föstudagur, 1. apríl 2011

Vandamál OR

Það hefur verið altalað lengi að Orkuveitan hafi verið um of leikvangur stjórnmálamanna. Minnisstætt er þegar OR var hluti í valdatafli og klækjastjórnmálum borgarstjórnarmanna fyrir nokkrum árum þar sem öllum brögðum var beitt til þess að halda stólunum og hagnast. Þetta þarf að skoða og fá óháða aðila til þess að setja saman skýrslu um árin fyrir og fyrst eftir Hrun.

Það hefur verið á altalað að OR eigi við umtalsverða vandamál að stríða. Það var gagnrýnt þegar sagt var upp mörgum í viðhalds- og framkvæmdadeildum og laun skorin þar niður á meðan ekkert var hreyft við ofurvöxnu stjórnunarbákni fyrirtækisins. Á þetta var bent í úttekt lífeyrissjóðanna á fyrirtækinu, bent var á að taka yrði rekstrarkostnaði og byrjað væri á öfugum enda að minnka í viðhaldsdeildum. Þetta er að koma fram þessa dagana og telja má líkur á því að rekstrarkostnaður vaxi.

Það eru óþolandi viðbrögð að réttlæta hækkun orkuverðs með því að bera það saman við nágrannalöndin. Krónan féll og launin með í Hruninu. Réttar væri að bera saman hversu langan tíma meðallaunamaður er að vinna fyrir Kwstund hér og svo í nágrannnalöndum.

Ef litið er til viðbragða fyrrv. borgarstjóra og stjórnarmanns til margra ára við þeim upplýsingum sem eru að koma fram við löngu nauðsynlegar aðgerðir sem núverandi borgarstjóri er að gera kemst maður ekki hjá að velta því fyrir sér hvort Hanna Birna og Kjartan hafi gleymt svörum lífeyrissjóðanna um lánamöguleika OR eftir að þeir höfðu skoða stöðu fyrirtækisins fyrir tveim árum og hvort þau séu búinn að gleyma öllum fúkyrðunum sem þau viðhöfðu í garð lífeyrissjóðanna. Mat þeirra nákvæmlega var það sama og mat Norræna lánasjóðsins núna.

Nú hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir eru að skoða hvort þeir geti komið til bjargar með því að taka yfir Hverahlíðavirkjun. Það mál snýst fyrst og síðast um hvernig þeir samningar eru sem fyrrv. forstj. OR gerði á sínum tíma við Norðurál. Er möguleiki að ná hagkvæmum rekstri virkjunarinnar undir þeim samningum? Er hægt að rifta þeim ef þeir eru ómögulegir? Rís þá upp óviðráðanleg skaðabótaskylda? Þetta eru atriði sem margir velta fyrir sér þessa dagana.

Engin ummæli: