslenskra launamanna þegar litið er til þess að á árunum 1970 - 1988 var atvinnuleysi hér á landi þrefalt minna, eða að meðaltali 0,6%.

Ótti við atvinnuleysi stóran þátt í að þjóðarsáttin náði fylgi í verkalýðsfélögum. OECD skoðaði stöðu verknámsfólks í samanburði við bóknámsfólk. Atvinnuþátttaka fólks á Íslandi er mjög há. Atvinnuþátttaka fólks með starfsmenntun er 86% hér á landi, 73% meðal stúdenta. Atvinnuleysi meðal starfsmenntaðra er þriðjungi minna en hjá þeim sem hafa tekið stúdentspróf.

Munur á litlum vinnumarkaði og stórum
Oft hefur komið til tals meðal starfsmanna menntamála að búa eigi til fleiri námsleiðir með skilgreindu lokaprófi. Svo ég nefni einfalt dæmi til skýringar, rafvirkjun (4 ára nám) yrði skipt upp í, raflagnir, heimilistækjaviðgerðir, skipalagnir, símakerfi, iðnstýringar, raforkuvirki, og margt fleira. Nám á þessum fagbrautum yrði eitt til tvo ár.

Nefnt hefur verið að hægt sé að búta niður allar helstu löggiltu iðngreinarnar í dag og búa til allt að 100 nýjar námsbrautir. Sú leið er aftur á móti vandfarin því starfandi iðnaðarmenn vilja ekki að starfsgrein þeirra sé bútuð niður í margar smærri starfsgreinar, með því væri verið að þynna út og eyðileggja löggilt réttindi þeirra.

Á litlum vinnumarkaði eins og hér er þarftu að hafa mun víðtækari þekkingu og um leið löggilt starfsréttindi til þess að tryggja stöðu þína á vinnumarkaði til langs tíma, allt önnur lögmál gilda á stórum vinnumörkuðum.

Þegar fjöldi erlendra manna fór að vaxa á okkar vinnumarkaði, þá staðfestu starfsmenn hins opinbera starfsréttindi á grundvelli samþykkta innan EES. Þar er t.d. skráð að einstaklingur sem hefur t.d. starfað við samsetningu kæliskápa í 5 ár og hefur öðlast réttindi á því, hann er ekki að finna í dálkunum yfir brottfall í viðkomandi landi.

Engin ummæli: