mánudagur, 22. febrúar 2010

Heimaskítsmát

Stjórnarandstaðan hefur purkunarlaust nýtt Icesave í pólitískt upphlaup og heiftúðuga sundrungarpólitík. Öllum brögðum er beitt: hagsmunir ýktir, spilað á þjóðarstolt, óvinveittar þjóðir skapaðar. Síðast en ekki síst hið venjubundna valdatafl stjórnmálaflokka. Umræðan hefur verið vanstillt með ofsafengnum upphópunum og málþófi.

Nú liggur fyrir að sá valkostur var aldrei upp á borðum um að kjósa sig frá ábyrgð á Icesave og formenn stjórnandstöðunnar hafa viðurkennt það í fjölmiðlum, sama má segja um forsvarsmenn InDefence. Þeir eru allmargir sem hafa gengið með þeim í þeirri trú að baráttan hafi staðið um að losna við Icesave, enda hefur oftlega í orðræðunni verið látið í það skína að svo sé. Þau eru ofsafengin viðbrögðin þegar bent er á götin í málflutning þessara herramanna.

Í þessu sambandi má benda á viðbrögð ef bent er á það sem margar stofnanir innlendar og erlendar hafa ítrekað bent á allan tímann, að skuldin sé fjarri því að vera ókleifur múr. Seðlabanki Íslands, starfsmenn fjármálaráðuneytis, ásamt fulltrúum AGS og hagfræðistofnunar Háskólans hafa ætíð haldið þessu fram. Ekkert annað hefur komið fram í málinu en að Ísland muni vel getað staðið undir skuldbindingum sínum.

Þeir sem voga sér að vera ekki sammála Sigmundi Davíð og Bjarna Ben á að þeirra mati að gera brottræka úr íslensku samfélagi vegna svika við hagsmuni þjóðarinnar. Fólk er sakað um undirlægjuhátt og sakað um að vera talsmenn útlendinga fremur en Íslendinga. Sigmundur Davíð krefst hreinsana í nafni þjóðarhagsmuna. Þórólfur Matthíasson prófessor er fordæmdur fyrir svik, þegar hann hefur svarað fyrir sig með málefnalegum hætti.

Samstaða er hjá hinum pólitísku tvíburum um að beita öllum brögðum til þess að þagga niður önnur sjónarmið. Ef samningamenn Íslands svara heiftúðugri gagnrýni eru þeir fordæmdir sem svikarar við Ísland. Því er hiklaust haldið fram að forsætis- og fjármálaráðherrar standi vísvitandi í vegi fyrir öllu sem íslenskt er og búi stjórnarandstöðunni svikráð. Engin má tjá sig án þess að samþykkja málatilbúnað sjálfstæðis- og framsóknarmanna, sem er líklega það lægsta sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum og er þá langt til jafnað.

Allt virðist benda til þess að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben vilji ekki að það sé samið, það henti þeim ekki, skítt með stöðu efnahags- og atvinnulífsins og hagsmuni íslenskra launamanna.

Nú blasir við að nýr samningur mun líklega ekki skila neinu öðru en því sem þegar stóð til boða í heimildar- og endurskoðunarákvæðum fyrri samnings. Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru með liðlega 1.000 nýja atvinnulausa á samviskunni og mun verri stöðu íslensks samfélags. Auk þess að fall efnahagslífsins er mun dýpra en það hefði þurft að vera og skriðþunginn í fallinu orðin það þungur að atvinnuleysið er að aukast og um 2 - 3 þús. gætu bæst við skrárnar á næstu vikum.

5 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Ríkisstjórnin feli Bjarna Ben og Sigmundi Davíð að ganga frá málinu.

Aðrir geta þá snúið sér að öðru.

Nafnlaus sagði...

Efni greinarinnar þarf að halda á lofti. Fólk þarf að átta sig á hvað þessir menn eru búnir að gera þjópð sinni. Ekki nóg með að flokkar þessara manna hafi sett þjóðina á hausinn, heldur hafa þessir fuglar einnig hamlað uppbyggingunni.

Valur B

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Ég er sammála þér í því að atvinnuleysi og staðan í atvinnumálum er mjög erfið og fer hratt versnandi. Því er það óskiljanlegt að Seðlabankinn lækki ekki vexti nú þegar í 3%. En ég er líka algjörlega ósammála þér í því að það sé B og D hvernig komið er fyrir Icesave. Vandamálið liggur fyrst og fremst í klúðri VG og svo vonlausri verkstjórn Jóhönnu. Það er heldur engin afsökun afhverju ekki er búið að koma atvinnulífinu í gang. Það er nægur peningur hér heima í bönkunum og lífeyrissjóðunum en það er bara ekkert búið að gera. Einnig voru skattahækkanirnar um áramótin röthögg fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu. Miklu nær hefði verið að byrja á niðurskurði svo hækka skattana en þessi Ríkisstjórn ræður bara ekki við verkefnið. Ríkisstjórnin talar í frösum og í miklum poppulista tón. Það verður að viðurkennast að stokka þarf upp í stjórninni og legg ég til að VG fari í frí.

Nafnlaus sagði...

Algerlega sammála þér, Guðmundur.

Bjarni og (sérstaklega) Sigmundur Davíð ganga í smiðju til öfgamanna suður í Evrópu sem náðu góðum árangri á fyrri helmingi síðustu aldar með einmitt svona málflutningi. Vonandi verður sú ekki raunin hér.

Nafnlaus sagði...

Ísland undirgekkst þessa ábyrgð á meðan Framsókn og xD voru við völd.

Davíð viðurkenndi ábyrgð Íslands sem Seðlabankastjóri. Geir og Árni Matt gengu frá samning við Breta og Hollendinga sem var staðfestur af Alþingi. Það var síðan endurtekið af annarri ríkisstjórn og staðfest af Alþingi.

Svo ganga þessir menn og bera þær sakir á aðrar þjóðir að þær vilji ekki lána okkur fjármuni á bestu kjörum.

Stjórnmálamenn eru búnir að fyrirgera öllu trausti Íslands, koma þjóðinni í hóp óreiðumanna.

Það eru ekki einhver bolabrögð AGS að aðrir vilji ekki lána Íslandi, það eru afleiðingar gjörða Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben.

Á grundvelli þess er spurt, hverjir eru landráðamenn?