Á undanförnum árum hefur markvisst verið dregið úr fjárframlögum til verknáms. Það hefur verið gert með því að hækka hópviðmið í faglegum áföngum á verknámsbrautum. Þetta er gert með því að breyta forsendum svokallaðs reiknilíkans Menntamálaráðuneytisins. Í gegnum reiknilíkanið hafa minnkandi fjárframlög til framhaldsskóla verið falin.
Þessi niðurskurður bitnar harðast á verknámsskólum landsbyggðinni. Samfara þessu hafa ráðamenn haldið hinar venjubundnu ræður um að gera eigi verknámi hærra undir höfði. Rekstrarlegur grundvöllur fyrir margar verknámsbrautir eru brostnar í verknámsskólum þá sérstaklega skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Þessar hópstærðir ganga í bóklegum áföngum. Enn einu sinni virðist það vera svo að fólk með bóknám að baki sé að skipuleggja og taka afdrifaríkar ákvarðanir um skipulag verklegs náms.
Nú er lagt fram frumvarp um efnisgjöld fyrir nema á starfsnámbrautum og þeim gert að greiða vegna faglegra áfanga um 50 þús. kr. umfram það sem nemar á bóklegum brautum þurfa að greiða. Sem leiðir vitanlega til þess að efnalitlar fjölskyldur veigra sér við að senda börn sín í verknám.
Marga undanfarna áratugi hefur umræðan um framhaldskólann snúist um veika stöðu starfsnáms gagnvart bóknámi. Margar ráðstefnur hafa verið haldnar og lærð sjónarmið sett fram, en lítið hefur miðað. Mikið ójafnvægi er milli aðsóknar í bóknám og starfsnám. Þetta er reyndar ekki séríslenskt staða, hún er þekkt víða.
Athygli hefur vakið hvernig Finnar hafa tekið á þessu máli og hvernig þeim hefur tekist að brúa þetta bil, að því virðist á svo einfaldan og augljósan hátt með því að afnema á aðgreiningu starfsmennta- og bóknámsbrauta, endurskilgreina á stúdentsprófið og færa starfsnám upp, gera það jafnrétt hátt undir höfði til framhaldsnáms.
Hingað til hefur verklegt nám og fagleg reynsla ekki verið metin. Nemendur starfsmenntabrauta hafa orðið að ljúka mun fleiri einingum en nemendur bóklegra brauta. Skort hefur starfsmenntaáfanga innan bóknámsbrautanna. Tillögur sem hingað til hafa verið upp á borðum hafa margar hverjar helst snúist um að búta niður skipulagðar starfsmenntabrautir, sem hefur svo leitt til þess að þeim sem ekki hafa lokið skipulögðu námi hefur fjölgað og er Ísland efst á lista hvað það varðar.
Pólitísk umræða um framhaldskólann hefur verið alltof lítil og byggst um of á úreltum gildum síðustu aldar. Gildum sem einkennast af því að gera starfsnámi enn lægra undir höfði, ekki verið áhugavekjandi í augum ungs fólks. Verknámsmenn hafa í mörg ár bent stjórnmálmönnum á að sveigjanleiki og samkeppnisstaða atvinnulífsins sé undirstaða þess þjóðfélags sem við búum í núna. Tæknileg þekking og fagleg geta sé veigamesta undirstaða þessarar þróunar.
Margar brautir starfsmenntanáms eru mun arðsamari en vinsælar bóknámsbrautir og bjóða upp á mun meira atvinnuöryggi. Launajafnrétti þar er einnig mun meira, t.d. er ekkert launamisvægi milli kynja innan rafiðnaðargeirans, meðallaun rafiðnaðarkvenna eru töluvert hærri en í mörgum hinna klassísku háskólagreina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli