þriðjudagur, 28. júlí 2009

Hver er sinnar gæfusmiður


(Mynd tekin af fréttavef DV um svipað leiti og svarið umrædda var gefið)

Í viðtali 22. september fyrir ári síðan sagði Halldór J. Kristjánsson þáverandi Landsbankastjóri í eftirminnilegu viðtali að; “Hver væri sinnar gæfusmiður. Hafi menn skuldsett sig of mikið beri þeir vitanlega ábyrgð á því.“

Margir spurðu í kjölfar þessarar yfirlýsngar bankastjórans; "Hvað með þá efnahagsráðgjöf og eignaumsýslu sem bankarnir hafa boðið upp á?" Hún var nú ekki beysin og oftast snérist hún um að fá fólk til þess að afhenda Halldóri og félögum í bönkunum alla handbæra fjármuni til umsýslu. Jafnvel losa um séreignasparnað og flytja hann til bankanna og segja sig úr verkalýðsfélögum.

Almenning var ráðlagt af Halldóri og félögum að selja fjölskyldufyrirtæki, sem fjölskyldan hafði varið með gríðarlega mikilli vinnu allmörgum árum í að byggja upp og fá í staðinn hlutabréf í bönkunum eða setja fjármunina inn á „100% örugga!!“ eignastýringar bankanna. Á sama tíma fengu aðrir þá ráðgjöf hjá Halldóri og félögum hans um að taka mikil lán og kaupa umrædd fyrirtæki. Nú er ljóst að Halldór og félögar vissu hvert stefndi og þessi bréf stefndu í að verða verðlaus bréfsnifsi.

Almenningur fékk þá ráðgjöf hjá Halldóri og félögum að selja hús sín og losa þannig um þá fjármuni sem það átti og setja í 100% örugga eignastýringu hjá Halldóri. En almenning var svo ráðlagt að taka 90-100% lán til kaupa á nýju húsnæði. Þetta fólk nýtti sér ráðgjöf sérfræðinga Halldórs og félaga situr nú í skuldafangelsi í sinni eign með skuld upp í topp og sér fram á þurfa að greiða bankanum sínum mjög ríflega afborganir/húsleigu næstu 40 ár.

Þannig má rekja mörg dæmi. "Sérfræðingar!!??" sem bankar voru með á sínum snærum voru ungir og algjörlega reynslulausir. Þekktu ekki niðursveiflu, einungis endalausa hækkun hlutabréfa. Þeir tóku sín laun út í bónusum vegna færslna fram og tilbaka á lánum, verð- og hlutabréfum og sást ekki fyrir í hvaða stöðu þeir hafa komið mörgum sem treystu á ráðgjöf bankanna.

„Hver er sinnar gæfu smiður“ sagði Halldór og yppti öxlum glottandi framan í landsmenn. Sé litið til frétta undanfarinna daga þá er ljóst að Halldór, Sigurjón, Björgólfsfeðgar, Lárus Welding, Bjarni Ármannsson og Einar Sveinsson og þeirra félagar hafa einmitt unnið eftir þessari reglu og þá skipti engu hagur viðskiptavina bankanna, hvað þá þjóðarhagur. Þeir hafa einvörðungu hugsað um eigin hag og ekkert annað.

Seinni hluti svars Halldórs "Hafi menn skuldsett sig of mikið bera þeir vitanlega ábyrgð á því" segir allt um hugarfar þessara manna, hversu veruleikafirrtur og spilltur heimur þessara manna var. Þeir afgreiddu milljarða lán til sjálfra sín sem þeir ætluðu aldrei að bera neina ábyrgð á. Þeir ætluðu alltaf að láta íslendinga og ófædd börn þeirra greiða afborganirnar. Þeir ætla sér heldur ekki að greiða það sem þeim ber til samfélagsins. Ekki standa undir samfélagslegum kostnaði við menntun barna sinna, heilbrigðisþjónustu. Það eiga þeir sem greiða skuldir þeirra líka að gera.

Halldór og félagar lifðu í sérveröld og nutu sérkjara, hrifsuðu til sín áður en til skipta kom arður fjárfestinga ofurlaun, svimandi bónusa og lán með sérkjörum. Þeir nýttu sér afskiptalaus stjórnvöld, settu fulltrúa Flokksins í bankaráð, buðu ráðamönnum í glysferðir og upp á sömu lánakjör til þess að fá frið til þess að stunda starfsemi sína.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bankarnir voru sviknir af þjóðinni og settir í hendurna á "einkavinum", óreiðumönnum, sem sumir voru þekktir fjárglæframenn.

Draga þarf til lagalegrar ábyrgðar Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerði Sverrisdóttir, Árna Mathiesen, svo einhverjir séu nefndir.

Rómverji

Arinbjörn Kúld sagði...

Mikið rétt og þessa menn á meðal annars að sækja til saka fyrir gáleysislega og glæpsamlega ráðgjöf ásamt öðrum glæpum. Erlendis eru menn sóttir til saka fyrir "wreckless banking" og því ekki hér á landi.

Sigurjon Vigfusson sagði...

Getur verið að Halldór sé blankur eða spilltur.
,,Gestir í sundlauginni í Norðurfirði á Ströndum urðu hneykslaðir fyrir skömmu þegar þeir urðu vitni að því þegar Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sleppti því að borga ofan í laugina fyrir sig og son sinn.
Halldór á sumarhús á Ströndum og kom í laugina ásamt syni sínum og konu sem beið í bílnum á meðan feðgarnir böðuðu sig. Enginn starfsmaður er í lauginni en ætlast er til að gestirnir greiði fyrir aðganginn með því að láta peninga í þar til gerðan kassa. Halldór gerði þetta hins vegar ekki og þegar einn sundlaugargestur sá það sagði hann við Halldór að allir ættu að borga ofan í laugina.
Halldór lét tilmælin hins vegar sem vind um eyru þjóta og baðaði sig án þess að borga, þvert gegn tilmælum þeirra sem sjá um laugina."

Jenný Stefanía sagði...

Svo saurga þessir vesalingar góð og gild heilræði líka!

Ekkert er heilagt lengur, meðan þeir geta opnað túllann.

(afsakið orðbragðið 99.9% þjóð)