sunnudagur, 7. febrúar 2010

Breytinga er þörf

"Það á aldrei að láta góða kreppu framhjá sér fara," sagði Franklin Delano Roosevelt (1882 - 1945), 32. forseti Bandaríkjanna á árunum 1933 til 1945. Í kreppu myndast forsendur til breytinga. Hlutirnir verða aldrei eins og þeir voru við upphaf kreppu. Til margskonar aðgerða er gripið til þess að verjast neikvæðum afleiðingum og koma í veg fyrir að það sama gerist aftur. En það er ætíð innibyggð tregða í samfélaginu gegn breytingum, hræðsla við hið óþekkta.

Margir eru ráðviltir sérstaklega fólk undir 35 ára aldri, hafa ekki kynnst svona aðstæðum áður. En fólk sem er t.d. komið yfir miðjan aldur muna vel kröftugar niðursveiflur. T.d. lenti ég í alvarlegum greiðsluvandræðum vegna kaupa á fyrstu íbúð minni 1971 og svo aftur í enn verri vandræðum þegar ég endurnýjaði húsnæði fjölskyldunar 1987. Þá sá maður jafnvel þriggja stafa verðbólgu og öllu varð að sleppa í nokkur ár, jafnvel bíóferðum, búið í hálfköruðum íbúðum og borðaður ódýrasti matur í öll mál og ekið um á 15 ára gömlum bílum, sem maður hélt gangandi með viðgerðum á planinu fyrir framan húsið.

Ungt fólk í dag hefur verið miðpunturinn í alllangan tíma og þekkir ekki niðursveiflur. Hún hefur verið nefnd kynslóð ÉG, sem er dæmd til valfrelsis og tekur því sem sjálfsögðum hlut. Áhugasviðið er vinir, músík, ferðalög, bíó, fara út að borða, skemmtanir, líkamsrækt og fjölskyldan. Það hefur ekki hugmynd um hvernig lífið væri án þess að hafa fjarstýringu eða gsm síma. Valfrelsi á öllum sviðum er sjálfgefið í augum þess og hefur ætíð staðið frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum, þar skyndilega nú. Höggið er það þungt að fjallað er um vaxandi notkun geðlyfja og hræðslu.

Ef marka má kannanir hefur rúmur helmingur ungmenna ekki nein áform sem þau hlakka til eða hafa áhuga á. 40% opna aldrei bók en 96% eiga farsíma. Fræðingar eru sammála um að þessi kynslóð hefur átt þægilega æsku, kannski of áhyggjulausa. Pabbi og mamma voru úti að vinna og allt eftir þeim látið. Datt t.d. einhverjum í hug fyrir 20 árum myndu margir verja drjúgum hluta tíma sínum í það að hlaupa á sama stað á færibandi og velta fyrir sér hvaða breytingar muni eiga sér stað á japanska Jeninu.

Viðhorf sem maður heyrði víða þegar uppsveiflan var sem kröftugust voru eins og : Eru einhver markmið eftir? Þarf einhverju að breyta? Er ekki búið að finna allt upp? Rafmagnið og tölvutæknina, mannréttindi og allt það vesen og svo bíla og flugvélar. Til hvers er verkalýðshreyfingin í dag? Það er búið að ná fram öllu sem hún barðist fyrir, sjúkrasjóð, sumarfríum og veikindadögum. Eina fólkið sem kallaði eftir breytingum voru lítil börn með kúkableyju, var algengt viðkvæði.

Í dag hafa ungmenni aldrei verið betur menntuð, en aldrei átt erfiðar uppdráttar á vinnumarkaðinum. Atvinnuöryggið er afar lítið meðal unga fólksins. Það er oftast í skammtímaráðningum og það er sá hópur sem alltaf er byrjað á þegar starfsfólki er fækkað.

Mannskepnan skynjar ekki þörf breytinga fyrr en hún er komin í ógöngur. Það er að renna upp fyrir fólki að breytinga er þörf. Mikilla breytinga sérstaklega hjá ungu fólki. Það blasir við að þörf er allt annarra breytinga en núverandi stjórnmálamenn halda að okkur. Við verðum að tryggja að stöðugleiki, velmegun og mannréttindi nái til allra.

Einangrunarstefna hefur leitt okkur í mun erfiðari stöðu en við blasir í nágrannalöndum okkar. Kjörin á Íslandi eru óstöðug og í dag mun lakari en þekkjast í nágrannalöndum. Hér búa fáir búa við yfirburða efnahagsleg kjör, á meðan við mörgum blasir ókleif skuldastaða. Þeir hinir fáu beita öllum brögðum til þess að tryggja stöðu sína á kostnað hins almenna launamanns, og hafa til þess að gæðinga sérhanteraða með penum prófkjörsstyrkjum.

Það góða er að sjónir hafa í auknum mæli beinst að verðmætasköpun í atvinnulífinu, sprotafyrirtækjum og betri nýtingu orkunnar. Þrátt fyrir allt þá er breytinga þörf.

5 ummæli:

gosi sagði...

commentið Kemur kannski tvisvar er klaufi við þetta en hvað um það.
Það jákvæða við þetta allt saman er að fullt af fóki er farinn að velta fyrir sér hlutum sem það hélt að væru bara sjálfsagðir og hefðu bara alltaf verið til td. Samtök launa manna og Lífeýrissjóðir. Þeir sem hafa verið hvað harðastir gegn þessum samtökum og sjóðum standa alltí einu uppi með þá staðreynd að þetta eru þær stoðir sem úppúr rústunum standa

Georg Georgsson.

Nafnlaus sagði...

Þegar ég las þennan pistil var mér hugsað til að þetta vandamál hefur þróast víðar um heiminn, þegar maður röltir t.d. um Kringluna þá verð ég alltaf jafn hissa á hversu margir nenna að vera þarna og hvort að þetta fólk hafi áttað sig á að það er líf fyrir utan bíó-gemsa-kringlunnar osfrv.

takk fyrir góða pistla
kv. Halla

Nafnlaus sagði...

Yngri kynslóðin var skilin eftir með gemsa og ipod en án foreldra. Pabbi og mamma voru of upptekin af því að vinna lengsta vinnudag í heimi. Ef að börnin voru nógu heppin að eiga foreldra sem voru ekki skilin.

Nafnlaus sagði...

Það er sko satt að breytinga er þörf.
Kæmi ekki á óvart að meira verði horft til verkalýðshreyfingarinnar með lausnir þar sem algjört vantraust virðist orðið til stjórnmálamanna.
Í því ljósi væri áhugavert að vita hvort RSÍ og verkalýðshreyfinginn almennt sé búinn að koma sér saman um stefnu varðandi ESB og Evru (líklega komið fram en fylgist ekki nóg með ) þekki þína privat skoðun en lít svo á að þú skrifir hér einn og óháður.
Varðandi ÉG kynslóðina sem þú kallar og ég rétt slepp líklega með að flokkast undir. Þá held ég að ástæðulaust sé að afskrifa okkur sem eitthvert stórt ÉG. Þrátt fyrir að vera sú kynslóð sem hefur alist upp við mestu ofgnótt sem um getur, þá held ég að það þurfi ekki endilega að þýða geðlyf og hræðslu á línuna ;-) Á misjöfnu þrífast börnin best segir einhverstaðar góði parturinn er búinn og núna er komið að þrengingunum þannig að uppeldið ætti þá að enda á núllinu er það ekki.
Varðandi gemsana og ipodana þá skulum við ekki gleyma því að allt leiðir þetta til einhvers, núna eru að spretta upp sprotafyrirtæki sem eru að búa til framleiða og selja leiki einmitt í símana og netbúnað ýmisskonar (gítar stillitæki var t.d. í fréttum um daginn söluhæst á Nokia síðunnni)og ekki er þetta að koma frá hippakynslóðinni sem á að vera svo marghert í kreppu fræðum, stórsjó og eldi. Þetta er borð uppi af ungu fólki sem er ekkert að bölmóðast heldur brettir upp ermarnar.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
Þetta er ágætis pistill hjá þér, en ég verð samt aðeins að grípa til varna fyrir mína kynslóð (35 ára +/- 5ár). Þetta er sú kynslóð sem er að fá á sig þyngsta höggið í þessari kreppu, barnafólkið sem nýlega hefur fest kaup á íbúðum, sumir að stækka við sig o.s.frv. Á þessum aldri er maður að koma sér fyrir, komast upp í sæmilegar tekjur t.d. eftir nám og fyrstu ár á vinnumarkaði. Ekkert óeðlilegt við það að á þessum aldri sé fólk að festa kaup á því húsnæði sem það hugsar sér að búa í næstu 20 árin og ala upp sín börn. Munurinn núna og í fyrri kreppum, er að núna er þessi kynslóð eins og aðrar, með nýlega bíla á lánum og annað sem "tilheyrir" nútíma neysluþjóðfélagi. Þ.m.t. gsm-síma, sem nota bene komu ekki til fyrr en fyrir 15 árum síðan, og því varla hægt að segja að 35ára og eldri hafi alist upp við notkun þeirra. Það er því erfiðara í dag en oft áður að draga úr neyslu/útgjöldum sitjandi uppi með bílalán og ýmis dýr þægindi sem áður voru ekki til en teljast nú til almenns lifi-standards. (auk þess sem það er ekki auðvelt að stunda atvinnuleit án nettengingar og gsm-síma) ;)
En við (mörg/flest hver) gerum eins og fyrri kynslóðir, spörum í mat og annarri neyslu, sleppum bíóferðum og utanlandsferðum og vonum það besta.
Þar sem mér finnst að eldri kynslóðir þyrftu að koma okkur til aðstoðar er að afnema verðtryggingu eða ná tökum á verðbólgunni. Þar eru þær við stjórnvölinn, hvort sem er í pólítíkinni, í bönkunum eða í lífeyrissjóðunum (sem hingað til hafa streyst einna mest á móti afnámi verðtryggingar). Verðtryggingin er gróft og illa ígrundað verkfæri þeirra sem ekki hafa getu til að halda aftur af verðbólgunni með eðlilegum ráðum.
Ef áhrif vísitölu hefðu verið takmörkuð t.d. við 4-5% á fyrsta degi hrunsins þá væri staða skuldugra mun betri í dag og sátt og tilfinning fyrir réttlæti mun almennari í þjóðfélaginu. Síðan hefði mátt beita svipuðum úrræðum til að greiða úr myntkörfulánum. Í staðinn er ríkið að afhenda bönkum útblásnar skuldir almennings þeim til ávinnings.