laugardagur, 30. apríl 2011

Staða kjarasamninga

Nú er kominn upp algjörlega ný staða í kjarasamningum. Miðvikudaginn 13. apríl hafnaði SA enn einu sinni að draga tilbaka þá fyrirvara sem samtökin höfðu sett um að forsenda kjarasamninga væri ásættanlega niðurstöðu í kvótamálum að mati LÍÚ. En á þessum forsendum höfðu þeir dregið fæturna við gerð kjarasamninga mánuðum saman.

Þar var um var að ræða tilboð um 3ja ára kjarasamning með 11,7% kostnaðarauka, ekki var búið að ganga frá breytingum á launakerfum og kostnaðarauka vegna þess, en fyrir lá að sá kostnaðarauki yrði um 1 – 2%. Föstudaginn 15. apríl höfnuðu þeir að standa áður gefið loforð um að gera 6 mánaða skammtímasamning nema að í honum væru ákvæði um fyrirvara LÍÚ.

Þremur dögum síðar gengur SA til samninga við 4 stéttarfélög, þar á meðal RSÍ, með 15,7% launahækkun, og þar af eru 13,8% það sem kalla má almenna launahækkun og 2% vegna bónuskerfa sem byggja á ábataskiptakerfum. Jafnframt var samið um afturvirkni til 1. janúar 2011 í stað 1. mars, eða fimm mánuði í stað 3ja mánaða. Í þeim samning voru engir fyrirvarar frá LÍÚ. Þessi samningur var alfarið í samræmi við kröfur iðnaðarmannafélaganna og Verkalýðsfélagið á Akranesi féll frá öllum sínum sérkröfum.

Í gær fór fram einhliða gengdarlaus áróður m.a. í fréttastofu allra landsmanna af hálfu SA um þessi mál. Þar var farið með rangt mál, m.a. ekki minnst á að enn væri inn í þeim samningum sem SA væri að bjóða sömu fyrirvarar af hálfu LÍÚ. Gert var lítið úr Elkem samningnum, en þar eru launahækkanir sem skiptast þannig að á þessu ári koma 8,5%, árið 2012 koma 3,3% og árið 2013 koma 3%, samtals eru þetta 15,7%.

SA bauð í gær upp áframhaldandi þref næstu vikurnar um breytingar á launkerfum og um fyrirvara LÍÚ. Á þetta fallast launamenn ekki. Samtök launamanna á almennum vinnumarkaði hafa sýnt mikil heilindi og mikla þolinmæði gagnvart vandræðagang SA og LÍÚ.

Þess vegna hafa samtök launamanna sett fram kröfu um eins árs samning með sömu afturvirkni og var í Elkem samningnum og 4,5% launahækkun. SA og LÍÚ geti þá athugasemdalaust af hálfu launamanna haft svigrúm til þess að ljúka sínum málum og síðan megi í haust hefja vinnu við gerð 3ja ára samnings sem taki við í janúar á næsta ári. Ef SA fellst ekki á þessa leið hefst allsherjarverkfall 25 maí næstkomandi.

fimmtudagur, 28. apríl 2011

Hættur?

Ertu að hætta Guðmundur? hefur verið spurt undanfarna daga. Svarið er að ég ákvað það fyrir allmörgum árum og tilkynnti það á félagfundi að ég vildi fara eftir því sama gert væri í norrænum systurfélögum okkar að hætta þegar ég næði 65 ára aldri, sem ég gerði í vetur.

Ég tilkynnti það á síðasta þingi Rafiðnaðarsambandsins fyrir 4 árum að í samræmi við það væri þetta mitt síðasta kjörtímabil. Þing sambandsins verður sett í dag og stendur fram á laugardag.

Það hefur rignt yfir mig áskorunum um að gefa kost á mér áfram. Ég hef svarað mörgum fyrirspurnum félagsmanna um að ég vilji nýta síðustu starfsár mín meira í sjálfan mig. Formannstarf RSÍ er gríðarlega umfangsmikið starf, þú ert í vinnunni allan sólarhringinn alla daga segir konan við mig og það er margt til í því. Margir starfsmenn og margar stofnanir sem við rekum Rafiðnaðarskólinn, Ákvæðisvinnustofu, Fræðsluskrifstofu, lögfræðistofu, starfsendurhæfingu, stórt orlofskerfi, styrktarsjóðskerfi og fl.

Ég er reyndar ekki í ríkistryggðum lífeyrissjóð eins og sumir aðrir og get ekki hætt að vinna upp úr sextugt og farið að leika mér í golfi. Ég verð að vinna áfram og svo sem ekkert að gráta það.

miðvikudagur, 27. apríl 2011

Alþingismenn og við hin

Fyrir nokkur var borinn fram á Alþingi tillaga um að laun verkalýðsforingja mættu aldrei vera hærri en þreföld byrjunarlaun hjá viðkomandi stéttarfélagi. Ég skrifaði um þetta smá pistil, og benti á að þetta þýddi í raun að verið væri að leggja til að t.d. laun mín myndu hækka umtalsvert. En ég þigg laun samkvæmt kjarasamning míns stéttarfélags, ekki krónu umfram það.

Mér varð óneitanlega hugsað til þessa þegar ég hlustaði á einn þingmann og ráðherra fara yfir stöðu þessara mála hvað þingmenn varðar. Ef þeir vildu láta þessa tillögu sína yfir sig sjálfa ganga þá mættu þeir ekki hafa hærri laun er þreföld laun öryrkja. En það eru þingmenn sem véla með bótakerfið.

En það er svo margt sem þingmenn láta sér til hugar koma og æði oft ekki í sambandi við umhverfi sitt. T.d. vilja þeir núna setja sérstök lög um hverjir megi sitja í stjórnum lífeyrissjóða almennra launamanna, en þeir hafa ekki sett sömu kröfur hvað þá sjálfa varðar og setja hiklaust sjálfa sig í stöður við að stjórna landinu, ráðuneytum og margskonar peningastofnunum án sérstakra krafna.

T.d. er ljóst að Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður, bankakerfið og þeir lífeyrissjóðir eru í vörslu bankanna og stjórnmálamanna fóru kyrfilega á hausinn. Sama má segja um nokkrar stofnanir sem stjórnmálamenn hafa stjórnað eins og t.d. Orkuveituna og sveitarfélögin og fl. og fl.

Það voru launamenn sem stofnuðu sína lífeyrissjóði um 1970 og hafa valið stjórnendur þeirra. Staðreyndin er sú að almennu lífeyrissjóðirnir eru einu peningastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Þeir töpuðu margfalt minna en þeir lífeyrissjóðir sem voru í vörslu sérfræðinganna í bönkunum, og svo má einnig benda á lífeyrissjóð verkfræðinga og útkomu hans, sem er landsfræg.

Ég er ekki með þessu að segja að ekki eigi að gera kröfur til stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna og það er einnig gert, en þeim er einnig gert að leita eftir sérfræðirágjöf.

En mér datt þetta bara í hug þegar ég var að horfa á fréttirnar í kvöld.

laugardagur, 16. apríl 2011

Óásættanleg staða

Nú liggur á skrifborði sáttasemjara nánast tilbúinn 3ja ára kjarasamningur sem búið er að leggja gríðarlega vinnu í af aðilum vinnumarkaðs og stjórnvöldum. Hluti af samningnum er annar 6 mánaða aðfarasamningur sem er í forminu einnig skammtímasamningur.

Þessi skammtímasamningur var búinn til 11. febrúar þegar samningamenn iðnaðarmanna höfnuðu alfarið að vinna við gerð kjarasamninga undir hótunum LÍÚ og ætluðu að slíta samstarfinu. Í samningnum átti að vera trygg undankomuleið fyrir launamenn með launahækkanir frá 1. marz út september tef þessi staða kæmi aftur upp á lokastigi langtímasamnings. Nú hefur sú staða komið upp, en þá hafna SA menn að skrifa undir samninginn nema með skilyrðum sem ekki er hægt að fallast á.

Í samningnum eru mörg mjög verðmæt atriði fyrir ekki bara launamenn heldur einnig samfélagið. Allir sammála um að rífa þurfi atvinnulífið upp úr þeim doða sem það er í. Gert ráð fyrir að okkur takist að vinna tilbaka um helming af þeim kaupmátt sem við töpuðum við Hrunið.

Í gær hafnaði SA að skrifa undir 3ja árasamninginn, og sögðust einungis ætla að skrifa undir skammtímasamninginn en lögðu ofan á hann pólitíska yfirlýsingu. Samningamenn stéttarfélaganna sögðust ekki geta skrifað undir hana og það væri reyndar einfaldlega ólöglegt að setja þetta inn í samning.

Þar fyrir utan væri þarna álitamál sem væri mjög umdeild meðal landsmanna, sem væru flestir reyndar launamenn og ættu að fara að greiða atkvæði um þennan samning. Þetta myndi leiða til enn einnar atkvæðagreiðslu þar sem verið væri að kjósa samtímis um óskyld mál, sem myndi næsta örugglega leiða til þess að samningurinn yrði felldur.

Samningamenn stéttarfélaganna biðu í 4 klst. eftir því að SA menn endurskoðuðu hug sinn, og fóru síðan heim um miðnætti. Samningarnir liggja á skrifborði sáttasemjara, penninn ofan á og efst liggur þessi yfirlýsing.

föstudagur, 15. apríl 2011

SA slítur viðræðum

Nú kl. 18:45 sleit SA viðræðum um 3ja ára samning á þeim forsendum að ekki hefði náðst samstaða um sjávarútvegsmál.

Reynt til þrautar í kjaraviðræðum

Nú standa yfir viðræður í Karphúsinu þar sem reynt er til þrautar að ná endum saman. Þetta er skrifað kl. 17.15 föstudag 15. apríl, í tilefni þess að ég sé að Eyjan er að vísa í einhverja einkennilega frétt á Vísi. Ég er í Karphúsinu og hef verði þar meir og minna undanfarna sólarhringa.

Ríkisstjórnin hefur spilað út nýjum spilum í dag og aðilar eru að fara yfir þau mál.

Einnig hafa standa yfir viðræður um útfærslur á krónutölum hækkunum inn í taxtakerfin, en það tekur alltaf töluverðan tíma að finna þær leiðir þannig að báðir aðilar geti við unað.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þessara hluta, þá eru launakerfi Exceltæk eins það er kallað, það er ákveðin hlutföll eru á milli flokka og eins milli aldurshækkana. Þetta fer allt á skjön þegar krónutökuhækkanir eru keyrðar inn.

Á þessari stundu er útilokað að fullyrða hver lendingin verði, skammtímasamningur sem endar 1. september í haust, eða 3ja ára samningur með 3 uppsagnaropnunarmöguleikum og tryggingarákvæðum, það er 15. júní næstk. 20. jan. 2012 og 20. jan. 2013.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Baráttan um völdin

Baráttan um völdin í samfélaginu verður sífellt harkalegri. Þjóðin ná til baka þeim völdum sem hafa safnast á hendur fárra á undanförnum áratugum. Þar ráða ekki stjórnmálaflokkar heldur tiltölulega fámennur hópur sem hafa komið sér fyrir í stjórnsýslunni og hafa þar aðgang að því að hygla sér og sínum völdum og sérréttindum.

Um þetta standa yfir heiftarleg átök þó öllum sé ekki ljóst um hvað þau fjalla og átta sig ekki á hvar átakapunktarnir eru. Þetta er afleiðing slakra fréttmiðla og markvissum innskotum þeirra sem hafa völdin, þar sem þeir vísvitandi splundra umræðunni með villandi upphlaupum. Þetta er þekkt í fréttaþáttum, spjallþáttum og netmiðlum þar sem það er ekki endilega við stjórnendur að sakast heldur þá sem hringja inn.

Það er bæði fólgin gleði og sorg í því hvernig málin hafa þróast. Gleði yfir tilraun fólks til þess að vera þátttakandi í vitrænni umræðu og þvinga fram viðsnúningi á þeirri þróun sem hefur viðgengist. En samfara því hefur opinberast hversu langt valdhafarnir vilja ganga til þess að tryggja sér óbreytt ástand.

Fram fer heiftarleg barátta og því miður hefur valdhöfum tekist að blanda þar saman óskyldum hlutum og leitt umræðuna inn á villigötur. En það eru alltof margir sem átta sig ekki á þeim miklu átökum sem fara fram þessa dagana. Það birtist t.d. í átökum um auðlindir og sjávarútveg og er í raun helsta bitbein í yfirstandandi kjarasamningum án þess að almenningur hafi áttað sig á því.

Þetta birtist einnig í umfjöllun um Icesave. Þar hefur valdhöfum tekist vel að leiða alla umræðu inn á villigötur. Þar er einskis svifist, sem birtist best í því hvernig litið er fram hjá þeirri staðreynd að vinnumarkaður hefur dregist saman og 15 þús. manns ganga um atvinnulausir og kaupmáttur launamanna féll um 13% að jafnaði við fall krónunnar.

En það sem er svo einkennilegt er að hvernig alþingismenn sem hafa talið okkur í trú að þeir séu sérstakir varnarmenn gagnvart valdhöfunum og voru kosnir inn á þing einmitt vegna þeirra skoðana. Nú starfa þeir við hlið málssvara valdhafanna og eru þar orðnir nytsamir sakleysingjar og eru að valda gríðarlegum skaða fyrir íslenska launamenn og koma okkur í spor Bjarts í Sumarhúsum og við erum sífellt að færast lengra upp í heiðina.

sunnudagur, 10. apríl 2011

Fyrirsjáanleg niðurstaða

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um Icesave var alltaf fyrirsjáanleg. Engin vissi betur en forseti Íslands í sinni vinsældakeppni hver niðurstaðan yrði og undir það tóku þeir stjórnmálamenn sem ekki hafa burði til þess að taka óvinsælar ákvarðanir.

Það kom fram í forsendum Stöðugleikasáttmála og hefur margoft komið fram í ummælum forsvarsmanna fyrirtækja hvaða þær afleiðingar höfnun Icesave samnings muni hafa á vinnumarkaðinn, forsendum fyrir launahækkunum og neikvæðri stöðu til þess að vinna á hinu mikla atvinnuleysi.

Nú liggur þessi niðurstaða fyrir og fram eru kominn fyrirsjáanleg harkaleg viðbrögð viðsemjenda Íslands í Icesave, þeir ætla með málið fyrir dómstóla sem reyndar var eitt af aðalrökum Nei sinna að þei myndu ekki þora og við þyrftum ekki að borga neitt. Vitanlega verðum við að taka því sem að höndum ber og reyna að vinna úr enn erfiðari stöðu sem við sjálf höfum komið okkur í. Líklega verður vaxtareikningurinn margfaldur og þá duga eignir Landsbankans hvergi, því dómstóllinn mun ákveða þá vexti sem eru ráðandi á markaði.

Sé litið til ummæla sem fram hafa komið hjá forsvarsmönnum fyrirtækja þá eru möguleikar á langtímakjarasamning og þá um leið sérstakri hækkun lægstu launa komin út af samningaborðinu í Karphúsinu. Í viðtölum í Karphúsinu hefur komið fram að við þessar aðstæður treysti fyrirtækin sér ekki til þess að gera langtímaspár og sjái ekki forsendur til þess að standa undir launakostnaðarauka. Þá mun reyna aftur á kjósendur þegar enn slakari kjarasamningar verða bornir undir launamenn.

Það hefði verið ábyrgðarleysi af mér að benda ekki á þessi ummæli gagnaðila launamanna við samningaborðið. Ef þessar spár rætast, samfara þeirri staðreynd að mér var kunnugt um þessa afstöðu fyrirtækjanna, og hagfræðingar stéttarfélaganna séu henni sammála, hefði ég verið skammaður fyrir að hafa ekki vakið athygli á hugsanlegum afleiðingum þess fyrir launamenn að hafna Icesave samning.

Þetta er staðan í dag og við verðum að horfast í augu við hana og þá sérstaklega þeir sem sögðu Nei.

laugardagur, 9. apríl 2011

Já - áfram upp úr vandanum

Ég segi Já vegna þess að Alþingi sendi samþykkti að senda samninganefnd og samþykkti samninginn með yfirgnæfandi meirihluti Alþingis samþykkti samninginn, það er lýðræðisleg niðurstaða.

ESA segir að jafnræðisregla EES hafi verið brotin, þetta gerir frekari samninga Íslands vonlausa og fyrir liggur þá dómstólaleið sem mun kosta Ísland margfalt meir en fyrirliggjandi samningur.

Það var áhættusækni núverandi kynslóðar leiddi yfir okkur Hrunið, við getum ekki vísað enn meiri áhættu til barna okkar og barnabarna.

Ísland er í ruslflokki lánamála og allar líkur á að fallið verði meira verði Icesave ekki samþykkt. Reykjanesbær var að fá lán með 7% vöxtum.

Hátæknifyrirtækin eru að flytja stöðvar sínar til útlanda, svo þau hafi aðgang að erlendum lánum á viðráðanlegum vöxtum. En það er þar sem við höfum verið að sækja ný og velborguð ný störf, nú erum við að missa þau úr landi.

Við þurfum að skapa rúmlega 20 þús. ný störf á næstu 2 árum ef við ætlum að minnka atvinnuleysið og vinna okkur úr þeim vanda sem við búum við.

Átta mig ekki á þeim ofsa sem þjakar Nei-fólkið. Var í fiskbúðinni minni í gær og þar kom inn maður og spurði hvort ég væri búinn að segja Já. "Ég fór og krossaði við mitt Já í gær", var svar mitt.

Fisksalinn minn sem annars er dagfarsprúður maður og viðkunnanlegur viðmælandi, bókstaflega missti stjórn á sér og hrópaði á mig hvort ég vildi ekki borga hans skuldir líka og ýmislegt fleira.

"Bíddu við, heldur þú að málið snúist um hvort við borgum" svaraði ég.

"Það liggur fyrir að við verðum að borga og við erum búinn að ganga þrívegis til samninga um það og það er búið að samþykkja það á Alþingi. Við erum reyndar búinn að borga fyrir þetta ævintýri að óþörfu milljarða króna þegar í dag, langt umfram það sem við þurfum, með því að vera að greiða mörgum prósentum hærri vexti af risavöxnum erlendum lánum okkar og fyrirtækin eru að verslast upp"

Ég fékk reyndar fiskinn sem ég ætlaði að grilla fyrir okkur Helenu í gærkvöldi, og vona að við vinirnir þurfum ekki að rífast um þetta næst þegar ég fer í fiskbúðina mína.

fimmtudagur, 7. apríl 2011

Efnahagsforsendur og Icesave

Því miður upplifum við það alltof oft að nokkrir alþingismenn og jafnvel ráðherrar upplýsa okkur um fávisku sína um gang og samtvinnun atvinnulífsins og efnahagskerfisins. Þegar gerðir eru kjarasamningar með íslenskri krónu er umfangsmesta umræðuefni samningamanna efnahagsforsendur og hvernig tryggja megi kaupmátt.

Svo maður tali nú ekki um ef menn eru að reyna að ná saman kjarasamningi til 3ja ára. Launamenn þekkja því miður alltof vel hvernig krónan hefur rústað kjarasamningum, valdið stökkbreyttri skuldastöðu og fellt kaupmáttinn.

Það er harla einkennilegt að upplifa það að fréttamenn og nokkrir alþingismenn, ásamt einum ráðherra láti eins og það sé einhver stórkostleg nýjung að já eða nei við Icesave-samning geti haft einhver áhrif á efnahagsforsendur á Íslandi og þá um leið hvaða kröfur eru gerðar af launamönnum við samningaborðið í Karphúsinu og hvaða möguleika fyrirtækin sjá til þess að koma til móts við þær kröfur. Hverslags málfutingur er þetta? Getum við ekki talað saman á vitrænan hátt?

Enn furðulegra er að vera gert að sitja undir ásökunum um að vera með hótanir þegar bent er á þessar einföldu og augljósu staðreyndir, sem sannanlega hafa verið til umræðu í nánast hverjum einasta spjallþætti undanfarinn misseri og áberandi umfjöllunaratriði í fréttatímum.

Allir helstu forsvarsmenn fyrirtækja á Íslandi, sérstaklega í orku- og tæknigeiranum hafa lýst því yfir að Icesave-samningurinn hafi gríðarleg áhrif á afkomu fyrirtækjanna hér á landi, þetta hefur komið fram í nær hverjum einasta fréttatíma undanfarið 2 ár.

Það hefur komið fram hjá samningamönnum Íslands við gerð Icesave-samningsins og öllum ráðgjöfum þeirra, að sá samningur sem nú liggi fyrir muni hafa minnstu efnahagsleg áhrif á Íslandi, nóg sé komið af áhættusækni. Á þeim forsendum samþykkti yfirgnæfandi meirihluta Alþingis samninginn, eftir að hafa ítarlega yfir hann með sínum sérfræðingum. Ástæða er að minna á að það var Alþingi sem ákvað að fara þessa samningaleið og skuldbatt þjóðina þar með við hana.

Þú ferð ekki í vinnu við gerð samninga og segir svo þegar þú ert kominn heim með samning "Allt í plati". Þesskonar háttalag á að uppræta í íslensku samfélagi, það er búið að valda okkur gríðarlegum skaða. Nægir þar að benda á skuldatryggingaálag og samningstöðu íslenskra fyrirtækja.

Þessa dagana er unnið að því í Karphúsinu að ná niðurstöðu í viðræðum við ríkisstjórnina. Einnig er verið að glíma við flókna lagaumræðu um útfærslu á að tvinna saman stuttum 6 mán. samning saman við 3ja ára samning. Samninga sem falli niður ef efnahagsforsendur standast ekki og kaupmáttur haldi ekki. Það er óþarfi að láta sem svo að menn detti fram úr stólnum af undrun við að heyra þessi tíðindi og í því sé falinn einhver hótun gagnvart þjóðinni.

Mörg módel eru í gangi sem miða við mismunandi hagvaxtarforsendur. Í dag eru fjárfestingar í atvinnulífi um 13% af vergri landsframleiðslu og eru inna við 200 MIA og eru að dragast saman. Ein af forsendum SA ef samtökin eigi að fallast á þessar launahækkanir eru að ríkisstjórnin samþykki lækkun tryggingargjalds og lágmarksfjárfestingar í atvinnulífi verði 280 MIA árið árinu 2011, 345 MIA á árinu 2012 og 365 MIA á árinu 2013. Fjárfesting fari þá upp í 21% af vergri landsframleiðslu sem er lágmark fyrir viðunandi hagvexti.

Ekki er búið að ganga frá verðtryggingu samningana, vegna mikillar óvissu um framgang mála. Þar ber vitanlega hæst gengisvísitalan og verðbólgan á þetta hefur niðurstaða Icesave-samnings mikil áhrif, það sjáum við vel á þeirri uppdráttarsýki sem hefur þjáð hagkerfið og atvinnulífið undanfarin misseri. Hér dugar ekki að berja hausnum við steininn og segja eitt feitt nei, það breytir ekki staðreyndum.

laugardagur, 2. apríl 2011

Kaffiþamb og kjarasamningar

Staða viðræðna er þessa stundina sú að beðið er eftir nákvæmari texta frá stjórnvöldum. Þar er fyrirferðamest hvernig stjórnvöld ætli að stuðla að koma fjárfestingum upp fyrir 20% af landsframleiðslu, sem er grunnur þess að hagvöxtur komist í þá stærð sem sagt að stefnt sé að og sé ásættanleg stærð.

Núverandi texti minnir um margt á það sem lagt var fyrir aðila vinnumarkaðs í Stöðugleikasáttmála, taldar upp sömu framkvæmdir, það er að segja framkvæmdir sem ekki var farið út í og varð tilefni til slita. Það liggur fyrir að ekki verður farið út í þessa uppbyggingu sem talað er um án þess að virkja og um það snýst málið. Stjórnvöld verða að nefna þá staði og þrýsta á um að rammaáætlun verði lokið hið fyrsta og afgreidd. Ekki nýtt sem afsökun og haldið inn í nefnd.

Iðnaðarmannafélögin hafa algjörlega hafna að fara fram með þokukenndan texta og sitja undir yfirlýsingum stjórnvalda um að staðið hafi verið við öll fyrirheit, horfandi upp á allt að 30% atvinnuleysi í helstu greinum. Inn í þetta spila kröfur um lagfæringar á vaxtabótakerfinu.

En fyrir stuttu voru gerðar breytingar á kerfinu sem nánast þurrka út allar vaxtabætur hjá millitekjuhópum og gerir það að verkum að fólk er ekki að fjárfesta. Íbúðamarkaður er í frosti og miðað við eðlilega fjölgun og hreyfingar á íbúðamarkaði væru þær íbúðir sem voru umfram við Hrun að klárast á þessu ári, en ekkert er að gerast. Þetta er afleiðing þess að fjárfesting í atvinnulífinu hefur verið í lágmarki og veldur hinum neikvæða spíral og doða sem við búum við í hagkerfinu.

Einnig er deilt um nokkur önnur atriði, Þar ber hæst deila við menntamálaráðuneytið um að gera þeim ekki hafa lokið framhaldsskólanámi kleift að hefja nám að nýju. Þetta er gömul deila og eitt stefnumálum verkalýðshreyfingarinnar til margra ára.

Krafan snýst um að einstaklingar sem af einhverjum ástæðum hafa ekki lokið framhaldsskólanámi og farið út í atvinnulífið glati ekki þeim samfélagslega rétti og geti nýtt sér hann síðar á ævinni. Farið í nám ef viðkomandi sé atvinnulaus. Þetta fyrirkomulag er annarsstaðar á Norðurlöndunum.

Nýta á tímann um helgina til þess að funda og gera tilraun til þess að koma málum milli ASÍ og SA í lokafasann. Þar er vitanlega fyrirferðamestur slagurinn um launamálin. Hann snýst um hversu hár launakostnaðaraukinn eigi að vera. Á mannamáli þýðir það hvenær kauphækkanir fara yfir það mark að fara að valda aukinni verðbólgu og vinna gegn að kaupmáttarauka.

Og síðan er stóra deilan um hversu mikið af launakostnaðarauka eigi að fara í krónutöluhækkanir lægstu taxta og hversu mikið í prósentuhækkanir, hún er ekki einungis milli vinnuveitenda og launamanna, heldur einnig á milli launahópanna.

Alþekkt er að millitekjuhóparnir sett fram kröfur um að þeir fái sömu launahækkanir og aðrir. Þeir hafi ekki fengið neinar kauphækkanir úr síðustu kjarasamningum, orðið fyrir mesta kaupmáttarhruninu og fari verst út úr öllum skattabreytingum og breytingum á tekjutengingum í bótakerfinu.

Þarna er hið örmjóa einstigi sem samningamenn feta sig eftir þvalir og uppspenntir af kaffiþambi og píreygðir af Excelæfingum og textaglímu, sitjandi undir kröfum úr öllum áttum, allt sanngjörnum og eðlilegum kröfum eftir að stjórnvöld klúðruðu stjórn efnahagsmála og brunuðu fram af hengifluginu án bremsufara með hrikalegum afleiðingum fyrir hinn almenna launamann.

Við þessar aðstæður er ekkert eins pirrandi og að hlusta á stjórnmálamenn. Það er hreint út sagt yfirgengilegt hvernig sumir þeirra tala eins og ekkert sé að og þeir hafi ekkert gert, það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast hversu léleg launin séu og bæturnar lágar.

Upp andstyggilegu rugli síðustu daga stendur yfirlýsing eins ráðherra sem sagði að það stefndi í of dýra kjarasamninga vegna of mikilla hækkana á lægstu töxtum vegna of mikilla krónutöluhækkana. Þessi hin sami hefur margoft í ræðupúlti Alþingis og í spjallþáttum hæðst af verkalýðshreyfingunni fyrir það að það sé henni til skammar hversu lág lægstu laun séu og það haldi niðri þeim bótum sem hann vilji svo gjarnan koma út til atvinnulausra og þeirra sem minnst mega sín.

Svo má minna á yfirlýsingar tveggja verkalýðsleiðtoga sem klufu sig frá samfloti við önnur stéttarfélög ASÍ fyrir nokkrum vikum og sögðust auðveldlega geta náð mun betri árangri. Þeir hafa haft allt það svigrúm sem þeir vildu, en birtast núna í fréttatímum og krefjast þess að ASÍ lýsi yfir allsherjarverkfalli. Þarna eru þeir reyndar að upplýsa okkur um að þeir þekkja ekki til þeirra laga sem gilda um stéttarfélög og vinnudeilur og eins að þeir hafi aldrei ætlað að berjast fyrir sínum málum, en ætlast til þess að aðrir geri það.

föstudagur, 1. apríl 2011

Vandamál OR

Það hefur verið altalað lengi að Orkuveitan hafi verið um of leikvangur stjórnmálamanna. Minnisstætt er þegar OR var hluti í valdatafli og klækjastjórnmálum borgarstjórnarmanna fyrir nokkrum árum þar sem öllum brögðum var beitt til þess að halda stólunum og hagnast. Þetta þarf að skoða og fá óháða aðila til þess að setja saman skýrslu um árin fyrir og fyrst eftir Hrun.

Það hefur verið á altalað að OR eigi við umtalsverða vandamál að stríða. Það var gagnrýnt þegar sagt var upp mörgum í viðhalds- og framkvæmdadeildum og laun skorin þar niður á meðan ekkert var hreyft við ofurvöxnu stjórnunarbákni fyrirtækisins. Á þetta var bent í úttekt lífeyrissjóðanna á fyrirtækinu, bent var á að taka yrði rekstrarkostnaði og byrjað væri á öfugum enda að minnka í viðhaldsdeildum. Þetta er að koma fram þessa dagana og telja má líkur á því að rekstrarkostnaður vaxi.

Það eru óþolandi viðbrögð að réttlæta hækkun orkuverðs með því að bera það saman við nágrannalöndin. Krónan féll og launin með í Hruninu. Réttar væri að bera saman hversu langan tíma meðallaunamaður er að vinna fyrir Kwstund hér og svo í nágrannnalöndum.

Ef litið er til viðbragða fyrrv. borgarstjóra og stjórnarmanns til margra ára við þeim upplýsingum sem eru að koma fram við löngu nauðsynlegar aðgerðir sem núverandi borgarstjóri er að gera kemst maður ekki hjá að velta því fyrir sér hvort Hanna Birna og Kjartan hafi gleymt svörum lífeyrissjóðanna um lánamöguleika OR eftir að þeir höfðu skoða stöðu fyrirtækisins fyrir tveim árum og hvort þau séu búinn að gleyma öllum fúkyrðunum sem þau viðhöfðu í garð lífeyrissjóðanna. Mat þeirra nákvæmlega var það sama og mat Norræna lánasjóðsins núna.

Nú hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir eru að skoða hvort þeir geti komið til bjargar með því að taka yfir Hverahlíðavirkjun. Það mál snýst fyrst og síðast um hvernig þeir samningar eru sem fyrrv. forstj. OR gerði á sínum tíma við Norðurál. Er möguleiki að ná hagkvæmum rekstri virkjunarinnar undir þeim samningum? Er hægt að rifta þeim ef þeir eru ómögulegir? Rís þá upp óviðráðanleg skaðabótaskylda? Þetta eru atriði sem margir velta fyrir sér þessa dagana.