Undanfarið ár hef ég lent í nokkrum viðtölum við erlenda fjölmiðla, flesta norræna. Var í gær í löngu viðtali, við hollenska blaðakonu. Það er sammerkt með erlendum blaðamönnum að þeir hafa sett sig vel inn í mál. Vita vel hvað þeir ætla spyrjast fyrir um og vilja fá skýringar með svörum. Ekki eins og sumir af hinum íslensku kollegum þeirra, sem byrja stundum viðtöl með innslaginu; „Ég veit ekkert um þetta mál, en var sagt að tala við þig. Um hvað snýst málið?“
Hollenska blaðakonan hafði rætt við allnokkra íslendinga áður en hún hitti mig og verið m.a. á blaðamannafundi InDefence. Henni fannst upplegg hópsins einkennilegt og virtist sannfærð um að þarna væri um að ræða einhverja aðkeypta uppsetningu af þeim stjórnmálamönnum sem væru í „við viljum ekki borga liðinu.“ Þarna hefðu setið karlmenn allir á sama aldri, eins klæddir, penir og töluðu eins þeir hefðu lært texta utanbókar. Hún þekkti suma þeirra með nöfnum og var búinn að fá upplýsingar um tengsl þeirra m.a. við Sigmund Davíð.
Hún lagði áherslu á að fá skýringu á því hvers vegna Icesave væri svona mikið mál. Það væru greinilega önnur mun umfangsmeiri mál sem íslendingar þyrftu að fást við. Í núverandi samning væru ákvæði um endurskoðun á öllum stigum og nýr samningur myndi tæpast innihalda mikla breytingu, nema þá í framsetningu. Það væri ekki eins mikið sem Ísland þyrfti að greiða og sumir héldu fram. Þrotabú Landsbankans ætti fyrir umtalsverðum hluta af því sem endurgreiða þyrfti, eins og fjármálaráðherra Íslands hefði bent á í viðtali fyrr um daginn.
Hún spurði um hvort Icesave umfjöllunin hér og allur hamagangurinn, sem búið væri að setja í gang vegna hennar, væri ekki eitthvert pólitískt sjónarspil þeirra sem að því stæðu, til þess að komast hjá því að ræða alvöruna sem lægi að baki Hrunsins og og hún vildi fá að heyra um aðdraganda þess. Hvort það hefðu ekki verið einhverjir sem hefðu áttað sig á því hvert stefndi með íslenskt efnahagslíf og bankana. Spurði m.a. um afstöðu mína í aðdraganda Hrunsins. Það hefði verið rætt niður í Evrópu um veika stöðu íslenska bankakerfisins og einkennilegar fjárfestingar íslendinga. Hvernig hefði það verið hér?
Viðtal okkar snérist um þann gríðarlega skaða sem búið væri að valda íslensku samfélagi með þessu sjónarspili. Álit Íslands hefði laskast mikið og fjármálastofnanir vildu sumar hverjar slíta öllu sambandi við Ísland. T.d. hefðu erlendar lánastofnanir gjaldfellt lán til mikils skaða fyrir íslensk fyrirtæki og lífeyrissjóði landsmanna. Atvinnuleysi hefði vaxið að óþörfu, sama ætti við um kaupmáttur hann hefði minnkað vegna þess að gengið hefði fallið vegna þessa málþófs.
Hún spurði út í endurtekin viðbrögð íslendinga, sem væru fólgin í hvers vegna þeir teldu sig alltaf þurfa að skýra út sérstöðu sína. Þeir hefðu á sínum tíma neitað að horfast í augu við aðvaranir um að íslenskir bankar væru í stórri hættu. Því hefði verið svarað fram á síðasta dag af forsvarsmönnum Íslands að svo væri ekki. Hér væri allt í fínu lagi og hefðu sent þungavigtarfólk niður til Evrópu til þess að útskýra sérstöðu Íslands og þar hefði því margendurtekið verið lýst að staða íslensks efnahagslífs væri óvenjulega sterk og engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu íslenskra banka.
Íslendingar virtust alltaf víkja sér undan því að horfast í augu við vandann og ráðast að rótum hans. Oft er talað um glögg augu gestsins.
14 ummæli:
Sæll Guðmundur. Hollenska blaðakonan kann greinilega vel til verka og hefur glöggt auga fyrir undirliggjandi ástæðum ICESAVE moldviðrisins. Hafðu þakkir fyrir að deila þessu með okkur.
„Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. Afturámóti klífa þeir þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda, enda mundi landsbygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo. Þó er enn ein röksemd sem íslendíngar eru fúsir að hlíta þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður."
Eftir nokkur ár þegar búið verður að gera upp Landsbankann og greiða eftirstöðvarnar mun einhver reikna út hversu mikið þjóðin hafi sparað sér við að samþykkja ekki maí samninginn, - og bera saman við þann kostnað sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir vegna tafarinnar. Spurning hverjir muni bera höfuðið hærra, InDefence og stjórnarandstaðan, eða stjórnarliðar.
"Góður pistill hjá þér Guðmundur. Því miður er himinn og haf á milli innlendra og erlendra fjölmiðla. Það er kannski ekki að undra í ljósi féleysis og fámennis, en því miður hafa íslenskir fjölmiðlar aldrei slitið sig frá sterkum hagsmunaöflum."
Kv Ingi
Er að velta því fyrir mér hvernig Bjarni Ben og Sigmundur Davíð ætla að útskýra það fyrir sínu liði að það hafi aldrei verið inn í myndinn að borga ekki, þeir hafi bara verið að plata.
Miðað við alla þá lygi sem komið hefur út úr stjórnmálamönnum, eftirlitsaðilum og fjársóðum Íslands, hvernig ætlastu til að við trúum því að eignir Landsbankans dugi fyrir IceSave án þess að fá að sjá hvaða eignasafn er þarna á ferðinni?
Heldurðu að við látum endalaust bulla í okkur með þessa hluti?
Ef eignir Landsbankans duga eiga þær bara að fara upp í þetta og almenningur þessa lands komi ekki nálægt þessu að öðru leyti.
Ég skil ekki hvernig þú getur endalaust hampað því andskotans rugli að almenningur á Íslandi eigi að bæta tjónið á innlánum sem við tókum aldrei. Það hefði aldrei komið til greina að við fengjum hagnaðinn af þessu.
Þú mátt alveg gera þér grein fyrir því að almenningur þessa lands lætur ekki bjóða sér lengur þjóðnýtt tap einkafyrirtækja og einkavæddan gróða.
Mín skoðun er sú að viðtöl þín við erlenda blaðamenn séu til skaða. Mér gremst stórlega að þú hjálpir erlendum kúgurum að senda mér reikning sem ég ber enga ábyrgð á.
Hvor var í viðtali við hvorn segirðu ?
Konan var greinilega uppfull af áróðri en minna meðvituð um staðreyndir.
Mér sýnist hún ekki hafa mikla þekkingu á málinu ef marka má þessa lýsingu:
"Það væri ekki svo mikið sem Ísland þyrfti að greiða. Þrotabú Landsbankans ætti fyrir umtalsverðum hluta af því sem endurgreiða þyrfti."
Líklega væri hún annarar skoðunar ef sambærilegar byrðar yrðu lagðar á Hollendinga.
Það er svo einkennilegt með sumt fólk ef einhverju er haldið fram sem er því ekki þóknanlegt þá er það áróður, eins og Haukur og Jón halda fram. Þessir tveir ættu að fá sér betri gleraugu, því þeir lesa greinilega margt á hvolfi
Úlfur
Ég ætla enn einu sinni að taka það fram að ég er ekki að biðja um að Ísland fái að borga. Bendi á að það var Alþingi íslendinga sem gekk frá því hvaða skuldbindingar Ísland undirgengst. Ísland verður hvort sem okkur líkar það beta eða illa að standa við þær skuldbindingar. Annað er flótti frá staðreyndum.
Það ófriðarbál sem stjórnarandstaðan hefur viðhaldið undanfarið ár í stað þess að ganga sameinaðir til verka, hefur valdið íslenskum almenning mun meiri skaða en Icesave getur orðið. Ég hef í allmörgum pistlum hvatt til þess að stjórnmálamenn leggi vopnin til hliðar og gangi sameinaðir til verka.
Vilji Haukur finna þá sem eiga stærstan þátt í þeim reikning sem lendir á þjóðinni snýr hann sér vitanlega til viðskipta- og fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde. Eins þáverandi seðlabankastjóra og síðast en ekki síst til þáverandi framkv.stj. Sjálfstæðisflokks og formanns bankaráðs Landsbanka.
Í lokin blaðakonan var eins og fram kemur í greininni að vitna til ummæla fjármálaráðherra í viðtali í gærmorgun.
Tek undir með því sam fram heufr komið hér ofar. Það er harla einkennilegt að kalla það áróður, sem ekki er í samræmi við það sem Haukur og Jón vilja heyra. Eru þeir handhafar hins algilda sannleika.
Það er ljóst að það verður erfitt fyrir þá sem hafa staðið að ófriðnum síðastliðið ár að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna, en þeir koma því ekki yfir á aðra, þeir sitja í þeirri stöðu að hafa valdið íslenskum launamönnum gríðarlegum skaða.
Það er svo merkilegt að þeir sem hæst hafa nú um að þeir ætli ekki að "borga fyrir mistök annarra"eru þeir sömu, og höfðu líka hátt þegar t.d.danir gagnrýndu íslenska bankamenn fyrir hrunið. Þá ætlaði þjóðremban alveg að kæfa þessa menn.
Það er líka merkilegt að þeir sem eru mest áberandi í að gagnrýna þá stöðu sem við erum í, eru menn sem voru eindregnir stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar sem skóp og viðhélt þá efnahagstefnu og eftirlitsleysi (frelsi) jafnvel fram yfir Hrun, sem leiddi okkur í þá stöðu að sitja uppi með koltjúllaðar ákvarðanir Landsbankamanna, og virtu að vettugi allar aðvaranir erlendra aðila um hvert stefndi.
Ég leyfi mér að taka fram að ég hef ekki stutt þrjár síðustu ríkisstjórnir og tek ekki til mín að ég sé þar á meðal þó að ég hafi hátt hér. Það er ódýrt í rökræðunni að fleygja í andmælendur svona ódýrum rökum.
Ég tilheyri ekki flokki og frábið að vera stimplaður með þeim hætti. Það er alveg mögulegt að mynda sér skoðanir án þess að vera í einhverjum ónýtum flokki.
Ég get alveg tekið undir að Davíð, Halldór, Geir og fleiri eiga upphafið að hruninu og ver þá bara alls ekki. Þeir sem hafa komið að stjórn á eftir hafa heldur ekki gert neitt til að bæta ástandið annað en að eyða tímanum að mestu í aðgerðarleysi og ákvörðunarfælni.
Sammála þér Guðmundur, eins nær alltaf. Alltof margir Íslendingar hugsa svona: "Ef þú ert ekki sömu skoðunar og ég - þá ertu fífl." Þeir er sem sagt um megn að virða skoðanir annarra og ráðast því á persónu þeirra.
Snorri
Skrifa ummæli