miðvikudagur, 29. júlí 2009

Spennitreyja síðdegisútvarps Rásar 2

Ég hlustaði á síðdegisútvarp Rásar 2 í dag þar sem dagskrárgerðarmaður ræddi við alþingismennina Illuga Gunnarsson og Helga Hjörvar. Dagskrárgerðarmaðurinn gat einfaldlega ekki hamið sig og ruddi úr sér sínum pólitísku skoðunum og tönglaðist endalaust á því að það væru norrænu löndin sem væru að reyna að þröngva okkur í spennitreyju. Dagskrárgerðarmaðurinn hélt því fram að við hefðum talið þessi lönd væru vinir okkar, en svo væri greinilega ekki.

Ég verð að viðurkenna að oft hefur mér fundist dagskrágerðamenn síðdegisútvarps Rásar 2 vera ansi blindir á þann veruleika sem við búum við. Þarna snéri dagskrárgerðarmaðurinn öllu á haus og Illugi tók undir með henni og sýndi enn einu sinni hvernig hann og félagar víkja sér sífellt undan því að horfast í augu við þann veruleika sem þeir hafa leitt yfir þjóðina.

Stjórnmálamenn hafa margítrekað tjáð okkur að þeim sé refsað í kosningum, þá séu störf þeirra lögð undir dóm borgara landsins. Þess á milli fari þeir með hið pólitíska vald, reyndar má skilja a.m.k. suma þeirra svo að það eitt að þeir falli í kosningum losi þá undan allri ábyrgð á gjörðum sínum.

Íslendingar kusu endurtekið yfir sig sama vald og sömu efnahagsstjórn. Þar voru þeir að samþykkja þessa stefnu og afleiðingar hennar. Það er ekki hægt núna að vísa þessari ábyrgð yfir á hinar norrænu þjóðirnar. Það er ekki hægt með neinum rétti að halda því fram að það séu núverandi stjórnvöld ásamt norrænum þjóðum sem séu að þvinga okkur núna í þá stöðu sem fyrrverandi íslensk stjórnvöld komu okkur í, með rangri efnahagsstefnu, eftirlitsleysi og hvernig staðið var að sölu bankanna.

Íslendingar eru nú þegar komnir í spennitreyju og það voru þeir sem hafa stjórnað íslensku efnahagslífi undanfarin ár sem saumuðu þessa treyju og það voru íslenskir útrásarvíkingar sem komu íslendingum í hana með aðstoð þáverandi stjórnvalda. Þar voru aftur á móti forsvarsmenn norrænu þjóðanna sem ítrekað en árangurslaust vöruðu stjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra við þeirri spennutreyju sem væri að myndast og það yrði íslendingum erfitt að komast úr henni ef þeir lentu í henni. Um þetta hefur margoft verið fjallað t.d. hér og hér

Þessu svöruðu forsvarsmenn íslenskra stjórnvalda með ótrúlegum hroka og útúrsnúningum og lítilsvirtu vini okkar á norðurlöndum. Um þetta var ítrekað fjallað í nánast öllum fjölmiðlum, utan síðdegisútvarpsins fram eftir síðasta vetri. Það var afstaða sjálfstæðismanna leiddi til þess að við erum í spennutreyjunni. Það getum við fyrst að síðast þakkað íslendingum, ekki norrænu þjóðunum.

Það eru norrænu löndin sem reyndu að hjálpa okkur og eru enn að. Það er einungis ein leið út úr vanda okkar og nú eru sjálfstæðismenn að leiða yfir okkur enn meiri hörmungar með ótrúlega óábyrgri afstöðu sinni. Þeir eru enn við sama heygarðshornið og síðasta vetur að krefjast þess að við getum haldið áfram á sömu braut eyðslu og óráðsíu og þeir sem varni okkur því séu óvinir okkar.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég heyrði þetta viðtal og varð ansi hissa þegar ég las þessa úttekt þína á því. Hlustaði aftur, og varð enn meira hissa á þinni upplifun. Finnst það fremur þú, sem snýrð hér öllu - eða amk ansi mörgu - á haus. Get auðvitað ekki dæmt um öll hin skiptin, sem þér hefur "fundist dagskrárgerðarmenn síðdegisútvarps Rásar 2 vera gjörsamlega blindir á þann veruleika sem við búum við" - en hér? Hér finn ég varla snefil af þeirri hlutdrægni og Norðurlandafjandsemi sem þú þykist hafa heyrt hjá Lindu Blöndal. Miklu fremur að ég heyri hér gamalkunnugan tón sem gjarnan heyrist frá fólki með afar valkvæma heyrn - fólki, sem heyrir bara það sem það vill heyra.
Og svona til öryggis er rétt að geta þess, að sjálfur er ég mikill Norðurlandasinni, ESBari og Krati og ég veit ekki hvað, en þó, enn og aftur, umfram allt Norðurlandabúi og -sinni. Gat ég þó ómögulega heyrt Lindu "tönglast endalaust á því að það væru norrænu löndin sem væru að reyna að þröngva okkur í spennitreyju."
Alltaf hef ég gaman af þínum færslum og oft er ég sammála þeim - en nú hvet ég þig til að hlusta aftur og hlusta betur.
Með bestu kveðjum,
Tumi

Hjörvar Pétursson sagði...

Íslenskan á sér einn ágætan málshátt: "Vinur er sá er til vamms segir." Mér hefur dottið hann í hug nokkrum sinnum uppá síðkastið. Vanalega þegar fólk er að barma sér opinberlega yfir meintu vinaleysi þjóðarinnar.

Rafvirki sagði...

G.G. "meðallaun rafiðnaðarkvenna eru töluvert hærri en í mörgum hinna klassísku háskólagreina."
En eru laun verkalýðsforingja töluvert hærri en meðallaun rafiðnaðarkvenna/karla ??

Guðmundur sagði...

Það eru ítarlegar upplýsingar um mín laun hér á þessari síðu sjá færslu 8. desember 2008 http://gudmundur.eyjan.is/2008/12/uppl-til-eirra-sem-skrifa-athsblkinn.html

Einnig á heimasíðu rafis.is. Einnig eru þar upplýsingar um meðalaun rafiðnaðarmanna bæði með og án sveinspróf og eins beggja kynja.
Þetta veit Rafvirki því hann hlýtur að fylgjast með launakönnunum sem RSÍ gerir, en hann virðist kýs frekar að fara dylgjuleið fréttamanna stöðvar 2.

Það er svo einkennilegt að að fréttamenn skuli á hverju ári finna sig í því að bera saman laun starfsmanna stéttarfélaga við strípuð lágmarkslaun í stað þess að bera þau saman við meðallaun sambærilegra starfa innan viðkomandi stéttarfélags.

Sé það gert kemur í ljós að laun mín eru lægri en rafiðnaðarmanna í stjórnunarstörfum og með sambærilega menntun.

25% félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins eru með hærri heildarlaun en ég og regluleg laun mín eru lægri en meðallaun rafkarla og svo maður tali nú ekki um rafkvenna.

Það er svo einnig eitt í þessu sambandi sem allir vita en kjósa að tala ekki um, það er að laun reiknuð út frá sköttum segja ekkert til hvaða laun t.d. ég hef hjá Rafiðnaðarsambandinu eða hvaða laun ég hef yfir höfuð.

Það er nefnilega svo margt annað en laun eins og allir vita sem lyftir sköttum upp.

Jóhannes Laxdal sagði...

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að leggja Rás 2 niður. Ég hef nær eingöngu hlustað á útvarp Sögu undanfarin 4-5 ár. Þar er sífellt útvarpað lifandi umræðu með beinni þáttöku hlustenda. Ekki steingelt kjaftæði eins og tíðkast á ríkisapparatinu

Nafnlaus sagði...

Það er nú oftast að blaðamenn vita ekkert um hvað þeir eru að fjalla um og einsog með erlendar fréttir þær eru flestar þýddar uppúr Bandarískum fjölmiðlum og fluttar umhusunar laust. Þettað dæmi sýnir svoldið hvað blaðamenn vita um hvað þeir eru að fjalla. Tók þetta af visir.is þar sem Vilhjálmur Egils er sagður verkalýðleiðtogi, svo sem ekki verri enn hver annar í það starf.:

Helga Arnardóttir skrifar:

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins er með tvöfaldar tekjur viðsemjenda sinna eða tæpar tvær milljónir á mánuði. Verkalýðsforingjarnir eru með tekjur langt umfram laun umbjóðenda sinna.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins er með hæstu mánaðartekjur af fjórum áberandi verkalýðsforingjum landsins eða rúm nítján hundruð þúsund.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ kemur þar næstur með tæpa milljón,
Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins er með tæp níu hundruð þúsund og Sigurður Bessason formaður Eflingar er með lægstu mánaðartekjurnar eða tæp sjö hundruð þúsund. Kv Simmi