þriðjudagur, 14. júlí 2009

Hesteyri og Hornsstrandir


Læknishúsið Hesteyri

Er búinn að fara í allmargar gönguferðir á Hornstrandir á undanförnum árum. Sigldi frá Ísafirði yfir á Hesteyri í síðustu viku og var þar í nokkra daga. Hesteyri er eyðiþorp við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið fór í eyði rétt eftir miðja síðustu öld.

Á Hesteyri eru nú 9 hús sem notuð eru sem sumarhús. Þar er einnig tjaldsvæði og margir sem fara þangað með hinum daglegu ferðum frá Ísafirði. Flest húsanna eru frá fyrri hluta síðustu aldar en nokkur voru reist fyrir aldamótin 1900. Í Læknishúsi er rekin ferðaþjónusta á sumrin og boðið uppá svefnpokagistingu og kaffiveitingar. Búið er að endurbyggja flest húsanna.

Rúmum tveimur kílómetrum innan við þorpið stóð áður hvalstöð, reist 1894, sem síðar varð síldarbræðsla. Stöðin var reist af norðmönnum en komst síðan í eigu íslendinga. Stöðin var starfrækt fram í seinna stríð. Í dag er lítið eftir af stöðinni nema rústir og strompur mikill sem enn stendur.

Kirkja var reist á Hesteyri árið 1899. Norðmenn áttu hvalverksmiðjuna á Stekkeyri gáfu Hesteyringum kirkjuna, hún var flutt hingað tilhöggvin frá Noregi. Árið 1962 var Kirkjan tekin niður og flutt til Súðavíkur þar sem hún stendur enn. Yfirvöldum láðist að fá leyfi heimamanna fyrir töku kirkjunnar og enn heyrist mikil reiði meðal Hesteyringa þegar hún berst í tal og jafnvel tekið þannig til orða að Biskup hafi stolið kirkjunni.

Hesteyrarþorp fór í eyði 1952. En afkomendur halda húsum og öðrum mannvirkjum við og nýta sér til ánægju á sumrin. Þar sem kirkjan stóð áður hefur nú verið reistur minnisvarði með bjöllu og koparskildi með teikningu af kirkjugarðinum og lista yfir þá sem þarna eru grafnir.

Sífellt fleiri sækja þau fáu svæði þar sem enn er hægt að ráfa um ósnortna náttúru í hvíld frá hraða og firringu borgarsamfélagsins, þar sem hver spilda hefur verið skipulögð, umsnúin og byggð mannvirkjum. Ferð um Hornstrandir er auk þess áskorun, prófsteinn sem hver setur sjálfum þér.


Krakkar að leik í fjörunni við Hesteyri um síðustu helgi

Gróðurinn í Jökulfjörðum og á Hornströndum er ótrúlega kraftmikill og fjölbreyttur, þar skiptir mestu að ekkert sauðfé er á þessu svæði. Um leið og snjóa leysir tekur gróðurinn við sér af miklum krafti og unir sér vel við rakann, sem rennur frá bráðnandi snjósköflunum. Í sandfjörunum má víða sjá íðilfagrar breiður af blálilju, fjöruarfa, tágamuru og baunagrasi og sumstaðar er melgresi. Ofan við fjörunar ber mest á kröftugum grastegundum ásamt maríustakk, blágresi, fíflum, smjörgrasi og við gömul bæjarstæðin stendur hvönnin manni í axlarhæð.

Víða eru góð berjalönd með krækiberjalyngi, bláberjalyngi og aðalbláberjalyngi. Kjarrgróður með birki, fjalldrapa og víðitegundum í lágum breiðum finnst víða. Á holtunum tekur við geldingarhnappur ásamt lyfjagrasi, ljósbera, ólafssúru, burnirót og lambagras og þegar ofar dregur milli vindbarinna steinana að jökulrótum brosa við manni til augnayndis jöklasóley og melasól, mosi og fléttur ásamt smávíði.

Fuglalíf er með fádæmum fjölbreytt við rekumst á steindepil, lóu, spóa, hrossagauk og sólskríkju. Skoppandi um læki og tjarnir fer hvikur óðinshaninn. Álftir, endur og lómurinn fylgjast með manni úr hæfilegri fjarlægð og senda aðvörun til unganna. Fuglabjörgin miklu eru varpstöðvar sjófuglanna og allar syllur þéttsetnar af langvíu, álku, ritu og fýl.

Á klettum úti fyrir ströndinni sjást iðulega selir þar sem þeir liggja sofandi ósnortnir af ys og þys þjóðfélagsins eða horfandi í stóískri ró upp í himinhvolfið. Refur sést víða og þarf hann ekki að hafa mikið fyrir lífinu, fuglinn nánast flýgur upp í hann. Sumstaðar er hann orðinn heldur spakur og heimtufrekur og vissara að skilja ekki óvarðar matarbyrgðir undir tjaldskörinni. Í árósum og fyrir ströndinni má oft setja í sjóbirting.

Skipta má ferðum um Hornstrandir í þrjá flokka. Léttar ferðir, þar er farið á einn stað tjald sett upp eða sesta að í skála og svo farið í dagsferðir þaðan. Þeir staðir sem eru þannig staðsettir og bjóða upp á fjölbreytt úrval gönguleiða eru t.d. Hesteyri, Aðalvík, Hornvík og svo Reykjafjörður. Næsti flokkur er tiltölulega léttar ferðir þar sem ekki er mikið um hæðarbreytingar, hér má nefna ferðir frá Snæfjallaströnd í Grunnuvík og inn í Leirufjörð. Þaðan er hægt að fara inn í Hrafnsfjörð og um lágan fjallveg um Skorardal í Furufjörð. Einnig má benda á Hesteyri og þaðan í Sæból í Aðalvík um Sléttuheiði sem er lág og farið um markaðan veg að hluta. Þaðan væri farið um fjöruna að Látrum í Aðalvík og tilbaka að Hesteyri um Hesteyrarskarð um merkta götu að hluta til. Vinsæl leið í þessum flokki er á milli Reykjafjarðar og Ófeigsfjarðar.

Erfiðasti flokkurinn eru gönguleiðir með miklum hæðarbreytingum um svæði þar sem aðgangur að skálum er takmarkaður og því verður að hafa með allan útbúnað. Vinsælasta leiðin í þessum flokki er leiðin frá Hornvík með ströndinni til Reykjafjarðar, margir telja að þessi leið sé hin eina og sanna gönguleið á Hornströndum. Í þessum flokk má einnig nefna leiðirnar frá Aðalvík til Hornvíkur um Fljótavík, eða frá Hesteyri í Hornvík. Þar er um tvær leiðir að velja algengara er að fara um Hlöðuvík, en einnig má fara inn Jökulfjörðu og upp úr Veiðileysufirði um Hafnarskarð í Hornvík eða Lónafirði um Rangalaskarð í Hornvík. Þegar í Lónafjörð er komið má halda áfram inn Jökulfjörðu og fara í Hrafnsfjörð.

Leiðin liggur oftast um götur sem markast hafa á þúsund ára veru forferðra okkar. Bæirnir lágu innst í grunnum víkum með litlu undirlendi og götur milli þeirra um fjöruna, sjávarbakka og upp grasivaxnar hlíður upp í fjallaskörð, sem eru oftast um 200 - 400 metra há. Þegar upp fyrir 200 m hæð er komið liggur gönguleiðin oft um snjóskafla og um urð og grjót. Helsta fæðuöflun hefur ekki verið í búfénaði, sumur eru stutt og grastekja of lítil til þess að hægt sé að ná saman vetrarforða fyrir mikinn bústofn.

Oftast hefur verið um eina kú að ræða, eina til tvær lambær og kannski einn hest. Matur var sóttur á miðin sem lágu stutt undan ströndinni, mikið er um sel og mestu fuglabjörg heims voru ótæmandi matarkistur. Tekjur byggðust á dúntekju og rekaviði. Í umhverfinu má lesa við hvaða aðstæður fólk lifði, og þær hafa verið nánast óbreyttar frá því land byggðist. Það var svo í byrjun þessarar aldar að falla fór undan byggðinni í kjölfar breyttra þjóðfélagshátta, vélskipaútgerð og iðnvæðingar. Unga fólkið sætti sig ekki lengur við frumstæð skilyrði og flutti að heiman. Afkomendur hafa nú endurbyggt sum bæjarhúsanna og nota þau sem orlofshús.

Engin ummæli: