miðvikudagur, 1. júlí 2009

Börnin greiði mistök foreldra

Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn lagði það til að iðgjöld í lífeyrissjóði yrði skattlögð hefur Tryggvi Þór Herbertsson verið í forsvari fyrir flokkinn, varið tillöguna og gert lítið úr rökum þeirra sem ekki eru honum sammála og þeim afleiðingum sem þessi kerfisbreyting hefur í för með sér. Tryggvi Þór hefur viðurkennt að tillagan hafi galla, en vikið sér undan að ræða þá efnislega. Tillagan muni draga úr þjóðhagslegum sparnaði, ásamt því að vera flókin í framkvæmd og leitar er eftir stuðning um að búa til plástra hér og þar til að sátt náist um framgang hennar.

Í dag beita fjölskipaðar nefndir innan Evrópusambandsins sér fyrir því að þær örfáu þjóðir innan ESB sem búa við það kerfi sem Sjálfstæðismenn vilja taka upp, leggi það fyrirkomulag niður og taki upp sama kerfi og íslendingar. Þar er talið að skattlagning á lífeyrisgreiðslum sé rökrétt þar sem skattfrjáls iðgjöld í lífeyrissjóði minnki skattbyrðina og hvetur til sparnaðar til efri árana.

Þjóðin er að eldast og styttist óðum í að barnasprengjuárgangarnir skelli á kerfinu. Þá verður hlutfall eldri borgara mjög hátt, skatttekjur ríkisins síga og hlutfallslega fækkun atvinnubærra einstaklinga. Við okkur blasir að auki sú mikla vá að það muni bresta á landflótta yngra fólks vegna ástandsins hér. Tillagan mun þrýsta enn frekar á þessa þróun.

Viljum við kalla yfir okkur fyrirsjáanlegar lögsóknir sem byggja á milliríkjasamningum um frjálst flæði vinnuafls, verslunar og þjónustu og flæði fjármagns? Við höfum stofnað til milliríkjadeilna til að varðveita innlánssparnaðinn í bönkunum og til að viðhalda greiðslumiðlun. Látið ríkisbankana leysa til sín umdeild verðbréfa peningamarkaðssjóða, reyndar bara þeirra sem bankarnir stýrðu. Allt gert til að viðhalda tiltrú á sparnaði.

En svo kemur tillaga um að ganga gegn sparnaðarformi lífeyrissjóðanna. Ef einhverjir mótmæla, þá er því blákalt haldið fram að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna séu ekki að verja hagsmuni lífeyrisþega framtíðarinnar, heldur að verja völd. Á það má benda að þá er um leið verið að saka helstu forsvarsmenn evrópsku lífeyriskerfanna um það sama.

Núverandi lífeyriskerfi er það kerfi sem flestir vilja taka upp og er fyrirmynd sem Evrópusambandið og fjölmargar aðrar alþjóðlegar stofnanir mæla með. Ef vandamálið okkar er það stórt að leggja þurfi í þessa vegferð, þá er hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort við sjóðsfélagar eigum ekki að leggja til að lífeyrissjóðir selji öll innlend ríkisskuldabréf og flytji alla fáanlega fjármuni frá Íslandi. Með þessari tillögu er verið að taka lán hjá börnunum til að bæta fyrir mistök foreldrana.

Engin ummæli: